Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
2. uppprentun.

Þingskjal 1111  —  424. mál.
Nýr liður.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki).

Frá meiri hluta um­hverfis- og sam­göngunefndar (HöskÞ, HE, BÁ, ElH, VilÁ).


     1.      Við 5. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
        c. (VII.)
                      4. gr. samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto- bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skal hafa lagagildi hér á landi. Ákvæðið og 1. viðauki samningsins eru birt sem fylgiskjal með lögunum.
     2.      Á eftir 5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:

Ákvæði 4. gr. og I. viðauka samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

4. gr.
Beiting viðeigandi löggjafar Sambandsins

         1.     Þær réttargerðir, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, skulu vera bindandi fyrir Ísland og gilda á Íslandi. Ef réttargerðirnar, sem falla undir þann viðauka, hafa að geyma tilvísanir til aðildarríkja Sambandsins skal litið svo á að tilvísanirnar, að því er þennan samning varðar, vísi einnig til Íslands.
         2.     Breyta má 1. viðauka við þennan samning með ákvörðun nefndar um sam­eigin­legar efndir sem komið er á fót með 6. gr. þessa samnings.
         3.     Nefndin um sam­eigin­legar efndir getur kveðið nánar á um tæknilegt fyrirkomulag varðandi beitingu þeirra réttargerða, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, að því er varðar Ísland.
         4.     Ef breytingar á 1. viðauka við þennan samning kalla á breytingar á almennri löggjöf Íslands skal við gildistöku slíkra breytinga hafa hliðsjón af þeim tíma sem Ísland þarf til að samþykkja breytingarnar og þörfinni á að tryggja samræmi við kröfurnar í Kyoto- bókuninni og ákvörðunum.
         5.     Það er sérstaklega brýnt að framkvæmdastjórnin fylgi venjulegri hefð og hafi samráð við sérfræðinga, þ.m.t. við sérfræðinga á Íslandi, áður en framseldar gerðir, sem felldar eru eða felldar verða undir 1. viðauka við þennan samning, verða samþykktar.

1. VIÐAUKI
(Skrá sem kveðið er á um í 4. gr.)

         1.     Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsaloftteg­unda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB (sem vísað er til sem „reglugerð 525/2013“), nema 4. gr., f-liður 7. gr., 15.–20. gr. og 22. gr. Ákvæði 21. gr. gilda eftir því sem við á.
         2.     Gildandi og síðari framseldar gerðir og framkvæmdargerðir sem byggjast á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki, Kyoto-bókunin).