Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1367  —  690. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013
(gufugleypibúnaður, gæði eldsneytis, færsla eftirlits o.fl.).

Frá um­hverfis- og sam­göngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá um­hverfis- og auðlindaráðuneyti, Pál Stefánsson frá Heilbrigðiseftirliti Hafnar­fjarðar og Kópavogssvæðis, Jónu Stefánsdóttur og Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Björn Rögnvaldsson og Víði Kristjánsson frá Vinnueftirlitinu, Bergþóru Skúladóttur og Gunnlaugu Einarsdóttur frá Um­hverfisstofnun, Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Einar Oddsson og Rósu Magnúsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Heilbrigðiseftirliti Hafnar­fjarðar og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Um­hverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á efnalögum, nr. 61/2013. Frumvarpið felur í sér fyrstu endurskoðun á efnalögum frá því að þau að tóku gildi í apríl 2013. Þá felur frumvarpið í sér breytingar vegna færslu á eftirliti með raf- og rafeindabúnaði frá Um­hverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar og innleiðingar á EES-gerðum sem og lagaheimildir til innleiðingar og undirbúnings vegna EES-gerða sem mun þurfa að innleiða á grundvelli laganna. Lögin og frumvarpið eru mjög tæknilegs eðlis og fela í sér innleiðingu fjölda EES-gerða þar sem lagaum­hverfi málaflokksins hér á landi tekur mjög mið af EES-gerðum.
    Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/ EB um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytisupptöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum. Markmið tilskipunarinnar er að draga úr loftmengun og bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu í andrúmsloftið. Tilskipunin felur í sér að gerð er krafa um gufugleypibúnað á bensínstöðvum. Allar nýjar bensínstöðvar munu þurfa að vera útbúnar með gufugleypibúnaði. Bensínstöðvar sem undirgangast meiri háttar endurnýjun þar sem árleg sala er meiri en 500 þúsund lítrar á ári munu einnig þurfa slíkan búnað og þegar bensínstöð er staðsett undir íbúðarhúsnæði eða vinnusvæði þar sem árleg bensínsala er meiri en 100 þúsund lítrar á ári, en ein slík er hér á landi. Þá munu allar bensínstöðvar sem selja meira en 3 milljónir lítra á ári þurfa að setja upp gufugleypibúnað fyrir 31. desember 2018, en þá tekur sú krafa gildi gagnvart stærri bensínstöðvum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að fjórar bensínstöðvar hér á landi selji meira en 3 milljónir lítra af bensíni á ári og á þeim stöðvum hefur nauðsynlegur búnaður verið settur upp eða er við það að vera settur upp. Bensínsala á flestum bensínstöðvum hér á landi nær ekki 500 þúsund lítrum á ári og því munu þessar reglur ekki ná til þeirra. Fjöldi bensínstöðva í dreifbýli nær ekki þessari sölu og því ætti frumvarpið ekki að hafa áhrif á þjónustu olíufélaganna í hinum dreifðu byggðum. Aðrar bensínstöðvar með meiri sölu en 500 þúsund lítra á ári munu aðeins þurfa að setja upp gufugleypibúnað við meiri háttar endurnýjun.
    Nefndin fjallaði nokkuð um málefni faggiltra skoðunarstofa. Í 19. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 43. gr. laganna um vottanir. Er með breytingunni lagt til að áréttað verði að erlendir aðilar, sem hlotið hafa vottun eða verið tilnefndir sem vottunaraðilar í öðru ríki á EES-svæðinu, geti framkvæmt vottanir hér á landi. Fyrir nefndinni kom fram að 43. gr. laganna væri óvirk hér á landi þar sem ekki hefur tekist að koma á fót vottun hérlendis. Málefni faggildingar hafa áður komið til umfjöllunar nefndarinnar og ljóst að þar er um erfið mál að ræða, m.a. vegna smæðar markaðarins hér á landi. Með breytingunni sem lögð er til í frumvarpinu er opnað fyrir aðkomu erlendra vottunaraðila hingað til lands. Nefndin leggur til þá breytingu á ákvæðinu að orðið „öðru“ falli brott. Með því getur lögbært stjórnvald á Íslandi tilnefnt erlendan aðila sem vottunaraðila samkvæmt ákvæðinu en það ekki einskorðast við aðila tilnefndan af öðru ríki. Með því mætti hugsanlega minnka kostnað í tengslum við vottun.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir við 30. gr. frumvarpsins um breytingu á 57. gr. laganna þannig að ákvæðið taki eftir breytingar til stöðvunar á markaðssetningu vöru um stundarsakir. Er talið mikilvægt að Um­hverfisstofnun geti stöðvað markaðssetningu á vöru um stundarsakir með skjótum hætti þegar grunur leikur á um að varan uppfylli ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra á grundvelli þeirra. Í þessu skyni er felldur brott andmælaréttur aðila máls skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ljóst er að stöðvun á markaðssetningu vöru um stundarsakir er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Fyrir töku slíkrar ákvörðunar geta hins vegar legið mikilvægir almannahagsmunir enda getur verið um mjög hættuleg efni að ræða sem kalli á skjót viðbrögð eftirlitsaðila. Nefndin bendir í þessu sambandi á að ákvörðun um að stöðva markaðssetningu vöru um stundarsakir er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þannig gilda önnur ákvæði laganna um ákvörðun um að stöðva markaðssetningu vöru um stundarsakir, m.a. rannsóknarregla 10. gr. og meðalhófsregla 12. gr. Í rannsóknarreglunni felst að stjórnvaldi ber að rannsaka mál til hlítar áður en ákvörðun er tekin. Hefur reglan um andmælarétt jafnan verið nátengd rannsóknarreglunni þar sem vandséð verði hvernig stjórnvald geti rannsakað mál til hlítar án þess að heyra sjónarmið þess aðila sem ákvörðun beinist að. Í meðalhófsreglunni felst að stjórnvald skal aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með vægari hætti. Nefndin telur mikilvægt að árétta framangreindar reglur og að við beitingu úrræðisins verði gætt meðalhófs.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við að frumvarpið hafi ekki verið sent helstu hagsmunaaðilum til umsagnar á vinnslustigi í um­hverfis- og auðlindaráðuneyti. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það hafi verið unnið í samráði við Um­hverfisstofnun og Mannvirkjastofnun en að frumvarpið hafi ekki verið sett í almennt umsagnarferli og ekki sent til umsagnar annarra aðila en þessara tveggja þar sem ekki var talin sérstök þörf á að senda frumvarpið til umsagnar annarra aðila, einkum þar sem samráð hafði átt sér stað á fyrri stigum vegna undirbúnings á innleiðingu þeirra EES-gerða sem frumvarpið snertir. Hins vegar kemur fram í VI. kafla almennra athugasemda við frumvarpið að það hafi áhrif á bæði almenning og fyrirtæki í landinu þar sem það kveði á um nýjar skyldur sem fyrirtæki þurfi að uppfylla en þær skyldur eru tilkomnar vegna skuldbindinga Íslands á grundvelli EES- samningsins. Í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa, útgefinni af forsætisráðuneytinu o.fl. (2007), kemur fram að æskilegt sé að efna til samráðs við hagsmunaaðila og almenning við gerð þýðingarmeiri frumvarpa. Við mat á því hvort frumvörp séu þýðingarmikil mætti m.a. líta til þess hvort nýjar skyldur séu lagðar á einstaklinga, atvinnulíf, ­sveitarfélög o.s.frv. Að mati nefndarinnar var því ástæða til að kynna efni frumvarpsins fyrir hagsmunaaðilum og hefði það verið í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Nefndin tekur að þessu leyti undir athugasemdir hagsmunaaðila um skort á samráði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Orðið „öðru“ í 19. gr. falli brott.

    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2015.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson. Svandís Svavarsdóttir.
Róbert Marshall. Vilhjálmur Árnason.