Ferill 780. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1463  —  780. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Fanný Gunnarsdóttur
um ­sveitarfélög og eigendur sumarhúsa.


     1.      Hverjar eru lagalegar skyldur ­sveitarfélaga gagnvart eigendum sumarhúsa eða formlegum félögum sumarhúsaeigenda?
    Sé eigandi sumarhúss búsettur í því ­sveitarfélagi þar sem sumarhúsið er staðsett ber ­sveitarfélagið allar sömu skyldur gagnvart honum og öðrum íbúum ­sveitarfélagsins. Sé eigandi sumarhúss búsettur í öðru ­sveitarfélagi tengjast skyldur þess ­sveitarfélags þar sem sumarhúsið er staðsett fyrst og fremst fasteigninni sjálfri. Fer það nokkuð eftir aðstæðum á hverjum stað hverjar þær skyldur nákvæmlega eru, en nefna má skyldur ­sveitarfélaga á sviði skipulagsmála, brunavarna og fráveitu.

     2.      Eru í gildi einhver lög eða reglur um upplýsingagjöf ­sveitarfélaga til eigenda sumarhúsa eða sumarhúsafélaga?
    Samkvæmt 24. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, getur a.m.k. helmingur félaga í frístundabyggð í ­sveitarfélagi sameinast um að óska eftir því við ­sveitarstjórn eða ­sveitarstjóra að haldinn sé fundur til að veita upplýsingar um sam­eigin­leg hagsmunamál frístundabyggðanna og ­sveitarfélagsins. Skal þá ­sveitarstjórn, eða eftir atvikum ­sveitarstjóri, að öðru jöfnu bjóðast til að halda slíkan fund með fulltrúum allra félaga í ­sveitarfélaginu. Sveitarstjórn, eða eftir atvikum ­sveitarstjóri, þarf ekki að bjóðast til að halda slíkan fund oftar en einu sinni á hverju ári. Lög þessi eru á málefnasviði velferðarráðuneytisins.
    Ekki eru í lögum önnur ákvæði sem fjalla sérstaklega um upplýsingagjöf ­sveitarfélaga til eigenda sumarhúsa eða sumarhúsafélaga umfram þá almennu upplýsingagjöf sem felst m.a. í auglýsingu skipulagsáætlana og þess háttar.
    Rétt er að taka fram í þessu sambandi að í 102. gr. ­sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er fjallað um rétt íbúa til áhrifa á stjórn ­sveitarfélags. Segir þar að ­sveitarstjórn skuli leitast við að tryggja íbúum ­sveitarfélagsins og þeim sem njóta þjónustu þess möguleika til að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn ­sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar. Þar sem í ákvæðinu er ekki aðeins vísað til íbúa ­sveitarfélagsins heldur einnig þeirra sem að öðru leyti njóta þjónustu þess tekur það einnig til eigenda fasteigna í ­sveitarfélagi sem ekki hafa þar jafnframt lögheimili. Í 2. mgr. ákvæðisins eru nefndar nokkrar mögulegar aðferðir sem ­sveitarfélögin geta nýtt sér í þessu skyni, en rétt er að undirstrika að ekki er um lögbundna samráðsskyldu að ræða.

     3.      Eru einhverjar reglur í gildi um aðgengi sumarhúsaeigenda eða stjórnarmanna í félögum sumarhúsaeigenda að ­sveitarstjórnum?

    Ekki umfram það sem rakið hefur verið í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.