Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 305  —  106. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks
innan Evrópska efnahagssvæðisins.


Frá velferðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Evu Margréti Kristinsdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Jafnréttisstofu, Persónuvernd og Samiðn, sambandi iðnfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 frá 5. apríl 2011. Reglugerðin leysir af hólmi eldri reglugerð nr. EBE/1612/68, sama efnis, en þeirri reglugerð hafði verið breytt nokkuð oft og því endurútgefin sem reglugerð nr. ESB/492/2011. Reglugerðin felur í sér reglur um frjálsa för launafólks og fjölskyldna þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins sem teljast til grundvallarréttinda og er einn hluti af fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins.
    Frumvarpið felur ekki í sér breytingu á gildandi rétti. Í 2. gr. frumvarpsins er ákvæði um rétt aðstandenda ríkisborgara ríkja innan EES-svæðisins til að starfa hér á landi óháð þjóðerni og er það efnislega samhljóða 1. gr. a laga nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að hér á landi skuli vera eftirlitsaðili sem hafi eftirlit með því að ákvæði reglugerðar nr. ESB/ 492/2011 séu virt. Slík eftirlitsnefnd hefur verið starfandi frá árinu 1993, sbr. 2. gr. laga nr. 47/1993, og er lagt til að skipan nefndarinnar verði óbreytt. Loks er lagt til að ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 47/1993 haldi gildi sínu til 1. júlí 2015 en það er sett vegna inngöngu Króatíu í Evrópusambandið. Í ákvæðinu felst að lögin gilda ekki um ríkisborgara Króatíu til 1. júlí 2015 og um þá gildir því II. kafli laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, eins og verið hefur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 15. október 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Björt Ólafsdóttir. Anna María Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Brynjar Níelsson. Guðbjartur Hannesson.
Páll Jóhann Pálsson. Álfheiður Ingadóttir. Óli Björn Kárason.