Ferill 692. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1485  —  692. mál.
Leiðrétt millivísun.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld,
nr. 74/2012 (veiðigjald 2015–2018).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson, Brynhildi Benediktsdóttur, Jóhann Guðmundsson og Hinrik Greipsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmund Ragnarsson frá Félagi vélstjóra- og málmtæknimanna, Sigurjón Ingvason og Þorstein Hilmarsson frá Fiskistofu, Rósmund Guðnason og Böðvar Þórisson frá Hagstofu Íslands, Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Friðrik Friðriksson, Hallveigu Ólafsdóttur, Hauk Hafsteinsson, Jens Garðar Helgason og Kolbein Árnason frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Ármann Einarsson frá Auðbjörgu hf., Eirík Tómasson frá Þorbirni hf., Guðmund Smára Guðmundsson frá G.Run hf., Ólaf Rögnvaldsson frá Hraðfrystihúsi Hellissands, Sigurð Viggósson frá Odda hf. og fulltrúa veiðigjaldsnefndar Arndísi Ármann Steinþórsdóttur, Daða Má Kristófersson og Jóhann Sigurjónsson. Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Deloitte ehf., Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Fjarðabyggð, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Hagstofu Íslands, Landssambandi línubáta, Landssambandi smábátaeigenda, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Samtökum eigenda sjávarjarða, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum sjávarútvegs­sveitarfélaga, Samtökum smærri útgerða, Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, Sjómannasambandi Íslands, Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæ og Við­skipta­ráði Íslands.
    Með setningu laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, voru felld brott ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem kváðu á um heimild til innheimtu veiðigjalda. Í hinum nýju lögum um veiðigjöld var mælt fyrir um nýjar aðferðir við ákvörðun veiðigjalda en lögin komust ekki að fullu til framkvæmda og var í ákvæði til bráðabirgða við lögin mælt fyrir um fjárhæð almenns og sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Með lögum nr. 84/2013, um breytingu á lögum um veiðigjöld, var enn kveðið á um álagningu veiðigjalda til eins árs, þ.e. fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Á síðasta löggjafarþingi voru, með lögum nr. 47/2014, að nýju gerðar breytingar á lögunum þar sem mælt var fyrir um ákvörðun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2014/2015 sem krónur á hvert kíló aflamarks eða landaðs afla. Heildarfjárhæð veiðigjalda var ákveðin sem 35% af grunni sem var allur hagnaður (EBT) við veiðar og 20% af hagnaði í fiskvinnslu samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um veiðigjöld. Í 1. gr. er kveðið á um eitt veiðigjald og verður því ekki um að ræða almennt og sérstakt veiðigjald verði frumvarpið að lögum. Í 11. gr. er mælt fyrir um að lögin gildi næstu þrjú fiskveiðiár (almanaksár þar sem það á við). Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfestur verði nýr kafli í stað II. kafla laganna. Í b-lið greinarinnar er kveðið á um að veiðigjaldsnefnd skuli reikna framlegð fyrir hvern nytjastofn byggt á nánar tilgreindum gögnum auk þess sem hún skal reikna afkomuígildi fyrir hvern nytjastofn. Í c-lið er mælt fyrir um reiknigrunn veiðigjalds fyrir annars vegar ­botnfisk og hins vegar uppsjávarfisk sem er samkvæmt frumvarpinu ákvarðaður á grundvelli upplýsinga í nýjustu útgáfu skýrslunnar Hagur veiða og vinnslu. Í d-lið er kveðið á um hvernig skuli standa að ákvörðun veiðigjalds. Mælt er fyrir um að veiðigjaldsnefnd ákvarði veiðigjald eigi síðar en 1. júlí ár hvert fyrir hvern nytjastofn sem krónur á kílógramm óslægðs afla. Veiðigjald er ákvarðað með þeim hætti að hluta af reiknigrunni annars vegar ­botnfisks og hins vegar uppsjávarfisks er jafnað niður á stofna samkvæmt afkomuígildum þeirra á grundvelli aflamagns sem er lagt til grundvallar við ákvörðun afkomuígilda skv. a-lið 1. mgr. b-liðar 5. gr. frumvarpsins. Í 6. gr. er lagt til að veiðigjald verði innheimt í staðgreiðslu í stað þess að gjalddagar séu fjórir á ári. Verði frumvarpið að lögum verður veiðigjald því lagt á mánaðarlega og gjalddagi 1. hvers mánaðar vegna veiða þar síðasta mánaðar. Með þessu er leitast við að tryggja að veiðigjald sé lagt á sem næst rauntíma og þeim tíma þegar tekjur vegna sölu á afla falla til. Jafnframt er kveðið á um sérstakt álag á veiðigjald á makríl og lagt til að tekið verði upp veiðigjald á hvalveiðar.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um nokkrar breytingar á ákvæðum um afslátt frá veiðigjaldi vegna smærri útgerða og um lækkun veiðigjalds vegna kvótakaupa. Áfram er gert ráð fyrir afslætti af veiðigjaldi en í 6. mgr. d-liðar 5. gr. er kveðið á um að þeir sem greiða lægra veiðigjald en 1 millj. kr. á tilteknu fiskveiðiári eigi rétt á 100 þús. kr. lækkun á næsta fiskveiðiári á eftir. Í gildandi lögum er mælt fyrir um rétt allra greiðenda veiðigjalds til 250 þús. kr. afsláttar af sérstöku veiðigjaldi. Með breytingunni er leitast við að þrengja skilyrði afsláttarins til að hann nýtist einkum smærri útgerðum en verði frumvarpið að lögum getur hann numið a.m.k. 10%. Í 7. mgr. d-liðar 5. gr. er lögð til breyting á rétti til lækkunar veiðigjalds vegna kvótakaupa. Mælt er fyrir um að hámarkslækkun hvers greiðsluskylds aðila skuli nema 50% af rétti hans til lækkunar eins og hann er ákveðinn í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum. Samkvæmt ákvæðinu getur rétturinn að hámarki numið helmingi álagðra veiðigjalda hvers almanaksmánaðar. Að lokum má nefna að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að upplýsingum um kostnað við veiðar verði safnað með skattframtölum.
    Meiri hlutinn tekur undir það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að mikilvægt sé að gjaldheimta í sjávarútvegi byggist ekki ein­göngu á afkomu þeirra fyrirtækja sem best gengur því að það getur vegið að fjölbreytileika greinarinnar. Áréttar meiri hlutinn ummæli í nefndaráliti meiri hluta á síðasta löggjafarþingi (568. mál á 143. löggjafarþingi): „Meiri hlutinn telur mikilvægt að álagning veiðigjalda og innheimta þeirra verði ekki til þess að skapa óstöðugleika og óvissu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Umræða um auðlindagjald og sanngjarnan hlut þjóðarinnar í afrakstri sjávarútvegsins er áralöng. Hugmyndafræðin um álagningu veiðigjalda á svokallaðan umframarð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið deilumál og skapað átök um þá mikilvægu atvinnugrein sem sjávarút­vegur er. Meiri hlutinn telur að hugmyndafræðilegur ágreiningur megi ekki leiða til þess að skapa óvissu í sjávarútvegi og því telur meiri hlutinn nauðsynlegt að ná frekari sátt um framtíðarfyrirkomulag þeirrar gjaldtöku sem hér um ræðir. Mikilvægt er að hafa í huga að há álagning gjalda af þessu tagi vinnur gegn því markmiði laga um stjórn fiskveiða að standa vörð um fjölbreytta útgerð og öflug byggðarlög.“
    Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu má gera ráð fyrir að álögð veiðigjöld fiskveiðiárið 2014/15 geti numið um 8,5 milljörðum kr. Samkvæmt frumvarpi þessu er áætlað að álögð veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2015/16 geti numið 10,9 milljörðum kr. Hækkun veiðigjalda milli ára er um 28% og leggst þungi hækkunar á ­botnfiskteg­undir. Fram hefur komið að svo mikil hækkun og þá sérstaklega hækkun veiðigjalds ­botnfiskteg­unda sé mikið áhyggjuefni. Má til dæmis nefna að yrði frumvarpið óbreytt að lögum mundi veiðigjald á þorsk hækka um 53,25% og ýsu um 47,84%. Búast má við því að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði enn frekari samþjöppun veiðiheimilda en þegar er orðin því að líklegt væri að þungi gjaldsins væri of mikill á minni útgerðir sem fyrst og fremst veiddu ­botnfisk. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn rétt að fara gaumgæfilega yfir alla þætti málsins.
    Meiri hlutinn telur rétt að þegar veiðigjaldsnefnd hefur lokið útreikningum á veiðigjaldi skv. d-lið 5. gr. frumvarpsins þá kynni hún atvinnuveganefnd þá útreikninga svo ­fljótt sem auðið er. Ætlunin er að hafa tækifæri til að skoða hvort verulegar breytingar hafi orðið á afkomu tiltekinna teg­unda.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem fyrst og fremst miða að raunhæfri lækkun heildarveiðigjaldsins miðað við frumvarpið og að létt verði að nokkru á ­botnfiskútgerðum. Breytingunum má skipta í fimm hluta:
     1.      Lagt er til að í reiknigrunni veiðigjalda á ­botnfisk sé gert ráð fyrir 5% álagi í stað 20% af eftirfarandi: öllum hreinum hagnaði (EBT) í söltun og herslu, og fyrir ferskfiskvinnslu og 78% af hreinum hagnaði (EBT) í frystingu (landfrystingu). Jafnframt er lagt til að í reiknigrunni veiðigjalda á uppsjávarfisk sé gert ráð fyrir 25% álagi í stað 20% af eftirfarandi: 22% hreins hagnaðar (EBT) í frystingu og öllum hreinum hagnaði (EBT) af mjöl- og lýsisvinnslu. Þessi breyting breytir hlutföllum milli ­botnfisks og uppsjávarfisks þannig að ­botnfiskur greiði lægra gjald að tiltölu.
     2.      Við ákvörðun veiðigjalda verði miðað við 33% af heildarreiknigrunni ­botnfisks og uppsjávarfisks í stað 35% af reiknigrunni þessara teg­unda. Þessi breyting hefur í för með sér nokkra lækkun heildarveiðigjalda.
     3.      Lagt er til að 10 kr./kg viðbótargjald á makríl falli brott, bæði þar sem líkur eru á að frumvarp um stjórn veiða á Norð­austur-Atlantshafsmakríl (691. mál) taki nokkrum breytingum í meðferð þingsins þar sem gert er ráð fyrir að svonefnd sex ára regla falli brott og auk þess virðist óvissa á makrílmörkuðum og við veiðar hans nú ekki geta réttlætt viðbótarskattheimtu af þessu tagi.
     4.      Í því skyni að koma til móts við smærri útgerðir sem bera meiri þunga veiðigjalda en áður er lögð til veruleg breyting á svokölluðu frítekjumarki. Lagt er til að hver gjaldskyldur aðili eigi rétt á því að fá 20% afslátt af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% afslátt af næstu 4,5 millj. kr. álagningarinnar. Þeir aðilar sem njóta réttar til lækkunar veiðigjalds skv. 7. mgr. d-liðar 5. gr. frumvarpsins, eiga ekki rétt á þessum afslætti, fyrr en sá réttur er uppurinn, og reiknast afsláttur af því veiðigjaldi sem lagt er á eftir þann tíma. Samkvæmt þessari tillögu getur hámarksafsláttur numið 1.575 þús. kr. og er meginmarkmið hans fyrst og fremst að rétta stöðu smárra og millistórra útgerða sem stunda ­botnfiskveiðar.
     5.      Loks er í aðlögunarskyni lagt til að staðgreiðslu veiðigjalda verði seinkað um tvo mánuði í byrjun þannig að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. frumvarpsins skuli fyrsta greiðslutímabil veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2015/2016 vera frá 1. september 2015 til 31. desember 2015 og fyrsti gjalddagi 1. febrúar 2016. Er þetta fyrst og fremst lagt til svo að Fiskistofa og tollstjóri hafi rýmri tíma til undirbúnings staðgreiðslunnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:


     1.      Við c-lið 5. gr.
                  a.      Í stað ,,20%“ í ii. tölul. a-liðar komi: 5%.
                  b.      Í stað ,,20%“ í ii. tölul. b-liðar komi: 25%.
     2.      Við d-lið 5. gr.
                  a.      Í stað hlutfallsins „35%“ í a- og b-lið 1. mgr. komi: 33%.
                  b.      3. mgr. falli brott.
                  c.      6. mgr. orðist svo:
                     Hver gjaldskyldur aðili á rétt á því að veittur sé 20% afsláttur af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% afsláttur af næstu 4,5 millj. kr. álagningarinnar. Þeir aðilar sem njóta réttar til lækkunar veiðigjalds skv. 6. mgr. eiga ekki rétt á þessum afslætti fyrr en sá réttur er uppurinn og reiknast afsláttur af því veiðigjaldi sem lagt er á eftir þann tíma.
     3.      Við 11. gr.
                  a.      Síðari málsliður 3. mgr. falli brott.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. skal fyrsta greiðslutímabil veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2015/2016 vera frá 1. september 2015 til 31. desember 2015 og fyrsti gjalddagi 1. febrúar 2016.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. júní 2015.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Fjóla Hrund Björnsdóttir.
Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.