Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1007  —  315. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl.


Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti styður málið efnislega en gerir alvarlegar athugasemdir við framgöngu ríkisstjórnarmeirihlutans við meðferð málsins.
    Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar var boðað í þingsölum 21. desember 2013 þegar ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu samhliða gerð kjarasamninga. Frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn síðla janúar en ekki lagt fram á Alþingi fyrr en 13. febrúar sl. Þrátt fyrir ítrekuð boð stjórnarandstöðu um að afgreiðsla málsins yrði tekin fram fyrir önnur mál var ekki mælt fyrir frumvarpinu fyrr en 18. mars sl. Málið er svo afgreitt úr nefndinni nú nærri einum og hálfum mánuði síðar þótt enginn efnislegur ágreiningur hafi komið fram á nefndarfundum. Fyrir liggur því að þau gjöld sem hér um ræðir verða að líkum ekki lækkuð fyrr en hálfu ári eftir að loforð var veitt um lækkun þeirra samhliða samþykkt kjarasamninga, sem þó voru einungis gerðir til eins árs. Vandfundin eru sambærileg dæmi um vanefndir stjórnvalda á skýrum fyrirheitum við gerð kjarasamninga. Þá bítur stjórnarmeirihlutinn höfuðið af skömminni með því að leggja til að 1% lækkunin gildi óbreytt seinni hluta ársins í stað þess að bæta fyrir seinagang sinn með 2% lækkun gjaldanna á seinni hluta ársins og færa launafólki þannig þær kjarabætur sem þó var lofað. Eftir stendur að launafólk er hlunnfarið um sinn hlut í aðgerðum ríkisvaldsins í tengslum við kjarasamninga vegna verkleysis stjórnarmeirihlutans en ríkið nýtur til fulls ávaxta þeirra fórna sem launafólk færði með hóflegum kjarasamningum.
    Það er athyglisvert að bera þennan framgangsmáta saman við þann hraða sem ríkisstjórnin hafði við lagasetningu til að banna yfirvinnubann undirmanna á Herjólfi. Það er því ekki skortur á dagskrárvaldi ríkisstjórnarinnar sem veldur þessum sérkennilega seinagangi. Ríkisstjórnarmeirihlutinn virðist leggja meiri áherslu á hraða afgreiðslu mála þegar taka ber réttindi af launafólki en þegar stendur til að efna skýr fyrirheit sem veitt hafa verið heildarsamtökum launafólks í tengslum við gerð kjarasamninga.

Alþingi, 28. apríl 2014.

Árni Páll Árnason.