Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 822  —  476. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2014.


1. Inngangur.
    Óhætt er að segja að ástand mála í Úkraínu hafi verið í brennidepli á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2014. Strax í janúarmánuði fordæmdi þingið harðlega stigmagnandi ofbeldi í „Euromaidan“-mótmælunum og undirstrikaði að sem aðildarríki Evrópuráðsins væri Úkraína skuldbundin til að uppfylla ítrustu kröfur um lýðræði, vernd mannréttinda og réttarríki. Í apríl ákvað þingið að svipta rússnesku sendinefndina atkvæðisrétti til áramóta vegna innlimunar Krímskaga sem þingið sagði skýrt brot á stofnskrá Evrópuráðsins og þeim skuldbindingum sem Rússland gekkst undir þegar landið gerðist aðili að ráðinu árið 1996. Samhliða sviptingu atkvæðisréttar var Rússland svipt rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti. Þingið hafnaði hins vegar ályktun um að víkja Rússum úr Evrópuráðinu, í ljósi þess að pólitískar samræður væru besta leiðin til að finna málamiðlanir og koma í veg fyrir að horfið yrði aftur til munsturs kalda stríðsins. Brottrekstur Rússlands mundi gera slíkar samræður ómögulegar. Þingið áskildi sér rétt til að ógilda kjörbréf rússnesku sendinefndarinnar ef Rússland drægi ekki úr stigmögnun ástandsins og afturkallaði innlimun Krímskaga. Rússar hafa ekki tekið þátt í starfi þingsins síðan í aprílmánuði en forsætisnefnd þingsins hefur fundað tvisvar með forseta efri deildar rússneska þingsins og þingmönnum landsdeildar Rússa hjá Evrópuráðsþinginu. Áætlað er að þingið taki ákvörðun
um framhaldið á fyrsta þingfundi ársins 2015 sem haldinn verður 26.–30. janúar.
    Flóttamannavandinn við strendur Miðjarðarhafs var einnig mikið til umræðu á árinu, ekki síst hvað varðaði flóttafólk frá Sýrlandi. Í janúar óskaði þingið eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins íhuguðu þann möguleika að veita sýrlensku flóttafólki tímabundna eða alþjóðlega vernd í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks og veita því atvinnuleyfi á meðan á dvöl þess stæði. Á stjórnarnefndarfundi í nóvember kallaði þingið aftur eftir því að aðildarríki tækju á móti fleiri flóttamönnum, ekki síst frá Sýrlandi, ásamt því að auka skilvirkni og sveigjanleika áætlana sinna í málaflokknum og einfalda ferlið í heild. Þá voru ríki enn fremur hvött til að styðja Möltu og önnur ríki sem standa frammi fyrir miklum straumi flóttamanna.
    Friðhelgi einkalífsins á internetinu var einnig mikið til umræðu á árinu. Í tilmælum sínum til ráðherranefndar Evrópuráðsins kallaði þingið eftir að nefndin hæfi án tafar vinnu við hvítbók um „lýðræði, stjórnmál og internetið“. Þingið sagði nýlegar uppljóstranir um fjöldaeftirlit þjóðaröryggisstofnana hafa grafið verulega undan trausti internetnotenda og kallaði eftir ýmiss konar aðgerðum til að sporna við þessari þróun, þar á meðal aðgerðaáætlun frá aðildarríkjum til að koma í veg fyrir fjöldabrot á friðhelgi einkalífsins og ný lög sem tryggja að gögn séu einungis útveguð, geymd og greind í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu.
    Anne Brasseur, þingkona frá Lúxemborg, var kosin forseti Evrópuráðsþingsins í upphafi árs til eins árs, með möguleika á endurkjöri til annars árs. Hún er önnur konan sem gegnir embættinu í 65 ára sögu stofnunarinnar. Þá var Thorbjørn Jagland endurkjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsins til næstu 5 ára. Aserinn Anar Mammadli, stofnandi og formaður kosningaeftirlits- og lýðræðisstofnunar í Aserbaídsjan var handhafi mannréttindaverðlauna Evrópuráðsins árið 2014, sem kennd eru við Václav Havel, fyrrverandi forseta Tékklands. Mammadli var handtekinn í Aserbaídsjan í desember 2013 fyrir meinta misbeitingu valds og dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar í maí 2014. Laganefnd Evrópuráðsþingsins lítur svo á að með handtökunni og síðar dómnum séu stjórnvöld í Aserbaídsjan að refsa Mammadli fyrir að opinbera gagnrýnar skoðanir sínar. Nefndin hefur fordæmt verknaðinn og kallað eftir að Mammadli verði tafarlaust leystur úr haldi.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Frá 2011 starfar þingið í átta fastanefndum en einnig starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefnd fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
    –        eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
    –        hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og
    –        vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Á árinu 2011 lauk einnig vinnu við gerð samnings sem tekur á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Í kjölfar alþingiskosninganna 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin 6. júní og gildir sú kosning fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru kosnir Karl Garðarsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru kosnir Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Unnur Brá Konráðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar. Skipan Íslandsdeildar var breytt fyrir haustfund Evrópuráðsþingsins, þannig að aðal- og varamaður þingflokks Sjálfstæðisflokks skiptu um sæti – Unnur Brá Konráðsdóttir varð aðalmaður í stað Brynjars Níelssonar sem varð varamaður – og Oddný G. Harðardóttir kom í stað Guðbjarts Hannessonar sem varamaður þingflokks Samfylkingarinnar.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var eftir það sem hér segir:
    –        Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Karl Garðarsson.
    –        Stjórnarnefnd: Karl Garðarsson.
    –        Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Karl Garðarsson.
    –        Laga- og mannréttindanefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir.
    –        Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Ögmundur Jónasson.
    –        Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Ögmundur Jónasson.
    –        Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Karl Garðarsson.
    –        Jafnréttisnefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir.
    Ögmundur Jónasson er jafnframt tengiliður Alþingis við baráttuherferðir Evrópuráðsþingsins um afnám kynferðisofbeldis gegn börnum annars vegar og gegn ofbeldi gegn konum hins vegar. Ritari Íslandsdeildar var Vilborg Ása Guðjónsdóttir.
    Íslandsdeild hélt sex fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum Evrópuráðsþingsins og vinna að tilnefningu þriggja einstaklinga til að starfa fyrir hönd Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni). Starfið var auglýst á vef Alþingis í október 2014 og gert er ráð fyrir að tilnefningar liggi fyrir í upphafi árs 2015. Ráðherranefnd Evrópuráðsins velur svo fulltrúa Íslands í nefndina af lista tilnefndra að undangenginni umsögn framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins, sem fær ráðgjöf frá undirnefnd þingsins um mannréttindamál.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2014.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 27.–31. janúar 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Brynjar Níelsson og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru kynþáttahatur og umburðarleysi í Evrópu, áhrif nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni á lýðræði, staða flóttafólks frá Sýrlandi, mat á samstarfi Evrópuráðsþingsins og Þjóðarráðs Palestínu og þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þá fóru fram utandagskrárumræður um ástandið í Úkraínu.
    Að venju hófst fyrsti þingfundur ársins á kjöri forseta þingsins. Anne Brasseur frá Lúxemborg og Robert Walter frá Bretlandi voru í framboði. Anne Brasseur bar sigur úr býtum í fyrstu umferð kosningarinnar með 165 atkvæðum gegn 125 atkvæðum Roberts Walter. Í opnunarræðu sinni kynnti Brasseur helstu áhersluatriði sín fyrir árið 2014. Þar má einna helst nefna aukið samstarf við nágrannaríki í Norður-Afríku, Miðausturlöndum og Mið-Asíu innan ramma samstarfsáætlunarinnar Partner for Democracy, sem og aukið samstarf við Evrópusambandið. Þá lagði hún áherslu á baráttu gegn spillingu og eins gegn kynþáttafordómum. Utanríkisráðherra Austurríkis, Sebastian Kurz, ávarpaði einnig þingið og sagði m.a. frá áhersluatriðum austurrísku formennskunnar í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Þar var efst á baugi tjáningarfrelsi og stuðningur við blaðamenn og vernd þeirra, vernd réttinda á internetinu, þar á meðal vernd einkalífsins, og baráttan gegn mansali.
    Í ræðu sinni ræddi framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, um hættu á að Evrópa sundraðist. Það væri mikil spenna innan Evrópusambandsins, milli Evrópusambandsins og annarra stórvelda, innan aðildarríkja Evrópuráðsins, sérstaklega þegar kæmi að félagslegum óróa og vaxandi öfgahyggju, og innan Evrópuráðsins sjálfs. Í því sambandi væri mannréttindasáttmáli Evrópu mikilvægari en nokkru sinni fyrr þar sem hann væri sá lagalegi grunnur sem héldi Evrópu saman. Yfirstandandi endurbætur á starfsemi Evrópuráðsins væru enn fremur mjög mikilvægar í þessu sambandi.
    Í tilmælum sínum til ráðherranefndar Evrópuráðsins um kynþáttahatur og umburðarleysi í Evrópu kallaði þingið eftir því að nefndin gæfi framkvæmdastjóra stofnunarinnar fyrirmæli um að útfæra stefnu gegn kynþáttafordómum, hatri og umburðarleysi í Evrópu, sem og aðgerðaáætlun til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Stefnan og aðgerðaáætlunin ættu að vera til takmarkaðs tíma og byggjast á aðgerðum og sérfræðiþekkingu ráðsins á þessu sviði, taka til allrar stofnunarinnar og vera hrundið í framkvæmd í samstarfi við stjórnvöld aðildarríkja, fjölþjóðlegar stofnanir, frjáls félagasamtök og aðra samstarfsaðila.
    Í tilmælum sínum til ráðherranefndarinnar um áhrif nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni á lýðræði kallaði þingið eftir að nefndin hæfi án tafar vinnu við hvítbók um „lýðræði, stjórnmál og internetið“, í nánum tengslum við Evrópuráðsþingið, þjóðþing og ríkisstjórnir aðildarríkja stofnunarinnar, önnur pólitísk öfl, leyniþjónustur aðildarríkja eins og við ætti, meginrekstraraðila á sviði internetþjónustu, fjölmiðla, háskóla, félagasamtök á sviði mannréttinda og samtök sem hefðu það að markmiði að vernda réttindi internetnotenda. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðu þingsins um málið. Hann fagnaði ályktun þingsins en gagnrýndi engu að síður ýmsar áherslur um beint lýðræði og benti á að stofnanaveldið ætti ekki að leyfa sér íhaldssemi í þessum efnum heldur nýta þá kosti sem ný tækni byði upp á hvað varðaði beint lýðræði. Það yrði krafa 21. aldarinnar. Þá tók hann einnig skýrt fram að menn ættu ekki að horfa fram hjá misnotkun á netinu og minnti á að Evrópuráðið hefði fengið í hendur óyggjandi sannanir fyrir því að netið væri notað sem tæki barnaníðinga. Þetta ætti ekki að líðast fremur en ofbeldi annars staðar í samfélaginu. Internetið væri hluti af samfélaginu en stæði ekki utan þess.
    Í ályktun um alþjóðlega aðstoð til flóttafólks frá Sýrlandi óskaði þingið eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins, áheyrnarríki og önnur ríki, sem hefðu áhyggjur af ástandi flóttafólks frá Sýrlandi, íhuguðu þann möguleika að veita sýrlensku flóttafólki tímabundna eða alþjóðlega vernd í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks og veita því atvinnuleyfi á meðan á dvöl þess stæði. Þingið óskaði enn fremur eftir því að ríkin fylgdu þeirri meginreglu að vísa fólki ekki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kynni að vera í hættu (e. principle of non-refoulement) og fresta þannig að senda Sýrlendinga aftur til Sýrlands eða nærliggjandi ríkja, sem ættu í erfiðleikum með mikið innstreymi sýrlensks flóttafólks.
    Í ályktun um stöðu samstarfssamnings Evrópuráðsþingsins við Þjóðarráð Palestínu fagnaði þingið viðleitni Þjóðarráðsins til að uppfylla þær pólitísku skuldbindingar sem fylgja samningnum, þrátt fyrir þá erfiðleika og þær fyrirstöður sem fylgdu áframhaldandi hernámi og ólöglegum aðgerðum Ísraels í landinu, þar á meðal tilviljanakenndum handtökum og hömlum á frjálsri för fólks. Þingið fagnaði jafnframt virkri þátttöku palestínsku þingnefndarinnar í störfum þingsins og nefnda þess. Í ályktuninni kallaði þingið eftir því að Þjóðarráðið kæmi hraðar í framkvæmd skuldbindingum sínum á sviði mannréttinda og hvað varðaði réttarríkið. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðu um málið og lýsti yfir miklum stuðningi við ályktunina. Hann sagði frá stuðningi íslenskra stjórnvalda við Palestínu, þar á meðal fordæmingu þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í frá 2009–2013 á aðgerðum Ísraelsmanna á Gaza í upphafi árs 2009, stuðningi hennar við umsókn Palestínu um aðild að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, stuðningi hennar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við fullveldi Palestínu byggt á landamærum eftir stríðið við Ísrael árið 1967 og loks formlega viðurkenningu Íslands á sjálfstæði og fullveldi Palestínu árið 2011.
    Á ályktun sinni um þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna (e. Millennium Development Goals) kallaði þingið m.a. eftir því að aðildarríki þess veittu stuðning til bágstaddra ríkja, að andvirði minnst 0,7% af landsframleiðslu þeirra. Einnig voru aðildarríki hvött til þess að styrkja stöðu kvenna á öllum sviðum samfélagsins og herða baráttuna gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum. Ögmundur Jónasson tók til máls í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps og lýsti yfir eindregnum stuðningi við ályktunina. Hann kenndi gráðugum og lítt stýrðum kapítalisma um þá staðreynd að bilið milli fátækra og ríkra væri stærra en nokkru sinni áður, með milljarð manna sem byggju við örbirgð og óöryggi.
    Í ályktun um starfsemi lýðræðislegra stofnana í Úkraínu lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af þeirri pólitísku upplausn sem nú ríkir í Úkraínu í kjölfar þeirrar óvæntu ákvörðunar stjórnvalda þar í landi að fresta undirritun samstarfssamnings við Evrópusambandið, og fordæmdi harðlega stigmagnandi ofbeldi í „Euromaidan“-mótmælunum, sem hefðu leitt til minnst fimm dauðsfalla. Úkraínsk stjórnvöld hefðu fullyrt að gagnrýni erlendis frá á því hvernig þau tóku á mótmælunum jafngilti afskiptum erlendra ríkja af innanríkismálum Úkraínu. Í því sambandi undirstrikaði þingið að sem aðildarríki Evrópuráðsins væri Úkraína skuldbundin til að uppfylla ítrustu kröfur um lýðræði, vernd mannréttinda og réttarríki. Úkraína væri til viðbótar m.a. aðili að mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ekki væri hægt að líta á brot á þessum skuldbindingum sem innanríkismál og því væri gagnrýni frá öðrum ríkjum í þessu sambandi lögmæt, sér í lagi frá öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Í tilmælum sínum til ráðherranefndar Evrópuráðsins um stöðu mála í Úkraínu mælti þingið með því við nefndina að hún íhugaði að setja á fót öflugt og sértækt eftirlitsferli þegar kæmi að Úkraínu og aðlaga samstarfsáætlun við landið með það að markmiði að tryggja að almennilega væri tekið á undirliggjandi ástæðum hinnar pólitísku upplausnar.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um kynþáttahatur í lögreglunni, flóttafólk og ábyrgðarskyldu alþjóðastofnana þegar kæmi að mannréttindabrotum. Þá var einnig ályktað um loftslagsbreytingar og aukna fjölbreytni á sviði orkumála en Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um bæði málefnin.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 7.–11. apríl 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Brynjar Níelsson og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru endurskoðun kjörbréfa og atkvæðisréttar rússnesku sendinefndarinnar vegna aðgerða Rússlands á Krímskaga, umsókn Kirgistan um samstarfsaðild að Evrópuráðinu (e. Partner for Democracy), vændi, mansal og nútímaþrælahald í Evrópu og friðhelgi einkalífsins á internetinu. Þá fóru fram utandagskrárumræður um ástandið í Úkraínu.
    Utanríkisráðherra Austurríkis, Sebastian Kurz, ávarpaði þingið á fyrsta degi þingfunda og ræddi fyrst og fremst um það neyðarástand sem hefur skapast vegna deilna Rússlands og Úkraínu um Krímskaga. Hann lýsti yfir ánægju með stofnun ráðgjafarnefndar Evrópuráðsins sem á að hafa eftirlit með rannsókn á átökum milli mótmælenda og öryggissveita stjórnvalda frá lokum nóvember 2013. Hann undirstrikaði mikilvægi samstarfs Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, þegar kæmi að því að bregðast við ástandinu.
    Í ræðu sinni á þinginu lagði Heinz Fischer, forseti Austurríkis, áherslu á að samræður væru eina leiðin til að eiga við deiluna milli Úkraínu og Rússlands. Það væri tiltölulega auðvelt að loka dyrum, en þegar þeim hefði verið lokað væri mun erfiðara að opna þær aftur. Hann var sammála því áliti Feneyjanefndarinnar að aðgerðir Rússa brytu í bága við alþjóðalög og sagði að frekari tilraunir Rússa til að auka óstöðugleika í Úkraínu væru óásættanlegar. Hann minnti aðildarríki Evrópuráðsins engu síður á mikilvægi þess að taka til greina sögulegan bakgrunn átakanna.
    Þingið ákvað að svipta rússnesku sendinefndina atkvæðisrétti til áramóta 2014/2015 vegna innlimunar Krímskaga sem væri skýrt brot á stofnskrá Evrópuráðsins og þeim skuldbindingum sem Rússland gerði þegar landið gerðist aðili að ráðinu árið 1996. Samhliða sviptingu atkvæðisréttar var Rússland svipt rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti. Þingið hafnaði hins vegar ályktun um að víkja Rússum úr Evrópuráðinu, í ljósi þess að pólitískar samræður væru besta leiðin til að finna málamiðlanir og koma í veg fyrir að horfið yrði aftur til munsturs kalda stríðsins. Brottrekstur Rússlands mundi gera slíkar samræður ómögulegar. Þingið áskildi sér rétt til að ógilda kjörbréf rússnesku sendinefndarinnar ef Rússland drægi ekki úr stigmögnun ástandsins og tæki til baka innlimun Krímskaga.
    Í ályktun sinni um ástandið í Úkraínu sagði þingið svokallaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga hvorki í samræmi við stjórnarskrá Úkraínu né Krímskaga. Útkoma hennar væri því ólögleg innlimun Rússlands á skaganum sem hefði engin lagaleg áhrif og væri ekki viðurkennd af Evrópuráðinu. Þingið fordæmdi jafnframt heimild rússneska þingsins til notkunar hervalds í Úkraínu og hernaðartilburði Rússlands á Krímskaga. Að mati Evrópuráðsþingsins halda rök Rússa um að hægri öfgaöfl hefðu tekið yfir stjórn landsins ekki, né að brotið væri á réttindum rússneskra minnihlutahópa í Úkraínu, sér í lagi á Krímskaga. Í ljósi þess að aðskilnaður frá Úkraínu eða samruni við Rússland hefðu ekki verið ríkjandi í stefnu stjórnvalda á Krímskaga áður en til íhlutunar Rússa kom telur þingið að rússnesk stjórnvöld hafi hafið og hvatt til atburðarásarinnar. Þingið viðurkenndi að fullu lögmæti nýrra stjórnvalda í landinu og ákvarðana þeirra og hvatti úkraínska þingið til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar sem kæmu á betra jafnvægi milli forseta landsins og löggjafarvaldsins og tryggðu að stjórnarskráin væri að fullu í samræmi við reglur Evrópuráðsins. Einnig væri nauðsynlegt að boða til þingkosninga um leið og það væri tæknilega og pólitískt framkvæmanlegt til að tryggja lögmæti þingsins. Loks lýsti þingið yfir áhyggjum sínum af stöðugt vaxandi fjölda trúverðugra skýrslna af brotum á mannréttindum Úkraínumanna og krímverskra tatara á Krímskaga, í kjölfar innlimunar skagans í Rússland. Þingið kallaði eftir að rússnesk stjórnvöld tryggðu að brotin yrðu stöðvuð án tafar og gerendur sóttir til saka.
    Þingið ákvað að veita þingi Kirgistan stöðu samstarfsríkis (e. Partner for Democracy), en ríkið varð þannig það fyrsta í Mið-Asíu sem hefur verið veitt slík staða. Af þessu tilefni lýsti þingið yfir ánægju sinni með staðfestu landsins til að innleiða breiðar pólitískar og lagalegar endurbætur, sem og endurbætur á stjórnskipan og stofnanauppbyggingu í landinu. Í ályktun sinni taldi þingið engu síður upp fjölda sviða þar sem frekari framfara væri þörf, þar á meðal þegar kæmi að aðskilnaði valds, frjálsum kosningum, spillingu og endurbótum á dómskerfinu til að tryggja sjálfstæði þess. Þingið mun fylgja eftir eftirliti sínu með ástandinu í landinu og framvindu endurbóta og ræða stöðu mála innan tveggja ára.
    Í ályktun sinni um vændi, mansal og nútímaþrælahald lagði þingið til löggjöf og stefnur sem það taldi bráðnauðsynlegar í baráttunni gegn mansali. Það var tekið til greina að erfitt væri að leggja til eitt kerfi löggjafar sem hentaði öllum aðildarríkjum. Þingið komst engu að síður að þeirri niðurstöðu að sænska kerfið, sem felur í sér að gera kaup á vændi refsiverð, virtist vera áhrifaríkasta tækið í baráttunni gegn mansali. Kallað var eftir rannsókn á og upplýsingaöflun um vændi og mansal í öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins.
    Í ályktun um friðhelgi einkalífsins á og aðgang einstaklinga að internetinu kallaði þingið eftir að ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins tryggðu einstaklingum rétt til aðgangs að interneti, jafnt í löggjöf og framkvæmd. Slík réttindi mundu gera borgurum betur kleift að nýta tjáningarfrelsi sitt og önnur grunnmannréttindi. Hvað varðaði friðhelgi einkalífsins á internetinu sagði þingið í ályktun sinni að nýlegar uppljóstranir um fjöldaeftirlit þjóðaröryggisstofnana hefðu grafið verulega undan trausti internetnotenda. Þingið kallaði eftir ýmiss konar aðgerðum til að sporna við þessari þróun, þar á meðal aðgerðaáætlun frá aðildarríkjum til að koma í veg fyrir fjöldabrot á friðhelgi einkalífsins og ný lög sem tryggja að gögn séu einungis útveguð, geymd og greind í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Karl Garðarsson og Ögmundur Jónasson tóku þátt í umræðu þingsins um málið fyrir hönd sinna flokkahópa. Karl fagnaði ályktun þingsins og lýsti yfir áhyggjum af versnandi stöðu friðhelgi einkalífsins á internetinu. Fyrirtæki, stjórnvöld og einstaklingar gætu með sífellt þróaðri tækni fylgst með nær öllu sem við gerum. Þau gætu fengið upplýsingar um áhugasvið og hegðunarmunstur fólks, hlerað síma þess og lesið tölvupósta og textaskilaboð. Mikilvægt væri að bregðast fljótt við þessari þróun og það yrði einungis gert á alþjóðavettvangi með reglum sem allar þjóðir mundu fylgja. Ögmundur ítrekaði mikilvægi aðgangs allra að internetinu og tók undir þá áherslu ályktunarinnar að skilgreina internetið sem hluta af félagslegum réttindum fólks. Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að vernda börn og ungmenni fyrir sölumönnum grófs kláms. Loks lýsti hann yfir ánægju sinni með gagnrýni forseta Evrópuráðsþingsins á nýlegum aðgerðum tyrkneskra stjórnvalda sem takmarka aðgang almennings í landinu að internetinu í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga þar í landi. Aðgerðirnar væru skýrt brot á mannréttindasáttmála Evrópu.
    Ögmundur Jónasson tók einnig þátt í umræðum um útrýmingu fátæktar meðal barna í Evrópu fyrir hönd síns flokkahóps. Hann lýsti yfir stuðningi við ályktun og tilmæli ráðsins sem hvetja aðildarríki til setja málefnið í forgang og tryggja því nægt fjármagn. Hann vakti athygli á að ályktunin býður þingi sveitar- og héraðsstjórna Evrópuráðsins (e. Congress of Local and Regional Authorities) að taka þátt í starfinu við hlið stjórnvalda aðildarríkja og Evrópuráðsþingsins.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um stöðu og réttindi minnihlutahópa í Evrópu, réttinn til aðgangs að internetinu, réttinn til aðgangs að ríkisfangi og áhrifaríka framkvæmd Evrópusamnings um ríkisfang, aðkallandi þörf á að taka á nýjum brestum í samstarfi aðildarríkja við Mannréttindadómstól Evrópu, vernd ólögráða ungmenna fyrir sértrúarsöfnuðum, aðgang allra að mannsæmandi starfi og atvinnuréttindi flóttamanna.

Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins í Bakú 23. maí 2014.
    Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í þinghúsi Aserbaídsjan í Bakú 23. maí 2014. Karl Garðarsson, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sótti fundinn auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Á fundi sínum í aðdraganda fundar stjórnarnefndar ákvað framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins að Aserbaídsjan fengi ekki að bjóða til nefndarfunda næstu tvö árin, eftir að stjórnvöld þar í landi afturkölluðu vegabréfsáritun formanns frönsku landsdeildarinnar vegna heimsóknar hans til Nagorno-Karabakh-svæðisins sem Armenar og Aserar deila hart um. Framkvæmdastjórn þingsins sagði ákvörðun stjórnvalda í Aserbaídsjan brjóta gegn samningi um réttindi og friðhelgi Evrópuráðsins.
    Á stjórnarnefndarfundi voru fjölmörg málefni til umfjöllunar. Í upphafsávarpi sínu ræddi Anne Brasseur, forseti Evrópuráðsþingsins, um ábyrgð þeirra ríkja sem gegna formennsku í Evrópuráðinu hverju sinni, en það er Aserbaídsjan sem gegnir því nú. Formennskuríki ættu að hafa mannréttindi og lýðræði í hávegum og vera fyrirmynd annarra aðildarríkja með því að takast á við mannréttindamál í sínu heimalandi á opinn og uppbyggilegan hátt. Varðandi deilu Armena og Asera yfir Nagorno-Karabakh ítrekaði Brasseur stuðning Evrópuráðsþingsins við friðhelgi yfirráðasvæðis Aserbaídsjan og lagði áherslu á að við inngöngu sína í Evrópuráðið hefðu löndin tvö skuldbundið sig til að notast aðeins við friðsamlegar leiðir til að leysa deiluna. Brasseur ítrekaði að Evrópuráðsþingið væri tilbúið til að styðja það ferli að öllu leyti eins vel og það gæti.
    Forseti þings Aserbaídsjan, Ogtay Asadov, ávarpaði næstur fundinn og kynnti áherslur undir formennsku landsins í Evrópuráðinu næstu sex mánuðina. Baráttan gegn spillingu yrði þar ofarlega á blaði sem og félagsleg málefni, fjölmenning og menntamál, sérstaklega á sviði mannréttinda.
    Pedro Agramunt frá Spáni greindi frá eftirliti Evrópuráðsþingsins með þingkosningum í Serbíu í mars 2014. Að mati þingsins fóru kosningarnar fram á löglegan og skipulagðan hátt en þingið kallaði engu að síður eftir að stjórnvöld í Serbíu bættu kosningalöggjöf og framkvæmd hennar, sérstaklega með því að auka gagnsæi þegar kæmi að eignarhaldi fjölmiðla.
    Stjórnarnefndin gaf grænt ljós á drög að nýjum sáttmála Evrópuráðsins gegn hagræðingu úrslita íþróttakeppna. Sáttmálinn mun fela í sér nýja löggjöf sem mun taka á hagræðingu úrslita íþróttakeppna, ólöglegum veðmálum og annarri spillingu í íþróttum. Í áliti sínu minnti þingið á mikilvægi þess að tekið væri á vandamálinu alþjóðlega og lýsti í því samhengi yfir ánægju sinni með að ríkjum utan Evrópuráðsins yrði gert kleift að gerast aðilar að sáttmálanum. Samhliða kallaði þingið eftir ákveðnum endurbótum á textanum, þar á meðal að fjarlægð yrði smuga sem mundi gera ríkjum heimilt að lögsækja ekki útlendinga sem brytu gegn sáttmálanum í þeirra ríki og að orðalag um ólögleg veðmál yrði hert. Loks kallaði þingið eftir að ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins tryggðu nauðsynlega aðlögun löggjafar sinnar að sáttmálanum sem og fullgildingu hans.
    Í tilmælum sínum til ráðherranefndar Evrópuráðsins um átak Evrópuráðsins um vernd gegn kynferðisofbeldi gegn börnum, sem ber heitið Eitt af fimm (e. One in Five), mælti þingið með því að átakið yrði lengt um eitt ár, eða til nóvember 2015, til að það skilaði sem mestum árangri. Eitt meginmarkmið átaksins hefur verið að tryggja undirritun og fullgildingu aðildarríkja Evrópuráðsins á Lanzarote-sáttmálanum um vernd gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. 31 ríki hefur fullgilt sáttmálann en enn þá vantar eina undirskrift og 16 fullgildingar. Einnig þyrfti að tryggja fulla framkvæmd sáttmálans, alþjóðlega og á ríkis- og sveitarstjórnarstigi. Loks var lagt til á þinginu að ráðherranefndin setti á fót Evrópudag gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum í samstarfi við Evrópusambandið og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna til að fylgja eftir átakinu Eitt af fimm.
    Í ályktun um bætt samstarf milli þjóðþinga og mannréttindastofnana í aðildarríkjum kom fram á þinginu að nánara samstarf gæti einungis styrkt starf þessara aðila á sviði mannréttindamála. Þjóðþing gætu þannig til að mynda sótt ráðgjöf til mannréttindastofnana í sínu landi við gerð löggjafar á sviði mannréttindamála og þegar kæmi að tryggingu á eftirfylgni við alþjóðlega mannréttindasáttmála.
    Í ályktun þingsins um alnæmissmitað flökkufólk og flóttamenn segir að farandfólki með alnæmi sé mismunað á margvíslegan hátt, þar á meðal með því að vera neitað um landvistarleyfi eða endurnýjun dvalarleyfa. Þingið kallaði eftir að aðildarríki felldu úr gildi þau ákvæði í löggjöf sinni sem bönnuðu farandfólki með alnæmi að koma inn í landið eða heimili að þeim sé vísað úr landi einungis vegna sjúkdóms þeirra. Þingið hvatti aðildarríki einnig til að tryggja í löggjöf sinni vernd útlendinga sem væru alvarlega veikir, þar á meðal vernd gegn því að þeim væri vísað frá landinu, ef viðeigandi meðferð er ekki í boði í landinu sem á að senda viðkomandi til.
    Í ályktun um réttinda flóttamanna við 18 ára aldur lagði þingið til að aðildarríki settu á fót viðkomuflokk (e. transit category) við greiningu á flóttamönnum á eigin vegum á aldrinum 18–25 ára. Þeim yrði tryggð velferðarþjónusta, menntun, húsnæðisaðstoð og aðgangur að heilbrigðisþjónustu. Þá lagði þingið einnig til að aðildarríki útveguðu starfsfólki félagsþjónustu sinnar sérstaka þjálfun á þessu sviði og reyndu að auka vitund hins borgaralega samfélags um unga flóttamenn.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 23.–27. júní 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Brynjar Níelsson og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru kosningaeftirlit í Úkraínu, flóttamannavandinn við strendur Ítalíu, samfélagsleg aðlögun innflytjenda í Evrópu og framlag þjóðþinga þegar kemur að því að finna lausn á deilu Marokkó og Polisario Front, hreyfingar uppreisnarmanna, um yfirráð yfir Vestur-Sahara. Þá fóru fram utandagskrárumræður um pólitískar afleiðingar ástandsins í Úkraínu og áhrif þess á mannúðarmál.
    Utanríkisráðherra Aserbaídsjan, Elmar Mammadyarov, ávarpaði þingið á fyrsta degi þingfunda og ræddi áhersluatriði formennsku landsins í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Þar er baráttan gegn spillingu, félagsleg samheldni, félagsleg réttindi ungmenna og réttindi kvenna efst á blaði. Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, ávarpaði einnig þingið og sagði frá þeim endurbótum sem hefðu átt sér stað í landinu síðustu 20 árin, bæði efnahagslega og eins hvað varðaði lýðræði og réttindi almennings. Nokkrir þingmenn drógu í efa árangur landsins þegar kæmi að mannréttindamálum og lýðræði og vísuðu í skýrslu Amnesty International um pólitíska fanga og skort á lýðræði máli sínu til stuðnings.
    Í ræðu sinni í þinginu ítrekaði nýkjörinn forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, að friðsamlegar samræður væru eina leiðin til að binda enda á átökin í landinu. Hann sagði að nýframlögð friðaráætlun sín hefði alþjóðlegan stuðning en að Rússar styddu ekki nægilega vel við friðarferlið. Poroshenko þakkaði Evrópuráðinu fyrir snör viðbrögð við ástandinu og lýsti yfir vilja til frekara samstarfs. Boðaðar hefðu verið aðgerðir gegn spillingu í landinu og endurbætur væru hafnar á dómskerfinu til að auka gagnsæi og traust almennings. Hann vonaði að snemmbúnar sveitarstjórnarkosningar mundu efla frekar samheldni og stöðugleika í landinu.
    Thorbjørn Jagland var endurkjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsins til næstu 5 ára, eða til ársins 2019, með miklum meiri hluta atkvæða en hann hlaut 156 atkvæði á móti 93 atkvæðum mótframbjóðanda síns, Sabine Leutheusser-Schnarrenberger frá Þýskalandi.
    Rætt var um eftirlit Evrópuráðsþingsins með forsetakosningunum í Úkraínu 25. maí 2014 sem Karl Garðarsson tók þátt í fyrir hönd síns flokkahóps. Kosningarnar þóttu fara vel fram og vera að mestu í samræmi við alþjóðlega staðla. Þátttaka var mjög góð þrátt fyrir skort á öryggi kjósenda í austurhluta landsins. Í ræðu sinni sagði Karl kosningarnar mjög vel heppnaðar og að vandkvæði hefðu aðallega verið tæknilegs eðlis. Þannig opnuðu kjörstaðir víða seint og voru oft ekki tilbúnir til að taka á móti þeim mikla fjölda sem mætti strax við opnun. Þá hefði það flækt málin talsvert að víða voru sveitarstjórnarkosningar haldnar samhliða og flækjustigið því talsvert, bæði hjá kjósendum og ekki síst þegar talning atkvæða fór fram. Kjörsókn hefði verið mjög góð sem styrkti núverandi forseta verulega þegar kæmi að því að finna lausn á þeim miklu vandamálum sem blasa við í austurhéruðum landsins. Málefni Úkraínu yrðu ekki leyst á hernaðarlegan máta heldur einungis með samræðum milli deiluaðila. Til að slíkt gæti átt sér stað yrðu menn þó fyrst að leggja niður vopn. Viðræður undir vopnavaldi væru ekki líklegar til árangurs. Alþjóðasamfélagið og Evrópuráðið yrðu að standa föstum fótum þegar kæmi að málefnum Úkraínu og leita allra leiða til að finna friðsamlega lausn.
    Í tilmælum um flóttamannavandann við strendur Ítalíu kallaði þingið m.a. eftir því að ráðherranefnd Evrópuráðsins fæli stýrihópi um mannréttindi (e. Steering Committee for Human Rights) að framkvæma könnun á möguleika þess að aðildarríki breyttu lagaramma sínum þegar kæmi að leit og björgun á Miðjarðarhafinu, þar á meðal þegar kæmi að skilgreiningaratriðum, skyldunni til að bregðast við og ábyrgð ríkja. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps og ítrekaði mikilvægi þess að deila ábyrgðinni á flóttamannavandanum. Evrópa væri ekki saklaus þegar kæmi að undirliggjandi ástæðum vandans. Þróun mála í Líbíu og Sýrlandi sönnuðu það.
    Í ályktun um deilu Marokkó og Polisario Front, hreyfingar uppreisnarmanna, um yfirráð yfir Vestur-Sahara undirstrikaði þingið þörfina fyrir að halda áfram samningaviðræðum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þingið hvatti jafnframt aðildarríki til að auka samvinnu sín á milli í átt að sanngjarnri og varanlegri pólitískri lausn á deilunni, sem mundi stuðla að varanlegu öruggi og stöðugleika á Sahara-Sahel-svæðinu. Þrátt fyrir að Marokkó hefði tekið á vandamálum tengdum mannréttindum og lýðræði lýsti þingið yfir áhyggjum sínum af fjölda meintra mannréttindabrota í Vestur-Sahara, sem og yfir ástandi mannúðarmála í Tindouf- flóttamannabúðunum. Staða mála yrði metin aftur í stöðuskýrslu samstarfs Evrópuráðsþingsins og marokkóska þingsins sem verður kynnt árið 2015. Í umræðum um málið vísaði Ögmundur Jónasson í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Ísland hefði verið heppið því landið hefði verið undir yfirráðum besta nýlenduveldis í heimi, Danmörku. Danmörk hefði alltaf virt mannréttindi Íslendinga og rétt okkar til sjálfsákvörðunar. Við fengum sjálfstæði og Danmörk fékk í staðinn virðingu okkar og vináttu. Lausn á deilunni um yfirráð yfir Vestur-Sahara væri að finna í þessari sögulegri reynslu okkar af Dönum. Alþingi hefði einróma samþykkt ályktun um sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara og Ögmundur hvatti Evrópuráðsþingið til að gera slíkt hið sama.
    Í ályktun um samfélagslega aðlögun innflytjenda í Evrópu mælti þingið með því við aðildarríki Evrópuráðsins að endurskoða innflytjendastefnur sínar með það fyrir augum að auka samfélagslega aðlögun innflytjenda. Þau voru einnig hvött til að auka samstarf milli ríkisstjórna, sveitarstjórna og frjálsra félagasamtaka á sviði innflytjendamála og huga að aðgangi innflytjenda að vinnumarkaðnum, menntun og þátttöku í lýðræðisferlinu. Þá var því beint að aðildarríkjum að vinna gegn efnahagslegri og félagslegri mismunun innflytjenda og auka stuðning til fjölskyldna.
    Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um ofbeldi í fjölmiðlum fyrir hönd síns flokkahóps. Hann benti á að lykilspurningin væri hvort þær aðgerðir sem yfirvöld beittu gegn ofbeldi í fjölmiðlum brytu gegn grundvallarréttindum líkt og tjáningarfrelsi og málfrelsi. Skilgreiningar á því hvað væri ofbeldi gætu verið mismunandi á milli landa og á mismunandi tímum. Það ætti hins vegar aldrei við um barnaklám eða hatursorðræðu. Að hans mati ætti að refsivæða framleiðslu, dreifingu og vörslu ofbeldisfulls og öfgakennds kláms. Að skilgreina þess háttar klám væri hins vegar erfitt í framkvæmd, það hefði hann reynslu af síðan hann gegndi embætti innanríkisráðherra á Íslandi.
    Þá tók Ögmundur þátt í umræðu þingsins um meðhöndlun ungmenna sem gerast sek um glæpi, fyrir hönd síns flokkahóps. Í ræðu sinni benti hann á að jafnvel þótt réttindi barna hefðu styrkst töluvert síðustu áratugi með hjálp fjölda alþjóðlegra og svæðisbundinna samninga væri enn þá miklu ábótavant í réttarkerfinu þegar kæmi að refsingu ungmenna sem gerast sek um glæpi. Börn ættu ekki að vera í fangelsi, það hefði mjög skaðleg áhrif á þau til framtíðar og eins á allt samfélagið. Ögmundur lofaði vinnu Evrópuráðsins í málaflokknum og sagðist ekki efast um að árangur síðustu áratuga væri að miklu leyti ráðinu að þakka og þar ekki síst vinnu Evrópunefndar Evrópuráðsins um forvarnir gegn pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu (e. the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment).
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um lýðræðismál í Evrópu, sjálfsmyndir og fjölbreytileika innan fjölmenningarsamfélaga, áskoranir Þróunarbanka Evrópu, stöðu opinberrar þjónustu í Evrópu og sjálfstæði Mannréttindadómstólsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 29. september – 3. október 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Brynjar Níelsson og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru kosningaeftirlit í Tyrklandi, baráttan gegn nýnasisma og hægri öfgastefnu, mannréttindi flóttamannabarna og framvinda eftirlitsferlis þingsins. Þá fóru fram utandagskrárumræður um ástandið í Úkraínu og þá ógn sem stafar af samtökum sem kenna sig við íslamskt ríki (IS).
    Á fyrsta degi þingsins voru mannréttindaverðlaun Václav Havel afhent Aseranum Anar Mammadli, stofnanda og formanns kosningaeftirlits- og lýðræðisstofnunar í Aserbaídsjan. Mammadli var handtekinn í desember 2013 fyrir meinta misbeitingu valds og dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar í maí 2014. Laganefnd Evrópuráðsþingsins lítur svo á að með handtökunni og síðar dómnum séu stjórnvöld í Aserbaídsjan að refsa Mammadli fyrir að opinbera gagnrýnar skoðanir sínar. Nefndin hefur fordæmt verknaðinn og kallað eftir að Mammadli verði tafarlaust leystur úr haldi.
    Rætt var um eftirlit Evrópuráðsþingsins með forsetakosningunum í Tyrklandi 10. ágúst 2014. Við eftirlit sitt setti þingið helst út á lagaumgjörð kosninganna, en að mati þingsins var ósamræmi í því hvernig lögum var beitt, bæði hvað varðaði stjórnsýsluna og eins umfjöllun fjölmiðla. Það jákvæða væri að nú í fyrsta sinn hefði 53 milljónum Tyrkja gefist tækifæri til að kjósa sér forseta í beinum almennum kosningum. Þá áttu frambjóðendur í fyrsta sinn kost á því að stunda kosningabaráttu á öðrum tungumálum en tyrknesku, t.d. kúrdísku.
    Í ályktun um nýnasisma fordæmdi þingið auknar vinsældir stjórnmálaflokka sem aðhyllast nýnasisma í Evrópu. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins kallaði þingið eftir að nefndin hugaði að mögulegum leiðum til að samræma viðleitni aðildarríkja gegn hægri öfgastefnu. Þá var ráðherranefndin hvött til að styðja tillögu ungliðahreyfingar Evrópuráðsins um að gera daginn sem hryðjuverkaárásir voru gerðar í Osló og Útey í Noregi, 22. júlí 2011,
að Evrópudegi fyrir fórnarlömb hatursglæpa (e. European Day for Victims of Hate Crime).     Í umræðu um ástandið í Úkraínu kallaði Stefan Schennach, formaður eftirlitsnefndar þingsins, eftir varanlegu vopnahléi í landinu ásamt skilyrðislausum brottflutningi allra erlendra hermanna frá landinu. Þá kallaði hann eftir rannsókn á öllum þeim stríðsglæpum sem framdir hefðu verið í landinu og sagði að Úkraína væri á barmi mannúðarlegs neyðarástands. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Nils Muiznieks, gaf þinginu skýrslu um stöðu mannréttindamála í Úkraínu. Hann talaði sérstaklega um ástandið á Krímskaga sem hann sagði afar slæmt, ekki síst fyrir krímverska tatara sem yrðu fyrir stöðugum árásum. Fjölmiðlafrelsi væri einnig alvarlega ógnað á skaganum. Fjöldi fólks sem væri á flótta innan Úkraínu færi vaxandi en samkvæmt nýjustu tölum væri fjöldinn nú 368 þúsund manns, þar af 350 þúsund í austurhluta landsins og 18 þúsund á Krímskaga. Í því sambandi væri ekki síst mikið áhyggjuefni að veður færi kólnandi í Úkraínu og stór hluti þessa fólks byggi í óupphituðum skýlum. Hann sagði frá mannréttindabrotum bæði aðskilnaðarsinna og úkraínskra öryggissveita, einna helst sjálfboðaliðasveita, í austurhluta landsins. Muiznieks kallaði eftir að alþjóðasamfélagið styddi við úkraínsk stjórnvöld, ekki einungis við mannúðar- og enduruppbyggingarþarfir landsins heldur einnig við viðleitni þeirra til að gera áætlanir til framtíðar, og ætti aðstoðin að vera veitt undir ströngum skilyrðum.
    Í ályktun um þá ógn sem stafar af hryðjuverkasamtökum sem kenna sig við íslamskt ríki (IS) lét þingið í ljós djúpar áhyggjur af ástandinu og vakti sérstaka athygli á stöðu kristinna og annarra trúar- og þjóðernishópa í Miðausturlöndum almennt, sérstaklega í Írak og Sýrlandi. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins kallaði þingið eftir að nefndin vekti athygli ríkisstjórna aðildarríkja á þörfinni fyrir að auka mannúðaraðstoð til flóttamannabúða í Írak, Sýrlandi, Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi.
    Í ályktun um eftirlitsferli þingsins kallaði þingið eftir að eftirlitsnefnd þess geri nú reglubundin yfirlit yfir stöðu mála í þeim 33 aðildarríkjum sem sæta ekki formlegu eftirliti, í þeirri viðleitni að tryggja að ríkin uppfylli skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Þingið ákvað jafnframt að eftir að formlegu eftirlitsferli lýkur verði aðildarríkjum nú sett tímamörk til að uppfylla útistandandi skuldbindingar. Ef ríkin standa ekki við þau tímamörk hefjist formlegt eftirlitsferli á ný. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd flokkahóps síns og lagði áherslu á mikilvægi eftirlitsferlisins. Ferlið hefði þó ekki alltaf verið gallalaust eða hafið yfir gagnrýni. Pólitískur ágreiningur innan ríkja rataði oft inn í þingsal Evrópuráðsþingsins, sem væri skiljanlegt þegar mikið lægi við, en í þeim tilfellum væri ábyrgð annarra þingmanna mikil. Þegar þingmenn gangi inn í þingsal Evrópuráðsþingsins ættu þeir að hætta að vera fulltrúar ríkja og jafnvel stjórnmálaflokka. Þingmenn ættu ekki að spyrja hver það væri sem setti fram gagnrýni heldur einbeita sér að innihaldi gagnrýninnar og meta hvort hún væri sanngjörn og réttmæt. Allra mikilvægast væri að forðast tvöfeldni. Eftirlitskerfi Evrópuráðsþingsins ætti að vera óaðskiljanlegur hluti af lýðræðisferlinu fyrir öll aðildarríki. Ekkert ríki væri gallalaust og öll ríki hefðu hag af gaumgæfilegri athugun vina.
    Þá tók Ögmundur þátt í umræðu þingsins um góða stjórnunarhætti og aukin gæði menntunar og aukið vægi starfsmenntunar fyrir hönd flokkahóps síns. Hann lofaði meginrök skýrslunnar um stjórnunarhætti og gæði í menntakerfinu sem kallaði eftir sanngirni, kynjajafnrétti og jafnrétti almennt, samstöðu og samfélagslegri samheldni. Skýrslan kallaði einnig eftir víðtæku samstarfi við stofnanir eins og OECD, en talaði ekki um stéttarfélög í því sambandi sem Ögmundi þótti miður. Hann sagði enn fremur að hann hefði viljað að skýrslan kallaði eftir samstarfi við alþjóðleg samtök stéttarfélaga kennara (e. Education International) og alþjóðleg samtök stéttarfélaga starfsmanna ríkja (e. Public Services International). Í skýrslunni um starfsmenntun væri réttilega bent á að það væru mun meiri hræringar á atvinnumarkaðnum nú en áður og samfélagið væri sífellt að ganga í gegnum varanlegar breytingar. Það yrði að bregðast við því.
    Loks tók Ögmundur þátt í umræðum um varðhald flóttamannabarna fyrir hönd flokkahóps síns. Hann sagði allar helstu mannréttindastofnanir heims sammála um að ein helsta áskorun á sviði mannréttinda væri mannréttindi flóttamanna. Þingið hefði samþykkt ályktun um réttindi barna í þessu sambandi árið 2011 um að aldrei ætti að hneppa börn sem væru ein á flótta í varðhald. Skýrsla þingsins nú segði okkur að mörg aðildarríki hefðu tekið skref til að binda enda á varðhald barna en þau hefðu ekki verið fullnægjandi og að tölfræðin í þessu sambandi væri kvíðvænleg, bæði í Evrópu og eins í öllum heiminum. Þau ríki sem hneppi börn í varðhald brjóti gegn hagsmunum og réttindum barnsins sem geti leitt til alvarlegs ævilangs skaða.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um ákjósanlega læknisþjónustu við brjóstakrabbameini, starfsemi Þróunarbanka Evrópu, skuldbindingar Albaníu gagnvart Evrópuráðinu, virkni lýðræðisstofnana í Georgíu og réttindi kvenna og horfur í samstarfi Evrópuráðsins við Miðjarðarhafsríkin Marokkó, Túnis, Egyptaland, Alsír og Líbíu.

Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins í Brussel 18. nóvember 2014.
    Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í þinghúsi Belga í Brussel 18. nóvember 2014. Karl Garðarsson, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sótti fundinn auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Í upphafsávarpi sínu lýsti Anne Brasseur, forseti Evrópuráðsþingsins, yfir ánægju sinni með þær áætlanir Belga um að þróa samvirkni milli Evrópuráðsins og annarra stofnana sem hefðu mikilvægu hlutverki að gegna í Evrópu á meðan landið færi með formennsku í ráðinu næstu sex mánuði. Einnig lofaði hún áætlanir Belga um stuðning við herferð ráðsins gegn hatursorðræðu (e. No Hate Speech Campaign). Þá sagði Brasseur frá því að forsætisnefnd þingsins hefði fundað með forseta neðri deildar rússneska þingsins, Sergey Naryshkin, og sendinefnd Rússa í Evrópuráðsþinginu, 13. nóvember 2014 í Moskvu. Vegna innlimunar Rússa á Krímskaga ákvað Evrópuráðsþingið í apríl 2014 að svipta rússnesku sendinefndina atkvæðisrétti sem og rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti, til áramóta. Rússar hafa ekki tekið þátt í starfi þingsins síðan. Með fundunum er ætlunin að halda samræðum gangandi þrátt fyrir það.
    Forseti efri deildar belgíska þingsins, Christine Defraigne, ávarpaði næst fundinn og kynnti áherslur undir formennsku landsins. Þar bar hæst baráttuna gegn dauðarefsingu, vernd réttinda kvenna, barna og verjenda mannréttinda, baráttuna gegn mismunun, þar á meðal á grundvelli kynhneigðar, og loks baráttuna gegn refsileysi (e. impunity).
    Utanríkis- og Evrópumálaráðherra Belga, Didier Reynders, ávarpaði einnig stjórnarnefnd, en hann er formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins á meðan Belgar fara með formennsku. Í máli sínu lagði Reynders áherslu á alvarlega stöðu mála í Úkraínu. Innlimun Rússa á Krímskaga, áframhaldandi ofbeldi og nýleg aukning í herafla Rússa í austurhluta landsins tefldi ekki einungis stöðugleika og öryggi í Úkraínu í tvísýnu heldur í allri Evrópu.
    Í ályktun sinni um gerendur í kynferðisbrotum og heimilisofbeldi kallaði þingið eftir að aðildarríki Evrópuráðsins hönnuðu og settu upp fyrirbyggjandi meðferðaráætlanir fyrir gerendur í nánu samstarfi við stuðningsþjónustur fyrir fórnarlömb ofbeldis, heilbrigðis- og félagsþjónustur, lögregluyfirvöld og dómsvöld. Tryggja ætti að áætlanirnar legðu áherslu á ábyrgð gerandans og alvarlegar afleiðingar ofbeldisins. Öryggi fórnarlamba og virðing fyrir mannréttindum þeirra ætti að vera miðpunktur áætlananna. Jafnframt var kallað eftir viðeigandi þjálfun umsjónarmanna þeirra og að aðildarríki deildu bestu starfsvenjum sín á milli og gerðu reglulega mat á árangri áætlananna. Loks kallaði þingið eftir að þjóðþing aðildarríkjanna ynnu án tafar að undirritun og fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, ef þau hefðu ekki þegar lokið því ferli, og tryggðu framkvæmd samningsins. Karl Garðarsson tók til máls og sagði frá frumvarpi sem hann og Vilhjálmur Árnason hyggjast leggja fram á Alþingi til að taka heimilisofbeldi á Íslandi fastari tökum.
    Í ályktun um búferlaflutninga flóttamanna óskaði þingið eftir því að aðildarríki tækju á móti fleiri flóttamönnum, ykju skilvirkni og sveigjanleika áætlana sinna í málaflokknum og einfölduðu ferlið í heild. Þingið hvatti aðildarríki sérstaklega til að taka á móti fleiri flóttamönnum frá Sýrlandi í ljósi þess neyðarástands sem skapast hefur vegna átakanna þar í landi. Þá voru ríki enn fremur hvött til að styðja Möltu og önnur ríki sem standa frammi fyrir miklum straumi flóttamanna. Í tilmælum sínum til ráðherranefndar Evrópuráðsins hvatti þingið nefndina til að halda þemaráðstefnu um búferlaflutninga flóttamanna til að auka vitund almennings um þau skref sem aðildarríki eru að taka og bestu venjur og hvetja fleiri ríki til að bregðast við ástandinu.
    Í ályktun um félagslega útilokun lagði þingið til að aðildarríki þróuðu og framkvæmdu ítarlegar aðgerðaáætlanir með það að markmiði að berjast gegn félagslegri útilokun, ekki síst þeirra sem búa við slæm kjör, innflytjenda, þjóðernisminnihluta og fatlaðra. Í tilmælum til ráðherranefndar hvatti þingið nefndina til að auka skuldbindingu sína gagnvart sameiginlegum viðmiðum þegar kemur að vernd félags- og efnahagslegra réttinda, einkum með því að hvetja aðildarríki enn frekar til að undirrita og fullgilda félagsmálasáttmála Evrópu.
    Í ályktun um misnotkun samnings Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna fordæmdi þingið misnotkun Aserbaídsjan á samningnum þegar kom að flutningi Ramil Safarov frá Ungverjalandi til Aserbaídsjan, þar sem honum var sleppt úr haldi. Safarov hafði verið dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar í Ungverjalandi fyrir morðið á Armenanum Gurgen Margayan, sem átti sér stað meðan þeir sóttu báðir námskeið í Búdapest á vegum NATO. Þingið ítrekaði að tilgangur samningsins væri ekki að greiða fyrir að fangar væru tafarlaust leystir úr haldi þegar þeir kæmu aftur til heimalands síns og undirstrikaði mikilvægi þess að samningnum væri beitt í góðri trú og samkvæmt lögum og reglum. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins lagði þingið til að þegar kæmi að flutningi fanga, sérstaklega í tilfellum sem gætu haft pólitísk og diplómatísk eftirköst, gerðu aðildarríki sérstakan samning sín á milli, sem viðauka við samning um flutning, þar sem það ríki sem tæki á móti fanga fullvissaði það ríki sem framseldi fanga að það mundi fylgja meginreglum samnings Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna.
    Í ályktun um vegalaust fólk innan eigin lands og miðstöðvar fyrir flóttamenn hvatti þingið aðildarríki til að kortleggja stöðu og fjölda flóttamannamiðstöðva í sínu landi og setja á fót áætlun um miðstöðvarnar og fólkið sem býr þar. Áherslu ætti að leggja á að tryggja réttindi íbúa miðstöðvanna, auðvelda þeim að verða eigendur þeirra, þróa aðra húsnæðismöguleika og auðvelda lokun þeirra stöðva sem stæðust ekki öryggis- og gæðastaðla. Þá kallaði þingið eftir að aðildarríki Evrópuráðsins þróuðu alþjóðlega stefnu um varanlegar lausnir á húsnæðismálum vegalauss fólks og setti upp samhæfingarmiðstöðvar fyrir vegalaust fólk og flóttamenn.
    Í ályktun um velferð evrópskra borgara hvatti þingið þjóðþing og ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins til að þróa viðeigandi innviði og tæki til að mæla velferð borgara sinna og hlúa að framþróun hennar með því að styðjast við nýjustu rannsóknir á sviði velferðarmála. Þá voru þjóðþing og ríkisstjórnir hvött til að skilgreina skýrt langtímamarkmið og -stefnur í málaflokknum.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Karl Garðarsson, sótti fundi stjórnmála- og lýðræðisnefndar í mars, september og desember, fundi eftirlitsnefndar í september og nóvember, auk stjórnarnefndarfunda í maí og nóvember. Ögmundur Jónasson sótti fund félagsmálanefndar í september og fundi flóttamannanefndar í mars og nóvember, auk fundar eftirlitsnefndar í desember.
    Til viðbótar við nefndarfundi sinnti Karl Garðarsson eftirliti með forsetakosningum í Úkraínu 25. maí 2014 og þeir Ögmundur Jónasson sinntu báðir eftirliti með þingkosningum í Úkraínu 26. október 2014 fyrir hönd sinna flokkahópa á vegum Evrópuráðsþingsins.

Alþingi, 16. janúar 2015.

Karl Garðarsson,
form.
Unnur Brá Konráðsdóttir, varaform. Ögmundur Jónasson.



Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2014.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2014:

Fyrsti hluti þingfundar 27.–31. janúar:
    –        Ályktun 1967 um leiðir til að berjast gegn kynþáttahatri og umburðarleysi í Evrópu.
    –        Ályktun 1968 um að takast á við kynþáttahatur í lögreglunni.
    –        Ályktun 1969 um stöðu samstarfssamnings Evrópuráðsþingsins við Þjóðarráð Palestínu.
    –        Ályktun 1970 um áhrif nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni á lýðræði.
    –        Ályktun 1971 um alþjóðlega aðstoð til flóttafólks frá Sýrlandi.
    –        Ályktun 1972 um að tryggja að hagur sé af farandverkamönnum fyrir þau evrópsku samfélög sem taka á móti þeim.
    –        Ályktun 1973 um hvort samþættingarpróf (e. integration test) auki eða hindri samþættingu.
    –        Ályktun 1974 um starfsemi lýðræðisstofnana í Úkraínu.
    –        Ályktun 1975 um framlag Evrópu til þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
    –        Ályktun 1976 um ramma fyrir alþjóðlegan samning um loftslagsbreytingar árið 2015.
    –        Ályktun 1977 um fjölbreytni í orkugjöfum sem mikilvægt framlag til sjálfbærrar þróunar.
    –        Ályktun 1978 um endurbætur á samningi Evrópuráðsins um sjónvarp á milli landa (e. European Convention on Transfrontier Television).
    –        Ályktun 1979 um ábyrgðarskyldu alþjóðastofnana þegar kemur að mannréttindabrotum.
    –        Tilmæli 2031 um að synja morðingjum Sergei Magnitsky refsileysi.
    –        Tilmæli 2032 um leiðir til að berjast gegn kynþáttahatri og umburðarleysi í Evrópu.
    –        Tilmæli 2033 um áhrif nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni á lýðræði.
    –        Tilmæli 2034 um hvort samþættingarpróf (e. integration test) auki eða hindri samþættingu.
    –        Tilmæli 2035 um starfsemi lýðræðisstofnana í Úkraínu.
    –        Tilmæli 2036 um endurbætur á samningi Evrópuráðsins um sjónvarp á milli landa (e. European Convention on Transfrontier Television).
    –        Tilmæli 2037 um ábyrgðarskyldu alþjóðastofnana þegar kemur að mannréttindabrotum.

Stjórnarnefndarfundur 7. mars:
    –        Ályktun 1980 um að hvetja fólk til að tilkynna grun um kynferðislega misnotkun barna.
    –        Ályktun 1981 um evrópska arfleifð sem stefnt er í hættu.
    –        Ályktun 1982 um Mannréttindasáttmála Evrópu og þörfina fyrir að styrkja þjálfun löglærðra sérfræðinga.
    –        Tilmæli 2038 um evrópska arfleifð sem stefnt er í hættu.
    –        Tilmæli 2039 um Mannréttindasáttmála Evrópu og þörfina fyrir að styrkja þjálfun löglærðra sérfræðinga.

Annar hluti þingfundar 7.–11. apríl:
    –        Ályktun 1983 um vændi, mansal og nútímaþrælahald í Evrópu.
    –        Ályktun 1984 um umsókn Kirgistan um stöðu samstarfsríkis Evrópuráðsþingsins.
    –        Ályktun 1985 um stöðu og réttindi þjóðarbrota í Evrópu.
    –        Ályktun 1986 um að bæta neytendavernd og -öryggi í netheimum.
    –        Ályktun 1987 um réttinn til aðgangs að internetinu.
    –        Ályktun 1988 um nýlega þróun í Úkraínu: ógnir við starfsemi lýðræðisstofnana.
    –        Ályktun 1989 um aðgang að ríkisfangi og áhrifaríka framkvæmd Evrópusamnings um ríkisfang.
    –        Ályktun 1990 um að endurskoða, af efnislegum ástæðum, áður fullgild kjörbréf rússnesku sendinefndarinnar.
    –        Ályktun 1991 um aðkallandi þörf á að taka á nýjum brestum í samstarfi aðildarríkja við Mannréttindadómstól Evrópu.
    –        Ályktun 1992 um vernd ólögráða ungmenna fyrir sértrúarsöfnuðum.
    –        Ályktun 1993 um mannsæmandi vinnu fyrir alla.
    –        Ályktun 1994 um flóttamenn og réttinn til atvinnu.
    –        Ályktun 1995 um að binda enda á fátækt barna í Evrópu.
    –        Tilmæli 2040 um stöðu og réttindi þjóðarbrota í Evrópu.
    –        Tilmæli 2041 um að bæta neytendavernd og -öryggi í netheimum.
    –        Tilmæli 2042 um aðgang að ríkisfangi og áhrifaríka framkvæmd Evrópusamnings um ríkisfang.
    –        Tilmæli 2043 um aðkallandi þörf á að taka á nýjum brestum í samstarfi aðildarríkja við Mannréttindadómstól Evrópu.
    –        Tilmæli 2044 um að binda enda á fátækt barna í Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 23. maí:
    –        Ályktun 1996 um réttindi flóttamanna við 18 ára aldur.
    –        Ályktun 1997 um farandfólk og flóttamenn og baráttuna gegn alnæmi.
    –        Ályktun 1998 um bætt samstarf milli þjóðþinga og mannréttindastofnana í aðildarríkjum þegar kemur að jafnrétti og mismunun.
    –        Tilmæli 2045 um baráttuna gegn kynferðisofbeldi gegn börnum: í átt að árangursríkri niðurstöðu í herferðinni Eitt af fimm (e. One in Five).
    –        Álit 287 um drög að sáttmála Evrópuráðsins gegn hagræðingu úrslita íþróttakeppna.

Þriðji hluti þingfundar 23.–27. júní:
    –        Ályktun 1999 um „Skilin-eftir-til-að-deyja-bátinn“ (e. the „left-to-die boat“): aðgerðir og viðbrögð.
    –        Ályktun 2000 um mikinn straum innflytjenda til Ítalíu.
    –        Ályktun 2001 um ofbeldi í fjölmiðlum.
    –        Ályktun 2002 um mat á framkvæmd umbóta á Evrópuráðsþinginu.
    –        Ályktun 2003 um leiðina til betra evrópsks lýðræðis: að takast á við áskoranir Evrópu sem sambandsríkis.
    –        Ályktun 2004 um framlag þinga þegar kemur að því að leysa deiluna um Vestur- Sahara.
    –        Ályktun 2005 um sjálfsvitund og fjölbreytileika innan þvermenningarlegra samfélaga.
    –        Ályktun 2006 um aðlögun farandverkamanna í Evrópu: þörfin fyrir forvirka, alþjóðlega langtímaáætlun.
    –        Ályktun 2007 um áskoranir Þróunarbanka Evrópuráðsins.
    –        Ályktun 2008 um síbreytilega almannaþjónustu í Evrópu: er almannaþjónusta í hættu?
    –        Ályktun 2009 um styrkingu sjálfstæðis Mannréttindadómstóls Evrópu.
    –        Ályktun 2010 um barnvæna meðhöndlun ungmenna sem gerast sek um glæpi: frá orðagjálfri til raunveruleika.
    –        Tilmæli 2046 um „Skilin-eftir-til-að-deyja-bátinn“ (e. the „left-to-die boat“): aðgerðir og viðbrögð.
    –        Tilmæli 2047 um mikinn straum innflytjenda til Ítalíu.
    –        Tilmæli 2048 um ofbeldi í fjölmiðlum.
    –        Tilmæli 2049 um sjálfsvitund og fjölbreytileika innan þvermenningarlegra samfélaga.
    –        Tilmæli 2050 um síbreytilega almannaþjónustu í Evrópu: er almannaþjónusta í hættu?
    –        Tilmæli 2051 um styrkingu sjálfstæðis Mannréttindadómstóls Evrópu.
Fjórði hluti þingfundar 29. september – 3. október:
    –        Ályktun 2011 um mótaðgerðir gegn birtingarformum nýnasisma og hægri öfgahyggju
    –        Ályktun 2012 um réttindi kvenna og horfur fyrir samstarf Evrópuráðsins við Miðjarðarhafsríki.
    –        Ályktun 2013 um góða stjórnunarhætti og bætt gæði menntunar.
    –        Ályktun 2014 um að auka vægi starfsmenntunar.
    –        Ályktun 2015 um virkni lýðræðisstofnana í Georgíu.
    –        Ályktun 2016 um þá ógn gegn mannkyni sem stafar af hryðjuverkasamtökum sem kenna sig við íslamskt ríki (IS): ofbeldi gegn kristnum og öðrum trúar- eða þjóðernissamfélögum.
    –        Ályktun 2017 um starfsemi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) 2013– 2014.
    –        Ályktun 2018 um eftirlitsferli Evrópuráðsþingsins (október 2013 – september 2014).
    –        Ályktun 2019 um eftirfylgni Albaníu við aðildarskuldbindingar sínar.
    –        Ályktun 2020 um aðra möguleika en varðhald flóttamannabarna.
    –        Ályktun 2021 um leiðina í átt að ákjósanlegustu læknisþjónustu við brjóstakrabbameini.
    –        Tilmæli 2052 um mótaðgerðir gegn birtingarformum nýnasisma og hægri öfgahyggju.
    –        Tilmæli 2053 um réttindi kvenna og horfur fyrir samstarf Evrópuráðsins við Miðjarðarhafsríki.
    –        Tilmæli 2054 um góða stjórnunarhætti og bætt gæði menntunar.
    –        Tilmæli 2055 um þá ógn gegn mannkyni sem stafar af hryðjuverkasamtökum sem kenna sig við íslamskt ríki (IS): ofbeldi gegn kristnum og öðrum trúar- eða þjóðernissamfélögum.
    –        Tilmæli 2056 um aðra möguleika en varðhald flóttamannabarna.

Stjórnarnefndarfundur 18. nóvember:
    –        Ályktun 2022 um aðgerðir til að koma í veg fyrir misnotkun á samningi Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna (ETS nr. 112).
    –        Ályktun 2023 um að mæla og hlúa að velferð evrópskra borgara.
    –        Ályktun 2024 um félagslega útilokun – hætta fyrir lýðræðisríki Evrópu.
    –        Ályktun 2025 um búferlaflutninga flóttamanna: að stuðla að aukinni samstöðu.
    –        Ályktun 2026 um aðra möguleika en sameiginlegar miðstöðvar fyrir flóttamenn og vegalaust fólk innan eigin lands.
    –        Ályktun 2027 um áherslu á gerendur til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum.
    –        Tilmæli 2057 um aðgerðir til að koma í veg fyrir misnotkun á samningi Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna (ETS nr. 112).
    –        Tilmæli 2058 um félagslega útilokun – hætta fyrir lýðræðisríki Evrópu.
    –        Tilmæli 2059 um búferlaflutninga flóttamanna: að stuðla að aukinni samstöðu.