Ferill 721. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1625  —  721. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um mannréttindamiðaða fjárlagagerð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að tekin verði upp mannréttindamiðuð fjárlagagerð með sambærilegum hætti og á við um kynjaða fjárlagagerð?
     2.      Hvaða aðferðafræði er beitt innan ráðuneytisins til að tryggja að frumvarp til fjárlaga brjóti ekki í bága við mannréttindi á borð við rétt til menntunar, heilsu og félagslegs öryggis?


    Hinn 19. júní sl. samþykkti ríkisstjórnin nýja fimm ára innleiðingaráætlun um kynjaða fjárlagagerð. Markmiðið með kynjaðri fjárlagagerð er að tryggja að ekki sé hallað á kynin við öflun og ráðstöfun á opinberu fé. Við greiningu á áhrifum er æskilegt að tvinna saman mismunabreytum, svo sem kyni, kynhneigð, uppruna, fötlun o.s.frv. eins og við á. Jafnrétti kynjanna er hluti af mannréttindum, eins og mannréttindasáttmálar sem Ísland er aðili að bera með sér, svo sem samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) og yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gagnvart konum. Að auki eiga aðrir hópar sem mannréttindasáttmálar ná til það sam­eigin­legt að vera samsettir af konum og körlum.
    Til að ná sem mestum árangri er ákjósanlegast að tengja saman í eitt ferli greiningu út frá mismunandi þáttum. Afstaða ráðherra er því sú að mannréttindamiðaða fjárlagagerð og kynjaða fjárlagagerð eigi ekki að aðgreina heldur spyrða saman. Sú nálgun er vænlegri til árangurs en að byggja upp marga mismunandi og ótengda ferla sem síðan lenda í innbyrðis samkeppni um fjármagn og tíma.
    Í 2. tölul. fyrirspurnarinnar er spurt hvaða aðferðafræði sé beitt innan ráðuneytisins til að tryggja að frumvarp til fjárlaga brjóti ekki í bága við mannréttindi á borð við rétt til menntunar, heilsu og félagslegs öryggis.
    Hér á landi felst fjárlagagerðin í svonefndri rammafjárlagagerð en markmiðið með henni er að efla stefnumótandi hlutverk stjórnvalda og að tryggja betur að mörkuð stefna nái fram að ganga. Það gerist þannig að allir aðilar sem koma að undirbúningi og framkvæmd fjárlaga – ríkisstjórn, ráðuneyti, stofnanir og Alþingi – þurfa að taka mið af þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til ráðstöfunar hverju sinni og axla þá ábyrgð að velja á milli verkefna og forgangsraða þeim. Einstakir ráðherrar og ráðuneyti bera þannig fjárhagslega ábyrgð á forgangsröðun og skiptingu útgjalda milli stofnana og verkefna í fjárlagafrumvarpi innan þeirra marka sem rammi fjárlagagerðarinnar setur. Þeir þurfa í tillögum sínum að taka tillit til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist og þeirrar stefnu sem mörkuð er í stjórnarskrá og annarri löggjöf, þ.m.t. um jafnræði og mannréttindi.
    Við þetta er því að bæta að öll stjórnarfrumvörp eru metin með tilliti til fjárhagslegra áhrifa í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og eftir atvikum með hliðsjón af ýmsum öðrum þáttum af öðrum hlutaðeigandi aðilum, svo sem varðandi kynjaáhrif, og þau tengd við fjárlagagerð hjá einstökum ráðuneytum. Með því móti er leitast við að tryggja nauðsynlegt fjármagn í lögbundin verkefni.