Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 927  —  402. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu,
nr. 38/2001, með síðari breytingum (fyrning uppgjörskrafna).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Jóna Björk Guðnadóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ásta Sigrún Helgadóttir og Hjörleifur Gíslason frá umboðsmanni skuldara, Árni Jóhannsson og Sigþór Sigurðsson frá Samtökum iðnaðarins, Vilhjálmur Bjarnason og Guðmundur Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum. Þá barst nefndinni umsögn um frumvarpið frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Gestir nefndarinnar voru allir fylgjandi lengingu fyrningarfrests uppgjörskrafna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um vexti og verðtryggingu. Áherslumunur var hins vegar um til hversu langs tíma lengingin ætti að vara.
    Lenging fyrningarfrests ákvæðis til bráðabirgða XIV mun hafa áhrif á réttarstöðu lántaka og lánveitanda hvort sem lántaki á kröfu á hendur lánveitanda um endurgreiðslu ofgreidds fjár eða lánveitandi á af einhverjum sökum kröfu á hendur lántaka.
    Fyrir nefndinni kom fram að uppgjör krafna sem ákvæði til bráðabirgða XIV nær til hafi gengið mun hægar fyrir sig en von var á við setningu laga nr. 151/2010 og það þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi heimilað aðilum Samtaka fjármálafyrirtækja og Dróma hf. að viðhafa samstarf í því skyni að liðka fyrir úrlausn.
    Að mati nefndarinnar verður ekki hjá því komist að skoða markmið frumvarpsins út frá hagsmunum beggja aðila kröfuréttarsambands. Ljóst er að hagsmunir beggja mæla með lengingu fyrningarfrests uppgjörskrafna. Þó ber að gæta þess að ekki sé svo langt gengið að aðilarnir fái vart séð fyrir hvenær eða hvernig réttarsambandinu þeirra á milli verði lokið. Álit nefndarinnar er að sú lenging fyrningarfrests uppgjörskrafna sem lögð er til í frumvarpinu sé hæfileg. Virðist á þessum tímapunkti raunhæft að ætla að hægt verði að ljúka uppgjörum á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIV á þeim tíma. Mjög ólíklegt má telja að skemmri frestur nægi.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. apríl 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Árni Páll Árnason,


frsm.

Pétur H. Blöndal.



Willum Þór Þórsson.


Guðmundur Steingrímsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Edward H. Huijbens.


Vilhjálmur Bjarnason.