Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1491  —  643. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990,
með síðari breytingum (erfðaefni holdanautgripa).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Elías Blöndal Guðjónsson, Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jón Baldur Lorange og Sindra Sigurgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Baldur Helga Benjamínsson og Sigurð Loftsson frá Landssambandi kúabænda, Sigurborgu Daðadóttur og Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Bjarna R. Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Vilhjálm Svansson frá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og Sigurð Sigurðarson, Laufeyju Bjarnadóttur, Katrínu Andrésdóttur og Ólaf R. Dýrmundsson. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Landssambandi kúabænda, sam­eigin­lega umsögn frá Laufeyju Bjarnadóttur, Þresti Aðalbjarnarsyni, Ólafi R. Dýrmundssyni, Katrínu Andrésdóttur, Sveini Ingvarssyni, Magnúsi B. Jónssyni, Margréti Guðnadóttur, Sigurði Sigurðarsyni, Jóni Bjarnasyni, Sif Jónsdóttur, Geir Ágústssyni, Margréti Stefánsdóttur, Stefáni Geirssyni, Esther Guðjónsdóttur, Ásthildi Skjaldardóttur, Birgi Aðalsteinssyni, Guðrúnu Lárusdóttur, Guðrúnu Sigurjónsdóttur, Steinþóri Heiðarssyni, Gunnari Guðbjartssyni og Hjalta Viðarssyni, Sigurði Sigurðarsyni, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Erni Karlssyni.
    Í frumvarpinu er lagt til að við lög um innflutning dýra bætist heimild til að flytja inn erfðaefni holdanautgripa þannig að um það gildi sambærilegar reglur og um innflutning erfðaefnis svína. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nautgripir bætist við upptalningu á þeim teg­undum dýra sem falla undir hugtakið einangrunarstöð. Í 2. gr. frumvarpsins er útvíkkuð heimild ráðherra í 13. gr. laganna til að leyfa innflutning á erfðaefni frá viðurkenndum kynbótabúum eða sæðingarstöðvum þannig að hún nái einnig til holdnautagripa. Í 13. gr. gildandi laga nær heimildin til innflutnings á loðdýrum í búrum, frjóvguðum alifuglaeggjum, fiskum og erfðaefni þeirra og svínum og erfðaefni þeirra. Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna falli brott sem felur í sér að þegar tryggt er að dýr í einangrunarstöð er ekki haldið smitsjúkdómi samkvæmt mati yfirdýralæknis og að fengnu leyfi hans þá verði unnt að flytja viðkomandi dýr á hvaða bú sem er. Í c-lið 2. gr. er kveðið á um að innflutt erfðaefni holdanautgripa verði ekki heimilt að flytja úr einangrunarstöð en hins vegar megi flytja þaðan þá gripi sem hafa vaxið af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð með leyfi yfirdýralæknis og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum skv. 1. mgr. 13. gr. laganna. Þá er Matvælastofnun í d-lið 2. gr. frumvarpsins veitt heimild til að heimila innflutning á erfðaefni holdanautgripa ef uppfyllt eru skilyrði 8. gr. laganna, þ.e. að heilbrigðisskoðun hafi farið fram af embættisdýralækni og að fósturvísir, egg eða sæði komi frá viðurkenndri kynbótastöð. Lagt er til að stofnunin geti mælt fyrir um nánari skilyrði um ­rannsóknir og ef skilyrðum er ekki fullnægt skuli afturkalla leyfi, eyða erfðaefni og lóga dýrum. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild Matvælastofnunar til gjaldtöku vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar með innflutningi samkvæmt lögunum verði styrkt. Sambærileg ákvæði eru í lögum nr. 93/1995, um matvæli, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
    Meiri hlutinn tekur undir það markmið frumvarpsins að bæta og efla framleiðslu á nautakjöti og telur sóknarfæri geta falist í því fyrir íslenskan landbúnað að stunda hjarðbúskap gripa af holdanautgripum. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að margt mætti gera til viðbótar við innflutning á erfðaefni til að bæta og efla nautakjötsframleiðslu og bæta afkomu í greininni. Meiri hlutinn hvetur til þess að átak verði gert til að auka fagmennsku, góða meðferð búfjár og almennt góða búskaparhætti í hjarðbúskap og getur hann sem slíkur átt góða framtíð. Ekki virðist vera fjallað að nokkru marki um notkun á sæði úr gripum af holdakyni til kjötframleiðslu í mjólkurkýr til einblendingsræktar. Meiri hlutinn hvetur til þess að við framkvæmd innflutnings og dreifingu á erfðaefni verði horft til þeirrar notkunar og að reglur taki mið af áhættu við slíka notkun.
    Meiri hlutinn bendir á að innflutningur á erfðaefni í íslenskt búfé er vandasamt verk enda hefur það búið við einangrun og fjölmargir búfjársjúkdómar eru óþekktir hér á landi. Mikil auðlegð og tækifæri felast í því fyrir íslenskan landbúnað. Einangrun og strangar smitvarnir eru grundvöllur góðrar lýðheilsu og lágmarka útbreiðslu ýmissa veirusjúkdóma. Þar sem íslenskt búfé hefur lengi verið einangrað geta sjúkdómar sem ekki valda miklum búsifjum þar sem þeir eru landlægir valdið miklu tjóni hér á landi ef þeir berast hingað.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um áhættu af innflutningi erfðaefnis á einstök bú og var því haldið fram fyrir nefndinni að innflutning ætti ekki að heimila á neinu erfðaefni, hvorki fósturvísum né sæði. Meiri hlutinn bendir á að strangt eftirlit verður viðhaft verði frumvarpið að lögum og mun ráðstöfun gripa sem vaxa af hinu innflutta erfðaefni sæta skilyrðum. Þá bendir meiri hlutinn á að þegar hefur verið flutt inn erfðaefni fyrir ýmsa búfjárstofna sem hefur gengið án mikilla áfalla. Innflutningur af þessu tagi hefur verið háður ströngum skilyrðum og sérstakt eftirlit viðhaft auk þess sem gerðar hafa verið ríkar kröfur um uppruna erfðaefnis og sérstök leyfi gefin út á hverjum tíma. Innflutningur á erfðaefni til kynbóta holdanautakynja hefur verið framkvæmdur hér á landi m.a. með innflutningi á sóttvarnarstöð í Hrísey. Sú aðstaða er ekki lengur fyrir hendi en innflutningur með þeim hætti var gríðarlega kostnaðarsamur.
    Aðdragandi þessa frumvarps er sá að þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði árið 2011 starfshóp um nautakjötsframleiðslu og stöðu holdanautastofnsins á Íslandi. Einnig skipaði þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra starfshóp í fram­haldinu árið 2013 til að rýna niðurstöður hins fyrrnefnda og skilaði hann skýrslu um eflingu nautakjötsframleiðslu á Íslandi í júlí 2013. Meginniðurstaða þessara tveggja starfshópa er sú að ekki sé unnt að bæta holdanautakynin sem eru notuð til hjarðbúskapar og einblendingsræktunar án innflutings nýs erfðaefnis. Af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var leitað eftir afstöðu Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands til að meta áhættu við innflutning á erfðaefni holdanautgripa og að beiðni ráðuneytisins fjallaði dýralæknaráð einnig um málið.
    Í 1. gr. laga um innflutning dýra er skilgreint hvað felst í hugtakinu einangrunarstöð en það er sóttvarnaraðstaða fyrir teg­undir dýra sem þar eru taldar upp auk erfðaefnis þeirra. Ráðherra getur skv. 7. gr. laganna ákveðið með reglugerð, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, hvaða kröfur séu gerðar um útbúnað einangrunarstöðvar. Í kjölfar vinnu starfshópa liggja fyrir tvær tillögur, annars vegar svonefnd tillaga A og hins vegar tillaga B. Meginmunur tilagnanna felst í skilgreiningu á hugtakinu einangrunarstöð, flutningi gripa frá einangrunarstöð og eftirliti og vöktun smitsjúkdóma á einangrunarstöð. Einnig er í tillögunum munur á því hversu langur tími þurfi að líða frá því að gripur sem hefur vaxið af innfluttu erfðaefni geti yfirgefið einangrunarstöð.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að fyllstu varúðar verði gætt við undirbúning og framkvæmd innflutnings á erfðaefni samkvæmt frumvarpinu Meiri hlutinn telur að miða skuli við tillögu A í meginatriðum hvað varðar tilhögun og kröfur til innflutnings, um framkvæmd á innflutningi erfðaefnis og kröfur til aðstöðu á einangrunarstöð en umrædd tillaga er fylgiskjal með áliti þess. Meiri hlutinn telur að miða skuli við innflutning erfðaefnis með fósturvísum á einangrunarstöð og mælir ráðherra fyrir um kröfur til einangrunarstöðva í reglugerð líkt og áður hefur komið fram. Kröfur til einangrunarstöðvar setur ráðherra í reglugerð. Þar verði tekið tillit til sjónarmiða eins og nálægðar við bú er halda nautgripi og til hversu stórt svæði verði að vera skepnulaust. Gripum sem fæðast af því erfðaefni verði í fram­haldi heimilt að dreifa af einangrunarstöð við 9–12 mánaða aldur að undangenginni rannsókn og mati á áhættu á að með gripum geti borist sjúkdómar. Að sama skapi verði heimilt að taka sæði til frystingar af sömu gripum. Meiri hlutinn telur að miða beri við að gripir verði ekki fluttir af einangrunarstöð fyrr en við 9–12 mánaða aldur en að undangengnum rannsóknum til áframeldis og kynbóta á búum bænda. Jafnframt ber að viðhafa vöktun með sjúkdómum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller og Eldar Ástþórsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. júní 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Kristján L. Möller,
með fyrirvara,.
Fjóla Hrund Björnsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.
Þórunn Egilsdóttir.


Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


TILLAGA A


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.