Ferill 700. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1386  —  700. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972,
með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar, munaðarlaus verk).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur, Jón Vilberg Guðjónsson og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Rán Tryggvadóttur frá höfundaréttarnefnd, Erlu S. Árnadóttur og Tómas Þorláksson frá Höfundaréttarfélagi Íslands, Guðrúnu Björgu Bjarnadóttur frá STEF, Ólöfu Pálsdóttur og Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur frá Myndstef, Smára McCarthy frá IMMI og Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Höfundaréttarfélagi Íslands, Höfundaréttarnefnd, IMMI – alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda og Samtökum íslenskra kvikmyndaframleiðenda.
    Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.
    Þegar um er að ræða verk sem teljast munaðarlaus, þ.e. verk sem njóta höfundaréttar en þar sem höfundur eða aðrir rétthafar eru ekki þekktir, eða þótt þeir séu þekktir er ekki vitað hvar þá er að finna, er ekki unnt að leita heimildar hjá viðkomandi til að stafvæða verkin og gera þau aðgengileg. Með innleiðingu tilskipunarinnar er ákveðnum menningarstofnunum heimilað að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu að viðkomandi verk séu munaðarlaus. Það er forsenda fyrir notkun munaðarlausra verka að ítarleg leit að rétthöfum hafi farið fram áður en not hefjast.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að ekki lægju fyrir nákvæmar tölur um hver fjöldi munaðarlausra verka væri en ljóst er að um verulegan fjölda er að ræða í ákveðnum flokkum. Bent var á mikilvægi þess að frumvarpið næði fram að ganga til að leysa úr þeirri óvissu sem ríkir um notkun þeirra.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins eiga lögin að taka gildi 1. júlí nk. Meiri hlutinn telur rétt að fresta gildistökunni til 1. september svo að meira ráðrúm gefist til undirbúnings.     Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    3. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2015.


Alþingi, 2. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Jóhanna María Sigmundsdóttir,
frsm.
Páll Valur Björnsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir. Valgerður Gunnarsdóttir.