Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1011  —  30. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum
(fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hlutinn telur frumvarp þetta með öllu óþarft og telur að það gangi í raun þvert á grunnatriði í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Það er grundvallaratriði við útreikning réttinda sjóðsfélaga í lífeyrissjóði að með því að eignir sjóðanna eru í virkum viðskiptum á markaði er hægt að áætla hreina eign til greiðslu lífeyris. Breyting sú sem hér er til umfjöllunar tekur sérstaklega til fjárfestinga á markaðstorgi fjármálagerninga.
    Með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpi þessu, að teknu tilliti til breytingartillögu, er aukið svigrúm til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum. Heimild til kaupa á óskráðum eignum er nú 20% en verður 25% af hreinni eign. Það að hækka þessi mörk er í raun neyðaraðgerð vegna fárra fjárfestingarkosta vegna fjármagnshafta. Heimild til að fjárfesta á markaðstorgi fjármálagerninga er nú þegar fyrir hendi innan þeirra 20% sem heimilt er að fjárfesta í óskráðum bréfum þar sem verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga teljast ekki til verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði og því fari um þau sem önnur óskráð verðbréf skv. 3. mgr. 36. gr. laganna.
    Aðgerðin er í raun til þess eins að festa í sessi hömlur á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða og þar með auka á innlenda áhættu lífeyrissjóða.
    Minni hlutinn telur ekki rétt að samþykkja þetta frumvarp en vísað er til þess að nú er að störfum nefnd til að kanna breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.

Alþingi, 27. febrúar 2015.

Vilhjálmur Bjarnason.