Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 977  —  475. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um aðlögun að Evrópusambandinu.


     1.      Hvaða breytingar sem orðið hafa á lögum á málefnasviði ráðherra eða á stofnunum sem heyra undir hann frá 2009 má rekja til aðlögunar að Evrópusambandinu?
     2.      Hvaða breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB?
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður árið 1992 og lögfestur hér á landi með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, sem tóku gildi 1. janúar 1994. Ísland hefur fært regluverk sitt að regluverki Evrópusambandsins í ljósi þess að grundvöllur EES-samningsins er annars vegar grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, þ.e. stofnsáttmálinn (Rómarsáttmálinn), og hins vegar afleidd löggjöf, þ.e. reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir er varða Evrópska efnahagssvæðið.
    Í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið hafði velferðarráðuneytið m.a. umsjón með 2. kafla, er fjallar um frjálsa för launafólks og almannatryggingar, og 19. kafla, er fjallar um félagsmál og vinnumál. Fyrri kaflinn fjallar um rétt launafólks til að fara milli aðildarríkjanna til að starfa og um það hvernig áunnin réttindi þeirra innan almannatryggingakerfa, svo sem lífeyrisréttindi og réttur til fæðingarorlofs og atvinnuleysistrygginga, eru samræmd þegar farið er milli aðildarríkjanna. Síðarnefndi kaflinn felur í sér reglur er varða lágmarksviðmið á sviði jafnréttismála, vinnuréttar og vinnuverndar, sem og málefni fatlaðs fólks og önnur félagsmál. Þessir kaflar eiga það sameiginlegt að flestar gerðir Evrópusambandsins sem falla þar undir höfðu verið felldar undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og voru felldar undir samninginn á því tímabili sem vísað er til. Þar með er ekki unnt að greina á milli hvort innleiðing gerða í íslenskan rétt á þessu tímabili hafi eingöngu verið vegna samningsskuldbindinga íslenskra stjórnvalda á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða vegna aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið þar sem ætla má að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði gert við það athugasemdir í samningaviðræðunum hefði innleiðing ekki átt sér stað en markmið viðræðnanna var m.a. að aðlaga innlenda löggjöf að regluverki Evrópusambandsins. Í ljósi framangreinds var því ekki farið fram á aðlögunartexta/bókanir, aðlögunartímabil eða sérlausnir í samningsafstöðu Íslands vegna 2. og 19. kafla umfram það sem þegar hafði verið gert á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Enn fremur urðu ekki breytingar á stofnunum er starfa á málefnasviði ráðuneytisins sem rekja má til aðlögunar að Evrópusambandinu. Að öðru leyti vísast til svars við þriðja lið fyrirspurnarinnar.
    Tilskipanir Evrópusambandsins nr. 2000/78/EB um jafna meðferð á vinnumarkaði og tilskipun nr. 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna falla undir 19. kafla en þær hafa ekki verið felldar undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Engu að síður samþykkti ríkisstjórn Íslands í janúar 2003 að gæta skyldi efnislegs samræmis í íslenskum rétti og þeim rétti er gilti innan Evrópusambandsins á grundvelli umræddra tilskipana svo tryggja mætti einsleitni á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Var því ljóst að ekki væri unnt að loka samningaviðræðum við Evrópusambandið um efni 19. kafla fyrr en íslensk stjórnvöld hefðu gert ráðstafanir sem tryggðu að efni umræddra tilskipana endurspeglaðist að fullu í innlendum rétti. Fór því fram mikil vinna á vegum velferðarráðuneytisins við undirbúning og samningu frumvarpa sem ætlað var að endurspegla efni þessara tilskipana og voru frumvörpin kynnt á vefsíðu ráðuneytisins í febrúar 2014. Þess ber jafnframt að geta í þessu sambandi að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og sérfræðinganefnd félagsmálasáttmála Evrópu hafa gert ríkar kröfur til íslenskra stjórnvalda um að löggjöf verði sett hér á landi um bann við mismunun á grundvelli þeirra þátta sem framangreindar tilskipanir taka til. Þá fór fram mikil vinna á vegum ráðuneytisins vegna undirbúnings aðlögunar að skipulagi og stefnumálum Evrópusambandsins enda þótt ekki hafi komið til lagasetningar í því sambandi. Þar má nefna sem dæmi undirbúning að aðkomu íslenskra stjórnvalda að félagsmálasjóði Evrópu (e. The European Social Fund) og skipuð var sérstök nefnd á vegum forsætisráðuneytis í samvinnu við velferðarráðuneytið um gerð atvinnu- og vinnumarkaðsstefnu.

     3.      Hvaða breytingar urðu á sama tíma fyrst og fremst vegna aðildar Íslands að EES?

    Hér verður getið þeirra laga á málefnasviði félags- og húsnæðismálaráðherra sem tekið hafa breytingum frá árinu 2009 og ætlað er að innleiða gerðir sem hafa verið felldar undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en heyra jafnframt til 2. og 19. kafla aðildarviðræðna. Í þessu sambandi er ítrekað að ekki verður gerður greinarmunur á því hvort umræddar gerðir voru innleiddar vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu þar sem til þessara breytinga á innlendri löggjöf hefði hvort heldur sem er þurft að koma í því skyni að aðlaga íslenska löggjöf að regluverki Evrópusambandsins svo ljúka mætti aðildarviðræðum um 2. og 19. kafla. Jafnframt verða taldar upp þær reglugerðir sem settar hafa verið á umræddu tímabili í sama tilgangi. Þá verða talin upp frumvörp sem hafa verið lögð fram á Alþingi á yfirstandandi þingi fyrir tilstilli ráðherra og bíða meðferðar þingsins þar sem efnið lýtur með einum eða öðrum hætti að löggjöf Evrópusambandsins sem felld hefur verið undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Lagabreytingar:
          Lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 134/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010, lög nr. 70/2010, sem tóku gildi 25. júní 2010 og lög nr. 178/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012.
          Lög nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 26/2013, sem tóku gildi 26. mars 2013.
          Lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 136/2011, sem tóku gildi 1. október 2011.
          Lög nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 133/2011, sem tóku gildi 1. október 2011.
          Lög nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 81/2010, sem tóku gildi 1. júlí 2010.
          Lög nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytinum, sbr. lög nr. 96/2010, sem tóku gildi 3. júlí 2010, og lög nr. 114/2012, sem tóku gildi 2. nóvember 2012.
          Lög nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 137/2011, sem tóku gildi 1. október 2011, og lög nr. 34/2013, sem tóku gildi 5. apríl 2013.

Reglugerðir á sviði vinnuverndar:
          Reglugerð nr. 1003/2009, um breytingu á reglugerð 341/2003 um fólkslyftur og fólks- og vörulyftur. Reglugerðin tók gildi 21. desember 2012.
          Reglugerð nr. 218/2013, um færanlegan þrýstibúnað. Reglugerðin tók gildi 6. mars 2013.
          Reglugerð nr. 465/2009, um mengandi lofttegundir og agnir frá brunahreyflum færanlegra véla sem notaðar eru utan vega. Reglugerðin tók gildi 19. maí 2009.
          Reglugerð nr. 390/2009, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Reglugerðin tók gildi 22. apríl 2009 og var henni síðar breytt með reglugerð nr. 1296/2012, um breytingu á reglugerð um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, nr. 390/2009, sem tók gildi 17. janúar 2013.
          Reglugerð nr. 260/2012, um úðabrúsa. Reglugerðin tók gildi 15. mars 2012.
          Reglugerð nr. 165/2011, um varnir gegn álagi vegna tilbúinnar ljósgeislunar á vinnustöðum. Reglugerðin tók gildi 23. febrúar 2011.
          Reglugerð nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað. Reglugerðin tók gildi 21. desember 2009.

Reglugerðir á sviði almannatrygginga:
          Reglugerð nr. 29/2009, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) XII. Reglugerðin tók gildi 6. janúar 2009.
          Reglugerð nr. 420/2009, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) XIII. Reglugerðin tók gildi 16. apríl 2009.
          Reglugerð nr. 524/2009, um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) XIV. Reglugerðin tók gildi 3. júní 2009.
          Reglugerð nr. 833/2009, um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) XV. Reglugerðin tók gildi 24. september 2009.
          Reglugerð nr. 442/ 2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Reglugerðin tók gildi 1. júní 2012.
          Reglugerð nr. 860/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (II). Reglugerðin tók gildi 6. október 2012.
          Reglugerð nr. 617/2013, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (III). Reglugerðin tók gildi 12. júní 2013.
          Reglugerð nr. 1098 /2013, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (IV). Reglugerðin tók gildi 26. nóvember 2013.

Frumvörp sem hafa verið lögð fram á Alþingi á yfirstandandi þingi og bíða meðferðar þingsins:
          Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum (EES-mál).
          Frumvarp til laga um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999 (innleiðing tilskipunar).
          Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum (vörukaup, þjónusta o.fl.). Frumvarp þetta var einnig lagt fram á 142. löggjafarþingi en dagaði uppi í meðförum þingsins.
          Frumvarp til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.