Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 105  —  105. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003,
með síðari breytingum (EES-mál).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Í stað orðanna „að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti“ í b-lið 5. gr. laganna kemur: enda hafi kröfuhafi ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Ef launin í nýja starfinu eru lægri en í fyrra starfi skal greiða honum bætur fyrir launamissi skv. 1. málsl. sem nemur launamismuninum en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur mismuninum á lægri laununum og hámarksfjárhæð skv. 1. mgr. 6. gr.

2. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innleiðing.


    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 51/2009 frá 24. apríl 2009, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta til breytinga á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er lagt fram í annað sinn en það var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi 2013– 2014 án þess að fjallað hafi verið um það efnislega á því þingi.
    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að tryggja fullnægjandi innleiðingu tilskipunar 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, en lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, var meðal annars ætlað að innleiða eldri tilskipanir um sama efni. Í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA til velferðarráðuneytisins hefur komið fram að stofnunin telur skilyrði b-liðar 5. gr. laganna, um að ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfum um bætur fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi sé háð því að kröfuhafi hafi verið í virkri atvinnuleit í uppsagnarfresti, ekki samrýmast túlkun Evrópudómstólsins í máli C-435/10 Ardennen á 3. og 4. gr. tilskipunarinnar. Skv. 3. gr. tilskipunarinnar skal tryggja launamanni lágmarksvernd þegar vinnuveitandi verður gjaldþrota með því að greiða ógreiddar launakröfur launamanns sem byggjast á ráðningarsamningi hans við fyrrum vinnuveitanda. Aðildarríkjunum er síðan heimilt að takmarka ábyrgðir sínar við nánar tilgreindan tíma sem umræddar kröfur hafa orðið til á og setja hámark á fjárhæð þeirra krafna sem njóta ábyrgðar, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar. Að mati dómstólsins eru þær undanþágur sem tilskipunin kveður á um í 4. gr. tæmandi taldar og ber að túlka þær þröngri lögskýringu. Þar af leiðandi komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríkjum væri óheimilt að takmarka þá vernd sem tilskipuninni er ætlað að veita með því skilyrði að launamenn hafi skráð sig sem atvinnuleitendur í kjölfar þess að þeir misstu störf sín vegna gjaldþrots vinnuveitanda. Það er því jafnframt niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA að b-liður 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa feli ekki sér fullnægjandi innleiðingu á umræddum ákvæðum tilskipunarinnar þar sem sú vernd sem þar er veitt í formi bóta fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi sé of takmörkuð.
    Að höfðu samráði við Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun er með frumvarpi þessu því lagt til að fellt verði brott skilyrði b-liðar 5. gr. laganna um virka atvinnuleit í uppsagnarfresti svo að krafa um bætur fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi njóti ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa. Í stað þess er lagt til að launamenn hjá vinnuveitendum sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eigi rétt á bótum fyrir launamissi í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi enda hafi þeir ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum atvinnurekanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Greiðslum frá Ábyrgðasjóði launa er ætlað að tryggja launafólki lágmarksvernd á uppsagnarfresti þegar vinnuveitandi verður gjaldþrota en tilgangur uppsagnarfrests er meðal annars að gera launamanni kleift að leita sér að öðru starfi eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá fyrri vinnuveitanda. Venjan er að gerð er krafa um vinnuframlag launamannsins á þeim tíma enda þótt dæmi séu um að vinnuveitandi og launamaður komist að samkomulagi um önnur starfslok. Eðli málsins samkvæmt er ekki gerð krafa um vinnuframlag launamanns við gjaldþrot vinnuveitanda þar sem rekstur hefur þá alla jafna verið stöðvaður. Hins vegar gildir sú meginregla að launamanni hjá gjaldþrota vinnuveitanda ber engu síður að takmarka tjón sitt með því að leita sér að öðru starfi. Almennt gildir að fái launamaður annað starf á uppsagnarfresti og geti þegar hafið störf falla greiðslur í uppsagnarfresti frá fyrri vinnuveitanda niður samhliða því að ekki er lengur krafist vinnuframlags hans. Er það jafnframt venja að í tilvikum þegar ekki er krafist vinnuframlags launamanns í uppsagnarfresti þá falla greiðslur vinnuveitanda niður fái launamaður annað launað starf áður en frestinum lýkur. Þykir því eðlilegt að sömu reglur eigi við þegar Ábyrgðasjóður launa greiðir bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti enda tilgangurinn að mæta launamissi þann tíma. Hins vegar í þeim tilvikum þegar laun fyrir starfið hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda voru hærri en launin fyrir hið nýja starf er lagt til að sjóðurinn ábyrgist launamismuninn en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur mismuninum á lægri laununum og hámarksgreiðslu skv. 1. mgr. 6. gr. laganna þar sem sjóðurinn ábyrgist ekki hærri fjárhæð en þar er kveðið á um hverju sinni. Samkvæmt reglugerð nr. 1208/2008, um hámark ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa, er hámarksábyrgð á kröfum launamanna vegna b-liðar 5. gr. laganna 374.000 kr. miðað við hvern mánuð. Þannig ábyrgist sjóðurinn ekki mismun launa þegar lægri launin nema 374.000 kr. eða hærri fjárhæð. Séu launin fyrir starfið hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda lægri fjárhæð en 374.000 kr. og launin fyrir nýja starfið eru enn lægri þá ábyrgist sjóðurinn launamismuninn. Að öðrum kosti ábyrgist sjóðurinn mismuninn á laununum fyrir nýja starfið og þeirri fjárhæð sem hámarksábyrgð sjóðsins vegna bóta fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi er hverju sinni. Sem dæmi má nefna mann sem hefur fengið starf sem hann fær greitt fyrir 250.000 kr. í mánaðarlaun en hafði 400.000 kr. fyrir starfið hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda. Þá er lagt til að Ábyrgðasjóður launa ábyrgist kröfu um bætur fyrir launamissi sem nemur 374.000 kr. (hámarksábyrgð sjóðsins) – 250.000 kr. (lægri launin) eða 124.000 kr. fyrir hvern mánuð. Hið sama á við um laun sem eru greidd sem reiknað endurgjald þegar kröfuhafi hefur hafið sjálfstæða starfsemi eftir að hafa misst fyrra starf sitt hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda. Ekki er um að ræða breytingu frá þeirri framkvæmd sem verið hefur viðhöfð hjá Ábyrgðasjóði launa.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sem fer með vörslu Ábyrgðasjóðs launa hefur það verið mjög fátítt að kröfuhöfum hafi verið synjað um greiðslu bóta vegna launamissis í þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi á þeim grundvelli að viðkomandi hafi ekki getað sýnt fram á með ótvíræðum hætti að hann hafi verið í virkri atvinnuleit þann tíma. Því er gert ráð fyrir að sú breyting sem lögð er til með frumvarpi þessu hafi lítil áhrif á útgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa,
nr. 88/2003, með síðari breytingum (EES-mál).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við innleiðingu tilskipunar 2008/94/EB, um verndun launafólks við gjaldþrot vinnuveitanda þeirra.
    Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði niður skilyrði um að kröfur í Ábyrgðasjóð launa vegna slita á ráðningarsamningi njóti aðeins ábyrgðar ef kröfuhafi hafi ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti. Í stað þess er lagt til að fyrrum launamenn hjá vinnuveitendum sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eigi rétt á bótum vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi hafi þeir ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum atvinnurekanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Ekki er talið að þessi breyting hafi áhrif á kröfuhafa þar sem fátítt er að þeim hafi verið synjað um greiðslu bóta vegna þess ákvæðis sem fellt er úr gildi. Þá er bætt við ákvæði sem felur í sér að ef laun í nýju starfi eru lægri en í fyrra starfi skuli greiða viðkomandi bætur vegna launamissis sem nemur launamismuninum en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur mismuninum á lægri laununum og hámarksbótafjárhæð sjóðsins sem er í dag 374 þús. kr. á mánuði. Þetta er óbreytt fyrirkomulag frá þeirri framkvæmd sem viðhöfð er í dag.
    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er því ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.