Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1092  —  484. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans
til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Almennt má um mál þetta segja að miklir kostir eru því samfara að greiða fyrir því að fólk leggi sjálft af mörkum við lækkun skulda sinna. Þrátt fyrir að séreignarlífeyrissparnaður sé hugsaður til efri ára kunna að vera rök fyrir því að greiða fyrir því að hann nýtist til niðurgreiðslu skulda. Það er einnig jákvætt að hið opinbera stuðli að húsnæðissparnaði með beinum aðgerðum. Ýmsir alvarlegir ágallar eru þó á málinu eins og það er búið af hendi meiri hlutans. Breytingartillögur sem meiri hlutinn kynnti á sama fundi og málið var tekið út úr nefndinni auka enn forgang hinna tekjuhærri og útgjöld ríkis og sveitarfélaga.

Hverjum nýtast úrræðin?
    Úrræði frumvarpsins munu hvað best nýtast þeim sem best standa. Strax við framlagningu frumvarpsins varð ljóst að umtalsverðar launatekjur þyrfti til að fullnýta úrræðin. Meiri hlutinn hefur hins vegar bitið höfuðið af skömminni með því að leggja til, í samhengi við breytingu á því viðmiði að hámarkið tengist kennitölu, að hámarksfjárhæð vegna nýtingar úrræðanna verði hækkuð um 250 þús. kr. á almanaksári í tilviki samskattaðra. Þó svo að réttlætisrök séu fyrir því að upphæðin fyrir sambúðarfólk sé hærri en fyrir einstæðinga, þá er ljóst að slík hækkun mun aðeins nýtast hinum tekjuhærri og í raun hafa þau áhrif að hærri launatekjur þarf til þess að fullri nýtingu verði náð. Tekjuhærri fjölskyldurnar fá því enn meiri meðgjöf frá ríki og sveitarfélögum en lagt var upp með. Þannig munu þeir sem verið hafa í aðstöðu til að leggja til hliðar og spara nú fá enn frekari stuðning frá ríki og sveitarfélögum.

Nær ekki til þeirra sem verst standa.
    Fyrir nefndinni kom fram að aðeins tæp 30% öryrkja hafa einhverjar launatekjur. 70% öryrkja munu því ekki geta á nokkurn veg nýtt sér úrræði frumvarpsins en hlutfall öryrkja í leiguhúsnæði er hærra en annarra. Þá virðist sparnaður þeirra fara dvínandi.
    Launatekjur námsmanna eru yfirleitt lágar í samanburði við þá sem eru á vinnumarkaði. Þeir sem eru að hefja nám um þessar mundir munu jafnvel missa alfarið af því að geta nýtt sér úrræðin. Þá munu þeir sem nú hafa farið af vinnumarkaði til framhaldsnáms ekki geta nýtt sér úrræðin á næstu árum.
    Ellilífeyrisþegar munu ekki njóta úrræðanna, annars vegar þar sem flestir þeirra hafa ekki launatekjur og geta ekki aukið við réttindi sín og hins vegar þar sem þeim er ekki veitt skattfrelsi við úttekt séreignarsparnaðar og greiðslu inn á húsnæðisskuldir.
    Fyrir nefndinni var í flestum tilvikum fjallað um frumvarpið í nánu samhengi við frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána (þskj. 837 í 485. máli). Fram voru lagðar ýmsar upplýsingar sem samandregið gefa mynd af því hvaða hópur manna muni njóta leiðréttingarúrræða þess frumvarps. Áhyggjuefni er að svipaðir hópar lenda utangarðs í báðum tilvikum, svo sem lífeyrisþegar, leigjendur og námsmenn.

Flutningur skattbyrði milli kynslóða.
    Frumvarpinu er ætlað að létta skattbyrði tiltekins hóps skattgreiðenda. Til þess að fjármagna afléttinguna verður skattbyrðin flutt til og lögð á skattgreiðendur framtíðarinnar.
    Fyrirsjáanlegt er að tekjutap ríkis og sveitarfélaga, annars vegar næstu þrjú ár og hins vegar til næstu 40 ára, mun hlaupa á fleiri tugum milljarða. Hækkun fjárhæðarhámarka sem meiri hlutinn leggur til mun auka tekjutapið enn frekar. Fyrir nefndinni kom fram að höfuðborgin muni sennilega þurfa að hækka álögur á íbúa sína til að fjármagna fyrirsjáanlegt tekjutap vegna frumvarpsins.
    Séreignarsparnaðarkerfið var m.a. byggt á þeirri hugsun að með auknum sparnaði mætti létta á almannatryggingakerfinu enda munu stærstu kynslóðir Íslandssögunnar hefja töku eftirlauna á þriðja áratug aldarinnar. Með úrræðum frumvarpsins er þetta kerfi veikt enn frekar en orðið er. Sú úttekt séreignarsparnaðar sem frumvarpið hefur í för með sér kemur til viðbótar tímabundinni heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar sem færð var í lög árið 2009. Frá hruni hafa um 93 milljarðar kr. verið greiddir úr kerfinu með þeirri tímabundnu heimild, en þar er sá stóri munur á að ríki og sveitarfélög hafa á erfiðum tímum fengið fullar skatttekjur af þeim úttektum. Samtals voru um 260 milljarðar kr. til í séreignasparnaðarkerfinu í febrúar síðastliðnum. Með frumvarpinu og tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir 74 milljarða kr. útgreiðslu. Þessi veiking mun auka byrðar almenna lífeyriskerfisins næstu áratugi og stuðla að auknum aðstöðumun milli launþega á almennum vinnumarkaði og þeirra sem njóta sérstakra kjara úr lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og hafa tök á að flýta starfslokum.
    Frumvarpið felur í sér blöndun þriggja ólíkra þátta. Í fyrsta lagi át á útsæði með því að gefnar eru eftir skatttekjur til að greiða inn á skuldir á næstu árum sem aftur mun leiða til aukinnar skattbyrði komandi kynslóða. Í öðru lagi er þeim sem betur standa umbunað fyrir að leggja fyrir. Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér útfærslu á húsnæðissparnaðarreikningum. Margt mælir með slíkum reikningum, en ekki er ljóst hvers vegna blanda þarf húsnæðissparnaðarreikningum saman við viðbótarlífeyriskerfið. Þvert á móti mælir margt með því að húsnæðissparnaðarreikningar fyrir ungt fólk verði ekki tengdir þátttöku á vinnumarkaði. Nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum gera hins vegar ráð fyrir því að slíkt samblandað kerfi verði gert varanlegt.
    Þrátt fyrir framangreint verður að taka það fram að heimild til að nýta skattfrjálsan séreignarsparnað til að greiða hluta kaupverðs við kaup á íbúð er að mati minni hlutans besti hluti frumvarpsins.

Óljós áhrif á sparnað.
    Frumvarpinu virðist m.a. ætlað að hvetja landsmenn til að spara. Að mati minni hlutans er eðlilegt að stefna að því markmiði enda horfur á að einkaneysla aukist næstu ár sem aftur kann að hafa óæskileg áhrif á viðskiptajöfnuð og vöruskiptaafgang.
    Vissulega mun úrræðið hvetja þá sem ekki spara í séreign til að hefja slíkan sparnað. Að öðru leyti er óvíst hvort úrræði frumvarpsins muni hafa aukinn sparnað í för með sér. Úrræðin fela aðeins í sér tilfærslu frá einu sparnaðarformi í annað. Þannig munu þeir sem hingað til hafa lagt fyrir með séreignarsparnaði hafa færi á að umbreyta sparnaðinum í veðhæfa eign sem gefur þeim færi á að taka lán til að fjármagna einkaneyslu. Eftir mikla lífskjaraskerðingu undanfarin ár í kjölfar fjármálahruns þar sem almenningur hefur gengið á sparnað sinn eru sterkar líkur til þess að aukið veðrými í fasteignum verði nýtt til skuldsetningar og fjármögnunar á nauðsynlegri og ónauðsynlegri neyslu. Tilfærsla sparnaðarins gæti því allt eins leitt til aukinnar einkaneyslu.

Vanreifað mál.
    Minni hlutinn telur að málið í heild sinni sé tæknilega hrátt og ekki tilbúið til afgreiðslu úr nefndinni. Óskum minni hlutans um frekari athuganir á efnahagslegum áhrifum var hafnað. Minni hlutinn vísar því ábyrgð á öllum vanköntum sem kunna að koma upp á meiri hlutann.
    Fulltrúar minni hlutans áskilja sér rétt til að gera ítarlegar grein fyrir afstöðu sinni til skuldalækkunaraðgerða ríkisstjórnarinnar í heild í tengslum við afgreiðslu frumvarps til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Alþingi, 8. maí 2014.


Árni Páll Árnason,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Steingrímur J. Sigfússon.