Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1275  —  514. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006,
með síðari breytingum (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson, Jóhann Guðmundsson og Sigríði Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Jörund Gauksson frá Veiðifélagi Árnesinga og Eyvind Gunnarsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Stefán Má Stefánsson, prófessor við sama háskóla. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi veiðifélaga, Lögmannafélagi Íslands og Veiðifélagi Árnesinga.
    Í 37. gr. laga um lax- og silungsveiði er mælt fyrir um skylduaðild að veiðifélagi og hvert hlutverk slíks félags sé. Í frumvarpinu er lögð til viðbót við ákvæðið í þá veru að það verði meðal hlutverks veiðifélags að nýta eignir þess og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um að veiðifélagi verði heimilt að ráðstafa eign félags til skyldrar starfsemi utan veiðitíma.
    Tilefni frumvarpsins er dómur Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 frá 13. mars 2014 þar sem reyndi á reglur um heimildir veiðifélags til að fara með og ráðstafa eignum þess. Fram kom í dóminum að ákvörðun veiðifélags um ráðstöfun stangveiði á félagssvæði sínu og samhliða því ákvörðun um gisti- og veitingarekstur veiðihúss á skilgreindum veiðitíma félli innan marka laga um lax- og silungsveiði, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Í slíkum tilvikum gilti 8. mgr. 40. gr. laganna um að afl atkvæða réði ef ekki væri á annan hátt mælt í lögum eða samþykktum félagsins. Hins vegar taldi Hæstiréttur ákvörðun veiðifélags um að selja öðrum veiðihús á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar í veiðihúsi utan skilgreinds veiðitíma vera meiri háttar ákvörðun í skilningi óskráðra reglna eignarréttarins um sérstaka sameign og gilti þá einu hvort hún teldist venjuleg eða óvenjuleg. Til að taka slíka ákvörðun hefði því þurft samþykki allra félagsmanna. Hvað síðarnefnda atriðið varðar beitti Hæstiréttur almennum reglum eignarréttar um sérstaka sameign enda eru ekki ákvæði um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags í lögum um lax- og silungsveiði. Taldi Hæstiréttur að ákvörðun allra veiðiréttarhafa hefði þurft að liggja til grundvallar því að selja veiðihús á leigu utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögunum.
    Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar má ekki skylda menn til að eiga aðild að félagi. Samkvæmt síðari málslið sömu greinar má þó með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Markmið 1. gr. laga um lax- og silungsveiði er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Nefndin bendir þó á að í áðurnefndu dómsmáli var ekki ágreiningur um sjálfa skylduaðildina.
    Í dómi Hæstaréttar kemur fram að viðfangsefni veiðifélaga takmarkist á hverjum tíma við þau verkefni sem löggjafinn felur þeim og ótvírætt þurfi þau að vera í nánu samhengi við tilgang laganna og þau markmið sem skylduaðild á að tryggja.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði af skarið um að veiðifélag geti ráðstafað eignum félags og þá með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn og einnig að veiðifélagi verði heimilt að ráðstafa eign utan veiðitíma til skyldrar starfsemi. Með frumvarpinu er framangreindum verkefnum bætt við 37. gr. laga um lax- og silungsveiði þar sem verkefni veiðifélags eru talin upp.
    Það fellur undir hlutverk veiðifélags að eiga eignir og telur nefndin eðlilegt að veiðifélag geti einnig ráðstafað eignum svo fremi að slík ráðstöfun sé í samræmi við markmið laganna. Nefndin áréttar að í 1. gr. frumvarpsins er heimild veiðifélags til að ráðstafa eign utan veiðitíma bundin því skilyrði að um skylda starfsemi sé að ræða og verður umrædd starfsemi því að falla undir markmið laganna.
    Nefndin telur rétt að benda á að með lögum nr. 14/2014, um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, var lögfest ákvæði þess efnis að félagsmenn veiðifélaga bæru ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum þess. Í ljósi skylduaðildar að veiðifélögum var talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um það í lögunum enda ekki talið nægilega skýrt samkvæmt þágildandi lögum hvort eða hvaða ábyrgð einstakir félagsmenn gætu borið á skuldbindingum sem stofnað hefði verið til vegna starfsemi veiðifélaga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Gunnarsson og Ásmundur Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.


Alþingi, 30. apríl 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, frsm. Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir. Kristján L. Möller.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.