Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 1107  —  319. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (flutningur verkefna, stofnun sjóðs o.fl.).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu Einarsdóttur og Valdimar Inga Gunnarsson fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Valgeir Ægi Ingólfsson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Sigurð Pétursson frá Dýrfiski, Guðna Magnús Eiríksson og Sigurjón Ingvarsson frá Fiskistofu, Höskuld Steinarsson frá Fjarðalaxi, Aðalstein Óskarsson og Albertínu F. Elíasdóttur frá Fjórðungssambandi Vestfjarða, Guðberg Rúnarsson og Jón Kjartan Jónsson frá Landssambandi fiskeldisstöðva, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum, Gísla Jónsson og Viktor Pálsson frá Matvælastofnun, Lenu Valdimarsdóttur og Orra Vigfússon frá NASF – Verndarsjóði villtra laxastofna, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, Ottó Björgvin Óskarsson og Rut Kristinsdóttur frá Skipulagsstofnun, Aðalbjörgu Birnu Guðmundsdóttur, Kristínu Lindu Árnadóttur og Sigrúnu Ágústsdóttur frá Umhverfisstofnun og Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Fiskistofu, Fjarðalaxi, Fjórðungssambandi Vestfjarða, Landssambandi fiskeldisstöðva, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi veiðifélaga, Laxfiskum, Matvælastofnun, NASF – Verndarsjóði villtra laxastofna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum eigenda sjávarjarða, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Veiðimálastofnun.
    Helstu atriði frumvarpsins felast í því að einfalda stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi. Í frumvarpinu eru ýmis nýmæli sem er ætlað að stuðla að aukinni skilvirkni í eftirliti sem og stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Frumvarpið er afrakstur nefndar sem var ætlað að leggja mat á það hvort unnt væri að einfalda núgildandi fyrirkomulag stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi og hraða og einfalda veitingu starfs- og rekstrarleyfa með það að markmiði að gera starfsemina sem skilvirkasta.
    Helstu breytingar á stjórnsýslu málaflokksins samkvæmt frumvarpinu eru að Matvælastofnun gefi út rekstrarleyfi og hafi eftirlit með fiskeldi en það hlutverk er á hendi Fiskistofu samkvæmt gildandi lögum. Til að starfrækja fiskeldisstöð þarf rekstrarleyfi frá Matvælastofnun og starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að Matvælastofnun annist móttöku umsókna beggja leyfa en framsendi Umhverfisstofnun umsókn um starfsleyfi og umsækjandi sæki því um á einum stað.
    Samkvæmt gildandi lögum gefa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga út starfsleyfi til fiskeldisstöðva sem eru undir ákveðnum stærðarmörkum en Umhverfisstofnun veitir önnur starfsleyfi. Skv. 15. gr. frumvarpsins verður Umhverfisstofnun falið að annast útgáfu allra starfsleyfa. Stofnunin tekur því við hlutverki heilbrigðisnefnda og starfsleyfisskyld starfsemi verður á einni hendi verði frumvarpið óbreytt að lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að umsókn um starfsleyfi og rekstrarleyfi skuli afgreiða innan sex mánaða frá því að hún berst, sbr. 3. gr., en fresturinn framlengist þó ef töf verður vegna ófullnægjandi gagna umsækjanda. Nefndin leggur til að við ákvæðið bætist málsliður þess efnis að Matvælastofnun skuli tilkynna umsækjanda innan mánaðar frá því að umsókn berst stofnuninni hvort hún teljist fullnægjandi. Með öðrum orðum fái umsækjandi að vita innan mánaðar ef t.d. þörf er á frekari gögnum. Þá er í 14. gr. kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli gera þjónustusamning við Matvælastofnun um að hin síðarnefnda sinni tilteknum eftirlitsverkefnum Umhverfisstofnunar.
    Í 4. gr. er kveðið á um að áður en rekstrarleyfi er gefið út skuli Matvælastofnun leita umsagnar Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eins og nánar er tilgreint í ákvæðinu. Bent var á við umfjöllun um málið að viðkomandi framkvæmd umsækjanda hefði á þessu stigi undirgengist ferli samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og hefði Skipulagsstofnun því leitað umsagnar stofnana og sveitarfélaga um það hvort framkvæmd væri talin líkleg til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif. Nefndin telur ekki tilefni til að krefjast þess að Matvælastofnun leiti umsagnar sömu aðila í öllum tilfellum og leggur því til að umsagnarferli Matvælastofnunar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna verði heimilt en ekki skyldubundið.
    Í 13. gr. er nýmæli þess efnis að Matvælastofnun geti lagt á dagsektir ef rekstrarleyfishafi fer ekki að fyrirmælum hennar og einnig að stofnunin geti látið vinna ákveðin verk á kostnað rekstrarleyfishafa. Verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun geta beitt sambærilegum þvingunarráðstöfunum og Umhverfisstofnun getur beitt á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nefndin leggur til breytingu á orðalagi b-liðar 13. gr. sem nánar er skýrð síðar í áliti þessu.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að tvær skilgreiningar bætist við 3. gr. laga um fiskeldi, annars vegar skilgreining á hugtakinu burðarþolsmat og hins vegar skilgreining á hugtakinu sjókvíaeldissvæði. Í burðarþolsmati felst mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi. Hafrannsóknastofnun eða annar aðili sem ráðuneytið hefur samþykkt framkvæmir burðarþolsmat. Með sjókvíaeldissvæði er samkvæmt frumvarpinu átt við fjörð eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi en afmörkun þess taki á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna af dreifingu sjúkdómsvalda. Nefndin leggur til viðbót við síðarnefnda skilgreiningu í þá veru að hún feli í sér tilvísun til þess möguleika að fleiri en einn rekstraraðili starfræki sjókvíaeldisstöð á sama svæði með skilyrtri samræmingu um útsetningu og hvíld svæðis.
    Líkt og framar er getið tekur Matvælastofnun við stjórnsýslu og eftirliti með fiskeldi samkvæmt frumvarpinu. Því var haldið fram fyrir nefndinni að rök stæðu til þess að Fiskistofa sinnti áfram stjórnsýslu og ákvarðanatöku vegna ráðstafana sem væru teknar þegar leyfishafi í fiskeldi missti eldisfisk úr fiskeldisstöð, sbr. 13. gr. laga um fiskeldi. Samkvæmt þessu ákvæði gildandi laga ber leyfishafa að grípa til ákveðinna ráðstafana ef fiskur sleppur úr eldisstöð og getur Fiskistofa ef þörf krefur einnig gripið til ráðstafana í kjölfarið. Framangreindum ráðstöfunum er ætlað að takmarka áhrif sem slysasleppingar hafa á villta stofna. Verði frumvarpið óbreytt að lögum tekur Matvælastofnun þetta hlutverk Fiskistofu yfir. Fullyrt var fyrir nefndinni að þetta ákvæði samræmdist ekki lögum um lax- og silungsveiði sem væru grundvöllur verndunar og stjórnar á veiðum laxfiska en samkvæmt þeim er stjórnsýsla og eftirlit í höndum Fiskistofu. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að Fiskistofa fari áfram með þau verkefni sem kveðið er á um í 13. gr. laganna um veiðar fisks sem sleppur. Í því skyni leggur nefndin til breytingu á 2. gr. og b-lið 13. gr. frumvarpsins.
    Í 5. gr. felst nýmæli sem er ætlað að stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum. Þar er til að mynda mælt fyrir um að í umsókn um rekstrarleyfi skuli koma fram að gæðakerfi fiskeldisstöðvar og eldisbúnaður standist kröfur reglugerðar um fiskeldi, einnig að burðarþolsmat fylgi umsókn. Getið er um þau fylgiskjöl sem skulu fylgja umsókn og er þar m.a. getið um afrit af ákvörðun eða áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Nefndin leggur til nákvæmara orðalag um þetta atriði þannig að vísað verði til þess að umsókn skuli fylgja afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar nema ef fyrir liggur heimild stofnunarinnar til að samtímis sé unnið að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
    Í 7. gr. er mælt fyrir um að kveðið skuli á um skyldu til erfðamerkinga í rekstrarleyfi þannig að unnt verði að rekja uppruna eldisfiska til ákveðinna eldisstöðva. Nefndinni barst ábending um orðalag ákvæðisins en fullyrt var fyrir nefndinni að leiðir sem eru notaðar til að rekja uppruna felist ekki í eiginlegum erfðamerkingum. Því leggur nefndin til breytt orðalag a-liðar 7. gr. þannig að kveðið verði á um að í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skuli kveðið á um skyldu til notkunar erfðavísa svo að unnt verði að rekja uppruna eldislax til tiltekinnar sjókvíaeldisstöðvar.
    Nefndin leggur einnig til viðbót við greinina í þá veru að ráðherra sé skylt að setja reglugerð um utanáliggjandi merkingu á eldislaxi. Nefndin telur slíka merkingu stuðla að því að auðveldara verði að aðgreina eldislax frá villtum laxi. Með breytingartillögunni áréttar nefndin utanáliggjandi merkingu, svo sem uggaklippingu, og kveður sérstaklega á um skyldu ráðherra til að mæla fyrir um hana í reglugerð.
    2. mgr. c-liðar 7. gr. lýtur að því að stuðlað verði að hagkvæmri nýtingu svæða. Ef nýting handhafa rekstrarleyfis er minni en 40% af burðarþoli sjókvíaeldissvæðis skal leyfi gefið út tímabundið, eða til allt að fjögurra ára, en með heimild til framlengingar um fjögur ár. Ef fleiri umsóknir liggja fyrir um nýtingu á sama svæði skal Matvælastofnun, við lok leyfistíma, veita þeim rekstrarleyfi sem nær hagkvæmastri nýtingu nema ef munur á nýtingu er óverulegur.
    Í b-lið 9. gr. er að finna nýmæli þess efnis að umsækjandi um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis skuli leggja fram sönnun fyrir því að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni sem geti hlotist af starfseminni. Kveðið er á um að tryggingin skuli gilda meðan rekstrarleyfi er í gildi og í tvö ár eftir að gildistími þess rennur út. Talið er upp í ákvæðinu, þó ekki með tæmandi hætti, hvað geti talist til tjóns. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu þannig að kveðið verði á um að ábyrgðartrygging takmarkist við að greiða kostnað sem fellur til við að fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegir ráðstafanir vegna sjúkdómahættu, sbr. 21. gr. b.
    Í 10. gr. er gert ráð fyrir að fiskeldisstöðvar skuli hefja starfsemi innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis. Við umfjöllun um málið var rætt um að þriggja ára viðmið gæti verið fullstrangt en ytri aðstæður gætu leitt til þess að starfsemi gæti ekki hafist sem leyfishafi hefði ekki á valdi sínu. Nefndin leggur því til að Matvælastofnun geti veitt undanþágu frá þriggja ára viðmiði ef leyfishafi sýnir fram á að málefnalegar ástæður búi að baki töfinni en þó skal stofnunin ekki veita lengri viðbótarfrest en 12 mánuði.
    Í 12. gr. er lagt til að stofnaður verði umhverfissjóður sjókvíaeldis sem er fjármagnaður með árgjöldum rekstrarleyfishafa. Úr sjóðnum skal greiddur kostnaður vegna burðarþolsrannsókna, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn hans ákveður. Nefndin leggur til þrenns konar breytingar á 12. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að veita veiðiréttarhafa styrk úr sjóðnum til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem hann hefur orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Í öðru lagi er lagt til að einn stjórnarmaður bætist við í stjórn sjóðsins og skal hann tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga. Í þriðja lagi er lagt til að árlegt gjald í sjóðinn hækki úr 6 SDR í 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða.
    Í 16. og 17. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í þeim felst heimild fyrir Skipulagsstofnun til að taka ekki til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu eða tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun ef erindi lýtur að sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem er þegar til meðferðar hjá stofnuninni. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 16. gr. til nánari skýringar. Í fyrsta lagi er lagt til breytt orðalag 1. málsl. 16. gr. þannig að ákvæðið verði ekki takmarkað við framkvæmdir á grundvelli þeirrar greinar enda getur málsmeðferð viðkomandi framkvæmdar byggst á öðrum greinum laganna. Í öðru lagi er lagt til breytt orðalag 2. málsl. sömu greinar til að endurspegla betur að hin nýja framkvæmd megi ekki vera innan tiltekinnar fjarlægðar frá þeirri sem er þar fyrir. Samkvæmt reglugerð um fiskeldi er gert ráð fyrir 5 km fjarlægð milli fiskeldisstöðva. Í þriðja lagi er lagt til nákvæmara orðalag lokamálsliðar greinarinnar og tekið upp orðalag sem er að finna í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpinu.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar til viðbótar á frumvarpinu. Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein þar sem lögð er til viðbót við markmiðsgrein 1. gr. laga um fiskeldi í þá veru að þar verði vísað til þess að í sjókvíaeldi standist eldisbúnaður og framkvæmd ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Jafnframt er lagt til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði um breytingu á 1. mgr. 11. gr. þeirra laga í þá veru að hnykkja á því að sjókvíaeldisstöð standist ströngustu staðla sem eru fyrir hendi hvað varðar fiskeldismannvirki í sjó. Hér er einkum átt við norskan staðal NS 9415. Með þessum viðbótum er ætlunin að auka öryggi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis.
    Nefndin leggur til breytingu á 11. gr. frumvarpsins í þá veru að 3. mgr. 19. gr. laganna falli brott og því verði ekki heimild í lögunum til að flytja eldistegundir milli fiskeldisstöðva. Hyggist rekstrarleyfishafi rækta aðra tegund mun hann því þurfa að sækja um útgáfu nýs leyfis í samræmi við ákvæði laganna.
    Þá leggur nefndin til að við bætist ákvæði þess efnis að ráðherra fái heimild til að kveða í reglugerð á um skyldu til að nota geldstofn í sjókvíaeldi.
    Við umfjöllun um málið var fjallað um skipulagsmál á hafi. Nefndinni barst skýrsla Skipulagsstofnunar um skipulag haf- og strandsvæða sem stjórntæki til að móta heildstæða áætlun um nýtingu og vernd haf- og strandsvæða til framtíðar. Í skýrslunni kemur fram að tilgangur strandsvæðastjórnunar og hafskipulags sé að stuðla að vernd og viðhaldi vistkerfa, draga úr árekstrum ólíkrar starfsemi á haf- og strandsvæðum og stuðla að betri og upplýstari ákvarðanatöku. Fram kom við umfjöllun um málið að þegar væri hafin vinna við frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða.
    Nefndin bendir á að frumvarpið lýtur einkum að því að einfalda stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi þó svo að í því felist einnig breytingar sem lúta að öryggisþáttum og því að dregið verði úr umhverfisáhrifum af starfseminni. Starf þeirrar nefndar sem undirbjó frumvarpið laut að því að leggja mat á hvort hægt væri að einfalda gildandi fyrirkomulag stjórnsýslu og eftirlits með starfsemi fiskeldis. Líkt og framar er getið leggur nefndin til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem lúta að því að styrkja enn frekar aukið öryggi í fiskeldi. Nefndin leggur til að ráðherra hefji sem fyrst heildarendurskoðun laga um fiskeldi enda hafa miklar framfarir orðið í fiskeldi hin síðari ár og nauðsynlegt er að löggjöf endurspegli þá þekkingu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björt Ólafsdóttir og Þórunn Egilsdóttir rita undir álit þetta með fyrirvara.
    Ásmundur Friðriksson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir nefndarálitið, sbr. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.


Alþingi, 9. maí 2014.

Jón Gunnarsson,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir,
með fyrirvara.
Kristján L. Möller. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir,
með fyrirvara.