Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1361  —  11. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn er ekki samþykkur því fyrirkomulagi sem felst í frumvarpinu, þ.e. að veita tilteknum nýjum félögum eða verkefnum m.a. ívilnun frá gildandi lagareglum um skatta og gjöld. Slíkt getur haft áhrif á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eru starfandi hér á landi og þurfa lögum samkvæmt að standa skil á sköttum og gjöldum og uppfylla ýmsar aðrar skyldur lögum samkvæmt.
    Til þess að samkeppni og jafnræði megi ríkja á markaði verður jafnt yfir alla að ganga, það um­hverfi er ekki skapað með því að ívilna sumum fyrirtækjum á kostnað annarra. Þeir innviðir sem samfélagið allt reiðir sig á, þ.m.t. fyrirtæki sem fá ívilnanir, eru að miklu leyti kostaðir af sköttum og gjöldum fyrirtækja og einstaklinga sem njóta ekki sérstakra kjara umfram aðra.
    Til að gæta jafnræðis og til að efla framþróun og auka atvinnustig telur minni hlutinn að fremur ætti að leitast við að halda skatthlutfalli lágu og tryggja að um­hverfi til fyrirtækjarekstrar og viðskipta sé það hagstætt að fyrirtæki telji ákjósanlegt að vera hér með atvinnurekstur.
    Þá er það mat minni hlutans að þær reglur sem hafa legið til grundvallar ívilnunum séu ekki í takt við veruleika íslensks samfélags. Rétt er að benda á að í því augnamiði að styðja við byggðaþróun með ívilnunum til fyrirtækja hefur m.a. verið miðað við svokallað byggðakort ESA. Byggðakortið nær til alls landsins fyrir utan höfuð­borgar­svæðið. Þrátt fyrir það eru flest fyrirtæki sem hafa hlotið ívilnun samkvæmt lögum frá Alþingi staðsett á Suður- og Suð­vesturlandi, þ.e. ekki á stöðum sem teljast til brothættra byggða eða eru taldir þurfa sérstaka innspýtingu umfram önnur landsvæði. Efling byggða landsins hefur þó verið tilgreind sem helstu rökin fyrir því að veita ívilnanir til nýfjárfestinga hér á landi.

Alþingi, 21. maí 2015.

Björt Ólafsdóttir.