Ferill 694. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1168  —  694. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru, lögum um Matvælastofnun og tollalögum (stjórnsýsluverkefni,
ónýttar og skertar beingreiðslur, gæðastýrð sauðfjárframleiðsla).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og
sölu búvöru, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Verðlagsnefnd annast verðskráningu þeirra búvara sem tekin er verðákvörðun um samkvæmt kafla þessum og auglýsir verðákvarðanir sínar.

2. gr.

    V. kafli laganna fellur brott.

3. gr.

    6. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna. Þar skal koma fram til hvaða verkefna í sauðfjárrækt skertum og ónýttum beingreiðslum skuli ráðstafað og hvaða opinberi aðili ráðstafi þeim.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 2. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tíðni eftirlits skal byggjast á áhættuflokkun, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlun.

5. gr.

    3. og 4. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna orðast svo: Við ákvörðun þess skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarið tólf mánaða tímabil og áætlun Matvælastofnunar fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Matvælastofnun skal byggja áætlun fyrir komandi verðlagsár á upplýsingum frá afurðastöðvum.

6. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 59. gr. laganna orðast svo: Matvælastofnun skal halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna samkvæmt þessum kafla.

7. gr.

    77. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun skal safna upplýsingum og birta ár hvert skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Þá skal Matvælastofnun gera áætlanir um framleiðslu og sölu búvara.
    Skylt er öllum þeim er hafa með höndum vinnslu eða sölu búvara að láta Matvælastofnun í té allar upplýsingar sem að gagni geta komið við störf stofnunarinnar og þeir geta veitt, þar með talið upplýsingar um verð búvöru til framleiðenda.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Verðskerðingargjöldum af verði hrossakjöts til framleiðenda og af kindakjöti á heildsölustigi sem innheimt hafa verið frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015 skal ráðstafað samkvæmt tillögu Bændasamtaka Íslands sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra. Bændasamtök Íslands skulu ganga frá lokauppgjöri og ráðstafa eftirstöðvum verðskerðingargjalda innan sex mánaða frá staðfestingu ráðherra.

9. gr.

    Heiti laganna verður: Búvörulög.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Matvælastofnun, nr. 80/2005, með síðari breytingum.
10. gr.

    F-liður 2. gr. laganna orðast svo: að annast verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt búvörulögum, nr. 99/1993.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Matvælastofnun er heimilt til 1. janúar 2017 að bjóða þeim starfsmönnum Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa verkefnum sem stofnuninni er falið að sinna samkvæmt búvörulögum, nr. 99/1993, starf hjá stofnuninni. Um réttarstöðu þeirra starfsmanna fer eftir ákvæðum laga nr. 72/2002, um réttindastöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
12. gr.

    Í stað orðanna „laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum“ í 2. mgr. 5. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: búvörulaga, nr. 99/1993.

13. gr.

    Í stað orðanna „laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993“ í 5. mgr. 12. gr. laganna kemur: búvörulaga, nr. 99/1993.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Markmið þess er að einfalda og skýra tiltekin ákvæði búvörulaga, nr. 99/1993, m.a. vegna stjórnsýsluverkefna hjá Matvælastofnun.
    Aðdraganda frumvarpsins má m.a. rekja til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá september 2010 um framkvæmd samninga sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gert við Bændasamtök Íslands um framleiðslu búvara (búvörusamningar). Í skýrslunni komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið yrði að herða eftirlit með framkvæmd búvörusamninga. Í kjölfar útgáfu skýrslunnar ákvað Ríkisendurskoðun að kanna nánar verkefni sem stjórnvöld útvista til Bændasamtaka Íslands, sér í lagi á grundvelli búvörusamninga og búnaðarlagasamnings. Í mars 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrsluna Útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands. Í niðurstöðu skýrslunnar segir: „Matvælastofnun annast ýmsa stjórnsýslu vegna landbúnaðarmála og Bændasamtök Íslands fara með fyrirsvar fyrir framleiðendur búvara lögum samkvæmt. Samtökin annast einnig fag- og fjárhagslega framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðarmála sem stjórnvöld og Alþingi hafa falið þeim með lögum, reglugerðum, samningum og ýmsum stjórnvaldsákvörðunum. Samtökunum hefur því að nokkru leyti verið falið opinbert vald sem felst m.a. í ákvörðunum um opinberar greiðslur til bænda, útreikningi, afgreiðslu og eftirliti með framkvæmd þeirra.“ Þá er í niðurstöðunum bent á að hvorki í lögum eða samningum ráðuneytisins við Bændasamtök Íslands er kveðið á um að samtökin séu bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og ákvæðum upplýsingalaga, nr. 50/1996, við framkvæmd verkefna. Var það mat Ríkisendurskoðunar að samtökunum bæri að gæta að ákvæðum laganna við framkvæmd verkefnanna. Í skýrslunni eru einnig rakin helstu verkefni sem Bændasamtök Íslands sinna samkvæmt samningi Matvælastofnunar við Bændasamtökin frá 1. janúar 2010. Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að Ríkisendurskoðun telji að ráðuneytið eigi að kanna möguleika á því að stofnun á þess vegum verði falið að afla og vinna úr upplýsingum á sviði landbúnaðarmála. Skýrslu Ríkisendurskoðunar var fylgt eftir með Skýrslu um eftirfylgni: Útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands í mars 2014. Framangreindar skýrslur Ríkisendurskoðunar eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar.
    Ráðuneytið brást við athugasemdum Ríkisendurskoðunar m.a. með samningum við Bændasamtök Íslands um verkefni samkvæmt búvörulögum og búvörusamningum. Þá gerðu Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun samning um verkefni í umboði Matvælastofnunar. Með búnaðarlagasamningi, dags. 28. september 2012, var tekinn af allur vafi um að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga giltu um framkvæmd verkefnanna hjá Bændasamtökum Íslands. Með samkomulagi, dags. 20. desember 2013, milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands, var ákveðið að unnið yrði að undirbúningi á flutningi verkefna frá Bændasamtökum Íslands til stofnana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í tengslum við flutninginn var ráðuneytinu og samtökunum falið að fjalla um starfsmannamál, flutning gagnagrunna og hugbúnaðar, viðhald á þeim til framtíðar, kostnað og önnur atriði sem huga þyrfti að við flutninginn. Í fyrsta áfanga þess að flytja stjórnsýsluverkefni frá Bændasamtökum Íslands var samtökunum falið að taka saman yfirlit yfir þau verkefni sem teljast til stjórnsýsluverkefna. Með skýrslunni Búnaðarstofa, sem unnin var af Jóni Baldri Lorange, starfsmanni Bændasamtaka Íslands, var tekið saman yfirlit yfir þau stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands sinna samkvæmt búvörulögum, búnaðarlögum, búvörusamningi og búnaðarlagasamningi. Skýrslan var formlega afhent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í apríl 2014. Í kjölfar þess var undirstofnunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, þ.e. Matvælastofnun og Byggðastofnun, send skýrslan til kynningar og óskað eftir umsögnum um hana. Í umsögnum stofnananna voru rakin tengsl hvorrar stofnunar fyrir sig við íslenskan landbúnað og hvernig þau verkefni samræmdust þeim stjórnsýsluverkefnum sem flytja skyldi frá Bændasamtökum Íslands. Mat ráðuneytisins var að hluta verkefnanna væri best fyrir komið hjá Matvælastofnun, m.a. skráningu greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna og greiðslum beingreiðslna. Kom ráðuneytið því á fót vinnuhópi sem skipaður var fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúa Bændasamtaka Íslands og fulltrúa Matvælastofnunar. Vinnuhópurinn afmarkaði þau verkefni sem æskilegt væri að flytja og stillti upp verkefnaáætlun um hvernig flutningi verkefna yrði háttað. Í nóvember 2014 var ljóst að frekari undir­búningur væri nauðsynlegur svo unnt yrði að ganga frá flutningi verkefnanna til Matvælastofnunar. Hinn 22. desember 2014 var gengið frá samkomulagi ráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands og Matvælastofnunar um fram­hald vinnu við flutning verkefna og gert ráð fyrir að flutningi verkefna yrði lokið fyrir 1. janúar 2016.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er m.a. að bregðast við þeirri gagnrýni sem sett er fram í framangreindum skýrslum Ríkisendurskoðunar og um leið að einfalda framkvæmd búvörulaga, þannig að stjórnsýsluverkefni sem tilgreind eru í ákvæðum laganna séu á hendi eins aðila, sem sé undirstofnun ráðuneytisins. Á árinu 2014 voru úthlutanir á þróunarfé í nautgriparækt og sauðfjárrækt, og ráðstöfun framlaga til kynningar-, rannsókna-, þróunar- og endurmenntunarverkefna við framleiðslu garðyrkjuafurða, fluttar með samningum frá Bændasamtökum Íslands til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Frumvarp þetta er því hluti af öðrum áfanga samkomulags ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands um að flytja stjórnsýsluverkefni frá Bændasamtökum Íslands til undirstofnana ráðuneytisins.
    Í frumvarpinu er einnig gerð tillaga að breytingum sem hafa það markmið að einfalda og skýra texta búvörulaga. Meðal þeirra breytinga er ráðstöfun beingreiðslna til handhafa greiðslumarks sauðfjárafurða, þ.e. skertra og ónýttra beingreiðslna skv. 39. gr. búvörulaga. Frumvarpinu er þannig ætlað að skýra betur hvernig ráðstöfun beingreiðslnanna skuli háttað og ljóst sé hver skuli ráðstafa viðkomandi fjármunum. Þá er einnig mælt fyrir um að felld verði niður verðskerðingargjöld af verði kinda- og hrossakjöts skv. V. kafla laganna, sem fjallar um verðmiðlun.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í fyrsta kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru, með síðari breytingum. Breytingarnar snerta m.a. birtingu verðskráningar búvara, ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna í sauðfjárframleiðslu og söfnun upplýsinga um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna sem snúa að búfjáreftirlit í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu vegna breytinga sem urðu á búfjáreftirliti með lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, og laga nr. 38/2013, um búfjárhald. Lagt er til að ákvæði um verðskerðingargjald af verði kinda- og hrossakjöts í V. kafla laganna verði fellt úr gildi. Þá er lagt til að heiti laganna verði framvegis búvörulög en almennt eru þau í töluðu og rituðu máli nefnd svo.
    Í öðrum kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun. Í kafla­num er skýrt hlutverk stofnunarinnar samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1993. Þá er í kafla­num að finna ákvæði til bráðabirgða sem snýr að þeim starfsmönnum Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa þeim stjórnsýsluverkefnum sem lagt er til að verði flutt frá samtökunum til Matvælastofnunar.
    Í þriðja kafla frumvarpsins er að finna breytingu á ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, vegna breytingar á heiti laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru, sem lagt er til að verði búvörulög.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki til efni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands né alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarp þetta snertir fyrst og fremst starfsemi Bændasamtaka Íslands og starfsemi Matvælastofnunar. Þá snertir frumvarpið einnig bændur og þá einstaklinga, lögaðila og stofnanir sem eiga samskipti við Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun vegna stjórnsýsluverkefna samkvæmt ákvæðum búvörulaga.
    Frumvarp þetta var sent til umsagnar til Matvælastofnunar, Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda, Landssambands kúabænda, Sambands garðyrkjubænda, Félags hrossabænda, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Hagstofu Íslands, Landssamtaka sláturleyfishafa og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Athugasemdir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Landssamtökum sauðfjárbænda og Matvælastofnun. Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda gerðu athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um verðskerðingargjöld af kindakjöti og hrossakjöti, söfnun upplýsinga skv. 77. gr. búvörulaga og bráðabrigðaákvæði frumvarpsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerði í kjölfarið breytingar á frumvarpinu sem sneru að ákvæðum um verðskerðingargjald af kindakjöti og hrossakjöti sem og breytingar á 77. gr. búvörulaga. Matvælastofnun gerði ekki athugasemdir við frumvarpið.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á starfsemi Bændasamtaka Íslands sem hafa sinnt stjórnsýsluverkefnum en með flutningi verkefnanna verða gerð skýr skil á milli stjórnsýsluverkefna og hagsmunagæslu. Einnig mun samþykkt frumvarpsins hafa áhrif á starfsemi Matvælastofnunar, enda er gert ráð fyrir að stofnunin muni framvegis sinna þeim stjórnsýsluverkefnum sem samtökin hafa áður sinnt. Stofnuninni verður heimilt að ráða þá starfsmenn Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa stjórnsýsluverkefnum. Ákvæðin munu ekki hafa íþyngjandi áhrif á bændur, þ.e. einstaklinga og lögaðila sem falla undir ákvæði búvörulaga. Þess í stað munu þau stuðla að einfaldari og skýrari stjórnsýsluframkvæmd. Með þessu verður eytt þeim vafatilvikum um hæfi og rétta stjórnsýslumeðferð sem fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Verði frumvarpið að lögum mun það einnig hafa áhrif á innheimtu Bændasamtaka Íslands á verðskerðingargjaldi af verði hrossakjöts til framleiðenda og af kindakjöti á heildsölustigi þar sem gert er ráð fyrir að töku gjaldsins verði hætt. Þá er gert ráð fyrir að Bændasamtök Íslands ráðstafi gjaldinu í samræmi við tillögu samtakanna sem hafi hlotið staðfestingu ráðherra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að verðlagsnefnd búvara, sem starfar samkvæmt IV. kafla búvörulaga, verði falið að annast verðskráningu búvara sem nefndin tekur verðákvörðun um, en Bændasamtök Íslands hafa frá árinu 1999 birt verðákvarðanir verðlagsnefndar búvara með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Verðskráning búvara sem verðákvörðun er tekin um var áður í höndum Framleiðsluráðs landbúnaðarins en með 7. gr. laga nr. 112/1999, um breytingu á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins, var Bændasamtökum Íslands falið þetta verkefni. Í greininni er lagt til að Verðlagsnefnd búvara birti verðákvarðanir sínar sjálf í Lögbirtingablaði. Tilgangur breytingarinnar er að einfalda stjórnsýsluframkvæmd, sem einnig er liður í því að flytja stjórnsýsluverkefni frá Bændasamtökum Íslands. Þá er í greininni lagt til að krafa um auglýsingu á viðmiðunarverði falli niður en skv. 8. gr. laganna er gert ráð fyrir að Landssamband kúabænda og Landssamtök sauðfjárbænda gefi út viðmiðunarverð. Viðmiðunarverðin hafa svo verið birt á heimasíðu viðkomandi sambands eða samtaka.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að V. kafli laganna verði feldur úr gildi en kaflinn fjallar um verðmiðlun. Þegar hafa mörg ákvæði kafla­ns verið felld úr gildi, síðast með lögum nr. 140/2013. Í gildandi ákvæðum kafla­ns, 20., 24., 26. og 27. gr., er fjallað um verðskerðingargjald af verði hrossakjöts til framleiðenda og verðskerðingargjald á heildsölustigi af kindakjöti sem ætlað er til sölu á innlendum markaði. Nánar er fjallað um innheimtu og ráðstöfun gjaldanna í reglugerðum nr. 478/1996, um innheimtu og ráðstöfun á verðskerðingargjaldi af hrossakjöti, og nr. 522/1997, um innheimtu og ráðstöfun á verðskerðingargjöldum af kindakjöti.
    Orðalag gildandi 20. gr. laganna var lögfest með lögum nr. 124/1995, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum. Í nefndaráliti frá meiri hluta landbúnaðarnefndar 29. nóvember 1995 (þskj. 253, 96. mál á 120. löggjafarþingi) sagði um greinina að lagt væri til að innheimt skyldi verðskerðingargjald af kindakjöti og skyldi gjaldið nema 3% af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts hjá afurðarstöð. Kveðið væri á um greiðsluskyldu í stað heimildar og hversu hátt gjaldið skyldi vera, þar sem þessi gjöld væru skattar og ekki væri unnt að framselja skattlagningarvald til ráðherra með heimildarákvæði skv. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Markmið breytingarinnar sneri m.a. að því að ná jafnvægi í birgðum kindakjöts með markaðsaðgerðum innan lands og útflutningi. Með lögum nr. 119/2005 var 20. gr. laganna breytt með þeim hætti að verðskerðingargjald af verði hrossakjöts til framleiðenda var lækkað úr 3% í 2% og verðskerðingargjald af kindakjöti lækkað úr 5 kr. á kg. í 2 kr. á kg.
    Verðskerðingargjald kindakjöts nemur rúmlega 12 millj. kr. á ári og hefur verið ráðstafað af Bændasamtökum Íslands í gegnum samstarfsvettvang samtakanna, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa um málefni sauðfjárræktar, í gegnum Markaðsráð kindakjöts, til markaðsaðgerða. Verðskerðingargjald af verði hrossakjöts nam 3.245.000 kr. árið 2013, og 2.952.000 kr. árið 2014, og hefur því verið ráðstafað samkvæmt tillögu Bændasamtaka Íslands sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu.
    Í áætlun um einföldun regluverks og stjórnsýslu landbúnaðarráðuneytisins frá september 2007 var lagt til að í samráði við hagsmunaaðila yrði tekin ákvörðun um hvort áfram skyldi innheimta verðskerðingargjald af kindakjöti eða af verði hrossakjöts með það að markmiði að minnka skriffinnsku og gera stjórnsýsluna einfaldari og gagnsærri. Ráðuneytið hefur síðustu ár unnið að því að einfalda og fella niður einstakar teg­undir gjaldtöku, m.a. með niðurfellingu verðskerðingargjalda af nautgripakjöti, sbr. lög nr. 119/2005, og verðmiðlunar- og verðtilfærslugjalda, sbr. nr. 140/2013.
    Með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er lagt til að verðskerðingargjald verði fellt niður í samræmi við einföldun regluverks og í þeim tilgangi að minnka skrifræði. Í greininni er því lagt til að V. kafli laganna um verðmiðlun verði felldur brott. Um ráðstöfun eftirstöðva verðskerðingargjalda er fjallað í 8. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Um beingreiðslur til sauðfjárbænda er fjallað í 39. gr. laganna, en til að fá fullar beingreiðslur þarf framleiðandi að eiga að lágmarki 0,75 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 2015, en ráðherra ákveður árlega hvert ásetningshlutfall hvers ár er að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Uppfylli framleiðandi ekki skilyrði um ásetningshlutfall þá skerðast beingreiðslur til hans. Ónýttar beingreiðslur falla svo til þegar beingreiðslur eru lausar án samninga um búskaparlok. Í gildandi 6. mgr. 39. gr. laganna er gert ráð fyrir að framkvæmdanefnd búvörusamninga geti ákveðið að nota beingreiðslur sem lausar eru án samninga um búskaparlok, þ.e. skertar og ónýttar beingreiðslur, í önnur verkefni. Síðustu ár hefur skertum og ónýttum beingreiðslum verið ráðstafað til markaðssetningar kindakjöts. Bændasamtök Íslands hafa ráðstafað skertum og ónýttum beingreiðslum í gegnum samstarfsvettvang samtakanna, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa um málefni sauðfjárræktar, í gegnum Markaðsráð kindakjöts, að fenginni staðfestingu framkvæmdanefndar búvörusamninga. Skertar og ónýttar beingreiðslur hafa hækkað á síðustu árum og voru 62,7 millj. kr. árið 2013 og 101,1 millj. kr. árið 2014. Þó er ekki fyrir það skotið að þær kunni að lækka á næstu árum.
    Nánari fyrirmæli um ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna hefur skort og því er lagt til í greininni að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um ráðstöfun beingreiðslnanna með reglugerð. Í reglugerðinni verði þá mælt fyrir um það til hvaða verkefna í sauðfjárrækt beingreiðslunum skuli ráðstafað og hvaða opinbera aðila verði falið að ráðstafa fjármunum í samræmi við markmið um framleiðslu sauðfjárafurða eins og þeim er lýst í 36. gr. laganna, hvort sem fjármunum verði ráðstafað til markaðsaðgerða eða annarra verkefna sem nýtast muni greininni með sem bestum hætti. Verði frumvarpið að lögum verður ráðstöfun ónýttra og skertra beingreiðslna gagnsærri og skýrari.

Um 4. gr.

    Með lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, var búfjáreftirlit fært frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar, en búfjáreftirlit var áður framkvæmt samkvæmt ákvæðum laga nr. 103/2002, um búfjárhald og fleira. Í almennum athugasemdum í greinargerð frumvarps til laga um velferð dýra segir: „Samhliða er lagt til að störf búfjáreftirlitsmanna verði flutt frá ­sveitarfélögunum til Matvælastofnunar en hlutverk þeirra er að stærstum hluta eftirlit með velferð búfjár. Þessu fylgir hagræði og aukin skilvirkni í eftirlitinu, ekki er þó gert ráð fyrir að starfsgengisskilyrðum búfjáreftirlitsmanna verði breytt frá því sem nú er vegna þessa.“ Í greininni er því lagt til að tilvísun til búfjáreftirlitsmanna sveitarfélaga verði felld brott.
    Í 13. gr. laga um velferð dýra kemur fram að starfsemi samkvæmt lögunum skuli háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Umfang og tíðni eftirlits skal byggt á áhættuflokkun. Í greininni er því lagt til að bætt verði við í 4. mgr. 41. gr. laganna að tíðni eftirlits Matvælastofnunar skuli byggjast á áhættuflokkun, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlun.

Um 5. gr.

    Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Matvælastofnun verði falið að safna upplýsingum og birta upplýsingar um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Matvælastofnun er nauðsynlegt að safna þessum upplýsingum, m.a. vegna greiðslu beingreiðslna til framleiðenda. Um frekari skýringar við greinina er vísað til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Eitt þeirra stjórnsýsluverkefna sem gert er ráð fyrir að flutt verði frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar er að halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna framleiðenda tiltekinna teg­unda í garðyrkju skv. 58. gr. laganna. Breytingin er sambærileg ákvæði 38. gr. laganna varðandi sauðfé og 53. gr. laganna varðandi mjólk, en Matvælastofnun var falið að halda utan um skráningu rétthafa með lögum nr. 112/1999 um breytingar á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna í sauðfé, mjólk og garðyrkju samkvæmt ákvæðum laganna.

Um 7. gr.

    Í gildandi ákvæði laganna er gert ráð fyrir að Bændasamtök Íslands safni upplýsingum og gefi út skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Með flutningi stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar, þar á meðal greiðslur beingreiðslna til bænda, er gert ráð fyrir í 7. gr. frumvarpsins að Matvælastofnun safni upplýsingum og birti ár hvert skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Þá er Matvælastofnun falið að gera áætlanir um framleiðslu og sölu búvara.
    Söfnun upplýsinga um markaðshorfur og afkomu landbúnaðarins er samkvæmt lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, falið Hagstofu Íslands. Stofnuninni er falið að afla gagna til opinberrar hagskýrslugerðar. Stofnunin hefur fengið framangreindar upplýsingar frá Bændasamtökum Íslands en hún hefur einnig heimildir til að afla frekari upplýsingar til hagskýrslugerðar samkvæmt ákvæðum laga nr. 163/2007.

Um 8. gr.

    Í greininni er fjallað um lokauppgjör vegna þeirra verðskerðingargjalda sem innheimt hafa verið frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands í mars 2015 er eigið fé í verðskerðingarsjóði kindakjöts ekkert en það nemur um 10 millj. kr. í verðskerðingarsjóði hrossakjöts. Gert er ráð fyrir að Bændasamtök Íslands geri tillögu um ráðstöfun eftirstöðva gjaldanna sem hljóti staðfestingu ráðherra. Að lokinni staðfestingu ráðherra hafa Bændasamtök Íslands sex mánuði til að ráðstafa eftirstöðvum sjóðanna og ljúka uppgjöri. Um frekari skýringar við greinina vísast til athugasemda um 2. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Tillaga er gerð um að heiti laganna verði breytt, en heiti þeirra er nú „lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru“. Í daglegri ræðu og riti eru lögin almennt nefnd búvörulög. Þar af leiðandi er gerð tillaga um að heiti laganna verði stytt enda er heitið búvörulög lýsandi.

Um 10. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á f-lið 2. gr. laga um Matvælastofnun, nr. 80/2005, en þar segir að hlutverk Matvælastofnunar sé að annast starfsemi sem Bændasamtök Íslands hafa annast skv. 1. og 2. mgr. 38. gr., 4. mgr. 39. gr., a-lið 1. mgr. 42. gr., 2. mgr. 44. gr. 1. og 3. mgr. 53. gr., 2. mgr. 54. gr. og 2. mgr. 82. gr. laga nr. 93/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í undanfarandi ákvæðum frumvarpsins er fjallað sérstaklega um að Matvælastofnun sinni þeim verkefnum. Með flutningi stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökum Íslands er gert ráð fyrir að umsýsla þeirra fari fram hjá Matvælastofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulaga). Tillagan er gerð í samræmi við e-lið 2. gr. laga nr. 80/2005, þar sem vísað er til verkefna sem stofnuninni er falið að sinna samkvæmt lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, og lögum um búfjárhald, nr. 38/2013. Með sama hætti gerir greinin ráð fyrir að stofnunin sinni því hlutverki sem henni er falið í ákvæðum búvörulaga.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að Matvælastofnun verði heimilt til 1. janúar 2017 að bjóða þeim starfsmönnum Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa stjórnsýsluverkefnum sem flutt verða til stofnunarinnar starf hjá stofnuninni, óski þeir starfsmenn þess. Þar sem Bændasamtök Íslands eru hagsmunasamtök en ekki opinber stofnun er mælt fyrir um að stofnuninni sé heimilt að ráða þá starfsmenn sem sinnt hafa stjórnsýsluverkefnum hjá Bændasamtökum Íslands, sem gert er ráð fyrir að flytjist til stofnunarinnar. Hér er því ekki um sameiningu ríkisstofnana að ræða. Í samningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Matvælastofnunar og Bændasamtaka Íslands dags. 22. desember 2014 er gert ráð fyrir að flutningi starfsmanna verði lokið fyrir 1. janúar 2016. Bráðabirgðaákvæðið gerir þó ráð fyrir að flutningi verði lokið fyrir 1. janúar 2017 en með því er veittur rúmur tími til að ljúka við flutning verkefna og starfsmanna frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar. Þá mun framkvæmd flutningsins einnig taka mið af breytingum samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 og því mikilvægt að rúmur tími sé til að framkvæma flutninginn þegar fjárlög ársins 2016 hafa verið staðfest. Bændasamtök Íslands hafa einnig afmarkað verkefnin í sjálfstæðri rekstrareiningu sem mun auðvelda flutning verkefna frá samtökunum til Matvælastofnunar. Samkvæmt fjárhags- og kostnaðaráætlun fyrir eininguna samkvæmt samningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Matvælastofnunar og Bændasamtaka Íslands er gert ráð fyrir að fjögur stöðugildi sinni þeim stjórnsýsluverkefnum sem koma til með að verða flutt frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar. Um réttarstöðu starfsmanna Bændasamtaka Íslands gilda ákvæði laga nr. 72/2002, um réttindastöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Þá er kveðið á um undanþágu frá 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um að auglýsa beri opinberlega störf.

Um 12.–14. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru, lögum um Matvælastofnun og tollalögum (stjórnsýsluverkefni,
ónýttar og skertar beingreiðslur, gæðastýrð sauðfjárframleiðsla).

    Markmið þessa frumvarps er fyrst og fremst að bregðast við gagnrýni sem komið hefur fram af hálfu Ríkisendurskoðunar varðandi eftirlit með framkvæmd búvörusamninga en einnig er ætlunin að einfalda framkvæmd búvörulaga, þannig að stjórnsýsluverkefni sem tilgreind eru í ákvæðum laganna verði á hendi eins aðila, sem sé undirstofnun ráðuneytisins.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þær að gert er ráð fyrir að stjórnsýsluverkefni, sem Bændasamtök Íslands hafa sinnt, verði flutt til Matvælastofnunar. Verkefni þessi snúa að utanumhaldi og útgreiðslu beingreiðslna vegna framleiðslu á sauðfé, mjólk og grænmeti. Samkvæmt búvörulögum heldur Matvælastofnun utan um beingreiðslur vegna sauðfjár- og mjólkurframleiðslu en Bændasamtök Íslands hafa sinnt þessum verkefnum síðustu ár samkvæmt samningi þar um. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur framkvæmdin á undanförnum árum verið á þann veg að ráðuneytið hefur greitt Bændasamtökum Íslands þóknun fyrir að annast um þessi stjórnsýsluverkefni og sú þóknun hefur byggst á heildarupphæð beingreiðslna einstakra viðfangsefna í fjárlögum sem samtökin hafa annast greiðslu eða ráðstöfun á. Samkvæmt núgildandi samkomulagi fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að þóknunin nemi 59 m.kr. en sú fjárhæð er síðan dregin frá heildarbeingreiðslum viðkomandi fjárlagaliða. Ekki er gert ráð fyrir að mikil breyting verði á fyrrgreindum umsýslukostnaði fyrir árið 2016. Verði frumvarp þetta að lögum er því gert ráð fyrir að um 59 m.kr. verði millifærðar af fjárlagaliðum búvörusamninganna yfir til Matvælastofnunar vegna flutnings stjórnsýsluverkefna. Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að ráða þá starfsmenn Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa þessum verkefnum til þessa en alls er um fjóra starfsmenn að ræða.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að verðskerðingargjald af kindakjöti og hrossakjöti verði fellt niður. Bændasamtök Íslands hafa annast innheimtu gjaldsins en gjaldinu hefur verið ráðstafað til markaðsaðgerða innan lands eða utan til að leiðrétta birgðastöðu kjöts. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verðskerðingargjöldum, sem innheimt hafa verið frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015, verði ráðstafað samkvæmt tillögu Bændasamtaka Íslands sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra en tekjur af gjöldunum hafa numið um 15 m.kr. á ári. Þá er Bændasamtökunum einnig falið að ganga frá lokauppgjöri og ráðstafa eftirstöðvum verðskerðingargjalda, að fjárhæð 10 m.kr., innan sex mánaða frá staðfestingu ráðherra. Ekki hefur verið áætlað fyrir þessum gjöldum í fjárlögum, eða frá og með árinu 2014, en með lögfestingu frumvarpsins munu gjöldin hverfa út úr reikningshaldi ríkisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á fjárhag ríkissjóðs.