Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 994  —  376. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi,
nr. 16/2000, með síðari breytingum (ný kynslóð kerfisins).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein og Valgerði Maríu Sigurðardóttur frá innanríkisráðuneytinu og Pál Heiðar Halldórsson og Björn Halldórsson frá ríkislögreglustjóra. Umsögn barst frá ríkislögreglustjóra.
    Markmið frumvarpsins er að innleiða þrjár Schengen-gerðir sem nauðsynlegt er talið að innleiða svo að Ísland uppfylli þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það undirgekkst með þátttöku í Schengen-samstarfinu. Auk þess eru lagðar til tvær breytingar varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfið.
    Breytingarnar sem framangreindar gerðir hafa í för með sér á núgildandi lögum eru til komnar vegna gangsetningar á nýrri kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins. Þær fela í sér að fjölgað er tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið. Helsta nýjungin er skráning fingrafara og mynda af eftirlýstum einstaklingum auk skráningar evrópskrar handtökuskipunar í þeim tilvikum þegar slík handtökuskipun hefur verið gefin út af þar til bæru yfirvaldi Schengen-ríkis. Þá er gert ráð fyrir þeirri nýjung að heimilt verði að tengja skráningar í kerfinu og með því komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga í kerfið.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að við 3. mgr. 18. gr. laganna bætist ákvæði er varðar skyldu ríkislögreglustjóra til að bregðast við athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar þegar í stað og eigi síðar en innan þriggja mánaða. Markmið breytinganna er að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar gagnvart ríkislögreglustjóra, auk þess sem ákvarðanir ríkislögreglustjóra megi bera undir úrskurð Persónuverndar. Í umsögn ríkislögreglustjóra komu fram athugasemdir varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar. Bent var á að það væri almennt viðurkennd réttarregla að kæra eigi ákvörðun stjórnvalda til æðra stjórnvalds, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en Persónuvernd væri ekki æðra stjórnvald gagnvart ríkislögreglustjóra í skilningi stjórnsýslulaga. Óumdeilt væri að innanríkisráðuneytið væri hið æðra stjórnvald gagnvart ríkislögreglustjóra og því væri eðlilegra að ákvarðanir ríkislögreglustjóra sættu kæru þangað fremur en til Persónuverndar. Meiri hlutinn bendir á að 5. gr. frumvarpsins er til komin vegna þess að skort hefur á heimildir Persónuverndar til þess að geta knúið fram nauðsynlegar úrbætur vegna þess sem betur má fara við starfrækslu Schengen-upplýsingakerfisins, auk þess sem skort hefur á valdheimildir Persónuverndar til að taka bindandi ákvarðanir. Meiri hlutinn áréttar að með frumvarpinu er ekki lögð til breyting á viðurkenndri réttarreglu stjórnsýslulaga um að ákvarðanir lægra stjórnvalds séu kæranlegar til æðra stjórnvalds, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Með 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um framkvæmd eftirlitshlutverks Persónuverndar, sbr. m.a. 37. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem m.a. kveður á um að Persónuvernd úrskurði í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi, hvort sem íslensk lög eða lög annars ríkis gilda um vinnsluna. Kæruréttur skv. b- lið 5. gr. frumvarpsins nær einungis til ákvarðana sem eru teknar á grundvelli 13.–15. gr. laga nr. 16/2000 og er það mat meiri hlutans að eðlilegt megi telja að þær sæti kæru til Persónuverndar en ekki innanríkisráðuneytisins, enda varða þær ákvarðanir um skráningu og vinnslu persónuupplýsinga í Schengen-upplýsingakerfinu. Meiri hlutinn áréttar jafnframt að Ísland hefur í tvígang fengið athugasemd við það fyrirkomulag að umræddar ákvarðanir séu samkvæmt núgildandi lögum kæranlegar til innanríkisráðuneytisins en ekki Persónuverndar, en athugasemdirnar voru gerðar af föstu eftirlitsnefndinni með Schengen-samstarfinu í kjölfar úttekta árið 2005 og árið 2011. Vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu er Ísland skuldbundið til að árétta hlutverk Persónuverndar líkt og lagt er til með frumvarpinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 24. febrúar 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir
frsm.
Páll Valur Björnsson.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.