Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1208  —  570. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni
um brot á banni við áfengisauglýsingum.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni aflaði ráðuneytið upplýsinga frá ríkislögreglustjóra, sýslumannsembættum, fjölmiðlanefnd og ríkissaksóknara.

     1.      Hversu margar ábendingar eða kærur hafa borist lögreglu, sýslumannsembættum, fjölmiðlanefnd og ríkissaksóknara sl. 10 ár vegna brots á banni við áfengisauglýsingum skv. 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998? Svar óskast sundurliðað eftir embættum/nefnd.


Lögregla.
    Í töflu 1 má sjá fjölda kæra sem barst lögreglu árin 2005–2014 vegna brots á reglum um áfengisauglýsingar, greint eftir lögregluembættum. Tölur fyrir árin 2005–2013 eru staðfestar tölur en tölur fyrir árið 2014 bráðabirgðatölur.

Tafla 1.    Fjöldi brota á reglum um áfengisauglýsingar (20. gr. laga nr. 75/1998) árin 2005–2014.
2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014*
Austurland 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0
Höfuðborgarsvæðið 26 45 8 8 26 36 2 3 6 4
Norðurland eystra 0 0 1 0 1 0 2 2 0 0
Norðurland vestra 0 1 0 0 0 0 0 0 0 0
Suðurland 0 0 0 1 0 1 2 0 0 0
Suðurnes 0 2 1 6 2 0 1 0 0 0
Vestfirðir 8 0 0 0 0 0 0 0 0 0
Vestmannaeyjar 1 1 0 0 0 1 0 0 1 1
Vesturland 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0
Samtals 35 49 10 15 29 38 7 5 7 5
    *Tölur fyrir árið 2014 eru bráðabirgðatölur .

Sýslumenn.
    1. janúar 2015 urðu umfangsmiklar breytingar á embættum sýslumanna og lögreglu í landinu, en umdæmum sýslumanna fækkaði úr 24 í 9 og umdæmum lögreglu úr 15 í 9. Þá hafa einnig á undanförnum 10 árum ýmsar breytingar átt sér stað hvað varðar skipan lögregluembætta og sýslumanna á landinu, bæði vegna sameininga og frekari aðskilnaðar embættanna.
    Í svörum frá öllum núverandi embættum sýslumanna var lögð áhersla á að kærum eða ábendingum vegna brota á 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, skyldi beint til lögreglu en ekki sýslumanna í fram­haldi af aðskilnaði embættanna og væri það því í höndum sýslumanna að leiðbeina viðkomandi um að beina slíkri kæru eða ábendingu til lögreglu ef hún væri borin upp hjá sýslumannsembætti. Í ljósi þess beindu öll núverandi sýslumannsembætti fyrirspurninni til lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Engar skráðar upplýsingar eru því hjá sýslumannsembættum um kærur eða ábendingar á brotum á 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, sl. 10 ár.

Fjölmiðlanefnd.
    Í svari fjölmiðlanefndar til ráðuneytisins, dags. 9. mars 2015, kemur fram að fjölmiðlanefnd fari ekki með eftirlit með áfengislögum, nr. 75/1998, en hins vegar sé að finna bann við áfengisauglýsingum í fjölmiðlum í 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, sem fjölmiðlanefnd hafi eftirlit með, sbr. 7. mgr. sömu laga. Þá kemur fram að nefndin hafi tekið til starfa 1. september 2011 og frá þeim tíma hafi nefndinni borist átta óformlegar ábendingar vegna brots á banni við áfengisauglýsingum skv. 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Hins vegar hafi engum formlegum erindum verið beint til nefndarinnar vegna brota á sama ákvæði á þessu tímabili.
    Í svari fjölmiðlanefndar kemur enn fremur fram að engin af fyrrnefndum ábendingum hafi leitt til þess að fjölmiðlanefnd bærist formleg kvörtun vegna brota á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Nefndin tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um fjölmiðla sé nefndinni við afgreiðslu mála heimilt að raða málum í forgangsröð. Í ljósi þess hve fáliðuð nefndin er og eftirlitshlutverk nefndarinnar víðtækt hafi fjölmiðlanefnd sett formleg erindi sem nefndinni berast í forgang.
    Að lokum kemur fram að fjölmiðlanefnd beri, eins og öðrum stjórnvöldum, að sinna leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og veita þeim sem til nefndarinnar leita aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið nefndarinnar. Fram kemur að þeim kvartendum sem að framan greinir hafi verið bent á þær kröfur sem gerðar eru til formlegra erinda til nefndarinnar og með hvaða hætti megi fara fram á aðgerðir nefndarinnar á grundvelli 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Engu síður hafi engin formleg kvörtun borist fjölmiðlanefnd vegna brota á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla frá því nefndin tók til starfa 1. september 2011.

Ríkissaksóknari.
    Í svari ríkissaksóknara með bréfi, dags. 25. mars 2015, kemur fram að ríkissaksóknara hafi borist 44 ábendingar og kærur sl. 10 ár vegna ætlaðra brota á banni við áfengisauglýsingum. Í öllum tilvikum hafi verið um að ræða innsendar ábendingar/kærur frá foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum sem í öllum tilvikum nema tveimur hafi verið beint til lögreglu en ríkissaksóknari hafi fengið afrit eða verið á póstlista sendinganna. Í tveimur tilvikum hafi ábendingunum verið beint til ríkissaksóknara sérstaklega. Í því samhengi bendir ríkissaksóknari á að það sé hlutverk lögreglu að hefja rannsókn hvenær sem þess er þörf út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Hafi lögregla ekki vitneskju eða grun um að brot hafi verið framið verði ekki hafin rannsókn. Þá kemur fram að ef kæru er vísað frá eða rannsókn hætt getur sá sem á hagsmuna að gæta kært þá ákvörðun lögreglu til ríkissaksóknara innan mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana eða hann fengið vitneskju um hana með öðrum hætti, sbr. 4.–6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. Tekið er fram að tvær slíkar kærur á ákvörðunum lögreglustjóra hafi borist embætti ríkissaksóknara sl. 10 ár. Í báðum tilvikum hafi ákvörðun lögreglustjóra verið staðfest.

     2.      Hversu mörg mál af þessu tagi hafa viðkomandi embætti rannsakað að eigin frumkvæði á framangreindu tímabili?

Lögregla.
    Umbeðnar upplýsingar koma fram í eftirfarandi töflu.

Tafla 2.    Fjöldi brota á reglum um áfengisauglýsingar (20. gr. laga nr. 75/1998) árin 2005–2014, skipt eftir tilkynnanda.*
2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014
Frumkvæði lögreglu 10 0 4 7 3 1 2 2 4 3
Tilkynnt til lögreglu 24 47 7 8 27 37 5 3 3 2
Kemur ekki fram 0 2 1 0 0 1 0 0 0 0
Samtals 34 49 12 15 30 39 7 5 7 5
    *Tekið út 25.03.2015 og því ber fjöldatölum ekki nákvæmlega saman við staðfestar tölur.

Ríkissaksóknari.
    Í bréfi ríkissaksóknara til ráðuneytisins, dags. 25. mars 2015, er vísað á embætti lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra hvað varðar svör við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

Fjölmiðlanefnd.
    Í svari fjölmiðlanefndar til ráðuneytisins, dags. 9. mars 2015, er tekið fram að nýverið hafi verið til meðferðar mál er varðaði brot á 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Málið hafi verið tekið til meðferðar á grundvelli 4. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna þar sem nefndinni er falið að taka upp mál að eigin frumkvæði. Önnur mál er varða brot á 4. mgr. 37. gr. hafi ekki verið tekin upp að frumkvæði nefndarinnar.

     3.      Hversu margar kærur vegna brots á 20. gr. áfengislaga hafa verið gefnar út sl. 6 ár og hverjar eru lyktir þeirra?
    Í svari ríkissaksóknara til ráðuneytisins, dags. 25. mars 2015, kemur fram að ríkissaksóknari geri ráð fyrir að fyrirspurnin lúti að fjölda útgefinna ákæra, en ekki kæra, á sl. 6 árum, og miðast því svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar við það.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara voru útgefnar ákærur á þessu árabili tvær og var málunum lokið með sakfellingu og sakborningur dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 150.000 kr. og 400.000 kr. Annað málið var dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur, mál nr. S-337/ 2009, og hitt í Héraðsdómi Suðurlands, mál nr. S-340/2011.