Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1089  —  633. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000,
með síðari breytingum (fæðingarhjálp).

Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Páll Valur Björnsson, Birgitta Jónsdóttir,
Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Foreldrar sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar.

    Foreldrum sem þurfa að dveljast utan heimilis til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp og geta ekki vegna vegalengdar eða landfræðilegra aðstæðna sótt heimili sitt daglega er heimilt að hefja fæðingarorlof allt að þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur skal með læknisvottorði, eða fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess sé þörf.
    Þurfi foreldrar að hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 1. mgr., ber þeim að tilkynna það Vinnumálastofnun þremur vikum fyrir þann dag sem fyrirhugað er að hefja fæðingarorlof. Heimilt er að víkja frá því tímamarki ef ófyrirséð er hvenær foreldrar þurfa að hefja fæðingarorlof, sbr. 1. mgr.
    Réttur foreldra til fæðingarorlofs skal framlengjast sem nemur þeim tíma sem þeir dveljast utan heimilis af þeim sökum sem greinir í 1. mgr. fram til fæðingar.

2. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Foreldrar sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar.

    Foreldrum sem þurfa að dveljast utan heimilis til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp og geta ekki vegna vegalengdar eða landfræðilegra aðstæðna sótt heimili sitt daglega er heimilt að hefja töku fæðingarstyrks allt að þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur skal með læknisvottorði, eða fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess sé þörf.
    Þurfi foreldri að hefja töku fæðingarstyrks fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 1. mgr., ber þeim að tilkynna það Vinnumálastofnun þremur vikum fyrir þann dag sem fyrirhugað er að hefja töku fæðingarstyrks. Heimilt er að víkja frá því tímamarki ef ófyrirséð er hvenær foreldrar þurfa að hefja töku fæðingarstyrks, sbr. 1. mgr.
    Réttur foreldra til fæðingarstyrks skal framlengjast sem nemur þeim tíma sem þeir dveljast utan heimilis af þeim sökum sem greinir í 1. mgr. fram til fæðingar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Fæðingarhjálp er mikilvægur hluti nútíma heilbrigðisþjónustu. Nokkrum hópi fólks stendur þó ekki til boða fullnægjandi fæðingarþjónusta í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur. Af þessu getur leitt nokkur aðstöðumunur milli þessa hóps og þeirra sem eiga kost á fæðingarhjálp í heimabyggð sinni og þurfa því ekki að dveljast annars staðar meðan beðið er fæðingar. Þessu frumvarpi er ætlað að leiðrétta hluta þess aðstöðumunar.
    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að foreldrum sem þurfa að dveljast utan heimilis til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp og geta ekki vegna vegalengdar eða landfræðilegra aðstæðna sótt heimili sitt daglega verði heimilað að hefja fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur skal með læknisvottorði, eða fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess sé þörf. Almennt er talið ráðlegt að barnshafandi konur séu nálægt fæðingarstað ekki síðar en þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, eða í 38. viku meðgöngu miðað við 40 vikna meðallengd meðgöngu. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að foreldrar geti hafið fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þörf standi til þess að móðir sé fyrr nálægt fæðingarstað. Mat á því hvort þess sé þörf að barnshafandi móðir dveljist fjarri heimili sínu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp fyrir fæðingu er fyrst og fremst læknisfræðilegt. Alla jafna má ætla að sú fæðingarhjálp sem býðst í umdæmissjúkrahúsum, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, dugi. Í sérstökum tilvikum gæti foreldrum þó verið nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum að sækja sérhæfðari þjónustu annað. Það getur t.d. átt við í tilviki fjölburafæðinga og þegar vandamál í fæðingu eru fyrirsjáanleg. Rétt er að miða við að hitt foreldrið geti þurft að dveljast fjarri heimabyggð samtímis barnshafandi móður.
    Mat á því hvort foreldrar geti ekki vegna vegalengdar eða landfræðilegra aðstæðna sótt heimili sitt daglega byggist á því til hvers sé raunhæft að ætlast í hverju tilviki. Unnt er að notast við það sem grófa viðmiðun að foreldrar geti ekki sótt heimili sitt daglega ef meira en 100 kílómetrar eru frá dvalarstað til heimilis. Aðstæður geta þó gert það að verkum að ekki er raunhæft að ætlast til þess að foreldrar sæki heimili sitt daglega þótt styttra sé milli dvalarstaðar og heimilis. Það getur t.d. átt við í tilviki foreldra sem búa á eyju og þurfa að sækja fæðingarhjálp annað eða vegna slæmra samgönguskilyrða milli heimilis og dvalarstaðar.
    Í 2. mgr. 1. og 2. gr. frumvarpsins er miðað við þriggja vikna tilkynningarfrest til samræmis við það viðmið sem fram kemur í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þó er gert ráð fyrir að heimilt verði að víkja frá þeim fresti ef ófyrirséð er hvenær foreldrar þurfa að hefja fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks. Það gæti átt við þegar upp koma óvæntir atburðir sem krefjast þess að foreldrar dveljist nálægt fæðingarhjálp fyrr en ráð var fyrir gert. Að öðru leyti er ráðgert að hvort foreldri fyrir sig sæki um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk til samræmis við gildandi reglur laganna.
    Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða -styrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Að öðrum kosti ættu foreldrar sem þurfa að nýta fæðingarorlof eða -styrk til að sækja fæðingarhjálp fjarri heimili sínu að öðru jöfnu minna fæðingarorlof eða -styrk eftir til að nýta til umönnunar og samvista við börn sín eftir fæðingu en foreldrar sem búa þar sem fæðingarþjónusta er í heimabyggð. Sú staða er bæði andstæð jafnræðissjónarmiðum og ekki barni fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013.