Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1167  —  568. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, með síðari breytingum (veiðigjöld 2014/2015, afkomustuðlar).

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Annar minni hluti bendir sérstaklega á að eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöld umtalsvert. Rökin fyrir því fólust aðallega í því að koma þyrfti til móts við minni og meðalstórar útgerðir. Engu síður var lækkunin flöt og breytingartillögum þáverandi minni hluta um að mæta minni útgerðum með hækkuðu frítekjumarki var hafnað. 2. minni hluti undirstrikar enn mikilvægi þess að komið sé til móts við minni og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi í stað þess að beita flatri lækkun. Brýnt er að greina þau fyrirtæki sem teljast til minni og meðalstórra en ekki kemur fram að slík greining hafi farið fram. Þegar slík greining liggur fyrir verður unnt að koma til móts við þau fyrirtæki án þess að lækka veiðigjöld vegna þeirra sem eiga auðvelt með að standa undir þeim.
    Á innan við ári leggur stjórnarmeirihlutinn í aðra umferð og leggur til verulega viðbótarlækkun veiðigjalda á næsta fiskveiðiári, auk þess að leggja til að fella niður eða stórlækka veiðigjöld á tilteknar fisktegundir á yfirstandandi fiskveiðiári.
    Annar minni hluti telur frumvarpið sem og lagabreytinguna sem fólst í lögum nr. 84/2013 byggjast á afar veikum efnisforsendum sem eru ekki studdar trúverðugum, tölulegum gögnum. Þó fyrir liggi vísbendingar um að afkoma a.m.k. sumra greina sjávarútvegsins hafi nokkuð versnað frá metárinu 2012 verður að hafa í huga að hún er enn góð og með því besta sem hefur sést í sjávarútvegi í sögulegu samhengi. Verðþróun virðist einnig vera jákvæðari og á það t.d. við um saltfiskafurðir, auk þess sem liðkast hefur um sölu og birgðahald hefur þar með minnkað. Rétt er að minna á að lækkun verðvísitölu sjávarútvegsins hefði samkvæmt álagningu á grundvelli gildandi laga sjálfkrafa leitt til samsvarandi lækkunar sérstaks veiðigjalds, enda innbyggt í ákvæði laga 74/2012, um veiðigjöld, mikið næmi fyrir slíkum breytingum. Hér er hins vegar gengið miklu lengra og það svo langt að allt virðist stefna í að bolfiskhluti sjávarútvegsins greiði nær ekkert sérstakt veiðigjald á næsta ári að teknu tilliti til lækkunarréttar.
    Annar minni hluti telur jákvætt í sjálfu sér að leitast við að skipta álagningu veiðigjalda betur niður á einstakar fisktegundir, enda alltaf að því stefnt að þróa kerfið í þá átt frá því ný lög um veiðigjöld voru sett. Forsendurnar í gildandi frumvarpi eru hins vegar mjög veikar og því í reynd að lokum um pólitískar ákvarðanir að ræða.
    Þá gagnrýnir 2. minni hluti að í athugasemdum við frumvarpið er röksemdafærsla sem klárlega gengur í þá átt að færa aðferðafræði veiðigjaldanna frá þeirri meginhugsun að auðlindin er sameign þjóðarinnar og á hún því eðlilega kröfu á hlutdeild í umframarði eða rentu af henni. 2. minni hluti telur þó til bóta að stjórnarandstaðan hefur náð fram þeirri breytingu á málinu að um hreina bráðabirgðaráðstöfun er að ræða fyrir næsta fiskveiðiár enda gildir helsta ákvæði frumvarpsins í ákvæði til bráðabirgða fyrir næsta fiskveiðiár og þegar það er liðið munu lögin um veiðigjöld standa óbreytt.
    Annar minni hluti bendir á að í umsögn Indriða H. Þorlákssonar um málið kemur fram að lögunum um veiðigjöld hefði fremur verið ætlað að vera auðlindamál en tekjuöflunarmál. Hann bendir á að lögin hefðu verið sett með það grundvallarsjónarmið í huga að fiskstofnarnir væru eign þjóðarinnar og hluti af náttúruauðlindum hennar. Þá vísaði hann til þess í umsögn sinni að markmið laganna væri annars vegar að með tekjum af veiðigjöldum ætti að greiða þann kostnað við umsýslu sjávarútvegs sem ríkið stæði straum af og hins vegar að sameign þjóðarinnar á auðlindinni fæli í sér að hún nyti arðs sem skapaðist af nýtingu auðlindarinnar. Í umsögninni kemur fram það álit að ekki sé lengur samhengi milli framangreinds markmiðs laganna og ákvörðunar veiðigjalda. Þá er í umsögninni bent á það sem 2. minni hluti hefur þegar getið um, þ.e. að engin efnisleg sjónarmið sé að finna í frumvarpinu eða athugasemdum með því um hvernig heildarfjárhæð veiðigjalda er ákveðin.
    Annar minni hluti telur allt of langt gengið í illa rökstuddri og verulegri lækkun veiðigjalda í annað sinn á innan við ári. Lækkunin mun leiða til mikils tekjutaps fyrir ríkissjóð og umfram það sem þörf er á til að mæta tímabundið lítillega lakari afkomu í sjávarútvegi frá því sem hún hefur albest orðið fyrir aðeins einu og hálfu ári. 2. minni hluti leggst því gegn frumvarpinu.

Alþingi, 15. maí 2014.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.