Ferill 710. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1438  —  710. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni
um gengislán Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og Arion banka.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá bönkunum.

     1.      Hvert var heildarkröfuvirði þeirra gengislána sem bókfærð voru hjá Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og Arion banka í árslok 2014? Óskað er eftir upplýsingum um heildarfjárhæð höfuðstóls auk áfallinna vaxta en að frádregnum þeim fjárhæðum sem endanlega hefur verið úrskurðað eða samið um að ekki komi til greiðslu af hálfu við­skipta­manna bankanna.
    Í svari frá Landsbankanum kemur fram að í árslok 2014 hafi bankinn lokið við að endurreikna og leiðrétta að fullu öll þau lán í íslenskum krónum sem bankinn telur að hafi með ólögmætum hætti verið bundin gengi erlendra gjaldmiðla í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar. Bankinn lítur svo á að engin gengislán hafi verið bókfærð hjá bankanum í árslok 2014. Þess megi þó geta að ágreiningur sé um tiltekin lán sem bankinn telur að falli undir fordæmi Hæstaréttar í máli Haga hf. gegn Arion banka hf. nr. 463/2013, frá 12. desember 2013, og því eigi ekki að koma til frekari leiðréttingar á þeim lánum. Beðið er niðurstöðu Hæstaréttar varðandi þennan ágreining.
    Arion banki svaraði ekki fyrirspurninni. Byggist afstaða bankans á því að Alþingi gegni ekki eftirlitshlutverki gagnvart bankanum og beiðnin snúi ekki að opinberum upplýsingum. Þá megi færa rök fyrir því að ekki sé rétt að veita umræddar upplýsingar út frá samkeppnissjónarmiðum.
    Íslandsbanki tók ekki saman þær upplýsingar sem óskað var eftir og vísaði í ársreikning bankans og áhættuskýrslu hvað varðar gögn og upplýsingar um lánasafn bankans. Að mati ráðuneytisins er ekki ljóst af skýrslunum að umbeðnar upplýsingar sé þar að finna í því formi sem beðið er um.

     2.      Hve stór hluti þeirra gengislána sem voru í bókum bankanna í árslok 2014 er tilkominn vegna yfirfærslu eigna frá þrotabúi gömlu bankanna á árinu 2008? Óskað er eftir upplýsingum annars vegar á grundvelli bókfærðs verðs (nettó, að frádregnum afslætti) miðað við síðustu áramót og hins vegar á grundvelli heildarkröfuvirðis, sbr. 1. tölul. (lán sem færð voru yfir frá þrotabúi og hafa verið framlengd teljast hafa verið flutt yfir).

    Í svari Landsbankans kemur fram að engin gengislán hafi verið bókfærð hjá bankanum í árslok 2014. Gengislánin hafi upphaflega komið til vegna yfirfærslu eigna frá gamla Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.) til Landsbankans.
    Arion banki svaraði ekki fyrirspurninni eins og áður hefur verið greint frá.
    Í svari Íslandsbanka er vísað á Fjármálaeftirlitið. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu eru umbeðnar upplýsingar ekki til í því formi sem beðið er um.