Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.

Þingskjal 836  —  484. mál.



Frumvarp til laga

um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

    a.     (XVI.)
    Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt, á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, að nýta viðbótariðgjald til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrði er að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að vaxtagjöld af þeim séu grundvöllur útreiknings vaxtabóta.
    Heimild skv. 1. mgr. takmarkast við allt að 4% framlag rétthafa og 2% framlag launagreiðanda af iðgjaldsstofni, þó að hámarki samtals 500 þús. kr. á ári á fasteign hvort sem um er að ræða einstakling, hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eða samtals 1,5 millj. kr. á fasteign á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Afli einstaklingar, sem ekki uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, sér saman íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal hámarksfjárhæðin skiptast á milli þeirra í því hlutfalli sem þeir ákveða. Greiðsla inn á lán getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur inneign rétthafa vegna greiddra iðgjalda á hverjum tíma. Skilyrði er að iðgjöld séu greidd reglulega og að framlag rétthafa sé aldrei lægra en framlag launagreiðanda skv. 1. málsl.
    Umsókn rétthafa um greiðslu inn á lán skv. 1. mgr. skal beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Umsókn gildir um iðgjöld sem greidd eru eftir að umsókn berst, þó getur umsókn gilt frá 1. júlí 2014 ef hún berst fyrir lok september sama ár.
    Umsækjanda er skylt að upplýsa ríkisskattstjóra rafrænt um breytingar á forsendum umsóknar, svo sem um hjúskaparstöðu, lán og vörsluaðila séreignarsparnaðar.
    Vörsluaðilar og lánveitendur, eftir því sem við á, skulu að beiðni ríkisskattstjóra staðfesta hvort þær upplýsingar sem umsækjandi veitir eru réttar.
    Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir nauðsynlegar upplýsingar vegna framkvæmdar ákvæðis þessa. Skráin skal m.a. byggð á eftirfarandi upplýsingum:
     1.      Upplýsingum frá umsækjanda sem staðfestar hafa verið af vörsluaðilum séreignarsparnaðar og lánveitendum, eftir því sem við á.
     2.      Upplýsingum frá lánveitendum um greiðsluskilmála lána.
     3.      Upplýsingum sem ríkisskattstjóri ræður yfir á grundvelli skattframkvæmdar eftir því sem nauðsynlegt er.
    Að fengnum upplýsingum skv. 6. mgr. getur greiðsla farið fram.
    Vörsluaðilar skulu eiga aðgang að upplýsingum um sína viðsemjendur úr skrá ríkisskattstjóra skv. 6. mgr. Þá skulu vörsluaðilar ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem umsækjendur hafa valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári, í fyrsta sinn í nóvember 2014 en eftir það á a.m.k. þriggja mánaða fresti. Vörsluaðilar skulu ráðstafa greiðslum til lánveitenda áður en greiðsluseðlar vegna lánanna eru gefnir út. Upplýsingar um greiðslur skulu sendar rafrænt til ríkisskattstjóra.
    Lánveitendur skulu ráðstafa greiðslum frá vörsluaðilum skv. 8. mgr. inn á höfuðstól valinna lána. Séu lán í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Hafi umsækjandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009, skal fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi.
    Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar ráðstafi iðgjaldagreiðslum samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 2. mgr. 8. gr.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um umsóknarferil, greiðslur, eftirlit og kostnað.

    b.     (XVII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að taka út viðbótariðgjald, sem greitt hefur verið á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 og nýta til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þó eigi síðar en 30. júní 2019. Skilyrði er að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem um getur í 1. málsl. eða frá 1. júlí 2014 þar til heimildin er nýtt.
    Heimild skv. 1. mgr. takmarkast við allt að 4% framlag rétthafa og 2% framlag launagreiðanda af iðgjaldsstofni, þó að hámarki samtals 500 þús. kr. á ári á fasteign hvort sem um er að ræða einstakling, hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eða samtals 1,5 millj. kr. á fasteign á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Afli einstaklingar, sem ekki uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, sér saman íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal hámarksfjárhæðin skiptast á milli þeirra í því hlutfalli sem þeir ákveða. Útgreiðsla getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur inneign rétthafa vegna greiddra iðgjalda á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Skilyrði er að iðgjöld séu greidd reglulega og að framlag rétthafa sé aldrei lægra en framlag launagreiðanda skv. 1. málsl.
    Umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Umsækjandi skal í umsókn framvísa gögnum sem sýna fram á að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt. Þinglýstur kaupsamningur, afsal eða skráning íbúðarhúsnæðis í Þjóðskrá, ásamt staðfestingu frá Þjóðskrá um að rétthafi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði eru meðal þeirra gagna sem fullnægjandi geta talist skv. 2. málsl.
    Ríkisskattstjóri miðlar upplýsingum úr umsókn til viðeigandi vörsluaðila sem staðfestir greiðslusögu iðgjalda og greiðir iðgjöldin út.
    Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar ráðstafi séreignarsparnaði samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 2. mgr. 8. gr.
    Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum iðgjalda samkvæmt ákvæði þessu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um umsóknarferil, útborgun, eftirlit og kostnað.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. telst útgreiðsla viðbótariðgjalda af iðgjaldsstofni skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, ekki til tekna hjá mönnum ef öll skilyrði ákvæðis til bráðabirgða XVI í sömu lögum eru uppfyllt. Hin skattfrjálsa ráðstöfun takmarkast við allt að 4% framlag manns og 2% framlag launagreiðanda af iðgjaldsstofni, þó að hámarki samtals 500 þús. kr. á ári á fasteign hvort sem um er að ræða einstakling, hjón eða tvo einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. í árslok á tekjuári. Heimilt er að skipta fjárhæðinni milli einstaklinga sem eiga íbúðarhúsnæði til eigin nota í sameign en uppfylla ekki skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. telst útgreiðsla viðbótariðgjalda af iðgjaldsstofni skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019, vegna iðgjalda á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, ekki til tekna enda séu öll skilyrði ákvæðis til bráðabirgða XVII í sömu lögum uppfyllt. Hin skattfrjálsa ráðstöfun takmarkast við allt að 4% framlag manns og 2% framlag launagreiðanda af iðgjaldsstofni, þó að hámarki samtals 1,5 millj. kr. á fasteign hvort sem um er að ræða einstakling, hjón eða tvo einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. Afli einstaklingar, sem uppfylla ekki skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr., sér saman íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal hámarksfjárhæðin skiptast á milli þeirra í þeim hlutföllum sem þeir ákveða.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 23. gr. er heimilt að greiða aukaafborganir eða endurgreiða skuld samkvæmt ÍLS-veðbréfi að fullu eftir því sem nánar er kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, án greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.

IV. KAFLI
Gildistaka.
4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Þann 28. júní 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Í aðgerðaáætlun þingsályktunarinnar er mælt fyrir um að settur verði á fót sérfræðingahópur sem fái það verkefni að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Verkefnið var á ábyrgð forsætisráðherra og ráðherranefndar um úrlausnir í skuldamálum heimilanna.
    Sérfræðingahópurinn var skipaður í ágúst 2013 og lauk hann störfum með skýrslu til stjórnvalda í lok nóvember sama ár. Tillögur sérfræðingahópsins eru í meginatriðum tvíþættar: Annars vegar leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar upp að tilteknu marki. Í skýrslu hópsins var einnig að finna hugmynd um skattfrjálsan húsnæðissparnað, án þess að það úrræði væri nánar útfært.
    Í framhaldi af vinnu sérfræðingahópsins skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem í áttu sæti þrír fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, einn fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðherra, einn fulltrúi ríkisskattstjóra, einn fulltrúi Landssamtaka lífeyrissjóða og tveir fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Starfshópnum var falið það verkefni að gera heildstæða tillögu að:
     1.      Kerfi sem heimilar einstaklingum að nýta skattfrjálst allt að 6% af iðgjaldsstofni séreignarsparnaðar samtals sem innborgun inn á höfuðstól húsnæðislána.
     2.      Húsnæðissparnaðarkerfi sem heimilar einstaklingum að taka út skattfrjálst allt að 6% af iðgjaldsstofni séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis.
    Starfshópnum var falið að gera tillögur að öllum verklegum þáttum varðandi hvort kerfi fyrir sig, þ.e. að draga upp heildarmynd af hvoru kerfi, kortleggja feril greiðslna og taka saman lista yfir þá aðila sem að málunum koma. Einnig var starfshópnum falið að gera drög að þeim lagafrumvörpum sem nauðsynleg eru vegna málsins. Í drögum að verkefnaáætlun sem fylgdi skipunarbréfi starfshópsins kemur m.a. fram að stefnt skuli að einföldu og notendavænu kerfi þar sem kostnaði við framkvæmd er haldið í lágmarki.
    Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í mars og drögum að lagafrumvarpi. Auk starfshópsins komu að verkefninu fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra og fjármálafyrirtækjum sem ekki áttu formlega sæti í hópnum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Í því eru lagðar til þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru vegna tillagna sérfræðingahópsins um skattleysi séreignarsparnaðar og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Frumvarpið er í meginatriðum samið af starfshópi sem fjármála- og efnahagsráðherra fól það verkefni að gera heildstæða tillögu að kerfi sem heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána og húsnæðissparnaðarkerfi. Í báðum tilvikum er um að ræða skattfrjáls úrræði sem eru tímabundin.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efni frumvarpsins má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir tegund úrræða. Annars vegar er úrræði sem heimilar fjölskyldu ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á veðlán sem tekin voru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrði er að lánin geti verið grundvöllur til útreiknings vaxtabóta. Hins vegar er úrræði er varðar ráðstöfun iðgjalda sem safnast hafa upp á tilteknu tímabili (húsnæðissparnaður) til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Í báðum tilvikum er um að ræða skattfrjáls úrræði sem eru tímabundin og gilda í þrjú ár þegar um er að ræða greiðslu/ráðstöfun iðgjalda inn á lán, en í fimm ár í tilviki húsnæðissparnaðar. Grunnviðmiðin varðandi hámarksfjárhæðir og önnur viðmið eru þessi í báðum tilvikum:
          Fjölskyldan, hvort heldur hún telur einn einstakling eða fleiri.
          Fasteign til eigin nota.
          Hámarksfjárhæð á ári (12 mánuðir), samtals 500 þús. kr. á fjölskyldu og fasteign.
          Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.
          Einstaklingur spari a.m.k. 2% eða til jafns við framlag launagreiðanda, ef það er lægra en 2%.

3.1     Innborgun iðgjalda inn á lán.
    Samkvæmt frumvarpinu nær úrræðið til þeirra fjölskyldna sem þegar eiga fasteign, en þeim má skipta í fjóra hópa á grundvelli upplýsinga úr skattframtölum fyrir tekjuárið 2012:
Fjöldi
1.    Fjölskyldur sem eiga fasteign, skulda og spara í séreign 47.884
2.    Fjölskyldur sem eiga fasteign, skulda ekki og spara í séreign 9.370
3.    Fjölskyldur sem eiga fasteign, skulda og spara ekki í séreign 14.963
4.    Fjölskyldur sem eiga fasteign, skulda ekki og spara ekki í séreign 6.116
     Samtals 78.333

    Þá nær úrræðið einnig til þeirra fjölskyldna sem eignast íbúðarhúsnæði til eigin nota á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Unnt verður að senda inn umsókn í miðlæga rafræna gátt sem vistuð verður hjá embætti ríkisskattstjóra þar sem óskað er eftir heimild til að nýta viðbótariðgjöld til séreignarsparnaðar sem greiðslu inn á lán tryggt með veði í íbúðarhúsnæði. Verði sú heimild veitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum mun vörsluaðili séreignar annast greiðslu iðgjalda inn á viðkomandi lán. Verði breyting á högum fjölskyldu verður unnt að gera breytingar á umsókn.
    Sæki fjölskylda um heimild til greiðslu iðgjalda af séreign inn á lán á tímabilinu júlí–september 2014 fer fyrsta greiðsla inn á lánið eigi síðar en í nóvember 2014 og síðan reglulega eða á a.m.k. þriggja mánaða fresti eftir það.
    Hér er stillt upp einföldu dæmi um það hvernig þetta úrræði gæti virkað:

Forsendur: Fjölskylda með 800 þús. kr. í laun á mánuði
Greiðir fullt iðgjald í séreignarsjóð frá og með 1. júlí 2014:
     a.      Fjölskyldan/launþegi, samtals 4%, eða 32 þús. kr. á mánuði
     b.      Launagreiðandi, samtals 2%, eða 16 þús. kr. á mánuði
                       Mánaðarleg iðgjöld, samtals 6%, eða samtals 48 þús. kr.
                      Iðgjöld í þrjá mánuði, samtals 144 þús. kr.


Greitt inn á lán:
     a.      Í nóvember 2014, samtals 144.000 kr. (iðgjöld fyrir júlí–september 2014).
     b.      Í febrúar 2015, samtals 106.000 kr. (iðgjöld fyrir október–desember 2014)
     Lækkun láns samtals 250.000 kr. vegna iðgjalda á tímabilinu júlí–desember 2014. Miðað við framangreindar forsendur ætti skuldabyrði fjölskyldunnar að vera 250 þús. kr. lægri í lok febrúar 2015 vegna nýtingar úrræðisins og sparnaður í vaxtagreiðslum nálægt 4 þús. kr. Þá ættu reglubundnar afborganir af láninu ásamt vöxtum að lækka í réttu hlutfalli við lækkun höfuðstólsins og ráðstöfunartekjur viðkomandi fjölskyldu að aukast sem þeirri lækkun nemur að öðru óbreyttu.

3.2     Innborgun iðgjalda í húsnæðissparnað.
    Í frumvarpinu er gengið út frá sömu viðmiðum varðandi húsnæðissparnaðarúrræðið og gilda almennt um iðgjaldaúrræðið eins og því er lýst hér að framan. Rétthöfum þessa úrræðis má skipta í tvo hópa á grundvelli upplýsinga úr skattframtölum fyrir tekjuárið 2012:

1.    Fjölskyldur sem eiga ekki fasteign og spara í séreign 32.503
2.    Fjölskyldur sem eiga ekki fasteign og spara ekki í séreign 37.918
     Samtals 70.421

    Umsókn um nýtingu úrræðisins skal beina til ríkisskattstjóra sem ber að ganga úr skugga um að ekki sé sótt um sama úrræðið hjá fleiri vörsluaðilum. Umsækjandi skal sýna fram á að skilyrði úrræðisins séu uppfyllt. Í því skyni getur hann m.a. lagt fram þinglýstan kaupsamning eða afsal um kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota og vottorð þess efnis að hann hafi ekki átt íbúðarhúsnæði á gildistíma úrræðisins, þ.e. frá 1. júlí 2014 til umsóknardags, áður en til útgreiðslu iðgjalda kemur. Fjölskyldu, sem nýtir sér húsnæðissparnaðarúrræðið, er heimilt að fresta kaupum á íbúðarhúsnæði til 30. júní 2019, án þess að skattfrelsi vegna útborgunar á iðgjöldum til séreignar á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 skerðist. Kaupi fjölskylda íbúðarhúsnæði innan gildistíma úrræðisins er henni heimilt að sækja um að nýta úrræðið til að greiða inn á áhvílandi lán á viðkomandi fasteign út gildistímann.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við vinnu starfshópsins, sem skipaður var fulltrúum fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, ríkisskattstjóra (RSK), Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), var stuðst við skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun húsnæðislána, sbr. umfjöllun í 1. kafla. Þá var haft samráð við fleiri aðila, m.a. verkefnisstjórn um almenna höfuðstólslækkun húsnæðislána, og auk þess komu fulltrúar fyrirtækisins Allianz á fund starfshópsins til að ræða um atriði sem snúa að framkvæmd úrræðanna. Þá var Samkeppniseftirlitið formlega upplýst um starfsemi starfshópsins með bréfi, dags. 11. febrúar 2014.

6. Mat á áhrifum.
    Í kynningu stjórnvalda á aðgerðum til leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána auk lækkunar höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar í þrjú ár segir m.a. að skattleysi séreignarsparnaðar við inngreiðslu á höfuðstól muni geta lækkað höfuðstól húsnæðislána um 70 milljarða kr. Í skýrslu sérfræðingahópsins kemur fram að þetta mat sé nokkurri óvissu háð. Sama gildir um mat á beinum áhrifum aðgerðarinnar á tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti og útsvarstekjur sveitarfélaga. Ekkert talnalegt mat liggur fyrir á húsnæðissparnaðarúrræðinu, en á bls. 46 í skýrslu sérfræðingahóps stjórnvalda frá í desember 2013 er lagt til að nefnd um framtíðarskipan húsnæðismála skoði nánari útfærslu á slíku úrræði. Í erindisbréfi starfshópsins var honum falið það hlutverk að útfæra einnig húsnæðissparnaðarúrræðið með aðkomu fulltrúa velferðarráðuneytisins.

6.1 Mat á umfangi fjöldi rétthafa.
    Í ljósi þess að nokkur frávik eru í tillögum frumvarpsins frá því sem fram kemur í skýrslu sérfræðingahóps stjórnvalda var talið nauðsynlegt að fara í nánari greiningu á skattframtölum fyrir tekjuárið 2012 áður en ráðist væri í nýtt fjárhagslegt mat á úrræðunum tveimur, þ.e. iðgjaldaúrræðinu og húsnæðissparnaðarúrræðinu. Í fylgiskjali I er að finna töflu með kennitölum úr skattframtölum tekjuársins 2012.
    Engin leið er að segja til með einhverri vissu fyrir fram hver þróunin verður heldur ræðst matið alfarið af þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar mögulegri nýtingu hópanna sex á úrræðunum tveimur. Í starfshópi fjármála- og efnahagsráðherra var niðurstaðan sú að skoða þrjár sviðsmyndir miðað við forsendur um mismikla nýtingu einstakra hópa. Talið er fyrirsjáanlegt að hópur 1 nýti sér iðgjaldaúrræðið í ríkum mæli, eða á bilinu 70–90% af heildarfjölda, enda þegar með séreignarsparnað. Þá er gert ráð fyrir að verulegur hluti þeirra sem ekki eru með séreignarsparnað en eru með skuld áhvílandi á eigin húsnæði hefji sparnað, eða 55–75% af heildarfjölda í þessum hópi. Þá þykir rétt að gera ráð fyrir að þeir sem eiga fasteign en skulda ekki nýti sér úrræðið í einhverjum mæli, eða sem nemur 5–10% af heildarfjölda í hópum 2 og 4. Þar eru með taldir þeir sem ekki hafa gert grein fyrir skuldum sínum á skattframtali tekjuársins 2012.
    Samkvæmt sviðsmynd 1 er gert ráð fyrir að tæplega 56 þúsund fjölskyldur nýti sér iðgjaldaúrræðið til að greiða niður húsnæðisskuldir, samtals 20,5 milljarða kr. á ári eða 61,4 milljarða kr. á þremur árum á verðlagi ársins 2012. Þetta er nokkru lægri fjárhæð en fram kom í skýrslu sérfræðingahópsins, en í fljótu bragði virðist skýringin sú að hámarksfjárhæðin, þ.e. 500 þús. kr. á hverja fjölskyldu, hafi meiri áhrif til skerðingar en talið var. Í sviðsmynd 2 er heildarfjöldi fjölskyldna nálægt 50 þúsund og lækkun húsnæðisskuldar á þriggja ára tímabili 54,2 milljarðar kr. Sambærilegar tölur í sviðsmynd 3 eru tæplega 43 þúsund fjölskyldur og 47 milljarða kr. lækkun. Óháð því hvaða sviðsmynd verður næst veruleikanum, verði iðgjaldaúrræðið lögfest, er ljóst að áhrif á skuldastöðu heimilanna verða umtalsverð, eða 4,2% til 5,5% til lækkunar miðað við stöðu húsnæðislána í reit 5.2 í skattframtali einstaklinga í lok árs 2012. Afborgunar- og vaxtabyrði umræddra fjölskyldna ætti að lækka samsvarandi á tímabilinu með jákvæðum áhrifum á ráðstöfunartekjur heimilanna.

I. Iðgjöld greidd inn á húsnæðislán.
Sviðsmynd 1.
Miðað við inngreiðslu á heilu ári Greiðir séreign inn á lán,
% af heild
Greiðir séreign inn á lán,
fjöldi
Heildargreiðsla,
millj. kr.*
1.    Eiga fasteign, skulda og spara í séreign 90% 43.096 17.238
2.     Eiga fasteign, skulda ekki og spara í séreign 10% 937 333
3.     Eiga fasteign, skulda og spara ekki í séreign 75% 11.222 2.797
4.     Eiga fasteign, skulda ekki og spara ekki í séreign 10% 612 111
     Samtals á ári 55.866 20.479
     Heildarinngreiðsla á þremur árum 61.438
Sviðsmynd 2.
Miðað við inngreiðslu á heilu ári Greiðir séreign inn á lán,
% af heild
Greiðir séreign inn á lán,
fjöldi
Heildargreiðsla,
millj. kr.*
1.     Eiga fasteign, skulda og spara í séreign 80% 38.307 15.323
2.     Eiga fasteign, skulda ekki og spara í séreign 7,5% 703 250
3.     Eiga fasteign, skulda og spara ekki í séreign 65% 9.726 2.424
4.     Eiga fasteign, skulda ekki og spara ekki í séreign 7,5% 459 83
     Samtals á ári 49.195 18.080
     Heildarinngreiðsla á þremur árum 54.241
Sviðsmynd 3.
Miðað við inngreiðslu á heilu ári Greiðir séreign inn á lán,
% af heild
Greiðir séreign inn á lán,
fjöldi
Heildargreiðsla,
millj. kr.*
1.     Eiga fasteign, skulda og spara í séreign 70% 33.519 13.408
2.     Eiga fasteign, skulda ekki og spara í séreign 5% 469 166
3.     Eiga fasteign, skulda og spara ekki í séreign 55% 8.230 2.051
4.     Eiga fasteign, skulda ekki og spara ekki í séreign 5% 306 55
     Samtals á ári 42.523 15.681
     Heildarinngreiðsla á þremur árum 47.043
* 4% frá launþega að viðbættu 2% framlagi launagreiðanda.

    Eins og fyrr greinir er ekkert að finna í skýrslu sérfræðingahópsins um mögulega nýtingu á húsnæðissparnaðarúrræðinu. Samkvæmt meðfylgjandi þremur sviðsmyndum er fjöldi þeirra fjölskyldna sem nýta mundu sér þetta úrræði talinn vera 14–26 þúsund og sparnaður þeirra og launagreiðenda í formi iðgjalda á bilinu 7–13 milljarðar kr. Ekkert tillit er tekið til aldurs eða tekna í þessu mati.

II. Iðgjöld greidd sem húsnæðissparnaður.
Sviðsmynd 1.
Miðað við inngreiðslu á heilu ári Greiðir séreign inn á húsnæðissparnað,
% af heild
Greiðir séreign inn á húsnæðissparnað, fjöldi Heildargreiðsla,
millj. kr.*
5.     Eiga ekki fasteign en spara í séreign 50% 16.252 3.142
6.     Eiga ekki fasteign og spara ekki í séreign 25% 9.480 1.066
     Samtals á ári 25.731 4.208
     Húsnæðissparnaður á þremur árum 12.624
Sviðsmynd 2.
Miðað við inngreiðslu á heilu ári Greiðir séreign inn á húsnæðissparnað,
% af heild

Greiðir séreign inn á húsnæðissparnað, fjöldi

Heildargreiðsla,
millj. kr.*

5.     Eiga ekki fasteign en spara í séreign
40% 13.001 2.514
6.     Eiga ekki fasteign og spara ekki í séreign 20% 7.584 852
     Samtals á ári 20.585 3.366
     Húsnæðissparnaður á þremur árum 10.098
Sviðsmynd 3
Miðað við inngreiðslu á heilu ári Greiðir séreign inn á húsnæðissparnað,
% af heild

Greiðir séreign inn á húsnæðissparnað, fjöldi

Heildargreiðsla,
millj. kr.*

5.     Eiga ekki fasteign en spara í séreign
30% 9.751 1.885
6.     Eiga ekki fasteign og spara ekki í séreign 10% 3.792 426
     Samtals á ári 13.543 2.311
     Húsnæðissparnaður á þremur árum 6.933
* 4% frá launþega að viðbættu 2% framlagi launagreiðanda.

    Þegar á heildina er litið gæti umfang úrræðanna tveggja spannað 56–82 þúsund fjölskyldur sem greitt hefðu 54–74 milljarða kr. aukalega inn á húsnæðisskuldir sínar á þriggja ára tímabili. Þessar tölur taka mið af framtöldum tekjum fyrir árið 2012, en sé fjárhæðin uppreiknuð miðað við forsendur fjárlaga fyrir árið 2014 nemur inngreiðslan 60–82 milljörðum kr.
    Hér hefur verið dregin upp gróf mynd af mögulegri nýtingu úrræðanna tveggja miðað við þær forsendur sem voru til staðar í árslok 2012. Engin leið er að segja til um hversu mikið þær forsendur hafa breyst á þeim tíma sem liðinn er og ber því að taka þeim tölum sem hér hafa verið nefndar með fyrirvara.

6.2.     Áhrif á afkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga.
    Ljóst er að úrræðin samkvæmt frumvarpinu munu óhjákvæmilega hafa áhrif á tekjur ríkis og sveitarfélaga til skemmri og lengri tíma. Áhrifin á sveitarfélögin koma fyrst og fremst fram í minni útsvarstekjum en ella, en áhrifin á afkomu ríkissjóðs eru hins vegar flóknari, bæði til lækkunar og hækkunar. Aukinn sparnaður í þessu formi rýrir tekjuskattsstofn ríkisins í einhverjum mæli, bæði hjá einstaklingum og lögaðilum, en á móti kemur minni þörf á vaxtabótum og lítils háttar aukning tryggingagjalds. Þá ættu auknar ráðstöfunartekjur heimila af úrræðinu að öðru óbreyttu að leiða til aukinnar eftirspurnar og þar með meiri umsvifa sem aftur birtast í auknum tekjum af veltusköttum. Aukin umsvif ættu einnig að hafa jákvæð áhrif á tekjuöflun sveitarfélaga.
    Hér sést hvaða skattstofnar verða líklega fyrir áhrifum af framangreindum úrræðum:

     1.      Ríki.
                  a.      Tekjuskattur einstaklinga: lækkar vegna meiri sparnaðar í formi séreignar og skattleysis iðgjalda.
                  b.      Tryggingagjald: hækkar vegna aukinna framlaga frá launagreiðendum.
                  c.      Tekjuskattur fyrirtækja: lækkar vegna aukinna framlaga og hærra tryggingagjalds frá launagreiðendum.
                  d.      Vaxtabætur: lækka vegna lækkunar húsnæðisskulda og þar með lægri vaxtabyrði.
                  e.      Veltuskattar, þ.m.t. virðisaukaskattur: hækka vegna meiri umsvifa.
     2.      Sveitarfélög.
                  a.      Útsvar einstaklinga: lækkar vegna meiri sparnaðar í formi séreignar og skattfrelsis iðgjalda.
                  b.      Fasteignagjöld og þjónustuskattar: hækka vegna meiri umsvifa.

    Við matið þarf einnig að hafa í huga að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í tekjuskattslögum sem breytt var fyrr á þessu ári færi hámarksiðgjald til séreignar aftur í 4% frá og með áramótunum 2014/2015, en gildistöku þess var flýtt um hálft ár. Reikna má með því að við það hefði meðalsparnaður þeirra sem þegar greiddu í séreignarsparnað hækkað þó að úrræðin hefðu ekki komið til.
    Sé tekið mið af sviðsmynd 1, sem áður var fjallað um, sýnir lauslegt mat að frádráttur frá tekjuskatts- og útsvarsstofni eykst um nálægt 5 milljarða kr. á ári frá því sem ella hefði orðið. Við þá fjárhæð bætast um 1,9 milljarðar kr. vegna húsnæðissparnaðarúrræðisins. Lækkunin gæti þannig samtals numið um 7 milljörðum kr., en áætlaður árlegur tekjuskattur af þeirri fjárhæð er 2,1 milljarður kr. og útsvar nálægt 1 milljarði kr. Þá má reikna með að tryggingagjaldsstofn launagreiðenda hækki um rúma 2 milljarða kr. á ári og tekjur af tryggingagjaldi um nálægt 200 millj. kr., en framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð meðhöndlast eins og hver annar rekstrarkostnaður. Á móti kemur samsvarandi frádráttur frá tekjuskattsstofni launagreiðenda, eða 2,3 milljarðar kr., sem gæti lækkað tekjuskattsálagningu þeirra um 460 millj. kr.
    Vaxtabætur ættu að lækka nokkuð vegna lækkunar á höfuðstól húsnæðisskulda um allt að 20 milljarða kr. á ári miðað við sviðsmynd 1. Sé miðað við 4,5% meðalvexti ætti vaxtakostnaður að lækka um allt að 1 milljarð kr. á ári. Meðalvaxtabætur hafa numið allt að þriðjungi greiddra vaxta hjá þeim sem njóta vaxtabóta, en hér er miðað við að 75% af lækkun vaxta komi fram sem stofn til vaxtabóta. Það þýðir að vaxtabætur gætu lækkað um 250 millj. kr. á ári.
    Áhrif aukinna umsvifa í kjölfar hækkunar á ráðstöfunartekjum munu óhjákvæmilega koma fram eftir ákveðinn tíma og væntanlega ekki í einhverjum mæli fyrr en á árinu 2016 og 2017.
    Í eftirfarandi töflu er framangreindu mati á áhrifum á afkomu ríkissjóðs og útsvarstekjur sveitarfélaga stillt upp fyrir árin 2015–2017 miðað við útfærslu frumvarpsins og sviðsmynd 1. Rétt er að árétta að hér er einungis um að ræða tilraun til að meta skammtímaáhrif af auknum greiðslum iðgjalda til séreignar umfram það sem ella hefði orðið án úrræða frumvarpsins.

Í milljörðum króna, verðlag 2012 2014 2015 2016 2017
Tekjuskattur einstaklinga -1,0 -2,1 -2,1 -1,1
Vaxtabætur - 0,15 0,3 0,2
Tryggingagjald 0,1 0,2 0,2 0,1
Tekjuskattur lögaðila - -0,3 -0,5 -0,5
Samtals -0,9 -2,0 -2,1 -1,3
    Á verðlagi 2014 -1,0 -2,2 -2,3 -1,4
Útsvar sveitarfélaga -0,5 -1,0 -1,0 -0,5
    Á verðlagi 2014 -0,6 -1,1 -1,1 -0,6

    Við þessar fjárhæðir þarf að bæta þeim kostnaði sem af framkvæmdinni hlýst og a.m.k. að hluta mun falla á ríkissjóð. Þar vegur þyngst stofnkostnaður við uppsetningu miðlægrar rafrænnar gáttar og umsýslu við hana næstu þrjú til fjögur árin. Heildarkostnaður vegna þessa gæti orðið allt að 50 millj. kr.
    Þá er ótalið tekjutap vegna skattfrelsis umræddra iðgjalda, bæði vegna iðgjaldaúrræðisins og húsnæðissparnaðarúrræðisins. Sé miðað við sviðsmyndir 1–3 er áætlað tekjutap ríkissjóðs af 54–74 milljörðum kr. miðað við 30% skatthlutfall að jafnaði á bilinu 16–22 milljarðar kr. og sveitarfélaga um 8–11 milljarðar kr. miðað við verðlag ársins 2012, þegar til lengri tíma er litið. Á verðlagi 2014 gæti tekjutap ríkisins verið á bilinu 18–25 milljarðar kr. og sveitarfélaga 9–12 milljarðar kr. Á móti koma áhrif af auknum umsvifum í formi aukinna veltuskatta og þjónustugjalda þannig að nettótekjutap ætti að verða umtalsvert lægra en hér er nefnt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

     Um a-lið.
    Lagt er til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í 1. mgr. er lagt til að heimiluð verði ráðstöfun rétthafa á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, inn á höfuðstól lána sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Þá er hin tímabundna heimild skattfrjáls, sbr. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þau lán sem heimilt er að greiða inn á þurfa að vera til staðar þegar sótt er um úttektina og hægt er að sækja um þau hvenær sem er á áðurnefndu tímabili.
    Með viðbótariðgjaldi er átt við iðgjald umfram lágmarksiðgjald, en lágmarksiðgjald er iðgjald sem nemur a.m.k. 12% og ákveðið er í sérlögum, kjara- eða ráðningarsamningi eða á annan sambærilegan hátt. Skilyrði er að þau lán sem greitt er inn á séu veðlán, þ.e. lán sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði og að lánin hafi verið tekin í tengslum við öflun íbúðarhúsnæðis. Þá er jafnframt skilyrði að lánin geti verið grundvöllur útreiknings vaxtabóta og nær ákvæðið einnig til svokallaðra lánsveðslána, þ.e. lána sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði í eigu annars aðila en rétthafa.
    Í 2. mgr. er lagt er til að heimildin skv. 1. mgr. sé bundin við eina fasteign og skal hún vera til eigin nota. Með fasteign er átt við eign sem hefur sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og með eigin notum er almennt átt við að íbúðarhúsnæðið sé til búsetu fyrir rétthafa. Það er þó ekki ófrávíkjanlegt skilyrði heldur getur verið heimilt að greiða inn á lán sem hvíla á íbúðarhúsnæði sem verið hefur til eigin nota en vegna tímabundinna aðstæðna er það ekki, svo sem vegna veikinda, náms eða atvinnuþarfa. Eigi rétthafi fleiri en eina fasteign, þ.m.t. þá sem höfð er til búsetu, er einungis heimilt að greiða inn á lán sem hvíla á þeirri fasteign sem rétthafi býr í. Þar sem hámarksfrádráttur iðgjalda í séreignarsjóð frá skattskyldum tekjum hækkar í 4% frá og með 1. júlí 2014 er í ákvæðinu lagt til að launagreiðslur fyrir tímabilið júlí 2014 til og með júní 2017 verði grunnurinn sem miða skuli við. Samkvæmt frumvarpinu nemur árleg hámarkfjárhæð samtals 500 þús. kr. á fasteign, hvort sem um er að ræða einstakling, hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Sama gildir um önnur fjölskylduform, svo sem systkini sem eiga sömu fasteign. Ef miðað er við 4% framlag rétthafa af iðgjaldsstofni getur framlag hans að hámarki numið 333 þús. kr. á ári og framlag launagreiðanda 167 þús. kr. á ári miðað við 2% mótframlag hans af iðgjaldsstofni. Þar sem framkvæmd úrræðisins hefst og henni lýkur á miðju ári miðast úrræðið við 250 þús. kr. árin 2014 og 2017 en 500 þús. kr. árin 2015 og 2016. Þá er ákveðið þak sett á úrræðið sem takmarkast við samtals 1,5 millj. kr. ráðstöfun á hverja fasteign, þ.e. hvert heimili. Í því felst að ekki skiptir máli hvort einstaklingur býr einn í fasteigninni eða hvort um hjón, sambýlisfólk eða annað fjölskylduform er að ræða.
    Þá er kveðið á um að greiðsla inn á lán takmarkist við inneign rétthafa sem myndast hefur á hverju tímabili. Það þýðir að verði ávöxtun neikvæð á tímabilinu getur komið til skerðingar á þeirri fjárhæð skv. 2. mgr sem unnt er að ráðstafa inn á lán. Þá segir í 2. mgr að rétthafa sé ekki heimilt að nýta eingöngu framlag launagreiðanda til ráðstöfunar inn á lán heldur skal framlag hans vera a.m.k. jafnt framlagi launagreiðanda, þ.e. að ef framlag launagreiðanda er t.d. 2% af tekjum verður skattfrjálst framlag rétthafa að nema a.m.k. 2% eða ef framlag launagreiðanda er 1% verður skattfrjálst framlag hans að nema a.m.k. 1%.
    Í 3. mgr. kemur fram að umsókn um greiðslu viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar inn á höfuðstól láns skv. 1. mgr. skuli beina til ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri mun af þessu tilefni halda úti sérstakri vefgátt þangað sem unnt verður að beina umsóknum. Sú skylda hvílir jafnframt á umsækjendum skv. 4. mgr. að tilkynna um það rafrænt í sömu gátt ef breytingar verða á forsendum umsóknar, svo sem ef hjúskaparstaða breytist eða ef skipt er um vörsluaðila séreignarsparnaðar. Umsókn gildir frá þeim tíma er hún berst og þar til henni er breytt þó þannig að umsókn getur gilt frá 1. júlí 2014 ef hún berst fyrir lok september sama ár. Rétthafi getur hvenær sem er á iðgjaldatímabilinu afturkallað eða breytt umsókn sinni um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Koma skal þeirri beiðni á framfæri inn í rafrænu gáttina hjá ríkisskattstjóra og skal í framhaldinu hætta eða breyta ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Beiðni um afturköllun hefur ekki afturvirk áhrif á ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Umsækjendur sem eiga íbúðarhúsnæði til eigin nota í sameign geta skipt hámarksfjárhæðum á milli sín. Gera þarf grein fyrir þeirri skiptingu í umsókn og gildir hún þangað til óskað er eftir breytingum þar á.
    Vörsluaðilum og lánveitendum er í 5. mgr. gert skylt að staðfesta, eftir því sem við á, að þær upplýsingar sem umsækjandi veitir í umsókn um vörsluaðila séreignarsparnaðar og lán séu réttar. Mun þessi upplýsingagjöf fara fram rafrænt og án þess að vörsluaðilar og lánveitendur hafi nokkur samskipti sín á milli. Öll upplýsingamiðlun fer í gegnum rafrænt afgreiðslukerfi ríkisskattstjóra sem er umsjónaraðili vefsins.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli halda skrá yfir nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt ákvæðinu. Um verður að ræða rafræna skrá sem einungis inniheldur nauðsynlegar upplýsingar vegna aðgerðarinnar. Skráin skal m.a. innihalda upplýsingar frá umsækjanda um val á vörsluaðila og lánum. Skv. 7. mgr. getur greiðsla fyrst farið fram þegar þær upplýsingar liggja fyrir sem kveðið er á um í 6. mgr.
    Vörsluaðilar hafa skv. 8. mgr. aðgang að upplýsingum úr umsóknum þeirra umsækjenda sem eru þeirra viðsemjendur, þ.e. þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að framkvæma þá greiðslu sem óskað var eftir í umsókn. Vörsluaðilum ber að ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem eiga þau lán sem umsækjendur hafa valið. Miðað er við að greiðslur frá vörsluaðilum berist inn á safnreikninga hjá viðkomandi lánveitendum. Skal þetta gert eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári og í fyrsta sinn í nóvember 2014. Sérstaklega er tekið fram að vörsluaðilar skuli ráðstafa greiðslum til lánveitenda áður en greiðsluseðlar eru gefnir út enda er við það miðað að greiðslur fari að jafnaði inn á höfuðstól lána en gangi ekki upp í annan kostnað.
    Í 9. mgr. er lagt til að lánveitendur skuli ráðstafa iðgjaldagreiðslum rétthafa inn á höfuðstól valinna lána. Miðað er við að greitt sé inn á höfuðstól láns á gjalddaga. Ef lán er í vanskilum skal um greiðsluna fara eftir þeirri greiðsluröð sem lánaskilmálar kveða á um. Í 3. málsl. er kveðið á um að hafi umsækjandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009, skuli fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi.
    Lagt er til í 10. mgr. að sett verði ákvæði um að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt ákvæðinu. Vísað er til 2. mgr. 8. gr. laganna í því sambandi, en þar er í 2. málsl. kveðið á um að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur.
    Þá er loks gert ráð fyrir því í 11. mgr. að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um umsóknarferlið, greiðslur, eftirlit og kostnað.
     Um b-lið.
    Lagt er til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í 1. mgr. er lagt til að heimiluð verði úttekt rétthafa á viðbótariðgjaldi sem myndast hefur á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Þá er lagt til að rétthafa sé heimilt að óska eftir að ráðstafa viðbótariðgjaldi samkvæmt ákvæðinu allt til 30. júní 2019. Með viðbótariðgjaldi er átt við iðgjald umfram lágmarksiðgjald, en lágmarksiðgjald er iðgjald sem nemur a.m.k. 12% og ákveðið er í sérlögum, kjara- eða ráðningarsamningi eða á annan sambærilegan hátt. Heimildin er bundin þeim skilyrðum að viðbótariðgjöld séu nýtt til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og að rétthafi hafi ekki verið eigandi íbúðarhúsnæðis á því tímabili sem um getur í 1. málsl., eða frá 1. júlí 2014 þar til heimildin er nýtt. Þá er hin tímabundna heimild skattfrjáls, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Miðað er við að heimildina megi nýta vegna nýbyggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota og að sama gildi um kaup á búseturétti.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimildin skv. 1. mgr. sé bundin við eina fasteign og skal hún vera til eigin nota. Með fasteign er átt við eign sem hefur sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og með eigin notum er almennt átt við að íbúðarhúsnæðið sé til íbúðar fyrir eigendur þess. Þar sem hámarksfrádráttur iðgjalda í séreignarsjóð frá skattskyldum tekjum hækkar í 4% frá og með 1. júlí 2014 er í ákvæðinu lagt til að launagreiðslur fyrir tímabilið júlí 2014 til og með júní 2017 verði grunnurinn sem miða skuli við. Samkvæmt frumvarpinu nemur árleg hámarksfjárhæð samtals 500 þús. kr. á fasteign, hvort sem um er að ræða einstakling, hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Þá er ákveðið þak sett á úrræðið sem takmarkast við samtals 1,5 millj. kr. ráðstöfun á hverja fasteign, þ.e. hvert heimili. Í því felst að ekki skiptir máli hvort einstaklingur hyggst búa einn í fasteigninni eða hvort um hjón eða sambýlisfólk er að ræða. Sama gildir um önnur fjölskylduform, svo sem systkini sem kaupa saman fasteign til eigin nota.
    Þá er í 2. mgr. einnig kveðið á um hvernig með skuli fara þegar fleiri en einn einstaklingur eignast saman íbúðarhúsnæði, án þess að um sé að ræða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Við þær aðstæður skiptast hámarksfjárhæðir á milli þeirra í hlutfalli sem þeir ákveða.
    Ef miðað er við 4% framlag rétthafa af iðgjaldsstofni getur framlag hans því að hámarki numið 333 þús. kr. á ári og framlag launagreiðanda 167 þús. kr. á ári sé miðað við 2% mótframlag hans af iðgjaldsstofni. Framlag rétthafa skal vera a.m.k. jafnt framlagi launagreiðanda, þ.e. að ef framlag launagreiðanda er t.d. 2% af tekjum verður skattfrjálst framlag rétthafa að nema a.m.k. 2% eða ef framlag launagreiðanda er 1% verður skattfrjálst framlag rétthafa að nema a.m.k. 1%.
    Óski rétthafi eftir því að nýta séreignarsparnað til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal hann skv. 3. mgr. sækja um það hjá ríkisskattstjóra. Í ákvæðinu er áskilið að með umsókn þurfi að framvísa nauðsynlegum gögnum, svo sem þinglýstum kaupsamningi, afsali eða skráningu íbúðarhúsnæðis í Þjóðskrá, ásamt staðfestingu frá Þjóðskrá um að rétthafi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði.
    Í 4. mgr. er lagt til að ríkisskattstjóri miðli upplýsingum um umsókn til viðeigandi vörsluaðila. Ríkisskattstjóri aflar staðfestingar frá vörsluaðila um greiðslusögu iðgjalda. Þá gengur ríkisskattstjóri úr skugga um að öll önnur skilyrði ákvæðis þessa séu uppfyllt. Að því loknu miðlar ríkisskattstjóri upplýsingum um útgreiðslufjárhæð til vörsluaðila sem greiðir hana út til umsækjanda.
    Lagt er til í 5. mgr. að sett verði ákvæði um að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt ákvæðinu. Vísað er til 2. mgr. 8. gr. laganna í því sambandi, en þar er í 2. málsl. kveðið á um að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með útgreiðslum iðgjalda samkvæmt ákvæðinu. Þá er loks gert ráð fyrir í 7. mgr. að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um umsóknarferil, útborgun, eftirlit og kostnað.

Um 2. gr.

    Lagt er til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Í ákvæðinu er fjallað um skattfrelsi útgreiðslu iðgjalda til séreignarsparnaðar við ákveðnar tímabundnar og skilyrtar aðstæður.
    Í 1. mgr. kemur fram að ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar verði ekki talin til skattskyldra tekna ef uppfyllt eru skilyrði ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/ 1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Heimildin í 1. mgr. er að auki takmörkuð við 4% framlag manns eða 333 þús. kr. á ári og 2% framlag launagreiðanda eða 167 þús. kr. á ári. Þá er ákveðið þak sett á úrræðið sem takmarkast við 500 þús. kr. ráðstöfun á ári á fasteign, þ.e. hvert heimili. Í því felst að ekki skiptir máli hvort einstaklingur býr einn í fasteigninni eða hvort hjón eða sambýlisfólk býr þar. Sama gildir um önnur fjölskylduform, svo sem systkini sem eiga sömu fasteign. Með fasteign er átt við eign sem hefur sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Vegna þess að framkvæmd úrræðisins hefst og henni lýkur á miðju ári þá miðast það við 250 þús. kr. árin 2014 og 2017 en 500 þús. kr. árin 2015 og 2016. Sama heimilið getur því alls greitt 1,5 millj. kr. inn á húsnæðislán ef heimildin er að fullu nýtt öll árin. Heimilt er að skipta fjárhæðinni eftir því sem hagstæðast er hverri fjölskyldu. Ákveða þarf skiptinguna í umsókn um nýtingu á úrræðinu.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er heimilað að nýta viðbótariðgjald til séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skattfrjálst, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þetta úrræði er tímabundið og takmarkast líkt og ákvæði 1. mgr. við viðbótariðgjald af iðgjaldsstofni á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Heimildin takmarkast við 4% framlag manns eða 333 þús. kr. á ári og 2% framlag launagreiðanda eða 167 þús. kr. á ári, sbr. ákvæði til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Vegna þess að framkvæmd úrræðisins hefst og henni lýkur á miðju ári þá miðast það við 250 þús. kr. árin 2014 og 2017 en 500 þús. kr. árin 2015 og 2016. Þá er ákveðið þak sett á úrræðið sem takmarkast við samtals 1,5 millj. kr. ráðstöfun á hverja fasteign, þ.e. hvert heimili. Í því felst að ekki skiptir máli hvort einstaklingur hyggst búa einn í fasteigninni eða hvort um hjón eða sambýlisfólk er að ræða. Sama gildir um önnur fjölskylduform, svo sem systkini sem kaupa saman fasteign til eigin nota. Með fasteign er átt við eign sem hefur sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þá er sett það skilyrði að viðkomandi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 eða þar til heimildin er nýtt. Sækja þarf um þessa ráðstöfun til ríkisskattstjóra og leggja skal fram með umsókn gögn sem sýna fram á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Þar gæti t.d. verið um að ræða þinglýstan kaupsamning, afsal eða skráningu húsnæðis hjá Þjóðskrá Íslands. Lagt er til að unnt verði að ráðstafa iðgjaldi samkvæmt ákvæðinu allt til 30. júní 2019. Þá er í ákvæðinu kveðið á um hvernig með skuli fara þegar einstaklingar eignast saman íbúðarhúsnæði til eigin nota.
    Miðað er við að heimildina megi nýta vegna nýbyggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota og að sama gildi um kaup á búseturétti. Heimildin gildir hins vegar ekki um viðbyggingar eða endurbætur á eldra húsnæði.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 23. gr. laga um húsnæðismál verði heimilt að greiða aukaafborganir af ÍLS-veðbréfi eða endurgreiða skuld samkvæmt ÍLS-veðbréfi að fullu í samræmi við þær heimildir rétthafa séreignarsparnaðar sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins, án greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Vísast til umfjöllunar um 1. gr. frumvarpsins um nánari skilyrði heimildar til að greiða niður fasteignaveðlán. Ákvæði þessu er ætlað að tryggja að unnt verði að nýta það úrræði sem mælt er fyrir um í ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins, án þess að komi til innheimtu uppgreiðslugjalds af hálfu Íbúðalánasjóðs. Þá er gert er ráð fyrir því að ákvæðið verði tímabundið og falli úr gildi við lok þess tímabils sem rétthöfum séreignarsparnaðar er heimilt að nýta sér úrræði skv. 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Kennitölur úr skattframtölum fyrir tekjuárið 2012.

Í þús. kr.
Fjöldi Húsnæðisskuld (5.2) meðaltal Fasteignamat, meðaltal Meðallaunatekjur Meðalgreiðsla í séreign Hlutfall séreignar af launum
1.    Eiga fasteign, skulda og spara í séreign 47.884 17.995 29.506 8.949 138 1,5
    Þar af hjón og sambýlisfólk 33.231 19.292 33.408 10.525 160 1,5
    Þar af einhleypir 14.653 15.056 20.655 5.376 90 1,6
2.    Eiga fasteign, skulda ekki og spara í séreign 9.370 0 32.457 7.995 126 1,5
    Þar af hjón og sambýlisfólk 6.142 0 39.764 9.690 151 1,5
    Þar af einhleypir 3.228 0 18.556 4.770 79 1,6
3.    Eiga fasteign, skulda og spara ekki í séreign 14.963 17.198 27.184 4.675 0 0,0
    Þar af hjón og sambýlisfólk 7.208 18.960 33.759 6.076 0 0,0
    Þar af einhleypir 7.755 15.561 21.073 3.372 0 0,0
4.    Eiga fasteign, skulda ekki og spara ekki í séreign 6.116 0 28.754 3.394 0 0,0
    Þar af hjón og sambýlisfólk 3.069 0 38.680 4.163 0 0,0
    Þar af einhleypir 3.047 0 18.756 2.619 0 0,0
5.    Eiga ekki fasteign og spara í séreign 32.503 0 0 3.397 40 1,2
    Þar af hjón og sambýlisfólk 4.414 0 0 6.863 75 1,0
    Þar af einhleypir 28.089 0 0 2.852 34 1,2
6.    Eiga ekki fasteign og spara ekki í séreign 37.918 0 0 1.922 0 0,0
    Þar af hjón og sambýlisfólk 2.257 0 0 4.611 0 0,0
    Þar af einhleypir 35.661 0 0 1.752 0 0,0    
Fjöldi fjölskyldna samtals 148.754 - - - - -
    Þar af hjón og sambýlisfólk 56.321 - - - - -
    Þar af einhleypir 92.433 - - - - -



Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

    Með þingsályktun 28. júní 2013 fól Alþingi ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem leiddi af ófyrirsjáanlegri höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána í kjölfar hruns bankakerfisins haustið 2008. Sérfræðingahópur sem útfæra skyldi mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána heimilanna og gera tillögur þar að lútandi skilaði skýrslu sem kynnt var af hálfu ríkisstjórnarinnar í lok nóvember 2013. Tillögum um aðgerðir vegna skuldavanda heimila má skipta í tvo þætti. Annars vegar var lagt til að ráðist yrði í beina lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána með svokölluðum leiðréttingarlánum þar sem miðað var við að lán yrðu færð niður um fjárhæð sem svarar til verðbóta umfram 4,8% frá desember 2007 til ágúst 2010, eða sem svarar til um 13% leiðréttingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, en þó að hámarki 4 m.kr. á hvert heimili. Hins vegar var lagt til að heimilt yrði að nýta iðgjöld í séreignarlífeyrissjóði skattfrjálst í þrjú ár frá og með 1. júlí 2014 til þess að greiða inn á húsnæðislán en þó að hámarki 500 þús.kr. á ári á fasteign. Með fyrirvara um óvissu voru heildaráhrif þessara aðgerða til lækkunar á húsnæðisskuldum heimilanna í skýrslunni metin á um 150 mia.kr. á árunum 2014–2017. Þar af var umfang leiðréttingarlána ásamt tengdum kostnaði talið verða um 80 mia.kr. en höfuðstólslækkun með nýtingu iðgjalda sem ella hefðu farið í séreignarlífeyrissparnað um 70 mia.kr. Þessar ráðstafanirnar fela í sér að ríkissjóður hafi milligöngu um fjármögnun og framkvæmd niðurfærslunnar á íbúðaskuldum heimilanna. Í þessari stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er jafnframt gengið út frá þeirri forsendu að hrein áhrif á afkomu ríkissjóðs verði óveruleg fyrir hvert ár á tímabilinu. Til að tryggja afkomumarkmiðið var ákveðið að leggja til hækkun á álagningu bankaskatts. Á grundvelli þessara tillagna samþykkti Alþingi að gera viðeigandi breytingar á tekju- og útgjaldahlið fjárlaga fyrir árið 2014, einkum vegna frekari tekjuöflunar og til að veita fjárheimild fyrir allt að 20 mia.kr. útgjöldum vegna aðgerðanna á þessu ári.
    Til að treysta stöðu ríkissjóðs við fjármögnun leiðréttingarlána og hliðaráhrifa aðgerðarinnar á ríkisfjármálin, svo sem aukið framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, mótframlag launagreiðanda vegna aukinnar þátttöku starfsmanna ríkisins í séreignarlífeyrissparnaði, framlög til að bæta Íbúðalánasjóði tapaðan vaxtamun vegna aukinna uppgreiðslna á lánum og kostnað við undirbúning og framkvæmd aðgerðarinnar, var sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, hækkaður og undanþága fjármálastofnana í slitameðferð frá skattinum afnumin með samþykkt laga nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Áætlað hefur verið að þessi breyting á bankaskattinum auki árlegar tekjur ríkissjóðs um 23 mia.kr., eða um 92 mia.kr. á fjórum árum.
    Frumvarp þetta sem hér er til umfjöllunar er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, en sameiginlegur tilgangur þeirra beggja er að tryggja nauðsynlegar lagaforsendur til framkvæmdar á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Um er að ræða tvíþætta ráðstöfun sem skipt hefur verið upp í tvö lagafrumvörp. Þar sem báðir þættirnir hafa í mörgum tilvikum áhrif á sömu stærðir ríkisfjármálanna er hér farin sú leið að fjalla um áhrif beggja frumvarpanna á fjárhag ríkissjóðs í einni umsögn, bæði til að einfalda framsetninguna og eins til að fá fram gleggri mynd af heildaráhrifum aðgerðarinnar á fjárhag ríkissjóðs.
    Í frumvarpi um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána er lagt til að ráðherra verði heimilt að semja við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og þau fjármálafyrirtæki sem starfa samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um framkvæmd á almennri leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána einstaklinga um fjárhæð sem svarar til verðbóta umfram tiltekið viðmið á árunum 2008 og 2009 en þó að hámarki 4 m.kr. fyrir hvert heimili á tímabilinu. Viðmiðunartímabil verðbólgu sem leiðrétting samkvæmt frumvarpinu miðast við er því nokkuð styttra en gert var ráð fyrir í fyrrnefndri skýrslu sérfræðingahópsins. Þá er ekki tilgreint sérstaklega í frumvarpinu hvaða verðbólguviðmiði gengið verður út frá við leiðréttinguna heldur er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra ákvarði það með reglugerð. Samkvæmt frumvarpinu þurfa skuldarar að sækja um leiðréttingu lána sinna og verður öllum verðtryggðum lánum sem leiðréttingin nær til skipt upp í tvo greiðsluhluta, frumhluta og leiðréttingarhluta. Kveðið er á um að lántaki greiði einungis af frumhlutanum og að ríkissjóður veiti framlag á móti leiðréttingarhlutanum en þar til höfuðstóll hefur verið greiddur upp er lántaki þó áfram skuldari þeirra. Til frádráttar koma fyrri úrræði til lækkunar höfuðstóls sem lántakandi hefur notið. Áhrif aðgerðarinnar munu því koma strax fram í formi lægri greiðslubyrði lántaka. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði leiðréttingarhluta láns niður á fjórum árum með árlegum gjalddögum, fyrst 31. desember 2014, og skal sá hluti vera uppgerður að fullu eigi síðar en 31. desember 2017. Í þessari ráðstöfun felst einnig að ríkissjóður greiði vanskil, vexti og verðbætur. Þessu til viðbótar er lagt til að ef framlag ríkissjóðs nýtist ekki á móti leiðréttingarhluta láns, t.d. hafi það verið greitt upp, þá myndi það sérstakan persónuafslátt sem komi til viðbótar almennum persónuafslætti í tekjuskatti á næstu fjórum árum. Leiðréttingarframlög vegna slíkra aðila ættu því að verða áþekk og ef þau hefðu gengið til niðurfærslu á skuldum.
    Samkvæmt fyrirliggjandi stefnumörkun stjórnvalda er reiknað með að heildarkostnaður ríkissjóðs við beina niðurfærslu á höfuðstól húsnæðislána gæti orðið allt að 80 mia.kr. Að teknu tilliti til frádráttar vegna fyrri úrræða og að gefnum ýmsum öðrum forsendum hefur verið reiknað með að þar af yrði heildarfjárhæð niðurfellinga, þ.e. leiðréttingarhluti lána, samtals 72 mia.kr. en að vextir, verðbætur og umsýslukostnaður við leiðréttingarhluta frá yfirtöku til ársloka 2017 mundu nema 8 mia.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður hafi milligöngu um fjármögnun og framkvæmd aðgerðarinnar en jafnframt er gengið út frá þeirri grunnforsendu að hún hafi engin teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs þau ár sem hún stendur yfir. Í þessu sambandi er ástæða til að vekja athygli á því að framkvæmdin verður ekki með þeim hætti að ríkissjóður taki yfir leiðréttingarhluta lánanna, heldur liggur fyrir pólitísk yfirlýsing og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að ríkissjóður muni greiða upp þann hluta á fjórum árum. Endanleg ráðstöfun verður þó ávallt háð ákvörðun Alþingis við árlega afgreiðslu fjárlaga í samræmi við 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar. Heimili Alþingi ekki fjárveitingar til aðgerðarinnar stendur ábyrgð lántakanda gagnvart fjármálastofnun eins og hún var fyrir uppskiptingu lánsins í frumhluta og leiðréttingarhluta að frádreginni þeirri greiðslu sem ríkissjóður kann að hafa innt af hendi.
    Í þessu sambandi er vakin athygli á að eðli máls samkvæmt ríkir nokkur óvissa um ýmsar þær forsendur sem áhrif hafa á niðurstöðu aðgerðarinnar. Þannig er t.a.m. óvíst hve margir munu leita eftir niðurfærslu lána, auk þess sem frádráttarliðir, þ.e. áður fengnar afskriftir og niðurfellingar, geta haft umtalsverð áhrif á leiðréttingarfjárhæðir. Athugun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á gögnum bendir til þess að nokkur óvissa sé fyrir hendi um forsendur útreikninga og getur lítils háttar breytileiki í lykilstærðum haft umtalsverð áhrif. Endurmat á þessum forsendum gefur til kynna að vera megi að aðlaga þurfi viðmiðanir fyrir niðurfærslunni þegar betri upplýsingar liggja fyrir úr umsóknum lántakenda ef kostnaður við þennan þátt aðgerðarinnar á að geta haldist innan þeirra marka sem gengið hefur verið út frá, þ.e. að allt að 80 mia.kr. verði varið til niðurfærslunnar á tímabilinu. Ákvæði frumvarpsins gera því ráð fyrir slíkri aðlögun í reglugerð sem ráðherra setur með tilliti til þátttöku í aðgerðinni, dreifingu þegar fenginna afskrifta og annarra slíkra atriða sem máli skipta fyrir ráðstöfun á fjárheimild í fjárlögum til lækkunar á húsnæðisskuldum heimilanna.
    Í frumvarpi um ráðstöfun séreignarsparnaðar er á hinn bóginn lagt til að heimilt verði að ráðstafa iðgjaldi til séreignarlífeyrissparnaðar, allt að 4% framlagi launþega og 2% framlagi launagreiðanda, skattfrjálst til afborgana af fasteignaveðtryggðum lánum sem tekin hafa verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og geta verið grundvöllur útreiknings til vaxtabóta. Með þessum hluta aðgerðarinnar gefur ríkissjóður eftir tekjuskatt af þessum lífeyrissparnaði gegn því að honum sé varið til afborgana af lánum. Miðað er við að heimildin takmarkist við 500 þús.kr. á ári á hverja fasteign og taki til iðgjalda af iðgjaldastofni tímabilsins 1. júlí 2014 – 30. júní 2017, eða í þrjú ár, og verði því að hámarki 1,5 m.kr. á fasteign. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að þeir sem ekki eiga íbúðarhúsnæði á tímabilinu geti sótt um að innleysa séreignarlífeyrissparnað með sömu fjárhæðartakmörkunum, skattfrjálst til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota fram til 30. júní 2019. Í greinargerð frumvarpsins sem byggist að hluta á skýrslu starfshóps um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána er stillt upp þremur sviðsmyndum miðað við forsendur um mismikla nýtingu einstakra hópa á þessum úrræðum. Innborganir á fasteignaveðlán úr séreignarlífeyri í þessum sviðsmyndum eru á bilinu 47–61 mia.kr. og nýting til húsnæðissparnaðar á bilinu 7–13 mia.kr. Engin leið er að segja til um með einhverri vissu fyrir fram hvaða sviðsmynd verður næst raunveruleikanum.
    Umfjöllun í þessari umsögn einskorðast við bein áhrif aðgerðarinnar á fjárhag ríkissjóðs. Aðgerðin er þó af þeirri stærðargráðu að gera má ráð fyrir að hún muni einnig hafa örvandi efnahagsleg áhrif sem kunni að skila ríkissjóði tekjum af auknum umsvifum og neyslu, a.m.k. tímabundið, en ekki eru forsendur til að leggja mat á stærðargráður í því sambandi en vísað er til umfjöllunar um efnahagsáhrif í almennum athugasemdum við frumvarp um leiðréttingu fasteignaveðlána. Einnig má gera ráð fyrir að lögfesting frumvarps um skattfrelsi lífeyrisiðgjalda muni hafa nokkur áhrif á fjárhag sveitarfélaga og um þau er fjallað í athugasemdum frumvarpsins.
    Ljóst er að báðir þættir aðgerðarinnar munu hafa töluverð áhrif á rekstrarreikning ríkissjóðs í ár og næstu þrjú árin, bæði á tekju- og útgjaldahlið, sem í stórum dráttum má þó telja að verði þannig að árleg velta ríkissjóðs verði u.þ.b. 21 mia.kr. meiri en ella. Eftir sem áður er gengið út frá því að þessum ráðstöfunum verði hagað þannig að þær hafi ekki teljandi áhrif á árlega afkomu. Í eftirfarandi töflu eru tekin saman áætluð tekju- og útgjaldaáhrif aðgerðarinnar á fjárhag ríkissjóðs á árunum 2014–2017.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á tekjuhlið munar mest um 23 mia.kr. auknar tekjur af bankaskatti, alls 92 mia.kr. á fjórum árum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir minni tekjum af tekjuskatti vegna aukinnar þátttöku í séreignarlífeyrissparnaði sem áætlað er að rýri tekjuskatt um 1–2,6 mia.kr. á ári en alls um 7,6 mia.kr. á tímabilinu. Í þriðja lagi verða ívið meiri tekjur af tryggingagjaldi vegna aukningar á mótframlagi launagreiðenda í séreignarlífeyrissparnaði, eða um 100–200 m.kr. á ári. Á gjaldahlið munar mest um 20 mia.kr. kostnað vegna afborgana og vaxta af leiðréttingarhluta verðtryggðra húsnæðislána ásamt umsýslukostnaði sem alls er þá áætlaður 80 mia.kr. á fjórum árum. Í öðru lagi verður lækkun á útgjöldum til vaxtabóta vegna minni vaxtagjalda heimilanna, sem verði fyrst um 0,4 mia.kr. á næsta ári en vaxi í um 1 mia.kr. og leiði þannig til um 2,5 mia.kr. sparnaðar yfir tímabilið. Í þriðja lagi hækkar lögbundið framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna aukinna tekna af bankaskatti umfram minni tekjur af tekjuskatti. Í fjórða lagi kann ríkissjóður að þurfa að mæta fjárþörf hjá Íbúðalánasjóði vegna hraðari uppgreiðslu lána á tímabilinu en veruleg óvissa er um fjárhæðir í því sambandi. Útlán sjóðsins voru um 55% af verðtryggðum skuldum heimilanna í árslok 2009 og þar sem þau eru yfirleitt á fyrsta veðrétti má reikna með að innborganir á leiðréttingarhluta lána muni að stórum hluta greiðast inn á útlán Íbúðalánasjóðs, auk hluta af innborgunum úr séreignarlífeyrissparnaði. Við það tapar sjóðurinn vaxtamun sem leiðir til lakari afkomu takist ekki að ná sambærilegri ávöxtun á laust fé þar sem öll útgefin skuldabréf sjóðsins eru óuppgreiðanleg og verðtryggð. Mikil óvissa er um fjárhæðir og vaxtakjör í þessu sambandi. Miðað við forsendu um 50 mia.kr. innborganir sem ekki tekst að endurlána og 2% raunvexti á laust fé yrði árlegt vaxtatap 1,3 mia.kr., eða 5,2 mia.kr. á fjórum árum. Á móti vegur að þar sem innborgunum verður fyrst ráðstafað inn á vanskil munu þau minnka og gæði á útlánasafni sjóðsins ættu því að aukast. Aðgerðin kann einnig að koma hluta þeirra sem nú eru í vanskilum á réttan kjöl og auka greiðsluvilja sem vegur á móti tekjutapi en mikil óvissa er um í hversu miklum mæli það gæti orðið.
    Til viðbótar við það sem hér hefur verið rakið má svo bæta áætluðu tekjutapi ríkissjóðs í framtíðinni vegna minni skatttekna en ella við úttekt á séreignarlífeyrissparnaði. Verði t.d. 70 mia.kr. greiddir inn á húsnæðisskuldir heimilanna í þeim hluta aðgerðarinnar á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 má áætla tekjutap ríkissjóðs 20 mia.kr. miðað við 30% skatthlutfall en það mundi falla til og dreifast á næstu áratugi.
    Hvað varðar beinan umsýslukostnað ríkissjóðs við undirbúning og framkvæmd skuldalækkunaraðgerðarinnar þá er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri annist að mestu framkvæmd hennar, taki við umsóknum, vinni úr þeim og ákvarði leiðréttingar. Gert er ráð fyrir að málsmeðferð verði sem mest rafræn. Miðað er við að umsóknartímabil vegna leiðréttingarhluta aðgerðarinnar verði frá 15. maí til 1. september 2014 og að ráðherra verði heimilt með reglugerð að ákveða umsóknarferil fyrir nýtingu lífeyrissparnaðarhlutans. Gert er ráð fyrir að sett verði upp miðlæg vefgátt hjá ríkisskattstjóra til að taka við umsóknum, bæði um leiðréttingu lána og nýtingu lífeyrissparnaðar, auk þess sem smíða þarf hugbúnað til að meðhöndla og vinna úr innsendum umsóknum og skila niðurstöðum. Um verður að ræða hugbúnað sem þarf að geta átt samskipti við og sótt og miðlað upplýsingum til annarra, svo sem fjármálafyrirtækja, umboðsmanns skuldara, sýslumanna og Þjóðskrár Íslands. Gert er ráð fyrir að samið verði við fjármálastofnanir um hlutdeild ríkisins í þeirri hugbúnaðargerð, gagnavinnslu og annarri umsýslu við verkefnið en á þessu stigi liggja ekki fyrir áætlanir um þann kostnað af þeirra hálfu.
    Í áætlunum frá ríkisskattstjóra er gert ráð fyrir að heildarkostnaður embættisins við umsjón og framkvæmd verkefnisins verði 285 m.kr. Helstu kostnaðarþættir eru laun og aðkeypt sérfræðiþjónusta og reiknað er með 15–17 stöðugildum við verkefnið þegar mest verður. Gert er ráð fyrir útgjöldum við þann þátt sem snýr að niðurfærslum á verðtryggðum húsnæðislánum frá maí 2014 til október 2015 og er sá kostnaður áætlaður 235 m.kr., þar af 135 m.kr. árið 2014 og 100 m.kr. árið 2015, en fyrirvari er gerður vegna óvissu um kostnað við tölvuvinnslu. Reiknað með útgjöldum við þann þátt sem snýr að ráðstöfun á séreignarlífeyrissparnaði fram á mitt ár 2017. Kostnaður við þann hluta er áætlaður 50 m.kr. og áætlað er að meiri hluti hans falli til í ár, en nákvæm skipting liggur ekki fyrir. Samkvæmt frumvarpi um leiðréttingu fasteignaveðlána skal ráðherra skipa þriggja manna úrskurðarnefnd sem skjóta má ákvörðun ríkisskattstjóra til. Í áætlun verkefnisstjórnar um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána er kostnaður við verkefnisstjórnina og eftirlit með framkvæmd laganna áætlaður 140 m.kr., þar af 115 m.kr. árið 2014 og 25 m.kr. árið 2015, og kostnaður við úrskurðarnefndina er áætlaður 50 m.kr., þ.e. 25 m.kr. hvort árið 2014 og 2015.
    Beinn rekstarkostnaður ríkissjóðs við undirbúning, framkvæmd og eftirlit með verkefninu er samkvæmt framansögðu áætlaður 475 m.kr. en auk þess fellur til umsýslukostnaður hjá fjármálastofnunum. Við afgreiðslu gildandi fjárlaga var veitt 115 m.kr. tímabundið rekstrarframlag til verkefnisstjórnarinnar í fjögur ár. Samkvæmt því virðist ljóst að nýta þurfi hluta af 19.885 m.kr. fjárheimild vegna skuldaniðurfærslunnar í fjárlögum til að mæta kostnaði við uppsetningu á kerfum og tengd verkefni hjá ríkisskattstjóra sem samtals gætu legið nærri 190 m.kr. á þessu ári.
    Í frumvarpinu eru ekki allar forsendur aðgerðanna afmarkaðar fyrir fram með þeim hætti að beinlínis verði ráðið af ákvæðum þess hver hugsanlegur heildarkostnaður ríkissjóðs gæti orðið að öðru leyti. Með fyrirvara um það og óvissuþætti, svo sem verðbólguviðmið og þátttöku lántakenda, er samandregin niðurstaða um áhrif þessarar aðgerðar á fjárhag ríkissjóðs í ár og á næstu þremur árum sú, að um verður að ræða umtalsverð áhrif til hækkunar bæði tekna og gjalda sem muni t.d. hafa merkjanleg áhrif á hlutföll tekna og útgjalda af landsframleiðslu. Meginforsenda þessara aðgerða er hins vegar að þær muni ekki skerða afkomu ríkissjóðs þar sem þær verði fullfjármagnaðar með viðeigandi árlegri tekjuöflun. Til lengri tíma litið má þó gera ráð fyrir að ríkissjóður verði af skatttekjum vegna minni skattskyldrar úttektar á séreignarlífeyrissparnaði en annars hefði orðið. Á móti kunna að vega auknar tekjur af veltusköttum vegna lægri greiðslubyrðar og aukinna umsvifa.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 var veitt 20 mia.kr. tímabundið framlag í fjögur ár á fjárlagaliðnum 09-825 Niðurfærsla á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna til skuldalækkunarinnar og skipulagningar nauðsynlegra aðgerða til að hrinda þessari stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Fjármögnun þessara ráðstafana á tímabilinu mun þannig byggjast á fjárheimild í fjárlögum sem mun þurfa að vera reist á tryggri viðbótartekjuöflun. Við mat á áhrifum þessara tveggja frumvarpa er hér því gengið út frá því að umfang aðgerðanna verði í samræmi við þann 80 mia.kr. heildarramma og þá stefnumörkun sem kynnt hefur verið fyrir Alþingi í tengslum við ákvarðanir um sérstaka tekjuöflun og veitingu fjármuna til aðgerðanna í gildandi fjárlögum þannig að áhrif þeirra á afkomu ríkissjóðs á næstu fjórum árum verði óveruleg.