Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 753  —  312. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um Keflavíkurflugvöll, aðgengi og atvinnuuppbyggingu.


     1.      Stendur til að endurskilgreina Keflavíkurflugvöll í ljósi aðgengis að honum? Ef svo er, hvenær má vænta þess?
    Keflavíkurflugvöllur er megingátt flugsamgangna til og frá landinu og mikilvægt að hann þjóni því hlutverki með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Samkvæmt núverandi skipulagi flugvallarins er hann allur skilgreindur sem viðkvæmasti hluti haftasvæðis flugverndar. Af því leiðir að fullum flugverndarráðstöfunum með aðgangsstýringu, leit eða skimun er beitt á flugvellinum og tekur til alls flugvallarsvæðisins.
    Innanríkisráðuneytið hefur verið upplýst um að fyrir Samgöngustofu liggi nú erindi Isavia þar sem lagt er til að svæðaskipulagi flugverndar á Keflavíkurflugvelli verði breytt þannig að haftasvæði flugverndar verði afmarkað við nærsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, flugvélasvæði og nærliggjandi byggingar. Svæðaskipulag flugverndar í nágrannaríkjunum er mjög breytilegt og því mikilvægt að Samgöngustofu verði gefið nægjanlegt tóm til að skoða vel þær tillögur sem Isavia hefur lagt fram svo stofnunin geti lagt faglegt mat á það hvort unnt sé að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Samgöngustofa er í samstarfi við ríkislögreglustjóra vegna málsins.
    Hvorki ráðherra né ráðuneytið mun tjá sig efnislega um þetta mál enda er það á forræði Samgöngustofu að taka afstöðu til tillagna Isavia. Sem fyrr segir eru tillögur Isavia til skoðunar hjá Samgöngustofu og má vænta þess að niðurstöður liggi fyrir innan tíðar.

     2.      Er ætlunin að fjarlægja svokallað Silfurhlið sem hamlar eðlilegri atvinnuuppbyggingu við Keflavíkurflugvöll? Ef svo er, hvenær verður það gert?

    Líkt og í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar vísast til þess að nú liggur fyrir erindi Isavia sem borið hefur verið upp við Samgöngustofu hvað varðar breytingar á fyrirkomulagi aðgengis að Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt tillögu Isavia verður núverandi Silfurhlið ásamt flugverndarleit sem þar fer fram lagt af.
    Sem fyrr segir er beðið eftir afstöðu Samgöngustofu til breytingartillagnanna.