Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1298  —  739. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um fjarskiptaupplýsingar alþingismanna.


     1.      Hvernig er háttað varðveislu gagna sem stafa af greiðslu Alþingis á símreikningum alþingismanna, bæði vegna heimasíma og farsíma?
    Símreikningar á rafrænu formi eru varðveittir í rafrænu bókhaldskerfi Alþingis. Símreikningar sem berast á pappírsformi eru skannaðir inn í bókhaldskerfi Alþingis og varðveittir þar rafrænt auk þess sem reikningurinn er varðveittur í fylgiskjalamöppu.

     2.      Hvaða starfsmenn Alþingis hafa aðgang að símreikningum og/eða fjarskiptaupplýsingum alþingismanna?
    Aðgang að upplýsingum um símreikninga hefur aðstoðarskrifstofustjóri (rekstur), forstöðumaður upplýsingatækniskrifstofu og þrír starfsmenn fjármálaskrifstofu, þ.e. forstöðumaður, bókari og gjaldkeri.

     3.      Innihalda símreikningarnir upplýsingar um í hvaða númer alþingismaður hefur hringt, hve lengi símtöl standa og hvaða númerum hafa verið send sms-skilaboð, eða eru þessar upplýsingar með einhverjum öðrum hætti varðveittar eða aðgengilegar einhverjum starfsmönnum Alþingis?
    Símreikningar sem berast Alþingi innihalda ekki þær upplýsingar sem spurt er um í þessum lið. Starfsmenn Alþingis hafa því ekki aðgang að þeim upplýsingum sem spurt er um og skrifstofan varðveitir engin slík gögn.

     4.      Hve lengi eru þessi gögn varðveitt hjá þinginu og hvernig er þeim eytt?
    Bókhaldsgögnum Alþingis hefur ekki verið eytt frekar en öðrum frumskjölum þingsins. Bókhaldsgögn eru ýmist varðveitt í rafrænu bókhaldskerfi þingsins eða í skjalasafni Alþingis (þau sem eru á pappírsformi).