Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 13  —  13. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki,
með síðari breytingum (smásala áfengis).

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Sigríður Á. Andersen,
Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson,
Willum Þór Þórsson, Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson, Björt Ólafsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Ásta Guðrún Helgadóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðin „smásölu á áfengi og“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „áfengi eða“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „þann varning“ í 2. mgr. kemur: það.
     d.      Orðin „áfengi og“ í 3. mgr. falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Orðin „smásölu áfengis og“ í a-lið falla brott.
     b.      Orðin „áfengi og“ og „áfengis- og“ í b-lið falla brott.
     c.      Orðin „áfengis og“ í c-lið falla brott.

3. gr.

    Orðin „smásölu áfengis og“ í 3. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR“ í 1. mgr. kemur: Tóbaksverslun ríkisins, TVR.
     b.      Orðin „smásölu áfengis og“ í 1. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðsins „ÁTVR“ í 2. og 3. mgr. kemur: TVR.
     d.      Orðið „áfengislög“ í 2. mgr. fellur brott.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Tóbaksverslun ríkisins.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ÁTVR“ í 1. og 2. mgr. kemur: TVR.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Forstjóri Tóbaksverslunar ríkisins.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ÁTVR“ í inngangsmálslið greinarinnar kemur: TVR.
     b.      Orðin „áfengi til smásölu og“ í a-lið falla brott.
     c.      B- og c-liður falla brott.
     d.      Orðin „smásölu á áfengi og“ í g-lið falla brott.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Verkefni Tóbaksverslunar ríkisins.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „ÁTVR“ í 2. mgr. kemur: TVR.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Einkaleyfi Tóbaksverslunar ríkisins.

8. gr.

    Í stað orðsins „ÁTVR“ í 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: TVR.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1., 2. og 5. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „ÁTVR“ í 3., 4. og 6. mgr. kemur: TVR.
     c.      Orðin „áfengi og“ í 4. mgr. og fyrirsögn greinarinnar falla brott.

10. gr.

    10. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

11. gr.

    11. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ÁTVR“ í 1. mgr. kemur: TVR.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             TVR skal veita upplýsingar um mögulega skaðsemi tóbaks og þá áhættu sem getur fylgt neyslu þess.

13. gr.

    13. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

14. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Um Tóbaksverslun ríkisins.

15. gr.

    14. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

16. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um verslun með tóbak.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
17. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Áfengissmásöluleyfi 50.000 kr.

III. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum.
18. gr.

    Á eftir orðinu „heildsölu“ í 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. og 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: smásölu.

19. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „skv. 27. gr.“ í 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: skv. 26. gr.

20. gr.

    Orðin „annað en leyfi til smásölu“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

21. gr.

    Í stað 1. mgr. 10. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Handhafa smásöluleyfis er heimilt að selja eða afhenda áfengi til neytenda eldri en 20 ára. Sala getur aðeins farið fram ef kaupandinn sýnir með skilríkjum að hann sé orðinn 20 ára.
    Útsöluverð á áfengi er frjálst en óheimilt er að selja áfengi undir kostnaðarverði. Með kostnaðarverði er átt við endanlegt innkaupsverð að viðbættum opinberum gjöldum auk virðisaukaskatts.

22. gr.

    Í stað 2. mgr. 11. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn skal setja eftirfarandi skilyrði fyrir veitingu smásöluleyfis:
     a.      Afgreiðslutími skal ekki vera lengri en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 20.00 að kvöldi.
     b.      Starfsmenn sem afgreiða áfengi mega ekki vera yngri en 18 ára.
     c.      Skilyrði um önnur málefnaleg atriði, svo sem um staðsetningu verslunar, aðgengi, merkingar o.fl.
    Sveitarstjórn er heimilt að setja það skilyrði fyrir veitingu smásöluleyfis að hámarksafgreiðslutími verði allt að þremur klukkustundum styttri á dag en skv. a-lið 1. mgr.
    Sveitarstjórn er óheimilt að veita smásöluleyfi fyrirtækjum sem stunda starfsemi sem fellur undir ÍSAT-flokkinn 47.11.2 (söluturnar). Þá er sveitarstjórn óheimilt að veita smásöluleyfi til ísbíla, pylsuvagna og annarra færanlegra veitingavagna og markaðsbása, sbr. ÍSAT-flokk 56.10.0, myndbanda- og mynddiskaleigna, sbr. ÍSAT-flokk 77.22.0, og smásölu matvæla í sjálfsölum, sbr. ÍSAT-flokk 47.99.0.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Smásöluleyfishafi skal ábyrgjast fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað húsnæðis þess sem hýsa á útsölustaðinn, hámarksafgreiðslutíma og að áfengi sem er að rúmmáli meira en 22% af hreinum vínanda sé geymt afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar. Sérverslun sem selur eingöngu áfengi er undanþegin þessari afmörkun. Ráðherra kveður nánar á um afgreiðslutíma, skilyrði smásöluleyfis og kröfur til eftirlits- og öryggiskerfa í reglugerð, þ.m.t. kröfur til myndupptökukerfa, fyrirkomulag afmörkunar áfengis sem að rúmmáli er meira en 22% af hreinum vínanda frá annarri söluvöru o.fl.
     b.      2. mgr. fellur brott.

24. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að sex árum ef:
     a.      hann stundar í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis án leyfis skv. 3. gr.,
     b.      hann framleiðir áfengi til einkaneyslu og sölu þótt ekki sé í atvinnuskyni,
     c.      hann selur áfengi þótt ekki sé í atvinnuskyni,
     d.      hann flytur inn, útbýr eða smíðar sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem var ódrykkjarhæft skv. 7. gr.,
     e.      hann selur eða afhendir áfengi til einhvers sem hann hefur ekki heimild til að selja eða afhenda áfengi skv. 2. mgr. 9. gr.,
     f.      hann selur áfengi til neytenda yngri en 20 ára skv. 18. gr.,
     g.      hann neytir áfengis í veitingastofu, veitingatjaldi, húsnæði félagasamtaka eða öðrum þeim stöðum þar sem veitingar fara fram skv. 2. mgr. 19. gr.,
     h.      hann ber með sér áfengi inn eða út af veitingastað skv. 3. mgr. 19. gr,
     i.      hann veitir, selur eða lætur af hendi áfengi til annarra gegn gjaldi eða öðru verðmæti skv. 4. mgr. 19. gr.,
     j.      hann lætur viðgangast ólöglegan tilbúning, sölu eða geymslu áfengis skv. 5. mgr. 19. gr.,
     k.      hann auglýsir áfengi eða áfengistegund skv. 20. gr.,
     l.      hann veldur óspektum, hættu eða hneyksli skv. 21. gr.,
     m.      hann veitir þeim áfengi sem tilgreindir eru í 1. mgr. 22. gr. skv. 3. mgr. 22. gr.,
     n.      hann er veitingamaður og veitir áfengi á öðrum tímum en honum er heimilt samkvæmt leyfi til áfengisveitinga,
     o.      hann er veitingamaður og veitir áfengi á annan hátt en honum er heimilt samkvæmt leyfi til áfengisveitinga.
    Nú er brot skv. 1. mgr. stórfellt eða ítrekað og skal þá maður sæta fangelsi allt að sex árum.
    Brot skv. 1. og 2. mgr. varða mann refsiábyrgð ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Gera má lögaðila sekt vegna brots skv. 1. eða 2. mgr. óháð sök fyrirsvarsmanns lögaðilans, starfsmanns hans eða annars á hans vegum í starfsemi lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin sömu skilyrðum, enda hafi verið framið brot skv. 1. eða 2. mgr. í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.
    Meðferð ávinnings af brotum skv. 1. og 2. mgr. er refsiverð eftir því sem segir í 264. gr. almennra hegningarlaga.
    Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. eru manni refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

25. gr.

    27. gr. laganna fellur brott.

26. gr.

    Á eftir b-lið 3. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: áfengi sem er borið ólöglega inn á smásölustað.

27. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 11. gr. er sveitarfélögum heimilt til 1. september 2017 að veita smásöluleyfi þeim verslunum sem hýsa áfengisútsölur ÁTVR 31. desember 2015.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.
28. gr.

    Í stað orðanna „skal 1%“ í 7. gr. laganna kemur: skulu 5%.

29. gr.

    Í stað orðanna „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins“ í 1. og 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: Tóbaksverslun ríkisins.

30. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2016.

31. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     a.      Lög nr. 25/1962, um aðstoð til fatlaðra: Í stað orðanna „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins“ í 5. gr. laganna kemur: Tóbaksverslun ríkisins.
     b.      Lög nr. 6/2002, um tóbaksvarnir: Í stað orðanna „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins“ í 4. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: Tóbaksverslun ríkisins.
     c.      Lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Lýðheilsusjóður skal leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir gildistöku laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Ákvæði til bráðabirgða.

    Lög þessi skulu endurskoðuð innan árs frá gildistöku þeirra.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (17. mál) og er nú endurflutt að teknu tilliti til breytingartillagna frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem fram komu þá.
    Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala verði að ákveðnu marki frjáls. Í frumvarpinu eru lagðar til eins litlar breytingar á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu og mögulegt er miðað við það markmið að smásala áfengis verði frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frumvarpið felur í sér aukið frelsi til smásölu á Íslandi en það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu heldur að setja reglur um hana og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þykir. Hlutverk einkaaðila er að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett. Þetta sjónarmið á við um áfengi og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur.
    Þegar frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi (17. mál) hlaut það mikla umræðu og málsmeðferð í allsherjar- og menntamálanefnd og frá henni komu breytingartillögur og þrjú nefndarálit. Helstu álitaefnin sem upp komu sneru að því að frumvarpið fæli í sér aukið aðgengi að áfengi, sér í lagi hjá ungu fólki, og að hið opinbera hagnaðist mikið á rekstri ÁTVR. Hins vegar kom fram m.a. við athugun rannsókna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur birt um skaðaminnkun áfengisneyslu, að verð hefur helmingi meiri áhrif á neyslu áfengis en aðgengi. Einnig var bent á að einkaaðilar væru líklegri til að virða strangt söluferli áfengis til að verja rekstur sinn og að helstu áherslur í lýðheilsumálum ættu að snúast um að hjálpa þeim sem eru hvað lengst leiddir. Það frumvarp sem lagt var fram á 144. löggjafarþingi gerði að mestu ráð fyrir þessum þáttum en með þeim breytingum sem 1. minni hluti nefndarinnar lagði til þá og felldar hafa verið inn í frumvarpið. Nú er gert ráð fyrir því að sveitarfélög hafi heimild til 1. september 2017 til að veita smásöluleyfi þeim verslunum sem hýsa áfengisútsölur ÁTVR 31. desember 2015. Með þessu er leitast eftir að fyrirkomulaginu verði ekki umbylt og einnig lagt til að lög þessi verði tekin til endurskoðunar að reynslutíma loknum. Þá er nú lagt til að allir þurfi að sýna skilríki þegar þeir kaupa áfengi og sanna þar með aldur sinn. Einnig er áréttað að markmið frumvarpsins er að auka verslunarfrelsi í flestum tegundum verslunar en ekki einvörðungu í matvöruverslunum. Nái frumvarpið fram að ganga verður heimild til netverslunar skýrari en áður en áhöld eru um það nú hvort hún er lögleg þar sem stjórnvöld reka tvær slíkar og erlendir aðilar geta selt áfengi í smásölu í gegnum netið og það er keyrt heim að dyrum.

ÁTVR.
    Almennt er óhætt að segja að ekki fari mikið fyrir þeirri skoðun í stjórnmálaumræðu að hið opinbera eigi að standa fyrir verslunarrekstri á Íslandi. Jafnvel má segja að það sé meginregla að hið opinbera eftirláti einkaaðilum að halda uppi slíkri starfsemi. Helstu undantekningar frá þeirri reglu eiga sér stað á sviðum þar sem einkaaðilar sjá sér ekki hag í því að ástunda verslunarstarfsemi sem þó er neytendum nauðsynleg. Þá finnur hið opinbera sig stundum knúið til aðkomu. Þegar að smásölu á áfengi kemur virðist meginreglan af einhverjum orsökum ekki eiga við.
    En hverjar eru ástæður þess að sérregla gildir um smásölu áfengis? Sögulega samhengið er þannig að fyrirrennari ÁTVR, Áfengisverzlun ríkisins, var sett á laggirnar árið 1922 á sama tíma og svokölluðu áfengisbanni var aflétt í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Reyndar fól áfengisbannið einnig í sér ákveðna einokun á áfengissölu því að læknum var heimilað að vísa á áfengi og apótekarar máttu afhenda áfengi gegn lyfseðli. Sé sagan skoðuð virðast ýmsir læknar og apótekarar hafa verið stórtækari en aðrir í þessu samhengi. Við upphaf fjórða áratugar síðustu aldar var Tóbakseinkasalan síðan stofnuð en á þessum tíma gætti tilhneigingar meðal stjórnmálamanna til að setja lög sem á einn eða annan hátt fólu í sér verslunareinokun, annaðhvort beint með veitingu einkaleyfa eða óbeint með verslunarhöftum. Þannig var t.d. veitt einkaleyfi á síldarsölu og til sölu á viðtækjum og einkaréttur til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og fyrir einungis rúmum 20 árum hafði hið opinbera einkaleyfi á því að flytja inn eldspýtur. Sem betur fer hefur þessum höftum verið aflétt.
    Starfsemi ÁTVR sækir stoð í lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011. Markmið þeirra laga eru að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Fjallað er um hlutverk ÁTVR í almennum athugasemdum frumvarps sem síðar varð að framangreindum lögum (þskj. 1222 í 703. máli á 139. löggjafarþingi). Í kafla sem fjallar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins segir m.a.:
    „ÁTVR hefur á undanförnum árum skilgreint samfélagslega ábyrgð sína með nokkuð ítarlegum hætti, en hún kemur meðal annars fram í eftirfarandi þáttum:
       –          ÁTVR sinnir hlutverki sínu af ábyrgð, t.d. eru engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar.
       –          Strangt eftirlit er með aldri viðskiptavina.
       –          ÁTVR fer í ýmsar herferðir þar sem samfélagsleg ábyrgð er í fyrirrúmi […].
       –          ÁTVR tekur þátt í að byggja upp vínmenningu, t.d. með fræðslu til viðskiptavina um vín og tengingu matar og vína.
       –          Samstarf við lögreglu og aðila sem vinna að forvörnum. Sérstök áhersla er á að torvelda aðgengi unglinga að áfengi.“
    ÁTVR er sérstök ríkisstofnun en rekstur hennar er í höndum forstjóra. Engin stjórn er yfir stofnuninni en forstjórinn er skipaður af fjármála- og efnahagsráðherra og heyrir þannig beint undir hann. Gert er ráð fyrir að starfsemi ÁTVR sé sem hagkvæmust og afli tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnað en skili einnig hæfilegum arði til ríkissjóðs. Sérstaklega er kveðið á um það í lögum nr. 86/2011 að arðgreiðslur taki tillit til þeirra eigna sem eru bundnar í rekstri stofnunarinnar.

Einkaleyfi ÁTVR til smásölu á áfengi.
    Í umræðu um kosti og galla þess að afnema einkaleyfi hins opinbera á smásölu áfengis hafa nokkur rök komið ítrekað fram. Þannig hefur verið vísað til þess að einkaleyfið stuðli að því að lýðheilsumarkmiðum verði náð og vernd ungmenna verði virkari, betri stýring fáist á aðgengi að áfengi og áfengisneyslu og hún tryggi ríkissjóði umtalsverðar tekjur. Einnig hefur verið bent á að hið opinbera eigi ekki að standa í verslunarrekstri sem einkaaðilar geta sinnt með hagkvæmari hætti og hægt sé að ná markmiðum um lágmörkun á skaðlegum áhrifum áfengisneyslu með öðrum leiðum en ríkiseinokun á smásölu áfengra drykkja.

Eftirfylgni reglna um áfengiskaupaaldur.
    Margir telja að það muni reynast einkaaðilum erfitt að varna því að fólk undir 20 ára aldri fái afhent áfengi.
    Í þessu samhengi er rétt að benda á að einkaaðilum virðist almennt treyst til að framfylgja reglum um lágmarksaldur til að kaupa tóbak. Þá er einkaaðilum treyst til að framfylgja reglum um afhendingu eiturefna, skotvopna og skotfæra. Þó svo að hægt sé að misnota áfengi virðast eiginleikar þess nokkuð léttvægir í samanburði við eiginleika tóbaks og hvað þá eiturefna, skotvopna og skotfæra. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fara með eftirlit með því að tóbakskaupaaldur sé virtur. Þá fer lögreglan með eftirlit með því að aldurstakmörk við veitingu áfengis á veitingahúsum séu virt. Það eftirlit hefur ekki sætt mikilli gagnrýni enn sem komið er. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því að hið sama geti ekki gilt um sölu og afhendingu áfengis og annars þess söluvarnings sem hér hefur verið nefndur.
    Í 24. gr. áfengislaga. nr. 75/1998, er sérstaklega kveðið á um að leyfisveitandi skuli afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögunum ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum þeirra til að fá útgefið slíkt leyfi. Í 25. gr. er svo fjallað um hvernig bregðast skuli við vanrækslu við meðferð leyfis. Í þessu samhengi nægir að minna á að handhafar tóbakssöluleyfa hafa verið sviptir leyfum vegna þess að þeir hafa afgreitt tóbak til einhverra sem ekki hafa aldur til.

Bætt vínmenning.
    Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að ÁTVR beiti sér fyrir bættri vínmenningu, t.d. með fræðslu til viðskiptavina um vín og tengingu matar og vína. Óhætt er að segja að stofnunin hefur sinnt þessu hlutverki, ýmsa upplýsingabæklinga er að finna í áfengisútsölum, á heimasíðu hennar má finna mataruppskriftir og sérstakar merkingar gefa til kynna með hvaða mat hitt og þetta vínið hentar. Þessu til viðbótar geta vínkaupendur alltaf sótt ráðgjöf hjá starfsmönnum ÁTVR sem hafa margir hverjir sótt vínskóla stofnunarinnar.
    ÁTVR hefur samkvæmt framansögðu unnið að því að tengja áfengisneyslu við matarmenningu. Á sama tíma og tengingin við mat hefur orðið sterkari og matar- og vínmenning hefur eflst á Íslandi benda sölutölur ÁTVR til þess að neysla á áfengi sem hentar vel með mat hafi stóraukist. Þó svo að íslensk vínmenning hafi breyst umtalsvert, a.m.k. frá árinu 1989 þegar heimilað var að selja bjór á Íslandi, eigum við nokkuð í land. Áfengisneysla er enn fremur tarnakennd þó að úr því hafi dregið.
    Lögskýringargögn, upplýsingar af heimasíðu ÁTVR og ársskýrslur stofnunarinnar gefa til kynna að hlutverk ÁTVR við að bæta vínmenninguna sé í raun forvarnahlutverk. Eðlilegt er spyrja hvort eðlilegt sé að það sé eitt meginhlutverka ríkisstofnunar sem fer með einkaleyfi til smásölu áfengis að hlúa að tiltekinni neyslumenningu með ærnum tilkostnaði. Væri ekki eðlilegra að slíkt starf væri í annarra höndum?
    Viðskiptavinir smásöluverslana hljóta að vera jafn meðvitaðir og viðskiptavinir ÁTVR um siðferðisleg álitamál sem tengjast áfengi. Þá má ætla að verslunarmenn á matvörumarkaði sjái sér hag í því að fræða kaupendur áfengis um það með hvaða mat vínið hentar og áherslan verði því að minnsta kosti ekki minni á matar- og vínmenningu en nú er.

Tekjur ríkissjóðs.
    Sumir virðast telja að með því að gefa smásölu á áfengi frjálsa muni hið opinbera selja frá sér mjólkurkú. Gefið er í skyn að slík ákvörðun hljóti að vera grundvölluð á skammtímahagsmunum og nær væri að ÁTVR aflaði ríkissjóði stöðugra tekna til langrar framtíðar. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2015 er áætlað að rekstrarrekjur ÁTVR á árinu 2015 verði 29.718 millj. kr. en það eru rúmlega 6% hærri tekjur en gert er ráð fyrir í fjárlögum 2014. Áætlað er að hagnaður á árinu 2015 verði um 1.085 millj. kr, handbært fé í árslok verði 2.225,6 millj. kr. og gert er ráð fyrir 1.500 millj. kr arðgreiðslu í ríkissjóð.
    Samkvæmt efnahagsreikningi ÁTVR frá 31. desember 2014 námu eignir stofnunarinnar 152 millj. kr. á þeim tíma. Þá nam óráðstafað eigið fé um 483 millj. kr. en skammtímaskuldir námu um 1.669 millj. kr. Ljóst má telja að umtalsvert fé er bundið í rekstri stofnunarinnar.
    Meginhluti tekna ríkisins af sölu áfengis er skatttekjur. Þannig er gert ráð fyrir því að 12.500 millj. kr. renni í ríkissjóð vegna áfengisgjalds á árinu 2015. ÁTVR innheimtir gjaldið við sölu áfengis og skilar því í ríkissjóð og er þannig í hlutverki vörsluaðila.
    Einkaaðilar í smásölu innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Þá halda þeir tekjuskatti og lífeyrisiðgjöldum eftir af launum starfsmanna og skila þeim í ríkissjóð og til lífeyrissjóða. Ekkert bendir til þess að þeim verði ekki treystandi til að innheimta og standa ríkissjóði skil á áfengisgjaldi. Því er ekki eðlilegt að ætla að frumvarpið leiði til þess að ríkissjóður verði af tekjum af áfengisgjaldi, skatttekjur ættu áfram að rata í ríkiskassann.
    Sá hluti tekna ríkissjóðs af sölu áfengis sem ekki er innheimtur í formi skatta er arðurinn sem ÁTVR greiðir og er hann um 1,5 milljarður kr. árið 2015. Það er því fjárhæðin sem spurning er hvort ríkissjóður verði af ef frumvarpið verður að lögum. Þá ber að líta til þess að einhver hluti kemur til baka þar sem minni fjármunir verða bundnir í opinberum rekstri auk þess sem töluverðir fjármunir munu skila sér til baka vegna sölu eigna ÁTVR. Þá mun einhver hluti koma til baka í gegnum auknar tekjuskattsgreiðslur smásölufyrirtækja. Leiða má að því líkur að sala áfengis muni aukast í tengslum við ferðaþjónustu sem hefur í för með sér aukin áfengisgjöld og auknar skatttekjur af erlendum ferðamönnum. Þá má benda á að verulegur hluti tekna ÁTVR verður til vegna tóbakssölu. Heildsöluálagning ÁTVR á tóbaki er 18%. Sú álagning er á vöru sem er afhent við dyr vöruhúss ÁTVR en ekki í gegnum rekstur smásöluverslana. Gera má ráð fyrir að sala á tóbaki standi undir um þriðjungi af rekstrartekjum ÁTVR og að stór hluti 1,5 milljarða kr. arðgreiðslu ÁTVR í ríkissjóð komi til vegna tóbakssölu. Einnig má spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort eðlilegra sé að ríkið hirði þessar tekjur af kaupendum áfengis, sem eru skattgreiðendur, en einkaaðilar. Sú spurning verður sérstaklega áleitin í ljósi þess að einkarekstur er jafnan hagkvæmari en opinber rekstur. Í því sambandi má benda á að engin stjórn er yfir ÁTVR heldur heyrir stofnunin beint undir ráðherra og því má ætla að umboðsvandi (e. principal-agent problem) sé að einhverju leyti til staðar.

Kostir þess að selja áfengi með annarri neysluvöru.
    Eðli máls samkvæmt þurfa landsmenn að sækja matvöruverslanir reglulega, flestir a.m.k. einu sinni í viku. Slíkum heimsóknum fylgir fyrirhöfn og kostnaður, svo sem bensín- og olíukostnaður. Þrátt fyrir að áfengisútsölur ÁTVR sé víða að finna eru þær ekki alltaf í næsta nágrenni við matvöruverslanir. Á höfuðborgarsvæðinu er staðsetning þeirra reyndar mjög oft í nánum tengslum við aðra verslun en því er ekki að heilsa á landsbyggðinni. Þá eru ekki áfengisútsölur við allar matvöruverslanir. Flest bendir til þess að neytendur geti sparað einhverjar fjárhæðir á því að sækja áfengi á sama stað og matvöru.
    Óhætt er að gera ráð fyrir því að því fylgi þónokkur kostnaður að reka sérstakt dreifikerfi fyrir áfengi um landið allt. Flestar matvörukeðjur reka eigin dreifikerfi nú þegar og ekki verður séð að áfengi sé þess eðlis að það passi illa inn í þau kerfi. Þá eru aðrar matvöruverslanir nú þegar í viðskiptasambandi við fyrirtæki sem annast sölu og dreifingu matvara og áfengis á heildsölustigi. Því má ætla að umtalsverð samlegðaráhrif og sparnaður fylgi því að smásöluverslanir selji áfengi.
    Í skýrslu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company um Ísland og vaxtarmöguleika í framtíðinni er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að mikil sóun felist í stærð verslunarhúsnæðis miðað við höfðatölu á Íslandi samanborið við helstu samanburðarlönd. Í þessu felst tækifæri til hagræðingar. Ætla má að margir þeirra kaupmanna sem selja matvöru nú hafi áhuga á að selja áfengi. Því má ætla að afnám einkaleyfis ríkisins til smásölu á áfengi gefi færi á óbeinum sparnaði vegna betri nýtingar verslunarhúsnæðis.

Fyrirkomulag smásölu áfengis líkist fyrirkomulagi smásölu neysluvöru.
    Áfengi er almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri. Því er rétt að spyrja hvort eitthvað sérstakt réttlæti það að stunda áfengispólitík í gegnum verslunarrekstur. Spurningin verður sérstaklega áleitin þegar litið er til þess að hér er starfrækt ríkisstofnun, landlæknisembættið, sbr. lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem forvarnastarf er markvisst mótað og unnið.
    Hlutverk ÁTVR við að takmarka aðgang fólks að áfengi virðist hafa rýrnað síðustu ár og áratugi. Áfengisútsölum hefur fjölgað umtalsvert, þær eru nú haustið 2015 49 talsins en voru 39 við lok árs 2001. Vöruúrvalið hefur verið að aukast og opnunartíminn hefur verið lengdur til að koma til móts við þarfir viðskiptavina. Þá er óhætt að segja að uppbygging vínbúða ÁTVR sé orðin líkari uppbyggingu stórmarkaða en áður var. Áður hefur verið fjallað um breytt hlutverk vínbúðanna, þar er nú stunduð meiri fræðsla og sölumennska en áður.
    Ekki verður betur séð en fyrirkomulag smásölu á áfengi eigi um þessar mundir ýmislegt sameiginlegt með fyrirkomulagi á sölu matvöru. Viðbrögð við breytingum hafa ekki látið á sér standa, mikill meiri hluti viðskiptavina er ánægður með þær.

Áhrif á samkeppnisstöðu – kaupmaðurinn á horninu.
    Þó svo að vínbúðum ÁTVR hafi fjölgað eru þær ekki jafn margar og matvöruverslanir. Svo eitthvað sé talið má benda á að Hagar hf. reka 29 Bónusverslanir og 11 Hagkaupsverslanir, Kaupás rekur 24 verslanir og Samkaup reka 50 verslanir. Þá eru ótaldar verslanir sem aðrir reka.
    Óhætt er að fullyrða að talsverð ívilnun felst í því að verslun sé nálægt vínbúð ÁTVR. Gera má því skóna að verslanir sem njóta slíkrar nálægðar njóti meiri viðskipta. Óhætt er að fullyrða að þetta ástand skekki samkeppnisstöðu verslana sem ekki búa við slíka nálægð, þær njóti ekki þess forskots sem nálægðin gefur. Á svæðum þar sem vínbúðir eru fáar, t.d. víða úti á landi, eru áhrifin væntanlega veruleg og geta jafnvel skipt sköpum.
    Í ljósi framangreinds má halda því fram að aukið frelsi í smásölu áfengis muni jafna stöðu verslana um landið allt og veita kaupmanninum á horninu betri tök á að taka þátt í samkeppni um viðskipti. Þótt honum kunni að reynast erfitt að keppa beinlínis í verðlagningu á áfengi, þá getur hann boðið upp á minni fyrirhöfn og sparnað þar sem viðskiptavinirnir þurfa ekki lengur að leggja í ferðalag til þess að nálgast neysluvörur. Bætt staða hans kann jafnvel að hafa áhrif á hverfamyndun þar sem þeir sem aðhyllast bíllausan lífstíl geta nálgast fleiri neysluvörur án þess að þurfa að eltast við smásölustaði um langan veg.

Sérstök áhrif á landsbyggðinni.
    Samþykkt frumvarpsins mun hafa góð áhrif á verslun á landsbyggðinni. Á sumum stöðum stendur verslun höllum fæti og rekstur hennar ber sig jafnvel ekki. Með því að gera slíkum verslunum fært að stunda smásölu með áfengi mun velta þeirra aukast og rekstur eflast. Á þeim stöðum þar sem vínbúð er þegar til staðar mun samkeppnisstaðan jafnast. Þá skapast tækifæri til betri nýtingar á verslunarhúsnæði og birgðageymslum en vænta má þess að ákvörðun um staðsetningu áfengisverslana muni byggjast á markaðslegum og samkeppnislegum forsendum. Hvað íbúana varðar munu byggðarlög án vínbúðar njóta aukins aðgengis og það mun kosta minna umstang og fé að nálgast áfengi. Aðgangur að takmörkuðu úrvali er betri en enginn aðgangur eða aðgangur sem er erfiðleikum eða kostnaði háður.
    Óhætt er að benda á að það hallar á landsbyggðina þegar dreifing vínbúða ÁTVR er skoðuð. Þannig eru 12 búðir á höfuðborgarsvæðinu en 37 á landsbyggðinni. Það virkar svo sem ekki ósanngjörn skipting þegar litið er til höfðatölu og búsetu en þegar fjarlægðir á milli búða og vöruúrval er tekið inn í myndina sést að töluverður aðgengismunur er á milli íbúða höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Meint neikvæð áhrif á neytendur ef smásala á áfengi er gefin frjáls.
Áhrif á verðlagningu.
    Ýmsir hafa haldið því fram að frjáls smásala á áfengi sé ávísun á hærra verð. Virðist gagnrýnin byggð á því að einkaaðilar muni ekki sætta sig við álagningu ÁTVR, þ.e. 18% á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli og 12% á áfengi með meira en 22% hlutfall.
    Það er ekki almennt lögmál að vörur hækki í verði þegar einkaleyfi til sölu þeirra er aflétt. ÁTVR hefur hagað vöruvals- og innkaupamálum sínum þannig að birgjar stofnunarinnar njóti jafnræðis. Einkaaðilar á smásölumarkaði þurfa ekki að haga sér á sama hátt heldur ráðast verðákvarðanir þeirra að mestu leyti af framboði, eftirspurn og samkeppnisstigi. Þessi staða gerir þeim kleift að gera samninga, t.d. um stöðug kaup á varningi eða magnkaup. Með því móti tryggja þeir lægra innkaupsverð. Þá má benda á að engin verðsamkeppni er nú við smásölu áfengis.
    E.t.v. má gera ráð fyrir að vinsæl vara verði ódýrari en vara sem lítil eftirspurn er eftir. En þá má spyrja hvort það sé á einhvern hátt óeðlilegt. Þegar vöruval og birgðastaða ÁTVR er skoðuð má sjá að í mörgum tilvikum hefur stofnunin tekið til sölu vín- eða bjórtegundir sem lítil hreyfing virðist vera á. Er ekki eðlilegt að meira sé lagt á vörur sem eru dýrari í innkaupum og birgðahaldi? Er eðlilegt að hagnaður af sölu á vinsælli vöru sé nýttur til að greiða niður vöru sem selst verr?
    Áhrif frelsis í smásölu á áfengi á verð annarrar smásöluvöru verða eflaust til lækkunar vegna samlegðaráhrifa og tækifæra til hagræðingar. Þar mun e.t.v. muna hvað mestu á landsbyggðinni. Einnig má vísa til þess að heildsalar geta þá selt vöru beint á netinu eða í sérvöruverslanir og þar með minnkar álagningin.

Mun vöruúrval minnka?
    Því hefur verið haldið fram að ef smásala á áfengi verður gefin frjáls muni það leiða til þess að vöruúrval dragist saman. Rökin fyrir þessu eru helst að söluaðilar muni verja mestu verslunarplássi í vöru sem mikil eftirspurn er eftir en ekki taka í sölu vöru sem minni eftirspurn er eftir.
    Þar sem gera má ráð fyrir að það verði helst aðilar sem nú reka matvöruverslanir sem munu sækjast eftir leyfi til smásölu áfengis ef frumvarpið verður samþykkt er skynsamlegt að rifja upp áhrif tilkomu lágvöruverðsverslana á vöruúrval matvöru. Þegar Bónusverslanirnar voru opnaðar á sínum tíma buðu þær tiltölulega fáar vörur til sölu. Verslanirnar urðu fljótlega vinsælar og náðu sæmilegri markaðshlutdeild. Þrátt fyrir að þær verslanir sem fyrir voru á markaðinum hafi brugðist við tilkomu Bónuss fór fljótlega að bera á því að verslanir tækju að marka sér sérstöðu. Innan fárra ára hafði markaður með smásölu á matvöru skipst í þrennt. Í fyrsta lagi lágvöruverðsverslanir sem buðu upp á færri vörur, höfðu styttri opnunartíma en aðrar matvöruverslanir og kepptu í verði. Í öðru lagi svokallaðar klukkubúðir sem voru minni vörumarkaðir með mun lengri opnunartíma en aðrar verslanir en vöruverð í þeim var í hærri kantinum. Í þriðja lagi matvöruverslanir sem státuðu sig af miklu vöruúrvali og góðu aðgengi að vörum, vöruverð í þeim var lægra en í klukkubúðunum en hærra en í lágvöruverðsverslunum. Þessi þróun sést hvað best í því að árið 2011 bauð Bónus að jafnaði upp á 3.000–4.000 vörur í sínum verslunum en Hagkaup bauð á sama tíma 8.000– 10.000 vörur og 30.000 vörur í sérvöru þegar árstíðarvörur voru taldar með. Stærri hverfismarkaðir virðast hafa boðið mest upp á um 6.000 vörur.
    Þó svo að fjöldi vara í matvöruverslunum sveiflist hefur hann verið vaxandi um langa hríð. Slíkt má t.d. sjá á verslunum sem við upphaf starfstíma síns voru rúmgóðar en eru nú jafnan stakkfullar af matvælum. Sala matvöru hefur aukist jafnt og þétt og er nú orðin meiri en hún var á árunum fyrir fjármálahrunið haustið 2008.
    Pawel Bartoszek birti grein í Fréttablaðinu 17. maí 2013 sem ber heitið „Selfoss og Maribo“. Í henni ber hann saman vöruúrval í verslunum ÁTVR á Selfossi og Akranesi og í verslunum með leyfi til að selja áfengi í smásölu í smábænum Maribo á Lálandi. Íbúafjöldi Selfoss og Akraness er nokkuð svipaður og í Maribo. Þá er Maribo í svipaðri fjarlægð frá Kaupmannahöfn og Selfoss og Akranes frá Reykjavík. Niðurstaða Pawels var að íbúar Maribo gætu valið úr að lágmarki 300 fleiri áfengistegundum en íbúar Selfoss en að úrvalið á Akranesi væri fjórfalt lakara en í Maribo.
    Miðað við þá breytingu sem hefur orðið og er að verða á vínmenningu Íslendinga má ætla að eftirspurn verði áfram eftir mörgum tegundum áfengis. Á meðan slík eftirspurn er til staðar eða er jafnvel að aukast er líklegt að kaupmenn muni leitast við að hafa framboðið í takt við hana. Þó svo að líklegt megi telja að vöruúrval verði mismikið eftir því hvort áfengi er selt í lágvöruverðsverslun, klukkubúð eða stórmarkaði virðist ekkert annað en getgátur byggðar á einföldunum gefa til kynna að vöruúrval áfengis minnki ef smásala þess verður gefin frjáls.

Áhrif á neyslu.
    Því hefur verið haldið fram að sú fjölgun útsölustaða sem samþykkt frumvarpsins er líkleg til að hafa í för með sér muni leiða til stóraukins aðgengis að áfengi sem aftur leiði til aukinnar áfengisneyslu. Ekki er ólíklegt að slíkt muni eiga sér stað með breyttri menningu, a.m.k. til að byrja með. Líklegt verður þó að telja að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju. Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.
    Álögur hins opinbera á áfengi eru miklar. Ljóst er að of hátt áfengisverð leiðir til þess að ákveðinn hópur fólks leitar annarra úrræða. Heimabruggun og smygl á áfengi hefur verið vandamál og ljóst er að ákveðin fylgni er milli áfengisverðs og heimabruggunar og smyglaðs áfengis. Samkvæmt könnun sem MMR gerði fyrir Félag atvinnurekenda í nóvember 2012 hafði rúmlega 31% landsmanna orðið vart við nokkra eða mikla aukningu á heimabruggi eða smygli í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og um 48% fólks á aldrinum 18–29 ára. Ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem getur stafað af heimabruggi og fjölmörg dæmi eru um að fólk hafi veikst alvarlega eftir að hafa drukkið það. Aukið aðgengi að löglegu áfengi ætti að minnka ásókn í ólöglegt áfengi. Því er líklegt að samþykkt frumvarpsins muni leiða til minni neyslu þess. Slíkt mun aftur draga úr krafti ólöglegrar áfengissölu sem aftur léttir kaupþrýstingi af þeim sem ekki hafa aldur til að kaupa áfengi löglega.

Tækifæri.
    Líklegt er að ýmiss konar tækifæri skapist verði frumvarpið samþykkt. Hér verða þau tækifæri sem helst koma til greina nefnd.

Tækifæri litlu brugghúsanna.
    Verði frumvarpið samþykkt er líklegt að það skapi aukin tækifæri fyrir minni brugghús. Reyndar hafa einhver minni brugghús nú þegar náð að fóta sig í sölu á áfengi í gegnum vöruvals- og smásölukerfi ÁTVR og eru sátt við núverandi fyrirkomulag. Það er hins vegar vegna þess að þau hafa náð að koma sinni vöru í gegnum þungt og kostnaðarsamt ferli og eru hrædd um að tapa þeirri stöðu sem þau hafa náð ef ástandið breytist. En ný brugghús eða aðilar sem hyggjast reyna að koma nýrri vöru á framfæri munu eygja tækifæri með samþykkt frumvarpsins, t.d. að semja við tiltekinn kaupmann eða tiltekna verslunarkeðju um að taka vöruna til sölu gegn hagstæðu verði til kynningar. Þá væri hægt að gera fasta samninga um sölu áfengis sem hefur náð fótfestu á markaði og skapa ákveðinn stöðugleika í framleiðslunni. Samþykkt frumvarpsins mun því gefa minni aðilum tækifæri til að brjóta sér leið inn á smásölumarkað á heilbrigðum viðskiptaforsendum auk þess sem smásalar geta markað sér sérstöðu.
    Hugsanlegt er að brugghús fái við samþykkt frumvarpsins tækifæri til að skapa sér staðbundna sérstöðu með því að selja vöru sem framleidd er í nágrenni verslunarinnar þannig að flutningskostnaður minnki. Þannig ættu framleiðendur og smásalar að geta myndað öflugt staðbundið samstarf sem veiti tækifæri til hagræðingar, sér í lagi ef litið er til þeirrar aukningar sem á sér stað í ferðamannaþjónustu.

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuna.
    Ferðamenn sem hingað koma hafa kvartað yfir slæmu aðgengi að áfengi hér á landi. Heimsóknir ferðamanna aukast og ferðaþjónustan er orðin einn mikilvægasti tekjuöflunarpóstur þjóðarinnar. Skatttekjur ríkissjóðs af sölu áfengis til ferðamanna ættu að aukast samhliða fjölgun ferðamanna.
    Vöruvalsreglur ÁTVR byggjast á grundvallarsjónarmiði um jafnræði birgja. Það er svo vegna þess að smásala áfengis er í höndum ríkisstofnunar. Verði smásala áfengis gefin frjáls mun vöruval smásöluaðila ráðast af viðskiptasjónarmiðum. Þá munu skapast tækifæri til að haga smásölu á áfengi í takt við þarfir ferðamanna. Afnám einokunar á áfengissölu getur haft í för með sér að tækifæri skapist á sviði ferðaþjónustunnar. T.d. er hugsanlegt að smásala á matvörum sem eru framleiddar og unnar í heimabyggð (beint frá býli) fari saman við sölu á áfengi sem er framleitt innan sama héraðs.

Takmarkanir á frelsi til smásölu á áfengi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir geti veitt einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásöluverslunar með áfengi. Samkvæmt gildandi lögum veita sveitarstjórnir á hverjum stað smásöluleyfi fyrir áfengi og verður það fyrirkomulag í sjálfu sér óbreytt þrátt fyrir að fleiri smásalar komi til greina. Þá er gert ráð fyrir að óheimilt verði að selja áfengi undir kostnaðarverði en með því er átt við endanlegt kaupverð dreifingaraðila að viðbættum opinberum gjöldum, svo sem áfengisgjaldi og virðisaukaskatti. Er þetta gert til að tryggja hagsmuni ríkissjóðs af innheimtu opinberra gjalda af þessari vöru og koma í veg fyrir óeðlileg undirboð. Hins vegar ætti þetta fyrirkomulag ekki að raska eðlilegri samkeppni á markaðnum fyrir einstakar vörutegundir.
    Rétt er að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum takmörkunum á veitingu smásöluleyfis. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir ákveði afgreiðslutíma, svo sem verið hefur, þó þannig að verslanir með áfengi megi ekki vera opnar lengur en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 20.00 að kvöldi. Þá er það gert að skilyrði að starfsmenn sem afgreiða áfengi skuli vera a.m.k. 18 ára. Sveitarstjórnum verður eftir sem áður heimilt að binda smásöluleyfi frekari skilyrðum, svo sem um staðsetningu verslana (skipulagsmál), aðgengi, merkingar o.fl. Þá er gert ráð fyrir að ekki verði leyft að selja áfengi í tilteknum tegundum verslana. Eru hér einkum hafðir í huga söluturnar, myndbanda- og mynddiskaleigur og söluvagnar, þ.e. staðir þar sem ungt fólk safnast oft saman. Leitast er við að skilgreina þessa starfsemi nánar með vísan til ÍSAT-flokkunarkerfisins. Gert er ráð fyrir að áfengissmásalar greiði gjald til ríkissjóðs fyrir leyfi til að selja áfengi í smásölu, líkt og gildir um innflutnings- og heildsöluleyfi fyrir áfengi.
    Lagt er til að 12. gr. áfengislaga verði breytt þannig að skýrt verði kveðið á um skyldu smásala til að geyma áfengi sem er að rúmmáli meira en 22% af hreinum vínanda á stað sem er afmarkaður frá öðru verslunarrými, t.d. á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunarinnar en sérverslanir sem selja eingöngu áfengi verði undanþegnar þessari afmörkun. Að auki verði ráðherra gert að kveða í reglugerð á um afgreiðslutíma, önnur skilyrði smásöluleyfis og kröfur til eftirlits- og öryggiskerfa. M.a. er gert ráð fyrir kröfum til myndupptökukerfa, geymslu brennds áfengis o.fl.

Aukið fjármagn í forvarnir og fræðslu.
    Nú rennur 1% innheimtra áfengisgjalda í lýðheilsusjóð. Í frumvarpi meiri hluta fjárlaganefndar til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur ríkissjóðs sem flutt var á 143. löggjafarþingi (306. mál) fólst sú hugmynd að tekjur lýðheilsusjóðs skv. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, yrðu ákvarðaðar í fjárlögum. Þannig yrðu tekjur sjóðsins ekki lengur markaðar heldur ákveðnar við gerð fjárlagafrumvarps hverju sinni. Málið náði ekki fram að ganga.
    Ef frumvarpið verður endurflutt og samþykkt verður umtalsverð breyting á umhverfi áfengisforvarna, enda er ekki gert ráð fyrir að smásöluaðilum beri að stunda forvarnastarf. Eðlilegt og nauðsynlegt er að forvarnastarf verði markvisst eflt bæði faglega og fjárhagslega. Áfengissala er að aukast og ekkert bendir til þess að hún muni minnka til framtíðar litið, hvort sem tekið er mið af fjölgun ferðamanna eða nýrri áfengismenningu. Stefnumörkun stjórnvalda verður að taka mið af þessu. Eins og hér hefur verið rakið leggur rekstur ríkisins á vínbúðum ÁTVR kostnað á þjóðina. Ætla má að sú hagræðing sem flutningur smásölu áfengis frá hinu opinbera til einkaaðila er tryggi aukið fjármagn til lýðheilsusjóðs. Eðlilegt er að áfengisforvarnir verði fyrstar til að njóta þess þjóðhagslega sparnaðar sem tillögur frumvarpsins hefðu í för með sér. Því er sú breyting lögð til í 28. gr. frumvarpsins að 5% áfengisgjalds renni í lýðheilsusjóð í stað 1%. Þá er einnig lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, þar sem lýðheilsusjóði verði gert að leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir samþykkt frumvarpsins. Mikilvægt er að áfengisgjaldið verði einnig nýtt til meðferðarúrræða fyrir þá sem mest þurfa á því að halda, þannig að forgang hafi forvarnir, meðferðarúrræði og félagslegur stuðningur til barna og unglinga sem og einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem eru í óhóflegri neyslu. Í þessu sambandi er brýnt að litið sé til þeirra forvarnaaðgerða sem sannað hafa gildi sitt.
    Breytingin á verslun með áfengi og tóbak sem hér er lögð til felur aðeins í sér að aðrir en hið opinbera annist smásölu áfengis. Þannig felur frumvarpið ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í tóbaksvörnum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.

Greinar frumvarpsins.
    Í meginatriðum felur frumvarpið í sér eins litla breytingu á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu og mögulegt er miðað við það markmið að gera smásölu með áfengi frjálsa. Hér er ekki lagt til að ráðist verði í heildarendurskoðun á lagaumhverfi áfengis- og tóbaksmála. Af þeim sökum felur I. kafli frumvarpsins aðeins í sér þá breytingu að ekki verður lengur kveðið á um einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis. 18., 20. og 29. gr. og a- og b-liðir 31. gr. eru sama marki brennd.
    Í II. kafla frumvarpsins er lögð til heimild til þess að innheimta 50.000 kr. gjald vegna útgáfu leyfis til smásölu á áfengi.
    Í 21. gr. er lagt til að í stað 1. mgr. 10. gr. áfengislaga, þar sem nú er kveðið beinum orðum á um einkaleyfi ÁTVR til að smásölu áfengis, komi tvær nýjar málsgreinar. Sú fyrri kveði á um að handhafa smásöluleyfis sé heimilt að selja eða afhenda áfengi til neytenda eldri en 20 ára ef kaupandinn sýnir með skilríkjum að hann sé orðinn 20 ára. Með neytendum í þessum skilningi er vísað til þeirra sem hingað til hafa keypt áfengi í vínbúðum ÁTVR en t.d. ekki þeirra sem kaupa áfengi af þeim sem hafa leyfi til heildsölu á áfengi skv. 9. gr. áfengislaga. Einnig er gert ráð fyrir að hnykkt verði á því með jákvæðum hætti að útsöluverð á áfengi, þ.e. smásöluverð, sé frjálst. Einnig verði þar kveðið sérstaklega á um að óheimilt sé að selja áfengi undir kostnaðarverði og að með kostnaðarverði sé átt við endanlegt innkaupsverð að viðbættum opinberum gjöldum auk virðisaukaskatts. Eins og fram hefur komið er tilgangur þessa einkum sá að tryggja tekjuöflun ríkissjóðs með áfengisgjaldi auk þess sem ákvæðið er talið koma í veg fyrir að verslunarmenn sjái sér hag í því að niðurgreiða áfengi til þess að efla aðra þætti verslunar sinnar.
    Í 22. gr. er fjallað um skilyrði smásöluleyfis til sölu áfengis. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að afgreiðslutími skuli ekki vera lengri en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 20.00 að kvöldi. Með því er ekki átt við að versluninni þurfi að loka að öllu leyti kl. 20.00 heldur aðeins að ekki skuli afgreiða áfengi eftir þann tíma. Einnig er lagt til að sveitarstjórnum verði veitt heimild til að kveða á um að hámarksafgreiðslutími verði allt að þremur klukkustundum skemur. Ætlunin er að sveitarstjórn hafi svigrúm til að ákveða hvernig afgreiðslutíminn verður, t.d. að ekki megi afgreiða áfengi fyrir kl. 12.00, hætta beri afgreiðslu kl. 17.00 eða að loka skuli fyrir afgreiðslu t.d. á milli 12.00 og 15.00. Ávallt þurfa þó málefnalegar ástæður að liggja að baki ákvörðun sveitarstjórnar um skemmri afgreiðslutíma en samkvæmt almennu ákvæði.
    Í 3. efnismgr. 22. gr. er tillaga um hvaða tegundir smásöluverslana geti ekki fengið smásöluleyfi til sölu áfengis. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki sem stunda starfsemi sem fellur undir ÍSAT-flokkinn 47.11.2 (söluturnar) geti ekki fengið smásöluleyfi af ástæðum sem áður hafa verið nefndar. Sömu rök liggja að baki því að óheimilt verði að veita smásöluleyfi aðilum sem reka myndbanda- og mynddiskaleigur, færanlega vagna og bása og sjálfsala.
    Í a-lið 23. gr. er þá nýjung að finna að lagt er til að sterkt áfengi, áfengi sem er að rúmmáli meira en 22% af hreinum vínanda, skuli geyma afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að slíkt áfengi megi ekki sjást, eins og á við um tóbak, heldur að það verði aðeins afhent yfir búðarborð eða að viðskiptavinir þurfi að fara inn í afmarkað rými til þess að nálgast það. Þó er kveðið á um að sérverslanir sem selja eingöngu áfengi skuli vera undanþegnar þessari afmörkun. Þá er þar í framhaldinu ákvæði um að ráðherra skuli kveða nánar á um afgreiðslutíma, skilyrði smásöluleyfis og kröfur til eftirlits- og öryggiskerfa í reglugerð, þ.m.t. kröfur til myndupptökukerfa, fyrirkomulag afmörkunar áfengis sem að rúmmáli er meira en 22% af hreinum vínanda frá annarri söluvöru o.fl. Er þannig gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um þessi tilteknu atriði í reglugerð eftir að tekið hefur verið tillit til tæknilegra og framkvæmdalegra þátta.
    Í b-lið 23. gr. er kveðið á um brottfall 2. mgr. 12. gr. áfengislaga þar sem nú er að finna ákvæði um hvenær útsölustaðir ÁTVR skuli vera lokaðir.
    Í 24. gr. eru lagðar til breytingar á 26. gr. áfengislaga. Fram kemur í núgildandi 26. gr. áfengislaga að ef veitingamaður sem leyfi hefur til áfengisveitinga misbeitir leyfi sínu með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum sé heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að neytt sé á staðnum, eða ef hann brýtur á annan hátt fyrirmæli sem um áfengisveitingar gilda, þá varði það refsingu samkvæmt lögunum. Meginregla refsiréttarins er að refsiheimildir eigi að vera skýrar og byggist hún á 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Krafan um skýrleika refsiheimilda felur í sér að refsiákvæði verður að vera nægjanlegt skýrt og fyrirsjáanlegt til að einstaklingur geti gert sér grein fyrir því með lestri ákvæðisins og ef til vill út frá dómaframkvæmd hvaða athafnir og eða athafnaleysi geti leitt til refsiábyrgðar á grundvelli þess. Er því með frumvarpinu lagt til að ákvæði 26. gr. verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.
    Í 26. gr. er lagt til að nýjum staflið verði bætt við 3. mgr. 28. gr. áfengislaga þannig að ljóst verði að gera megi upptækt áfengi sem er borið ólöglega inn á smásölustað, svo sem áfengi sem hefur verið framleitt án framleiðsluleyfis eða flutt inn án innflutningsleyfis.
    Í 27. gr. er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 11. gr. áfengislaga sé sveitarfélögum heimilt til 1. september 2017 að veita smásöluleyfi þeim verslunum sem hýsa áfengisútsölur ÁTVR 31. desember 2015. Með þessu yrði sveitarfélögum veitt svigrúm til að veita þeim aðilum leyfi til smásölu áfengis sem hýsa áfengisútsölur út fyrir gildistöku laganna. Er þess þannig gætt að ekki komi til of mikillar röskunar á hagsmunum.
    Í c-lið 31. gr. er lagt til að lýðheilsusjóði verði gert að leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir samþykkt frumvarpsins. Er það til þess að bregðast við þeim tímabundnu breytingum sem kunna að verða á áfengisneyslu eftir að smásala á áfengi verður gefin frjáls.
    Loks er lagt til að bráðabirgðaákvæði um að lögin skuli endurskoðuð innan árs frá gildistöku þeirra. Sér í lagi þarf á þeim tíma að meta áhrif þeirra á verðmyndun og breytt aðgengi, aldur þeirra starfsmanna sem mega afgreiða áfengi og endurskoða síðan áfengisgjald á grundvelli niðurstaðnanna.