Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 724  —  419. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu og Ingimund Einarsson og Símon Sigvaldason frá dómstólaráði.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði í lögunum um að héraðsdómurum fjölgi í héraði úr 38 í 43 verði framlengt um eitt ár eða til 1. janúar 2016. Með lögum nr. 147/2009 var dómurum í héraði fjölgað um fimm, úr 38 í 43, vegna mikils álags á dómstóla í kjölfar bankahrunsins. Með lögum nr. 138/2012 var heimildin til að fjöldi dómara væri 43 framlengd til 1. janúar 2014 og með lögum nr. 115/2013 var heimildin framlengd til 1. janúar 2015 þar sem fyrirséð þótti að áfram yrði mikið álag á dómstólunum sem bregðast þyrfti við.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að álag á dómstólunum væri enn mikið. Ekki hefur verið leyst úr öllum ágreiningsmálum sem varða slitastjórnir bankanna né heldur öllum málum frá embætti sérstaks saksóknara og ýmsum fleiri málum sem tengjast hruni viðskiptabankanna haustið 2008, til viðbótar við þann fjölda mála sem er á borði dómstóla. Þá hefur orðið mikil fjölgun í öðrum málaflokkum auk þess sem vinnu við að koma á fót millidómstigi lýkur innan tíðar. Full þörf er að bregðast við þessu og hafa sama fjölda dómara áfram um sinn, þ.e. að þeir séu 43.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Páll Valur Björnsson, Elsa Lára Arnardóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. desember 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Guðbjartur Hannesson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.