Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 25  —  25. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fjármögnun byggingar nýs Landspítala.


Flm.: Kristján L. Möller, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Helgi Hjörvar,
Katrín Júlíusdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir.


    Alþingi ályktar að kjósa nefnd sex þingmanna til að vinna með stjórnvöldum að því að fylgja eftir ályktun Alþingis um byggingu nýs Landspítala. Nefndin fjalli um fjármögnunarleiðir, áfangaskiptingu og önnur álitamál sem tengjast framkvæmd málsins. Þá efli nefndin umræðu um málið með það að markmiði að skapa sátt um framkvæmdina. Í nefndinni sitji fulltrúar allra flokka á Alþingi. Nefndin skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. maí 2015.

Greinargerð.

    Á síðasta löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga, 16. maí 2014, um byggingu nýs Landspítala (10. mál) með 56 atkvæðum og engu mótatkvæði. Með ályktuninni fól Alþingi ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.
    Bygging nýs Landspítala er eitt mesta og brýnasta þjóðþrifamál sem við stöndum frammi fyrir í dag. Fyrir liggur skýr vilji Alþingis til að „ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans … og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun er tryggð.“ Að mati flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu er mikilvægt að Alþingi fylgi eftir ályktun sinni frá sl. vori og knýi á um að unnið verði hratt og örugglega að því að ljúka fjármögnun verkefnisins svo hægt sé að ráðast í framkvæmdir sem allra fyrst.
    Sú leið sem hér er lögð til felur í sér að komið verði á fót nefnd þingmanna úr öllum flokkum sem fái það hlutverk að fjalla um fjármögnunarleiðir, áfangaskiptingu og önnur álitamál tengd verkefninu samhliða því að skapa sátt um framkvæmdina í þjóðfélaginu. Fyrir liggur að verkefnið er komið á nokkurt skrið og nauðsynlegt að nýta þau verðmæti sem felast í þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin.
    Ekki er þörf á frekari sérfræðivinnu við undirbúning verkefnisins, en samstöðu vantar á vettvangi stjórnmálanna til að setja framkvæmdir í forgang. Því er eðlilegt næsta skref að Alþingi kjósi nefnd þingmanna allra flokka til að efla og þróa þá samstöðu og ýta verkefninu áfram.

Hvers vegna þurfum við að byggja nýjan Landspítala?
Fjármunatap.
    Verði ekki af endanlegri sameiningu Landspítalans munu miklir fjármunir tapast. Rekstur Landspítalans í núverandi mynd er mjög óhagkvæmur og viðhald þeirra bygginga sem hann hýsa er orðið verulegt og aðkallandi. Reksturinn er annars vegar óhagkvæmur vegna þess hve dreifð starfsemin er, enda fer starfsemin fram í u.þ.b. 100 húsum á 17 stöðum víða um höfuðborgarsvæðið. Erlendir sérfræðingar hafa áætlað að rekstrarlegur ávinningur af endanlegri sameiningu Landspítalans geti numið u.þ.b. 2,6 milljörðum kr. á ári. Það samsvarar u.þ.b. 6,5% af rekstrarkostnaði spítalans árið 2012. 1 Sparnaðurinn fæst einkum með betri nýtingu tækja og mannafla, t.d. varðandi skipulagningu á vöktum og í starfsemi stoðdeilda eins og rannsókna og röntgendeilda. Tvöföldun á sjúkrahússtarfsemi við Hringbraut og í Fossvogi er dýr. Við núverandi aðstæður þarf t.d. tvær rannsóknardeildir, röntgendeildir, skurðstofueiningar og gjörgæsludeildir. Hagræðing af sameiningu slíkra deilda er augljós. Þá eru bráðamóttökur fimm talsins þar sem umtalsverðir fjármunir fara í leigu og viðhald gamalla bygginga.
    Jafnframt er mikið óhagræði af tíðum flutningum sjúklinga milli starfsstöðva spítalans. Dreifing starfseminnar hefur einnig þau áhrif að teymisvinna er minni en æskilegt væri. Fyrirsjáanlegt er að hægt verði að spara mikið í rekstri spítalans með betri nýtingu mannafla, minni flutningskostnaði og lægri leigu á húsnæði undir starfsemina.
    Þá er ótalið að í nýjum spítala verða einmenningstofur með sér salernum. Vitað er að sýkingum á deildum með einbýlum fækkar um allt að 45% og við það styttist legutími og lyfjanotkun sem einnig sparar fjármuni.
    Loks má nefna að á Landspítalanum hefur orðið vart við raka- og mygluskemmdir. Slíkt kallar á mikinn kostnað til lagfæringar auk þess sem fjarvistir starfsmanna vegna veikinda þessu tengdu eru umtalsverðar.
    Að mati flutningsmanna má líta á hvert ár, sem bygging nýs Landspítala tefst, sem ávísun á fjármunatap.

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar.
    Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast, þjóðin eldist og um leið eykst tíðni langvinnra sjúkdóma. Það þýðir að þörf fyrir þjónustu mun aukast verulega á næstu árum og áratugum. Stórir árgangar Íslendinga eru nú komnir á sjötugsaldur en sá aldursflokkur þarf hvað mest á þjónustu sjúkrahúsa að halda. Fram til ársins 2025 mun Íslendingum fjölga um 13% eða úr 319.000 í 361.000 samkvæmt mannfjöldaspám Hagstofu Íslands. Líklegt má telja að árið 2025 muni hlutdeild sjötugra og eldri á landinu hafa aukist um allt að 40% frá því sem nú er og árið 2030 um 60%. Að óbreyttu mun Landspítalinn ekki geta tekið við þessari fjölgun. Til að svo verði þarf nýr Landspítali að koma til. Núverandi húsnæði mun engan veginn anna aukinni þjónustuþörf vegna hækkandi meðalaldurs.
    Bygging 77 herbergja sjúkrahótels á lóð nýs Landspítala mun nýtast mörgum og ekki síst fólki sem þarf vegna veikinda eða sjúkra aðstandenda að dvelja fjarri heimabyggð. Reynslan sýnir að slík hótel bæta þjónustu við sjúklinga og fækka legudögum.

Öryggi sjúklinga – gæði meðferðar.
    Bættur aðbúnaður eykur öryggi sjúklinga og flýtir bata. Flutningar á veikum sjúklingum milli húsa sem nú tíðkast eru oft verulega áhættusamir. Þá er vitað að mistökum, t.d. varðandi lyfjagjafir, fækkar þegar eingöngu er um einbýli að ræða og það dregur úr spítalasýkingum. Þá geta minni háttar inngrip, skoðanir og viðtöl farið fram á sjúkrastofunni sem fækkar flutningum á sjúklingum og sparar tíma. Ljóst er að í hentugu húsnæði verður auðveldara að skipuleggja og bæta starfsemina, t.d. flæði sjúklinga og verkferla. Einnig er þá möguleiki á margs konar tækninýjungum sem auka gæði og minnka kostnað.
    Núverandi húsnæði hamlar því að hægt sé að taka upp nýjungar sem auka mjög gæði meðferðar. Má þar nefna svo kallaða PET-skanna sem er afar mikilvægt tæki til greiningar og ákvörðunar um meðferð krabbameina, en í dag þarf að senda sjúklingar utan til slíkrar rannsóknar. Sérhæft húsnæði þarf undir slík tæki og fylgja þeim yfirleitt kröfur um mikið tæknirými, t.d. fyrir loftræstibúnað.
    Þá er ljóst að erfiðara verður að fá sérfræðilækna og annað sérhæft heilbrigðisstarfsfólk heim til starfa ef aðbúnaður og tækjakostur verður ekki bættur verulega. Bygging nýs sjúkrahúss er því liður í að snúa við þeim atgervisflótta sem þegar er hafinn.

Nálægð við háskólasamfélagið.
    Áætlanir um að byggja nýjan Landspítala nálægt Háskóla Íslands veitir tækifæri til að samnýta frekar en nú er þau tæki og þá tækni sem til staðar er. Þá skapar nálægðin grundvöll til sameinaðs vettvangs fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem stundar vísindarannsóknir og þekkingarsköpun. Líklegt er að slíkt umhverfi dragi að vel menntaða heilbrigðisstarfsmenn.

Heildarkostnaður og áfangaskiptingar.
    Heildarkostnaður við aðalbyggingar nýs Landspítala og bílastæðahúss, meðferðarkjarna, rannsóknarhúss og sjúkrahótels er á verðlagi í apríl sl. áætlaður um 50,5 milljarðar kr. Þar af er áætlaður byggingarkostnaður meðferðarkjarnans 36,9 milljarðar kr. með fullnaðarhönnun, lóðarfrágangi og áætluðum öðrum kostnaði. Framkvæmdatími er áætlaður fimm ár og talið að fullnaðarhönnun muni taka allt að tvö ár. Áætlaður heildarkostnaður við rannsóknarhús er 9,1 milljarðar kr. og sjúkrahótel 1,9 milljarðar kr. Nýjar sjúkrahúsbyggingar kosta því um 48,1 milljarðar kr.
    Bílastæðahús er áætlað að kosti 2,3 milljarða kr., en frá dregst tæpur 1 milljarður kr. vegna samkomulags ríkis og borgaryfirvalda. Endurnýjun eldra húsnæðis er talinn kosta 13,4 milljarða kr., og nýr tækjabúnaður 12,5 milljarða kr. Áætlun um sölu eigna spítalans hljóðar upp á 8,8 milljarða kr. Samtals er því heildarkostnaður við framanritað áætlaður 67,6 milljarðar kr.
    Flutningsmenn þessarar tillögu eru sannfærðir um að það er bæði hentugt og vel framkvæmanlegt að áfangaskipta þessu verkefni. Farsælast væri að byrja á brýnasta verkefninu, þ.e. meðferðarkjarnanum sem áætlað er að kosti 36,9 milljarða kr. Raunhæft er að ætla fimm ár til að byggja hann, eins og áður sagði. Þegar meðferðarkjarninn verður tekinn í notkun er talið að strax megi leggja niður þá starfsemi spítalans sem fram fer í Fossvogi.

Stærsta hindrunin.
    Stærsta hindrunin í vegi þess að hefja nú þegar byggingu nýs Landspítala er að ekki hefur tekist að tryggja fjármögnun. Nefndar hafa verið nokkrar leiðir í þeim efnum. Lagt er til að nefndin fjalli sérstaklega um þessar leiðir og greini hvaða valkostir henta fyrirliggjandi verkefni best. Þær leiðir sem hér er vísað í voru raktar í greinargerð með þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala á síðasta þingi (10. mál). Þar ber fyrst að nefna hefðbundna leið opinberra framkvæmda en þá þarf að huga að því að efla tekjustofna ríkisins eða beita enn meiri niðurskurði í ríkisrekstri. Í öðru lagi mætti fjármagna framkvæmdina með lántöku, annaðhvort í gegnum Nýjan Landspítala ohf. eða ríkissjóð sjálfan. Í þriðja lagi mætti ráðast í sérstaka tekjuöflun sem yrði eyrnamerkt nýrri spítalabyggingu, annaðhvort með framtíðarsölu ríkiseigna eða sérstökum skattstofni.
    Ljóst er að leggja þarf til einhverjar breytingar á lögum til að verkefnið nái fram að ganga. Þannig þarf væntanlega að lögfesta nauðsynlegar heimildir til lántöku og afla gjaldaheimilda. Hins vegar er ekki þörf á að breyta 14. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, ef farin verður sú leið að fela Nýjum Landspítala ohf. að annast og kosta framkvæmdir þar sem slíkt félag mundi færa bygginguna til eignar og afskrifta á notkunartíma. Um þá leið er einmitt fjallað í nokkrum greinum frumvarps að nýjum heildarlögum um opinber fjárlög sem var lagt fram á síðasta þingi, en ekki afgreitt. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing er fyrirhugað að leggja það frumvarp aftur fyrir Alþingi.
    Loks leggja flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu áherslu á að nefndin leiti leiða til að tryggja þá víðtæku samfélagssátt um verkefnið sem nauðsynleg er til að hægt sé að ráðast í svo stórt og aðkallandi verkefni.

         
         
         
         
         
         
         
         



Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá bls. 21 í skýrslu Hospitalet AS frá 20. október 2011: The National University Hospital of Iceland. The New Hospital Project. New facility: assessment of operational gains. sótt 18. september 2014:
     nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/driftsokonomisk_analyse_landsspitali_111020-final_version.pdf.