Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1153  —  484. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans
til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju. Á fund hennar komu Þórarinn G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Ólafur Darri Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Snædís Ögn Flosadóttir frá Arion banka hf. og Sara Fuxén, Magnús Fannar Sigurjónsson og Kjartan Smári Höskuldsson frá Íslandsbanka hf.
    Við 2. umræðu komu fram óskir um að nefndin fundaði fyrir 3. umræðu til þess að meta áhrif breytingartillagna sem samþykktar voru við 2. umræðu.
    Fyrir nefndinni kom fram að hinar samþykktu breytingar kynnu að hafa einhver áhrif á þróun einkaneyslu, eftirspurnar, verðbólgu og viðskiptajafnaðar en mjög óljóst væri hver áhrifin yrðu. Þó var einnig bent á að áhrifin mundu koma fram á tiltölulega löngum tíma og yrðu væntanlega lítil. Þá kom fram að stjórnvöld gætu með mótvægisaðgerðum unnið gegn áhrifunum og að sennilega fælu úrræði frumvarpsins í sér hvatningu til séreignarsparnaðar.
    Fyrir nefndinni var gerð athugasemd við orðalagið „á þeim tíma“ í f-lið 1. tölul. breytingartillagna sem samþykktar voru við 2. umræðu (þskj. 1071). Bent var á að orðalagið kynni að valda þeim misskilningi að átt væri við að rétthafi væri ekki eigandi húsnæðis á tilteknum tímapunkti. Meiri hlutinn leggur til breytingu á síðari málsl. 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins svo að skýrt komi fram að átt er við tímabil þegar nýting heimildarinnar stendur yfir en ekki tiltekinn tímapunkt.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Síðari málsliður 1. mgr. b-liðar 1. gr. orðist svo: Skilyrði er að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin er nýtt.

    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. maí 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Pétur H. Blöndal.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason,
með fyrirvara.