Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1294  —  434. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011,
með síðari breytingum (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.)

Frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


Heimild ráðherra til flutnings stofnana.
    Minni hlutinn telur að við endurskoðun eldri laga um Stjórnarráð Íslands og setningu gildandi laga hafi í reynd verið tekin ákvörðun um að fella brott ákvæði um almenna heimild ráðherra til að kveða á um aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Fyrir liggur að aðsetur skiptir miklu máli þegar stofnun hefur fest rætur á ákveðnu svæði, hvort sem litið er til starfsemi eða starfsmanna. Þá hefur þetta áhrif á samkeppnishæfni stofnunar um starfsfólk. Annað gildir þegar komið er á fót nýrri stofnun sem ekki er byggð á sameiningu stofnana eða eldri stofnunum þótt ætíð þurfi að sjálfsögðu að byggja á skýrum málefnalegum rökum.
    Minni hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram koma í umsögnum um að ákvörðun sem ráðherra kynnti um flutning Fiskistofu sýni fram á mikilvægi þess að aðsetur stofnana eigi að vera ákveðið með lögum. Fyrir liggur að mikil þekking hefur þegar glatast þar sem margir starfsmenn hafa hætt. Þá getur óvissa um staðsetningu stofnunar einnig haft áhrif á möguleika til að ráða hæfa starfsmenn.
    Minni hlutinn telur að heimild til handa ráðherra til að flytja stofnanir að eigin geðþótta án málefnalegs rökstuðnings, fjárhagslegrar og faglegrar úttektar sé óeðlilegt framsal á valdi löggjafans. Heimildin er til þess fallin að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarvaldsins og telur minni hlutinn varhugavert að stuðla að slíkri þróun þegar reynslan sýnir að ætíð sé nauðsynlegt að takmarka vald framkvæmdarvaldsins. Jafnframt tekur minni hlutinn undir sjónarmið um að þörf sé á mun ríkari umræðu um tilgang og markmið slíkrar lagabreytingar en frumvarpið felur í sér. Minni hlutinn tekur fram að þótt vald til flutnings á stofnunum hins opinbera sé háð samþykki löggjafans eigi slíkur flutningur að sjálfsögðu að vera gerlegur. Aðkoma löggjafarvaldsins dregur hins vegar úr hættu á duttlungastjórnun og er líklegri til að stuðla að faglegum, ábyrgum og sanngjörnum vinnubrögðum.

Hreyfanleiki starfsmanna innan stjórnsýslunnar.
    Minni hlutinn tekur undir sjónarmið umsagnaraðila um að rýmkun heimilda til flutnings starfsmanna innan stjórnsýslunnar sem lögð er til í b-lið 10. gr. frumvarpsins sé til þess fallin að minnka gagnsæi við slíka ákvarðanatöku. Minni hlutinn bendir á að gagnsæi er grundvöllur þess að almenningur geti veitt stjórnvöldum fullnægjandi aðhald. Meginreglan um að auglýsa beri öll opinber störf er m.a. byggð á sjónarmiðum um gagnsæi. Í henni felst einnig að gæta skuli að jafnræði meðal umsækjenda og tryggja að hæfasti umsækjandinn sé ætíð ráðinn til starfa. Hún felur því í sér að einstaklingar skuli metnir að verðleikum og vinnur þannig einnig gegn staðalímyndum um hverjir eigi að gegna opinberum störfum.
    Í framangreindu ákvæði er lagt til að auka heimildir til flutnings starfsmanna milli ráðuneyta og stofnana eins og hentar, enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs en samkvæmt gildandi ákvæði er heimilt að flytja starfsmenn milli ráðuneyta. Í umsögnum til nefndarinnar kemur fram gagnrýni á ákvæðið frá fulltrúum launþega. Hún felur m.a. í sér að reynsla af flutningum starfsmanna samkvæmt gildandi lögum sé ekki góð og einnig að starfsmenn séu sjaldan í raunverulegri aðstöðu til að neita slíkum flutningum. Minni hlutinn vekur athygli á þessum sjónarmiðum.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að gætt hafi verið að lögbundnu samráði við samtök stéttarfélaga starfsmanna ríkisins. Fyrir nefndinni kom hins vegar fram að fulltrúar launafólks væru þeirrar skoðunar að ekki hefði verið gætt að þeirri samráðsskyldu sem kveðið væri á um í 52. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Minni hlutinn telur alvarlegt að ekki sé gætt að samráðsskyldunni og telur mikilvægt að breytingar á starfskjörum og öðrum réttindum tengdum vinnu séu ætíð unnar í fullu samráði við samtök launafólks.

Siðferðisviðmið.
    Samkvæmt 25. gr. laga um Stjórnarráð Íslands skal starfa samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Í frumvarpinu er lagt til að hún verði lögð niður en forsætisráðuneytið muni taka að sér verkefni hennar. Minni hlutinn hefur um þetta ríkar efasemdir og vísar til þess að fyrir nefndinni kom fram að rökstuðningur í frumvarpinu væri takmarkaður og ekki væri ljóst hver ætlunin væri með breytingunni. Minni hlutinn telur því að þennan þátt málsins þurfi að skoða mun betur.

    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 5. maí 2015.

Ögmundur Jónasson,
form., frsm.
Birgitta Jónsdóttir. Helgi Hjörvar.
Valgerður Bjarnadóttir.