Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 869  —  447. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um vopnaöflun og vopnaeign Landhelgisgæslunnar.


     1.      Hversu mörg skotvopn eru í eigu Landhelgisgæslunnar, hverrar gerðar eru þessi vopn, hverrar stærðar og hver er aldur þeirra?
    Í fylgiskjali kemur fram að skráð vopn hjá Landhelgisgæslunni eru samtals 212 stk. en af þeim eru 120 stk. ekki lengur í notkun. Áætlað var að vopnin frá Norðmönnum (100 stk.) kæmu í stað þeirra sem hafa verið aflögð og er því ekki um aukningu á vopnakostinum að ræða enda hluti þeirra vopna sem um ræðir ætlaður í varahluti og til viðgerða. Er um að ræða bæði nýrri og öruggari vopn sem henta mundu betur starfsemi Landhelgisgæslunnar.

     2.      Hvar eru skotvopn Landhelgisgæslunnar varðveitt að jafnaði?
    Skotvopn Landhelgisgæslunnar eru geymd í viðurkenndum skotvopnageymslum Landhelgisgæslunnar.

     3.      Hversu margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa hlotið þjálfun í vopnaburði, hvaða aðili hefur veitt þjálfunina og vottað hana, hversu langan tíma tekur þjálfunin og við hvaða gerðir vopna hefur þjálfunin miðast? Hversu oft fer endurþjálfun fram?
    Þeir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem eru handhafar lögregluvalds samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna, uppfylla þar til bær skilyrði og starfa við öryggis- og löggæslu hafa hlotið viðeigandi þjálfun í vopnaburði.
    Þjálfunin fer fram innan Landhelgisgæslunnar. Starfsmenn séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs sjá að mestu um þjálfunina og hafa hlotið til þess vottaða menntun erlendis hjá Glock auk Heckler og Koch. Ákveðinn þáttur þjálfunarinnar fer einnig fram innan lögreglunnar. Grunnnámskeið tekur fimm daga en allir sem taka þátt þurfa einnig að fara í gegnum þrekpróf. Síðan tekur við bæði bóklegt nám og verkleg kennsla sem lýkur með skriflegu og verklegu prófi. Þjálfunin fer fram í þremur stigum.
          Fyrsta stig. Er ætlað öllum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar sem fara með lögregluvald þrátt fyrir að þeir beri aldrei vopn. Farið er yfir lög um Landhelgisgæsluna, reglugerðir sem henni tengjast, og reglur um valdbeitingu handhafa lögregluvalds hjá Landhelgisgæslunni sem voru gefnar út af dómsmálaráðuneytinu árið 2007.
          Annað stig. Kennsla í meðferð á Glock 17 sem er 9 mm sjálfvirk skammbyssa, sömu tegundar og notuð er innan lögreglunnar.
          Þriðja stig. Ætlað þeim sem eiga að því loknu að geta farið í vopnaða uppgöngu um borð í skip. Viðkomandi fá þjálfun til að bera Glock 17, MP-5A2N 9 mm x 19 og haglabyssu no. 12. Öll þessi þjálfun miðast við sjálfsvörn. Viðhaldsþjálfun fer fram þrisvar á ári undir leiðsögn leiðbeinanda, síðan fer fram svokölluð þurrþjálfun og er tíðni hennar breytileg eftir verkefnum.
     4.      Hve margir aðilar innan Landhelgisgæslunnar hafa heimild til að taka ákvörðun um vopnaburð starfsmanna stofnunarinnar og fyrirskipa hann?
    
Forstjóri Landhelgisgæslunnar ákveður notkun vopna hjá Landhelgisgæslu Íslands. Skipherra varðskips og flugstjóri loftfara geta gefið fyrirmæli um að handhafar lögregluvalds hjá Landhelgisgæslunni vopnist í neyðartilvikum.

     5.      Hvaða vopna hefur Landhelgisgæslan aflað sér á undanförnum áratug? Óskað er upplýsinga um gerð, fjölda og upprunaland vopnanna.
     6.      Hversu mörg þeirra vopna sem Landhelgisgæslunni hafa áskotnast á undanförnum áratug hafa annars vegar verið keypt, af hverjum og hvert var verð þeirra, og hins vegar þegin að gjöf, frá hverjum og hvert var verðmæti þeirra?

2006 4 stk. Glock 17 skammbyssur Keyptar af umboðsaðila hér á landi (55.000 kr. stk. með virðisaukaskatti).
2006 4 stk. Remington no 12 haglabyssur Keyptar af umboðsaðila hér á landi (37.000 kr. stk. með virðisaukaskatti). Aflagðar.
2006 20 stk. G3 rifflar Gjöf frá danska hernum. Aflagðir.
2011 50 stk MP-5 A2N 9 mm x 19 Gjöf frá norska hernum.
2012 5 stk. Glock 17 skammbyssur Keyptar af umboðsaðila hér á landi (103.538 kr. stk. með virðisaukaskatti).
2013 10 stk. MG3 hríðskotabyssur Gjöf frá norska hernum.

     7.      Hvaða aðili tekur ákvörðun um kaup á vopnabúnaði fyrir Landhelgisgæsluna eða annars konar vopnaöflun og á hvaða forsendum eru slíkar ákvarðanir teknar?
    Innkaup, sala, innflutningur og útflutningur vopna, sem og skotfæragerð, er háð samþykki forstjóra Landhelgisgæslunnar. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið annast vörslu vopna Landhelgisgæslunnar og ber á þeim ábyrgð. Þar er til staðar þekking og reynsla varðandi vopnaburð. Starfsmenn sviðsins hafa í gegnum tíðina verið í mjög góðu samstarfi við systurstofnanir nágrannaþjóðanna og tekið þátt í sameiginlegri þjálfun og æfingum. Allir starfsmenn sviðsins hafa fengið þjálfun í Danmörku í sprengjueyðingu auk þjálfunar í vopnaakademíu danska land- og sjóhersins. Forsendur fyrir ákvörðun um endurnýjun vopna Landhelgisgæslunnar eru m.a. þær að um er að ræða mun öruggari, nýrri og betri vopn en það samansafn vopna sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða, sbr. fylgiskjal. Þá er ákveðin hagræðing fólgin í því að samræma vopnaeign ríkisins frá sjónarmiðum bæði um öryggi og þjálfun en sérsveit ríkislögreglustjóra hefur notað þessa tegund vopna í mörg ár, eins og löggæsluaðilar víða um heim.

     8.      Hefur Landhelgisgæslan yfir að ráða öðrum vopnum en skotvopnum? Ef svo er, hvaða vopn eru það og í hvaða tilgangi hefur þeirra verið aflað?
    Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða handjárnum, piparúða og kylfum. Handjárn eru notuð á handtekinn einstakling ef hætta er á flótta eða ætla má að öryggi hans eða annarra verði ekki tryggt með öðrum hætti. Piparúða og kylfur er heimilt að nota þegar vægari aðferðir duga ekki til þess að yfirbuga mótþróa einstaklings við handtöku.

     9.      Með hvaða hætti fargar Landhelgisgæslan úreltum og/eða ónýtum vopnum? Er í gildi verklagsáætlun um þetta eða önnur fyrirmæli og er haldin skrá um förguð skotvopn þannig að afdrif þeirra séu ljós?
    Öll vopn sem Landhelgisgæslan er með í sinni vörslu eru skráð. Vopn voru lánuð til lögreglu árið 1986 þegar sérsveitin var stofnuð. Nokkur vopn sem hafa verið gerð óvirk hafa verið lánuð á söfn víðs vegar um landið, notuð sem leikmunir eða seld söfnurum. Ekki hefur verið farið í að eyða þessum gripum enda eru þeir orðnir safngripir. Þar af leiðandi hefur ekki verið talin þörf á setningu sérstakrar verklagsáætlunar um förgun.


Fylgiskjal.

Landhelgisgæsla Íslands:

    Skráð vopn hjá Landhelgisgæslunni eru samtals 212 stk. Af þeim eru 120 stk. ekki lengur í notkun. Áætlað var að vopnin frá Norðmönnum (100 stk.) kæmu í stað þeirra sem hafa verið aflögð og til viðhalds og viðgerðar. Því ekki um aukningu á vopnakostinum að ræða. Eru það bæði nýrri og öruggari vopn sem henta mun betur starfsemi Landhelgisgæslunnar. Um 90% af vopnum Landhelgisgæslunnar (fallbyssur á skip, handvopn og rifflar) eru gjafir frá grannþjóðum, en með því hafa þær sloppið við að farga þeim. Í flestum tilfellum er um að ræða vopn sem viðkomandi þjóðir hafa tekið úr notkun vegna skipulagsbreytinga.

Vopnaeign. Tegund

Hlaupvídd

Fjöldi
Árgerð, upplýsingar
MP-5 9 mm 50 Árgerð 1990. Gjöf frá Norðmönnum 2011.
Glock 9 mm 20 Árgerð 1990, 2006 og 2012. Keypt af umboði í Reykjavík.
Bofors L 60 40 mm fallbyssa 40 mm 4 Árgerð 1936. Gjöf frá Dönum.
MG-3 7,62 mm 10 Árgerð 1990. Gjöf frá Norðmönnum 2013.
Steyr riffill 7,62 mm 8 Árgerð 1989. Keypt af umboði í Reykjavík.
Samtals 92
Ekki lengur í notkun:
Remington no. 12 4 Árgerð 2000. Keypt af umboði í Reykjavík.
Smith&Wesson 38 Police special 38 cal. Special 21 Árgerð 1940. Ekki í notkun. Marshall aðstoð
Enfield riffill 303 cal. 10 Árgerð 1910. Ekki í notkun. Ekki vitað um uppruna.
G-3 7,62 mm 20 Árgerð 1959. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum 2006.
Fallbyssa 37 mm 37 mm 3 Árgerð 1898. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum.
Carabine M1 0.30 cal 7,62 mm 30 Árgerð 1940. Lánaðar lögreglunni í Reykjavík 1986. Ekki í notkun.
Carabine M2 0.30 cal 7,62 mm 20 Árgerð 1940. Lánaðar lögreglunni í Reykjavík 1986. Ekki í notkun.
Fallbyssa 47 mm 47 mm 3 Árgerð 1909. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum.
Fallbyssa 57 mm 57 mm 5 Árgerð 1892. Ekki í notkun. Gjöf frá Dönum.
Browning M2 12,7 mm 12,7 mm 3 Árgerð 1939. Ekki í notkun. Kom með flugbát sem LHG var með í rekstri.
3 Pr Hotchkiss fallbyssa 47 mm 47 mm 1 Árgerð 1912. Ekki í notkun. Á safni á Ísafirði.
Samtals 120
Heildarfjöldi 212