Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 392. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1067  —  392. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum (nefnd lögð niður, takmörkun tilkynningarskyldu).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Egil Jónsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Þóru Björgu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að dregið verði úr tilkynningarskyldu vegna erlendrar fjárfestingar og að nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður. Helsta tilefni frumvarpsins er rökstutt álit ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, frá 12. febrúar 2014, ákvörðun nr. 54/14/COL, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að tilkynningarskylda laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri bryti gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum þar sem hún væri of víðtæk og óþarflega íþyngjandi.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru þær breytingar lagðar til að í stað þess að tilkynna beri alla erlenda fjárfestingu verði aðeins skylt að tilkynna erlenda fjárfestingu á þeim sviðum þar sem sérstakar takmarkanir gilda. Á fundi nefndarinnar kom það sjónarmið fram að ef til vill væri nokkuð langt gengið við þrengingu tilkynningarskyldunnar. Var í dæma skyni bent á að of mikil þrenging kynni að hafa veruleg áhrif á möguleika stjórnvalda til þess að fylgjast með erlendri fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum.
    Þrátt fyrir ríkan vilja tókst meiri hlutanum ekki að finna haldbærar leiðir til þess að útfæra tilkynningarskylduna þannig að tryggt yrði að fjárfesting í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum yrði tilkynnt til stjórnvalda og þess jafnframt gætt að niðurstaða álits ESA væri virt. Í b-lið 3. gr. frumvarpsins er hins vegar að finna ákveðinn neyðarhemil, heimild ráðherra til að grípa inn í og stöðva hættulega eða óæskilega erlenda fjárfestingu sem ekki er annars bönnuð með lögum. Að mati meiri hlutans á erlend fjárfesting í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum margt sameiginlegt með þeim þáttum sem virkja þessa stöðvunarheimild ráðherra. Má jafnvel halda því fram að slík fjárfesting falli undir þá að einhverju leyti. Til þess að treysta heimildina enn frekar leggur meiri hlutinn fram þríþætta tillögu til breytinga. Í fyrsta lagi er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 12. gr. laganna þar sem kveðið verði á um heimild ráðherra til að stöðva erlenda fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum þegar slík fjárfesting felur í sér kerfisáhættu. Í öðru lagi, og í tengslum við fyrrgreinda tillögu, verði nýrri skilgreiningu bætt við 2. gr. laganna þar sem tekin verði upp skilgreining 8. tölul. 2. gr. frumvarps til laga um fjármálastöðugleikaráð (þskj. 765 í 426. máli) á kerfisáhættu. Í þriðja og síðasta lagi verði ráðherra fengin heimild til að stöðva erlenda fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum á grundvelli ábendinga þar til bærra aðila. Með þar til bærum aðilum er átt við fjármálastöðugleikaráð, aðildarstofnanir þess, Samkeppniseftirlitið eða aðra sambærilega aðila. Þannig hvíli frumkvæðisskylda á viðkomandi aðilum að gera ráðherra aðvart um fjárfestingar sem kunni að vera varhugaverðar í almennum skilningi laganna eða geta haft kerfisáhættu í för með sér.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                   Kerfisáhætta: Þegar samspil fjármálakerfis og þjóðarbúskapar felur í sér hagsveiflumögnun, fjármálafyrirtæki verða viðkvæm fyrir aðgerðum annarra aðila og hætta er á atburðarás sem getur ógnað fjármálastöðugleika með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á þjóðarbúskapinn.
     2.      Við 3. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að stöðva erlenda fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum þegar slík fjárfesting felur í sér kerfisáhættu.
                  Ráðherra er heimilt að stöðva erlenda fjárfestingu skv. 2. og 3. mgr. á grundvelli ábendinga þar til bærra aðila.

Alþingi, 9. maí 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form., með fyrirvara.
Steingrímur J. Sigfússon,
frsm.
Pétur H. Blöndal.
Willum Þór Þórsson. Vilhjálmur Bjarnason. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.