Ferill 751. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1313  —  751. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um náttúruvernd,
nr. 60/2013 (frestun gildistöku).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 94. gr. laganna orðast svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í um­hverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í því felst að frestað er gildistöku laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, sem samþykkt voru á Alþingi 28. mars 2013, til 1. janúar 2016 í stað 1. júlí 2015. Er því gert ráð fyrir að lög nr. 44/1999 haldi gildi sínu til 1. janúar 2016.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum nr. 23/2014, um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, var gildistöku laganna frestað til 1. júlí 2015. Í kjölfarið hófst vinna í um­hverfis- og auðlindaráðuneytinu við endurskoðun ákveðinna kafla frumvarpsins með hliðsjón af nefndaráliti um­hverfis- og sam­göngunefndar Alþingis frá 19. febrúar 2014. Ráðuneytið átti umfangsmikið samráð við stofnanir, hagaðila og um­hverfis- og sam­göngunefnd við gerð frumvarpsins. Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd voru birt á vef ráðuneytisins 10. mars sl. og var gefið tækifæri til að veita umsögn um frumvarpið til 20. mars. Að loknu umsagnarferli vann ráðuneytið drög að endanlegu frumvarpi á grundvelli þeirra umsagna sem bárust. Í ljósi þess skamma tíma sem er til loka vorþings verður að telja að ekki sé unnt að afgreiða frumvarpið fyrir þingfrestun. Frumvarp þetta er því lagt fram, þannig að gildistöku laga nr. 60/2013 verði frestað til 1. janúar 2016. Gert er ráð fyrir að frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd verði lagt fram á Alþingi í haust með gildistöku 1. janúar 2016. Þar sem hér er um að ræða grundvallarlöggjöf verður að teljast nauðsynlegt að frumvarpið fái fullnægjandi umfjöllun á Alþingi til að skapa sem mesta sátt um niðurstöður.

III. Mat á áhrifum.
    Með frestun gildistöku laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, halda eldri lög um náttúruvernd enn um sinn gildi sínu. Í fjárlagaramma fyrir Um­hverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands var ekki gert ráð fyrir auknum fjárheimildum vegna væntanlegrar gildistöku laga nr. 60/2013 1. júlí nk. og því mun frumvarp þetta ekki hafa teljandi áhrif á starfsemi þeirra stofnana á þessu ári.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd,
nr. 60/2013 (frestun gildistöku).

    Í frumvarpinu er lagt til að gildistöku laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, verði frestað til 1. janúar 2016. Að óbreyttu taka lögin gildi 1. júlí 2015 og leysa af hólmi lög nr. 44/1999, um náttúruvernd, sem falla þá brott. Nýju lögin eru meiri að umfangi en hin fyrri, auk þess sem í þeim eru gerðar breytingar á nokkrum lögum til viðbótar. Þær breytingar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið taldi að hefðu fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð svo nokkru næmi vörðuðu einkum starfsemi Um­hverfisstofnunar, Landmælinga Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem og starfsemi um­hverfis- og auðlindaráðuneytis.
    Hvorki hefur verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum sem fylgja gildistöku laganna í fjárlögum ársins 2015 né í langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Frestun gildistöku laganna mun því ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs miðað við þær forsendur sem gengið er út frá í fjárlögum fyrir árið 2015.