Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 958  —  558. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og lögum um rannsóknarnefndir (umræður um skýrslur rannsóknarnefnda).

Flm.: Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Edward H. Huijbens, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Brynhildur Pétursdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


Breyting á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „og 53.–55. gr.“ í 1. mgr. kemur: og samkvæmt lögum nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ekki skal taka lokaskýrslu rannsóknarnefndar skv. 13. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, til umræðu fyrr en í fyrsta lagi þremur nóttum eftir birtingu hennar.

Breyting á lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.
2. gr.

    Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður sem verður 2. málsl., svohljóðandi: Ekki skal taka lokaskýrslu rannsóknarnefndar til umræðu í þinginu fyrr en í fyrsta lagi þremur nóttum eftir birtingu hennar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Um eftirlitsstörf Alþingis segir í 1. mgr. 49. gr. þingskapalaga: „Alþingi, þingnefndir og einstakir alþingismenn hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins.“ Ákvæðinu er ætlað að uppfylla 14. gr. stjórnarskrárinnar. Til að sinna þessu stjórnarskrárbundna eftirlitshlutverki hafa þingmenn og þingnefndir m.a. heimild í þingsköpum til að kalla eftir skýrslum og fá umræðu um þær í þinginu. Til að eftirlitshlutverkinu sé sinnt með sóma þurfa þingmenn að geta kynnt sér efni skýrslu vel fyrir umræðu í þingsal. Það eru því óvönduð þingsköp sem heimila þingforseta að setja langar og ítarlegar rannsóknarskýrslur á dagskrá degi eftir birtingu. Flutningsmenn vilja með þessu frumvarpi laga þá brotalöm og bæta þannig störf Alþingis.