Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 769  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fulltrúar minni hluta fjárlaganefndar standa saman að breytingartillögum sem lagðar eru fram við 3. umræðu. Í þeim felst m.a. að skattur sem hingað til hefur verið kallaður sykurskattur verði ekki afnuminn og mundi það skila ríkissjóði 3 milljörðum kr. í tekjur árið 2015. Lagt er til að verja þessum 3 milljörðum kr. í heilbrigðiskerfið enda er þar víða mikil fjárþörf. Þannig verði veittar 500 millj. kr. til geðheilbrigðismála og sett fjármagn í Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri, heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna í Reykjavík og S-merkt lyf. Eðlilegt er að skattur á óhollustu eins og sykur sé nýttur til reksturs heilbrigðiskerfisins.
    Fulltrúar minni hlutans lögðu til við 2. umræðu að útvarpsgjaldið héldist óbreytt á næsta ári til að mæta rekstrarvanda Ríkisútvarpsins. Sú tillaga var felld. Nú leggja fulltrúar minni hlutans til að útvarpsgjaldið verði 18.600 kr. sem þýðir óbreytt útvarpsgjald í hálft ár.
    Þá leggja fulltrúar minni hlutans fram flestar breytingartillögur sínar sem kallaður voru aftur við 2. umræðu. Meiri hlutinn tók tillit til tveggja breytingartillagna minni hlutans, þ.e. að fullu varðandi málefni hælisleitenda og að hluta varðandi úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Afkoman 2015.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar hækkanir á gjaldahlið fjárlaga við 3. umræðu og nema þær 325,2 millj. kr. Heildargjöld ríkissjóðs eru nú áætluð 650.114,4 millj. kr. og tekjurnar 653.693,0 millj. kr. Heildarjöfnuður er áætlaður 3.578,6 millj. kr. Því má ekki mikið út af bera ef afgangur á að vera á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Svigrúmið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs er afar lítið en flestir eru sammála um að það sé mjög mikilvægt til að ná niður gríðarháum vaxtakostnaði ríkissjóðs. 3. minni hluti hefur ítrekað gagnrýnt skuldaniðurfellingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar sem miða að því að niðurgreiða verðtryggð fasteignalán. Þeim fjármunum ætti frekar að verja í að greiða niður skuldir ríkissjóðs og í uppbyggingu innviða.

Safnliðir.
    Á síðasta kjörtímabili var vinnulagi í fjárlaganefnd breytt á þann hátt að ýmsum safnliðum var vísað til ráðuneytanna. Var þetta m.a. gert til að tryggja jafnræði umsækjenda og vandaða stjórnsýslu. Það kom því verulega á óvart hversu margir slíkir liðir voru í breytingartillögum meiri hlutans við 2. umræðu. Hafði ekki farið fram nein umræða í nefndinni um að breyta vinnulagi á þann hátt. Við 3. umræðu leggur meiri hlutinn til að veita enn fleiri slíka styrki án þess að nefndarmenn hafi séð umsóknir, rökstuðning eða annað sem á að liggja fyrir þegar opinberu fé er útdeilt. Verið er að hverfa frá fyrra fyrirkomulagi sem var ætlað að tryggja jafnræði og fagleg vinnubrögð og er það miður.

Ríkisútvarpið.
    Áform stjórnvalda um að lækka útvarpsgjald úr 19.400 kr. í 17.800 kr. á næsta ári og 16.400 kr. á fjárlögum fyrir árið 2016 gerir það að verkum að ráðast þarf í mikinn niðurskurð sem mun hafa umtalsverð áhrif á rekstur Ríkisútvarpsins. Þverpólitísk stjórn þess stendur sameinuð gegn þeim áformum sem birtast í fjárlagafrumvarpinu eins og kom m.a. fram á fundi fjárlaganefndar 12. desember sl. og í áskorun sem stjórnin hefur sent frá sér. Það vekur óneitanlega athygli að stjórnvöld skuli ekki taka mark á sínum eigin fulltrúum í stjórn Ríkisútvarpsins.
    Að mati 3. minni hluta virðist meiri hlutinn ekki trúa því að búið sé að velta við öllum steinum í rekstri Ríkisútvarpsins og að vandinn sé fyrst og fremst rekstrarvandi. Virðist litið þannig á að fjárframlög sem Ríkisútvarpinu eru ætluð á fjárlögum fyrir árin 2015 og 2016 geti staðið undir grunnþjónustu. Eftirfarandi staðhæfing úr nefndaráliti meiri hlutans vekur athygli: „Heildartekjur stofnunarinnar hafa aldrei verið meiri heldur en nú, en á móti vegur að á síðasta rekstrarári hækkuðu almenn rekstrargjöld um 325 millj. kr. milli ára, eða um 7%. Hlutfallslega er hækkunin mest vegna yfirstjórnar (40%) og dreifikerfisins (35%).“
    Þriðji minni hluti telur athugasemd meiri hlutans um stjórnarkostnað villandi. Á síðasta rekstrarári voru gerðar miklar breytingar á yfirstjórn Ríkisútvarpsins og sem dæmi störfuðu þrír útvarpsstjórar á tímabilinu. Hækkun á þessum lið getur því átt sér eðlilegar skýringar og of snemmt er að segja til um hvort þær koma til með að auka rekstrargjöldin eða draga úr þeim til lengri tíma.

Tekjur og skattar.
    Fyrir liggur að stjórnvöld ætla að hækka virðisaukaskatt á matvæli og menningu úr 7% í 11%. 3. minni hluti veit ekki til þess að fyrir liggi ítarlegar greiningar á því hvernig þessi hækkun muni koma við einstaka tekjuhópa en vísbendingar eru um að tekjulágir eyði hlutfallslega stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í mat en aðrir tekjuhópar. Sú mótvægisaðgerð að setja 1 milljarði kr. meira í barnabætur og 400 millj. kr. meira í húsaleigubætur getur með engum hætti talist fullnægjandi. Margir hópar njóta ekki þessara bóta en hækkun matarverðs kemur niður á öllum. Þá vekur athygli að ekki eru nein áform um að lækka eða fella niður innflutningstolla á landbúnaðarafurðir en slík aðgerð gæti haft veruleg áhrif til lækkunar matarverðs og verið raunveruleg mótvægisaðgerð.
    Ríkisstjórnin brýtur ýmsa samninga sem gerðir hafa verið við aðila vinnumarkaðarins, svo sem með því að afnema ríkisframlag til jöfnunar örorkubyrði almennra lífeyrissjóða frá og með miðju ári 2015, með því að stytta lengd atvinnuleysisbóta í tvö og hálft ár án nokkurs samráðs og með því að svíkjast enn og aftur um að setja samningsbundið framlag af tryggingagjaldi í starfsendurhæfingu í gegnum Virk, starfsendurhæfingarsjóð. Þetta viðhorf ríkisvaldsins til gerðra samninga er mikið áhyggjuefni og er til þess fallið að grafa undan trausti. Einnig er það 3. minni hluta áhyggjuefni hvernig ríkisstjórnin er í óða önn að breyta tryggingagjaldi í launaskatt frá því að vera gjald sem rennur til mikilvægra mála í þágu atvinnulífsins.

Íbúðalánasjóður.
    Staða Íbúðalánasjóðs er áhyggjuefni. Fyrir liggja rekstraráætlanir sem gera ráð fyrir 3 milljarða kr. árlegu rekstrartapi næstu fimm árin eða alls 15 milljörðum kr. Í tillögum meiri hlutans er ekki að finna nein varanleg úrræði til að bregðast við því fjárhagstjóni sem af þessu hlýst fyrir ríkissjóð.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til fjárlaganefndar 28. nóvember sl. kemur fram að vandamál Íbúðalánasjóðs liggi í ófullnægjandi vaxtamun, viðvarandi vanskilum skuldara og afskriftarþörf veittra lána sem hafi leitt til kostnaðarsamra yfirtöku fullnustueigna. Þá valdi uppgreiðslur veittra lána kostnaði fyrir sjóðinn þar sem skuldir hans eru óuppgreiðanlegar og hann getur ekki endurfjárfest laust fé á sömu kjörum og eru á skuldum sjóðsins. Ríkissjóður ber verulega áhættu af rekstri sjóðsins þar sem skuldir hans eru með ríkisábyrgð. Uppsafnað tap frá og með árinu 2008 er um 60 milljarðar kr. Staða sjóðsins hefur verið þekkt í nokkuð langan tíma en engar raunhæfar tillögur til lausnar vandanum hafa verið lagðar fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Vestmannaeyjaferja.
    Í nefndaráliti meiri hlutans er vakin athygli á því að áform um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju eru óbreytt og að unnið verði að fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs á fyrri hluta komandi árs. Ekki er þó gert ráð fyrir neinum fjárveitingum í þetta verkefni á fjárlögum og gagnrýnir 3. minni hluti þessi vinnubrögð.

Bankasýsla ríkisins.
    Ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögum að Bankasýsla ríkisins starfi áfram á næsta ári. Áform voru uppi um að flytja frumvarp á haustþingi sem miðaði að því að leggja Bankasýsluna niður og færa umsýsluna til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Af því varð ekki. Ekki liggur því fyrir af hvaða fjárlagalið laun og annar rekstrarkostnaður verður tekinn á næsta ári. 3. minni hluti gagnrýnir að ekki sé gert ráð fyrir framlagi til Bankasýslunnar á fjárlögum þar sem hún hefur ekki enn verið lögð niður. Þessi vinnubrögð eru að mati 3. minni hluta ekki til eftirbreytni.

Alþingi, 15. desember 2014.



Brynhildur Pétursdóttir.