Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 271  —  242. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008,
með síðari breytingum (flóttamenn).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Flóttamenn sem stjórnvöld hafa veitt hæli eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum þessum að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns samkvæmt lögum um útlendinga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í velferðarráðuneytinu. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Sjúkratryggingar Íslands og Útlendingastofnun, sem styðja framlagningu frumvarpsins.
    Tilefni frumvarpsins er að tryggja jafna stöðu og samræma rétt allra þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa veitt stöðu flóttamanns hér á landi til sjúkratrygginga almannatrygginga, þ.e. að ákvæði 16. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, taki ekki einungis til kvótaflóttamanna heldur einnig þeirra sem fengið hafa stöðu flóttamanns eftir hælismeðferð eða fjölskyldusameiningu.
    Samkvæmt gildandi ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga um sjúkratryggingar eru flóttamenn sem ríkisstjórnin býður til Íslands sjúkratryggðir frá komudegi að því tilskildu að fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, er eingöngu vísað til flóttamanna sem koma hingað til lands á grundvelli 51. gr. laga um útlendinga, þ.e. flóttamanna sem koma í boði stjórnvalda, svokallaðra kvótaflóttamanna. Ákvæðið gildir ekki um þá sem koma til landsins á eigin vegum og fá réttarstöðu flóttamanns eftir hælismeðferð. Um þá gildir almenna reglan í 10. gr. laga um sjúkratryggingar um sex mánaða biðtíma eftir sjúkratryggingu.
    Þeir sem fá stöðu flóttamanna eftir hælismeðferð og hafa fengið útgefið skírteini til staðfestingar á dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun eru jafnan ósjúkratryggðir á biðtíma nema þeir kaupi sjúkratryggingu hjá vátryggingafélagi. Tekið skal fram að þessir einstaklingar njóta heilbrigðisþjónustu í bráðatilvikum á meðan þeir eru í hælismeðferð.
    Umræðan um breytingu á 1. mgr. 16. gr. laga um sjúkratryggingar hófst í kjölfar breytinga sem gerðar voru árið 2010 á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum. Með lögum nr. 115/2010, um breyting á lögum nr. 96/2002, var meðal annars hugtakið flóttamaður víkkað út. Samkvæmt lögunum getur útlendingur nú fengið stöðu flóttamanns á grundvelli 12. gr. j ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins, sbr. skilgreiningu í 44. gr. laganna. Sama á við um ríkisfangslausan einstakling. Með þessum breytingum, svo og fjölgun hælisleitenda á heimsvísu, hefur þeim flóttamönnum sem fengið hafa hæli á Íslandi fjölgað. Fram til ársins 2007 hafði einum hælisleitanda verið veitt staða flóttamanns hér á landi en frá 2007 til 2010 var 20 einstaklingum veitt staða flóttamanns. Árið 2011 fengu 13 einstaklingar réttarstöðu flóttamanns eftir hælismeðferð, þar af fimm á grundvelli fjölskyldusameiningar. Árið 2012 fengu 15 einstaklingar réttarstöðu flóttamanns, þar af 11 á grundvelli fjölskyldusameiningar, fimm einstaklingar fengu réttarstöðu flóttamanns árið 2013 en nú þegar hafa um 18 einstaklingar fengið stöðu flóttamanns það sem af er árinu 2014.
    Flóttamenn í Noregi, Svíþjóð og Danmörku eru sjúkratryggðir eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt og almennt er ekki gerður greinarmunur þar á flóttamönnum sem koma landsins í boði stjórnvalda eða sem hælisleitendur.
    Rétt er að vekja athygli á að með þessari breytingu er þeim sem eru í hælismeðferð ekki veittur aðgangur að sjúkratryggingakerfinu.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum (flóttamenn).

    Með frumvarpinu er lagt til að samræma rétt allra þeirra sem hafa stöðu flóttamanns til sjúkratrygginga almannatrygginga. Það felur í sér að ákvæði laganna taki ekki einungis til kvótaflóttamanna heldur einnig þeirra sem fengið hafa stöðu flóttamanns eftir hælismeðferð. Fram til þessa hefur síðarnefndi hópurinn þurft að kaupa sjúkratryggingu frá tryggingafélögum fyrstu sex mánuðina eftir að hafa fengið stöðu flóttamanns.
    Gert er ráð fyrir að þessi breyting muni ná til tiltölulega fárra einstaklinga en líkt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins fengu 13 einstaklingar stöðu flóttamanns eftir hælismeðferð árið 2011, 15 árið 2012, 5 árið 2013 og 18 það sem af er ári 2014. Breytingin felur í sér að sá kostnaður sem viðkomandi einstaklingar hafa þurft að standa straum af fyrstu sex mánuðina eftir að hafa fengið stöðu flóttamanns færist að einhverju leyti yfir á sjúkratryggingar en gert er ráð fyrir að sá kostnaður sé óverulegur. Í því sambandi má benda á að heildarkostnaður sjúkratrygginga árið 2013 vegna einstaklinga sem höfðu stöðu flóttamanns var einungis um 100 þús. kr.
    Því má ætla að lögfesting frumvarpsins leiði til óverulegrar aukningar útgjalda fyrir ríkissjóð.