Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 487  —  130. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur
um gjafir til ríkisstofnana.


     1.      Hafa ríkisstofnanir fullan ráðstöfunarrétt yfir gjöfum sem til þeirra renna? Ef svo er, á það jafnt við um:
              a.      tækjagjafir, svo sem til skóla eða heilbrigðisstofnana,
              b.      peningagjafir, svo sem frá einstaklingum og fyrirtækjum eða í kjölfar safnana,
              c.      fasteignir, svo sem hús eða jarðir?
    Ríkisstofnanir hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt yfir gjöfum sem þeim eru gefnar. Skv. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skal afla heimilda í lögum til sölu fasteigna, eignarhluta í félögum, skipa, flugvéla, safna og safnhluta sem hafa að geyma menningarverðmæti og annarra eigna sem hafa verulegt verðgildi. Þetta ákvæði á einnig við um verðmæti sem stofnanir í A-hluta ríkissjóðs hafa fengið að gjöf frá einstaklingum eða lögaðilum. Þegar slík gjöf hefur verið móttekin gilda um hana almennar reglur um eignir í eigu ríkisins, sem þýðir að forstöðumaður tiltekinnar ríkisstofnunar hefur ekki sjálfdæmi um sölu eða aðra ráðstöfun fasteigna eða annarra eigna sem verulegt verðgildi hafa. Sala fasteigna og þeirra verðmæta sem upp eru talin í framangreindri lagagrein skal þar af leiðandi ekki eiga sér stað nema að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum. Ef ætlunin er að andvirði sölunnar renni til tiltekinna verkefna eða til ákveðinnar stofnunar þarf samhliða lagaheimildinni að óska eftir því við Alþingi að í henni felist einnig ráðstöfunarheimild andvirðisins. Að fenginni heimild Alþingis til sölunnar og eftir atvikum til ráðstöfunar á andvirði gilda síðan almennar reglur ríkisins um sölu og söluferli fasteigna í eigu ríkisins óháð því hvort eignin hefur upphaflega verið gjöf eða ekki. Þegar um er að ræða gjafir þarf jafnframt að taka tillit til kvaða sem gefandi kann að hafa sett um meðferð gjafarinnar eða andvirði hennar. Þegar langt er um liðið frá því að gjöf var gefin getur einnig verið full ástæða til að skoða hvernig best verði komið til móts við slíkan vilja gefanda eignarinnar eða kvaða við ráðstöfun hennar. Hafi það málefni sem gefandi var að styrkja með gjöfinni verið fært úr tiltekinni ríkisstofnun til annarrar stofnunar kann það að gefa tilefni til að skoða hvort ekki séu efni til að andvirði gjafarinnar renni til þess málefnis sem gefandinn var að styrkja frekar en til þeirrar stofnunar sem tók við gjöfinni á sínum tíma.
    Almennt má segja að ráðstöfunarheimild ríkisstofnana sé víðtækari varðandi tækja- og peningagjafir en varðandi eignir sem falla undir 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Ljóst er að heimildir forstöðumanns til að ráðstafa slíkum gjöfum þurfa þó að vera í samræmi við almennar heimildir forstöðumanns til að ráðstafa fjármunum stofnunar og búnaði óháð því hvort um gjöf sé að ræða eða ekki. Slík ráðstöfun þarf auk þess að vera innan þess lagaramma sem gilda um stofnanir ríkisins og forstöðumenn og í samræmi við vilja gefandans ef hann liggur fyrir eða þær kvaðir sem settar hafa verið á gjöfina.
    Í 35. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram að ríkisstofnunum sé heimilt án sérstakrar lagaheimildar að selja lausafé sem stofnanir nota við starfsemi sína. Ætla má að þetta ákvæði eigi einnig við um lausafé sem stofnun hefur fengið að gjöf. Söluandvirði skal skilað í ríkissjóð samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins en viðkomandi stofnun getur hins vegar óskað eftir heimild til að ráðstafa andvirðinu til endurnýjunar á búnaði í samræmi við efni greinarinnar.

     2.      Er ríkisstofnunum heimilt að taka við gjöfum sem fylgja kvaðir frá gefanda?
    Mælt er fyrir um í 36. gr. laga um fjárreiður ríkisins að ríkisstofnunum sé aðeins heimilt að þiggja gjöf, sem gefin er með kvöðum eða skilyrðum sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, að fyrir liggi samþykki Alþingis. Almennt er óskað eftir að Alþingi veiti slíkt samþykki í heimildargrein 6. gr. fjárlaga.

     3.      Er eitthvert eftirlit haft með meðferð og ráðstöfun gjafa?
    Samkvæmt 13. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, hefur ráðherra eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir málefnasvið hans. Ekki er haft sérstakt eftirlit með meðferð og ráðstöfun gjafa umfram almennar eftirlitsskyldur ríkisins og ráðuneyta gagnvart slíkum stofnunum.

     4.      Bera ríkisstofnanir kostnað af gjöfum sem þær taka við, svo sem fasteignaskatt og viðhaldskostnað?
    Ríkisstofnanir bera almennt kostnað af þeim eignum sem þær hafa til umráða.

     5.      Hafa ríkisstofnanir heimild til að ráðstafa arði af gjöfum, svo sem hlunnindum og leigutekjum?
    Ríkisstofnunum er almennt heimilt að ráðstafa arði af gjöfum innan þeirra rekstrarheimilda sem stofnun hefur og í samræmi við þær heimildir sem lög um fjárreiður ríkisins mæla fyrir um.

     6.      Hafa stofnanir heimild til að selja gjafir, svo sem listaverk, tæki eða fasteignir? Ef svo er, hvaða reglur gilda um slíka sölu?
    Varðandi heimild Alþingis til sölu á eignum sem falla undir 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins vísast til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Í reglugerð nr. 206/2003, um ráðstöfun eigna ríkisins, kemur fram hvaða reglur gilda um sölu á eignum ríkisins.

     7.      Hafa ríkisstofnanir ráðstöfunarrétt yfir sölutekjum af gjöfum? Ef svo er, gilda sömu reglur um ráðstöfun söluhagnaðar af gjöfum og ráðstöfun peningagjafa?
    Ríkisstofnanir hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt yfir sölutekjum af gjöfum þar sem tekjur af sölu eigna teljast til ríkistekna, sbr. 3. tölul. 9. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Eins og fram hefur komið getur Alþingi hins vegar ákveðið, í tengslum við veitingu lagaheimildar til ráðstöfunar eigna skv. 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins, að söluandvirði ákveðinnar eignar verði ráðstafað með tilteknum hætti. Hægt er að óska eftir sambærilegri heimild varðandi lausafé, sbr. 35. gr. sömu laga.
    Litið hefur verið svo á að ríkisstofnanir hafi heimild til að ráðstafa peningagjöfum í samræmi við vilja gefanda, t.d. til tækjakaupa. Slík ráðstöfun þarf samt sem áður að samrýmast þeim verkefnum eða því málefni sem stofnun hefur verið falið að annast.

     8.      Hafa gjafir áhrif á framlög til ríkisstofnana í fjárlögum?

    Almennt hafa gjafir ekki áhrif á framlög til ríkisstofnana í fjárlögum. Verulegar gjafir kunna þó í einhverjum tilvikum að hafa áhrif til breytinga á fjárlögum. Ef tiltekið verkefni, t.d. bygging fasteignar til ákveðinna nota, yrði að fullu fjármögnuð með peningagjöf verður að ætla að sama verkefni yrði ekki einnig fjármagnað með framlögum á fjárlögum. Við slíkar aðstæður má aftur á móti gera ráð fyrir að fjárveiting til umræddrar ríkisstofnunar mundi þá í staðinn taka mið af öðrum þáttum, svo sem auknum rekstrarkostnaði vegna byggingarinnar eða breyttri starfsemi stofnunarinnar í tengslum við bygginguna. Slíkar ákvarðanir um fjármagn byggjast eftir sem áður á rekstraráætlunum stofnunar og ákvörðunum fjárveitingarvaldsins.