Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 827  —  452. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur
um upplýsingar um loftmengun.


     1.      Hefur almannavarnahlutverk Ríkisútvarpsins við miðlun upplýsinga um áhrif gosmengunar á loftgæði verið skilgreint?
    Almannavarnahlutverk Ríkisútvarpsins er skilgreint í verklagi almannavarna. Í tengslum við upplýsingar um loftgæði þá birtir Ríkisútvarpið þær í fréttatímum, líkt og aðrar mikilvægar upplýsingar frá almannavörnum, og einnig er dagskrá rofin ef þörf krefur.

     2.      Hvaða viðmiðunum er fylgt þegar sendar eru út tilkynningar í smáskilaboðum frá almannavörnum um brennisteinsdíoxíðmengun?
    Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á viðbrögðum að því er snýr að heilsu manna og hann hefur í samstarfi við Umhverfisstofnun og ríkislögreglustjóra gefið út viðmiðunartöflu sem byggð er á reynslu frá Havaíeyjum varðandi brennisteinsdíoxíð. Miðað er við 2.000 míkrógrömm á rúmmetra þegar send eru smáskilaboð á svæði þar sem slík gildi mælast. 2.000–9.000 míkrógrömm á rúmmetra eru talin óholl samkvæmt fyrrgreindri töflu. Útsending smáskilaboða er eingöngu viðbót við aðra upplýsingamiðlun við slík tilfelli. Áhersla er lögð á miðlun í gegnum fjölmiðla, vefsíður og samfélagsmiðla.

     3.      Er niðurstöðum mælinga á loftgæðum safnað skipulega frá öllum mælum sem settir hafa verið upp á landinu síðustu vikur? Ef svo er, eru niðurstöður mælinganna aðgengilegar almenningi og hvar þá?
    Um tvenns konar mæla er að ræða við eftirlit á gasmengun frá Holuhrauni. Í fyrsta lagi eru það nettengdir mælar sem mæla ýmis gildi og safna gögnum í rauntíma sem birt eru á vefsíðu Umhverfisstofnunar, www.loftgaedi.is. Í öðru lagi eru það handmælar sem eru vaktaðir og ef mæligildi hækka á þeim er bakvakt almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra upplýst. Deildin kemur á framfæri viðvörunum í fjölmiðla og með smáskilaboðum í farsíma ef gildin fara yfir 2.000 míkrógrömm á rúmmetra en einnig er upplýst til fjölmiðla ef gildin eru há þótt þau nái ekki fyrrgreindum viðmiðunum. Almannavarnadeildin notar vefsíðurnar www.almannavarnir.is og www.avd.is ásamt samfélagsmiðlum líkt og Facebook og Twittertil að koma á framfæri slíkum upplýsingum.
    Af handmælunum er lesið reglulega með því að tengja þá við tölvu og þá fást upplýsingar um allar mælingar sem gerðar hafa verið ásamt tíma þeirra. Slíkt ásamt gögnum úr nettengdum mælum eru mikilvæg gögn fyrir framtíðarrannsóknir á áhrifum gosmengunar á menn og dýr. Nú er unnið að því að koma á í samstarfi við Veðurstofuna rafrænni skráningu gagna úr handmælum til að þau birtist í nær rauntíma á vef Umhverfisstofnunar og Veðurstofunnar. Spár um dreifingu á gasi eru birtar í rauntíma á vef Veðurstofunnar. Þær spár hafa reynst mjög gagnlegar og áreiðanlegar.


     4.      Kemur til greina að þeir sem eru viðkvæmir í lungum, svo sem astmasjúklingar, gætu óskað sérstaklega eftir því að fá tilkynningar í smáskilaboðum þegar mengun frá eldgosum eða af öðrum orsökum fer yfir tiltekin mörk? Kemur til greina að aðrir sem óskuðu þess fengju slíkar tilkynningar?

    Ekki er unnið að slíkum möguleikum á vegum ríkislögreglustjóra.