Ferill 733. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1396  —  733. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um skerðingu framfærslulána til námsmanna erlendis.


     1.      Hvaða rök liggja fyrir 19 prósenta skerðingu framfærslulána frá LÍN á tveggja ára tímabili til íslenskra nemenda í erlendum háskólum, á sama tíma og lánin hafa verið hækkuð til nemenda í innlendum háskólum?
    Markmið með framfærslulánum hjá LÍN er að þau nægi fyrir framfærslu í viðkomandi landi. Við endurskoðun úthlutunarreglna LÍN veturinn 2013–2014 kom í ljós að lán til framfærslu frá LÍN til íslenskra námsmanna voru hærri en t.d. hjá sænska lánasjóðnum og munaði tugum prósenta í sumum tilvikum. Með hliðsjón af þessum upplýsingum voru framfærslutölur vegna skólaársins 2014–2015 uppfærðar til samræmis við viðmið sænska lánasjóðsins þar sem íslensk framfærsla er notuð sem grunnur. Hins vegar var ekki gengið lengra en svo að framfærslugrunnur var hvergi lækkaður um meira en 10%. Jafnframt var upplýst að frekari skoðunar væri þörf á framfærslugrunni erlendis, t.d. á vefsíðu LÍN 28. maí 2014.
    Stjórn LÍN leitaði til fyrirtækisins Analytica og byggðist athugun fyrirtækisins á framfærslu erlendis á greiningu á 145 háskólum, samtaka námsmanna og ríkisstofnana í þeim löndum sem framfærslugrunnur 2014–2015 náði til.
    Niðurstöður Analytica voru þær að vegin meðalbreyting í grunnframfærslu miðað við dreifingu námsmanna á lönd og borgir væri lækkun sem næmi tæplega 20%. Var þá ekki búið að taka tillit til áhrifa viðbótarláns vegna húsnæðiskostnaðar til hækkunar á framfærslulánum einstakra námsmanna, þ.e. miðað við búsetuform og fjölskyldustærð, sbr. úthlutunarreglur 2015–2016.
    Þar sem LÍN ber að lána fyrir framfærslu, en ekki umfram það sem talinn er réttur framfærslukostn­aður, var framfærslan erlendis lagfærð til samræmis við niðurstöður könnunar Analytica. Í þeim fáu tilvikum sem framfærslan hækkaði miðað við niðurstöðurnar, þá var það gert í einu skrefi en það verður gert í þremur áföngum þar sem lækka þarf framfærsluna. Framfærslan var uppfærð til samræmis við niðurstöður Analytica fyrir skólaárið 2015–2016, en þó með þeirri aðlögun að framfærsla á hverja ECTS-einingu verður ekki lækkuð meira en sem nemur 10%.
    Að beiðni LÍN tók athugun Analytica á framfærslu erlendis einnig til bókakostnaðar í hverju landi. Áður fengu námsmenn erlendis bókalán miðað við sama hlutfall og námsmenn á Íslandi. Með þeirri breytingu að taka annars vegar bókalánið inn í framfærsluna og hins vegar miða við mat háskóla í hverju landi á þeim kostnaði þá leiðir það almennt til hækkunar frá því sem var. Þannig verður sú lækkun sem áætluð er fyrir námsárið 2015–2016 lægri sem því nemur í einstökum löndum.

     2.      Hver er áætlaður sparnaður ríkisins af skerðingu framfærslulánanna?
    Lækkun á kostnaði ríkissjóðs er áætlaður 240 millj. kr. vegna framangreindrar breytingar vegna næsta skólaárs. Hins vegar voru gerðar aðrar breytingar á úthlutunarreglum LÍN, svo sem aukið tillit til áhrifa fjölskyldu á húsnæði o.fl. sem leiðir til þess að ekki er fyrirséður sparnaður vegna breytinga á reglunum. Í því sambandi má nefna að bætt var við sérstakri lánveitingu vegna skólagjalda vegna náms sem er skipulagt líkt og læknisfræðinám, þ.e. samfellt nám lengra en fimm ár. Nemur áætluð hækkun útgjalda vegna þess síðastnefnda um 70 millj. kr. á ársgrundvelli.

     3.      Telur ráðherra að íslenskir námsmenn erlendis geti lifað af framfærslulánunum eins og þau eru nú?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. er verið að aðlaga framfærslugrunn erlendis að raunverulegri framfærslu í viðkomandi löndum í samræmi við athugun óháðs fagaðila.
    Þá skal jafnframt bent á, eins og lesa má út úr skýrslu Analytica, sem birt er á vefsíðu LÍN, að verulegar en órökstuddar breytingar urðu á reiknaðri framfærslu erlendis vegna námsársins 2009–2010 þegar ákveðið var að hækka framfærslukostnað um 20% í öllum námslöndum.
    Í fyrstu var tekin ákvörðun um að framfærslan skyldi hækka um 20% á Íslandi vegna mikilla verðlagshækkana í kjölfar bankahrunsins og falls íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Samkvæmt upplýsingum LÍN komu skömmu síðar fyrirmæli frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að það sama skyldi gilda gagnvart námsmönnum erlendis þrátt fyrir að verðlagsbreytingar erlendis væru mun lægri en á Íslandi. Áætla má að útgjöld sjóðsins til námsmanna erlendis hafi hækkað á ári sem nam 500–700 millj. kr. á ári við þessa ákvörðun. Á fimm árum má ætla að þessi hækkun, sem virðist hafa verið umfram þörf samkvæmt niðurstöðum Analytica, hafi samtals numið hátt í 3.500 millj. kr., en af þeirri fjárhæð má ætla að ríkissjóður fái um helming endurgreiddar.

     4.      Hvaða viðhorf hefur ráðherra til menntunar lækna erlendis og hefur ráðherra verið í samráði við heilbrigðisráðherra um menntun og fjölgun íslenskra lækna?
    Mikilvægt er að íslenskir námsmenn hafi tækifæri til að sækja sér menntun erlendis. Á það við um menntun lækna sem og aðra menntun og námsgráður. Ekki verður séð að réttlætanlegt sé að meðhöndla læknanema sérstaklega umfram aðra háskólanema. Misjafnt er á hverjum tíma hvaða menntun þjóðfélagið hefur þörf á og að öllu jöfnu má gera ráð fyrir að framboðið lagi sig að þeirri eftirspurn sem er eftir ákveðinni menntun þegar til lengri tíma er litið og að ekki sé þörf á handstýrðum ákvörðunum stjórnvalda hvað þetta varðar. Eftir sem áður skal vísað til þess sem áður sagði um sérstaka lánveitingu vegna skólagjalda til samfellds náms sem skipulagt er til lengri tíma en fimm ára, eins og algengt er með læknanám. Í ljósi þess sem að framan er sagt hefur ráðherra ekki haft sérstakt samráð við heilbrigðisráðherra um menntun og fjölgun íslenskra lækna.

     5.      Kann að vera að skerðing þessi sé tilkomin fyrir mistök? Ef svo er, hvenær má vænta leiðréttingar á þeim mistökum?

    Líkt og fram kom í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar lagði LÍN töluverða vinnu í að meta hver væri raunveruleg framfærsluþörf námsmanna erlendis og fékk m.a. fyrirtækið Analytica til aðstoðar við að framkvæma það mat.
    Þær breytingar sem gerðar eru á framfærsluviðmiði námsmanna erlendis eru rökstuddar með gögnum og byggjast á ítarlegri greiningu og gerðar með það að markmiði að sjóðurinn láni námsmönnum erlendis þannig að framfærslulánin dugi til framfærslu þeirra. Jafnframt er miðað við það að gætt sé að hagsmunum íslenskra skattborgara í starfsemi LÍN. Má minna á að fyrir liggur að almennt er um helmingur veitts námsláns í raun styrkur. Ein­göngu með því að nýta vel þá fjármuni sem skattborgarar leggja LÍN til getur sjóðurinn haldið áfram að standa undir markmiði sínu um að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til efnahags.