Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 278  —  249. mál.




Fyrirspurn



til mennta- og menningarmálaráðherra um framhaldsskóla.

Frá Steingrími J. Sigfússyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur
og Bjarkeyju Gunnarsdóttur.


     1.      Hvenær, hvernig og með hvaða rökum var afkomutrygging minnstu framhaldsskólanna, sem tryggt hefur þeim ákveðið lágmark fjárframlaga undanfarin ár, afnumin?
     2.      Á hvaða grundvelli eru áætlanir ráðuneytisins um þróun nemendafjölda í framhaldsskólum, sem liggja til grundvallar fjárlagatillögum, byggðar?
     3.      Liggur fyrir ákvörðun um styttingu náms á framhaldsskólastigi í þrjú ár? Ef svo er, hvenær og á hvaða grunni var sú ákvörðun tekin, hvenær og hvernig var hún kynnt og hvaða leiðsögn hafa stjórnendur framhaldsskóla fengið frá ráðuneytinu varðandi námskrárgerð í því sambandi?
     4.      Hefur ráðherra opinberlega eða á fundum tjáð vilja sinn til sameiningar framhaldsskóla og að nám á framhaldsstigi skuli færast á hendur færri og stærri eininga í landinu? Ef svo er, hvenær og hvernig var það gert og á hvaða laga- og stjórnsýslugrunni er slíkt byggt?
     5.      Hvernig hefur samráði við sveitarfélögin og grunnskólastigið annars vegar og við háskólastigið hins vegar, þ.m.t. við samtök starfsmanna og foreldra, varðandi mögulegar breytingar á námi á framhaldsskólastigi verið háttað? Hversu margir samráðsfundir hafa verið haldnir, bréf skrifuð, ráðstefnur farið fram o.s.frv.?
     6.      Hver er afstaða ráðherra til þess að auka áfram aðgengi nemenda í heimabyggð að námi á fyrstu árum framhaldsskólastigs, sbr. slíkar námsdeildir á Patreksfirði, Þórshöfn og víðar?
     7.      Er það liður í opinberri stefnumótun ráðuneytisins að takmarka aðgang fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólanámi eins og frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 gefur til kynna?
     8.      Hvernig er hlutfallsskipting framhaldsskólanema 25 ára og eldri milli bóknáms og list- og verknáms?
     9.      Hvaða áform hefur ráðherra um fjármögnun vinnustaðanámssjóðs?
     10.      Telur ráðherra heimilt að breyta fjárframlögum til framhaldsskólanna innan starfsársins og á miðju fjárlagaári með því að fækka nemendaígildum?
     11.      Mun ráðherra samþykkja námsbrautir fyrir framhaldsskóla fyrir næsta skólaár sem gera ráð fyrir lengri heildarnámstíma til lokaprófs en þremur árum?


Skriflegt svar óskast.