Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 401  —  329. mál.




Beiðni um skýrslu



frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra um lykilþætti er varða
mögulegan útflutning orku um sæstreng.


Frá Össuri Skarphéðinssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Katrínu Júlíusdóttur,
Kristjáni L. Möller, Valgerði Bjarnadóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur,
Guðbjarti Hannessyni, Helga Hjörvar og Árna Páli Árnasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um ýmis mikilvæg atriði er varða nánari skoðun á mögulegri lagningu sæstrengs til útflutnings á raforku með það að markmiði að hægt verði að taka lokaákvörðun innan fárra ára. Meðal þess sem óskað er að verði fjallað um eru eftirfarandi atriði:

1. Lykilgögn og tímalína ákvörðunar.
    Óskað er eftir að ríkisstjórnin skýri ítarlega hvaða lykilgagna hún telur að þurfi að afla og hvaða lykilþætti þurfi að rannsaka áður en hægt er að taka ákvörðun um hvort hagkvæmt sé fyrir íslensku þjóðina að ráðast í lagningu sæstrengs. Í tengslum við það verði lögð fram tímasett áætlun um hvernig hún hyggst standa að fyrrgreindri gagnaöflun og rannsóknum, hvaða stofnunum eða fyrirtækjum hún hyggst fela þau verk eða leita til um vinnslu, hvort leitað verði ráðgjafar erlendra sérfræðinga/stofnana og þá um hvaða verkefni það yrði.
    Fram komi hverjum þeirra þarf að vera lokið áður en ráðist er í könnunarviðræður við bresk stjórnvöld skv. 4. lið tillagna sem fram koma í skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu, sem lögð var fram af iðnaðar- og viðskiptaráðherra (59. mál 143. löggjafarþings). Samkvæmt þeirri skýrslu, hagkvæmniúttekt Hagfræðistofnunar HÍ og umræðum á Alþingi um málið eru slíkar viðræður forsenda þess að hægt sé að afmarka betur þau lykilatriði sem mest óvissa ríkir um, svo sem um orkuverð, lengd samninga, hugsanlega fjármögnun og möguleika á ívilnunum fyrir endurnýjanlega íslenska orku.
    Óskað er eftir sérstakri umfjöllun um fyrirhugaðar könnunarviðræður við bresku ríkisstjórnina. Gerð verði grein fyrir hvenær þær hefjist, hvaða stofnanir eða opinber fyrirtæki verði ríkisstjórninni til ráðgjafar, og hversu langan tíma er áætlað að þær taki. Hlutverk Landsnets og íslenskra orkufyrirtækja í ferlinu verði skýrt.
    Á grundvelli framangreinds verði skýrt hvenær ríkisstjórnin áformar að geta tekið endanlega ákvörðun um hvort ráðist verður í lagningu sæstrengs.

2. Ívilnunarkerfi Breta gagnvart endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Óskað er umfjöllunar um þær breytingar sem hafa orðið á umgjörð laga og reglna í Bretlandi um endurnýjanlega orkugjafa og ívilnanakerfi sem þeim tengjast, eða eru líklegar miðað við stefnu breskra stjórnvalda, og hvernig þær gætu haft áhrif á sölu raforku frá Íslandi. Skýrt verði m.a. hvort ríkisstjórnin telji breytingarnar opna möguleika fyrir orkuframleiðendur á Íslandi til að gera langtímasamninga sem stuðli að fyrirsjáanlegu tekjustreymi og minnki þannig áhættu bæði orkuseljanda og fjárfesta. Óskað er upplýsinga um hvernig eðli slíkra samninga gæti orðið samkvæmt fyrrnefndu ívilnanakerfi, svo sem til hve langs tíma þeir gætu orðið, hve miklar og hvers eðlis ívilnanir kynnu að verða, um skilyrði – ef einhver eru, og lágmarksverð, auk annars sem þykir máli skipta.
    Hafi viðræður, formlegar eða óformlegar, átt sér stað milli iðnaðar- og viðskiptaráðherra og einhvers ráðherra bresku ríkisstjórnarinnar um málefni tengd sæstreng er óskað upplýsinga um hvenær, og hvort þær, ásamt breytingum á breskri löggjöf, gefi tilefni til að ætla að samningar á grundvelli breska kerfisins gætu skapað grundvöll fyrir slíka framkvæmd.

3. Mótvægi gegn hugsanlegum hækkunum á orkuverði.
    Óskað er umfjöllunar um áhrif sæstrengs á orkuverð til heimila og á almenna atvinnustarfsemi. Hvaða valkosti telur ríkisstjórnin mögulega sem mótvægi við hugsanlegum hækkunum, sbr. yfirlýsingu forstjóra Landsvirkjunar um að stefnt sé að því að iðnfyrirtækjum verði áfram tryggð samkeppnishæf kjör sem geri þeim kleift að vaxa áfram á Íslandi. 1 Enn fremur hvort reglugerðir sem innleiddar hafa verið í gegnum EES-samninginn, eða þær reglugerðir sem eru í farvatninu hjá Evrópusambandinu, hafi áhrif á möguleika Íslendinga til að bregðast við hækkunum á orkuverði til heimila og atvinnustarfsemi og ef svo er, hvort ríkisstjórnin telji mögulegt að fá undanþágur frá slíkum ákvæðum ef eftir því er sótt.
    Sérstaklega verði fjallað um leiðir sem miða að því að koma í veg fyrir að orkuverð til heimila hækki umfram verðlagshækkanir með tilkomu sæstrengs. Beðið er um útreikninga á hvað niðurfelling eða endurgreiðsla virðisaukaskatts á orku og/eða dreifingu og flutningi orku gæti vegið upp mikla hækkun á orkuverði, og hver staða íbúa á „köldu svæðunum“ yrði þá í samanburði við íbúa á hitaveitusvæðum, annars vegar að óbreyttum lögum og hins vegar að samþykktu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um jöfnunargjald á dreifingu raforku, sbr. þskj. 107 á þessu þingi. Mundu þær niðurgreiðslur sem nú eiga sér stað á dreifingu raforku á „köldum“ svæðum þurfa að breytast með tilkomu sæstrengstengingar eða mundu þær áfram falla innan ramma EES? Enn fremur verði fjallað um hvort eignarhald Landsnets á hluta sæstrengsins og tekjur af þeim eignarhlut gætu leitt til lækkunar á gjaldskrá almennings og iðnaðar fyrir flutningskostnað, sbr. það sem fram kom á opnum fundi um arðsemi orkuútflutnings í Hörpu 10. september sl.
    Frekari leiðir sem hafa verið til umræðu til að mæta verðhækkunum til heimila verði einnig reifaðar. Má skapa skjól gegn verðhækkunum með því að gera langtímasamninga á markaðsverði áður en starfræksla sæstrengs hefst? Hve langir gætu slíkir samningar orðið? Leyfa alþjóðlegar skuldbindingar framlengingu slíkra samninga eftir að íslenska kerfið hefur tengst hinu evrópska? Óskað er umfjöllunar um hvort framangreindar leiðir gætu, ein þeirra eða fleiri, komið í veg fyrir óæskileg verðlagsáhrif á heimili og fyrirtæki í almennri atvinnustarfsemi.
    Reifuð verði hugsanlega áhrif sæstrengs á orkufreka stóriðju, m.a. hversu langt skjól núverandi orkusamningar mundu veita henni og hver áhrifin gætu orðið, bæði á markaðsstöðu íslenskra orkufyrirtækja og samkeppnisstöðu þeirra þegar þeim sleppir. Lýst verði reynslu Norðmanna á þessu sviði.

4. Framkvæmdir innan lands.
    Skýra þarf hvaða framkvæmdir, svo sem línulagnir, þarf að ráðast í varðandi styrkingu flutningskerfisins innan lands í tengslum við lagningu sæstrengs. Vænst er upplýsinga um hvort um sé að ræða framkvæmdir sem beinlínis tengjast sæstreng, eða hvort um er að ræða flýtingu verkefna sem eru á dagskrá án tillits til útflutnings á raforku. Er líklegt að hærra orkuverð vegna útflutnings og aukin nýting flutningskerfisins vegna flutninga til og frá sæstreng skapi svigrúm til að byggja upp innviði þess hraðar og nýta jarðlínur í meira mæli en ella? Hvort er líklegra að náttúrufarslegur kostnaður verði meiri eða minni vegna útflutnings á raforku um sæstreng eða vegna sölu til stóriðju?
    Gerð verði grein fyrir því hvernig útflutningur um streng falli að þeim virkjanakostum sem samþykktir eru í rammaáætlun og spám um innlenda orkuþörf. Mikilvægt er að í umfjölluninni sé leitað svara við því hvort útflutningur raforku af þeirri stærðargráðu sem stjórnvöld hafa rætt sé líklegur til að auka ágengni á óraskaða náttúru umfram það sem samþykkt er með rammaáætlun. Er útflutningurinn líklegur til að ýta undir frekari framleiðslu á vindorku hér á landi? Hver er reynsla Norðmanna af áhrifum útflutnings orku á norska náttúru?
    
5. Áhrif sæstrengs á öryggi og áhættu kerfisins.
    Skýrð verði áhrif sæstrengs á almannaöryggi, t.d. gagnvart náttúruhamförum, stóráföllum á einstökum virkjanasvæðum eða langvarandi þurrkum. Sömuleiðis þarf að greina hvaða veikleika tenging við evrópska kerfið gæti skapað, m.a. hvort sú staða gæti komið upp að vegna samninga um sölu erlendis þyrfti að skerða rafmagn til innlendra aðila. Vænst er að fjallað verði um bilanir samkvæmt reynslu af sambærilegum strengjum og hvort nauðsynlegt sé að gera kröfur um uppsett varaafl í ljósi þess að einungis ein tenging verður við evrópska netið.
    Fjallað verði um hvort og hvernig sæstrengur hafi áhrif á áhættudreifingu í orkuvinnslu og jafnframt á afhendingaröryggi innan lands.

6. Eignarhald og rekstur sæstrengs.
    Í ljósi umfangs og áhættu verkefnisins er óskað umfjöllunar um hvaða möguleika stjórnvöld sjá í aðkomu Íslendinga að rekstri og eignarhaldi á sæstreng. Svara er m.a. óskað við eftirfarandi spurningum: Hvað mælir gegn því að eignarhald sæstrengs sé alfarið á höndum erlendra aðila? Er æskilegt að hluti strengsins sé í íslenskri eign til að tryggja íslenska hagsmuni? Verður eigendum strengsins heimilt að verða beinir þátttakendur í orkuviðskiptum? Hvaða leiðir eru til að koma í veg fyrir að eigendur strengsins misnoti einokun sína varðandi verðlagningu á flutningsgetu? Er talið mögulegt að fjárhagsleg og rekstrarleg áhætta sé tekin að einhverju leyti af öðrum en eigendum sæstrengsins, t.d. með tilliti til áhættu sem breska ríkið hefur samþykkt að taka við uppbyggingu á kjarnorkuverinu í Hinkley Point C þrátt fyrir að það verði í eigu franska orkufyrirtækisins EDF? Hvað er líklegt að endingartími strengs sé langur? Hvað er, með vísan í erlend fordæmi, gert ráð fyrir að sæstrengur borgi sig upp á löngum tíma að teknu tilliti til eðlilegrar ávöxtunarkröfu? Er í sviðsmyndum gert ráð fyrir að eignarhald færist alfarið eða að hluta yfir á íslenskar hendur þegar því er náð? Eru fordæmi fyrir slíku?

7. Lagning, kostnaður og fjármögnun.
    Óskað er upplýsinga sem fela m.a. í sér eftirfarandi: Hvað kostar að leggja 900 MW streng frá Íslandi til Skotlands og hver er líkleg að verði nýting hans? Hve mikið af nýtingunni má áætla að verði vegna innflutnings á raforku? Hvernig er líklegt að flutningsgeta verði seld, þ.e. með uppboðum, föstum samningum eða hvoru tveggja? Er líklegt að gjald fyrir notkun strengsins yrði háð notkun (kr./MWst) eða yrði gjaldtakan föst upphæð á ári (kr./ár)? Hvað þyrfti flutningsverð að vera í hvoru tilfelli um sig til að strengurinn borgi sig upp á 20 árum?
    Hvert er álit ráðgefandi aðila, svo sem Landsnets, National Grid og íslenskra orkufyrirtækja, á hversu auðvelt yrði að fjármagna lagningu strengsins? Er gert ráð fyrir að íslenska ríkið ábyrgist að einhverju leyti fjárfestingar sem tengjast sæstreng? Hver er möguleg aðkoma breska ríkisins og Evrópusambandsins að fjármögnun?
    Hve miklar fjárfestingar eru nauðsynlegar í styrkingu á flutningskerfinu, sbr. 4. tölul., og vegna umbreytistöðva innan lands, á hve langt árabil mundu þær dreifast, og hve mörg ársverk má ætla að þær skapi?
    Hve langan tíma tæki að leggja 900 MW streng frá því að ákvörðun lægi fyrir, hvernig yrði verkinu áfangaskipt, hve mikið yrði orkutap og mun lengd strengsins og dýpið sem hann fer um skapa vandamál sem ekki hafa verið leyst annars staðar?

8. Viðskiptalíkan, ávinningur og orkuverð.
    Óskað er umfjöllunar um viðskiptahugmyndina að baki útflutningi á íslenskri orku, m.a. um hversu mikilvægur sveigjanleiki vatnsafls er og af hverju hann er eftirsótt vara á evrópska markaðnum, um samspil sölu inn á álagstoppa við samninga um fasta afhendingu, um lengd samninga og hvernig meðalverð til íslenskra orkusala mundi endurspegla lágmarksverð og uppboðsverð hverju sinni? Eru þau viðskiptalíkön sem möguleg eru að einhverju leyti frábrugðin markaðssetningu Norðmanna á vatnsorku sinni? Hvaða eiginleikar við framleiðslu hér á landi valda því að útflutningur um streng kynni hugsanlega að verða arðvænlegri fyrir Íslendinga en Norðmenn, sbr. opinn fund í Hörpu 10. september sl. 2
    Hversu mikilvægur hluti er innflutningur orku þegar markaðsverð er hagstætt á erlendum mörkuðum? Hvenær og við hvaða aðstæður væri það einkum, hverjir mættu flytja orku inn, og hvernig yrði hún nýtt? Hefur innflutningur á orku einhver neikvæð áhrif fyrir íslenska orkuframleiðendur?
    Er líklegt að eftirspurn eftir sveigjanleika vatnsafls aukist með aukinni hlutdeild vind- og sólarorku í orkuframleiðslu Evrópu?
    Hvernig má ætla að meðalverð fyrir MW-stund af endurnýjanlegri raforku gæti þróast árin 2020–2040 miðað við spár þar til bærra stofnana breska ríkisins og Evrópusambandsins, og að teknu tilliti til breska ívilnunarkerfisins? Til samanburðar verði reifaðar innlendar spár um raforkuverð til sama tíma miðað við einangrað kerfi.
    Hver er hugsanlegur virðisauki innan lands miðað við framangreint? Hvaða áhrif má ætla að lagning 900 MW sæstrengs hefði á landsframleiðslu?
    Jafnframt verði fjallað um hvernig mögulegur ávinningur Íslands gæti skipst á milli hagsmunaaðila, svo sem orkufyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins og hvort auðlindarentuskattar væru góð leið til að ná fram sanngjarni skiptingu, sbr. löggjöf þar um í Noregi.
Neðanmálsgrein: 1
1     Fréttablaðið, 29. júní 2013.
Neðanmálsgrein: 2
2     vib.is/fraedsla/sjonvarp/sjonvarp/?itemid=e72b646a-38db-11e4-bde2-005056b00087, Hörður Arnarson á opnum fundi í Hörpu um sæstreng: „Although it creates a fantastic value for Norway it would create much more value for Iceland.“