Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 292  —  265. mál.



Frumvarp til laga

um brottfall laga um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Lög um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Tíðniheimildir sem gefnar hafa verið út á grundvelli laga um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005, halda gildi sínu til loka gildistíma heimildanna, þ.e. til 30. mars 2022.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Tilgangur þess er að aðlaga nýtingu á 2100 MHz tíðnisviðinu að alþjóðlegum skuldbindingum og þörfum markaðarins. Í dag er þetta tíðnisvið frátekið fyrir þriðju kynslóð farsíma (IMT-2000/UMTS-staðlar) samkvæmt sérstökum lögum nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma. Síðan lögin voru sett hefur bæði orðið þróun í tækni og eftirspurn á tíðnisviðum fyrir farnetsþjónustu, þ.e. þjónustu fyrir farsíma. Þannig er umrætt tíðnisvið ekki lengur frátekið fyrir þriðju kynslóð farsíma innan EES heldur hefur það verið gert tæknilega hlutlaust, m.a. til að koma til móts við aukna eftirspurn á tíðnisviði fyrir fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu. Lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, binda hins vegar nýtingu tíðnisviðsins við eldri tækni í farnetsþjónustu og mæla fyrir um sérstaka málsmeðferð og tiltekin skilyrði fyrir úthlutun tíðniheimilda sem í dag þykja ekki þjóna tilgangi sínum.
    Vinnsla frumvarpsins fór fram í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun. Þá voru frumvarpsdrögin sett í opið samráð á vef innanríkisráðuneytisins, en ekki bárust neinar athugasemdir.

2. Markmið og tilefni lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er að ryðja úr vegi ákveðnum skorðum sem lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, setja við úthlutun og nýtingu á 2100 MHz tíðnisviðinu og færa reglur sem um það gilda til samræmis við þróun alþjóðlegra skuldbindinga, einkum vegna EES- samstarfsins. Þau atriði helst sem standa í vegi fyrir úthlutun og skilvirkri nýtingu á því tíðnisviði sem enn er óráðstafað á 2100 MHz tíðnisviðinu eru m.a. eftirfarandi:
          Nýting á tíðnisviðinu er bundin við þriðju kynslóðar farsímaþjónustu, þ.e. tíðnisviðið er ekki tæknilega hlutlaust.
          Úthluta skal tíðniheimildum með útboði, en það kemur t.d. í veg fyrir úthlutun samkvæmt uppboði.
          Gerðar eru viðamiklar kvaðir um útbreiðslu þjónustunnar sem þegar hefur verið náð.
          Verð fyrir tíðniheimild er fastákveðið og miðast við útbreiðslu. Með fullum afslætti er verð að lágmarki 40 millj. kr. Verð getur þannig ekki ráðist af markaðsforsendum, t.d. með framkvæmd uppboðs.
          Gildistími úthlutunar er lögákveðinn til 15 ára. Með því er ekki hægt að ákveða gildistíma til skemmri eða lengri tíma til samræmis við þær kvaðir sem rétt þykir að binda tíðniheimild.
    Þá ber að hafa í huga að með frumvarpinu er ekki eingöngu verið að horfa til þeirra tíðna sem enn er óráðstafað. Ekki má gleyma því að gildistími þeirra þriggja tíðniheimilda, sem þegar hefur verið úthlutað, er til ársins 2022. Að óbreyttu mundi endurúthlutun þessara tíðniheimilda, þegar þar að kemur, sæta sömu skorðum og nú eru fyrir hendi.
    Til að hægt sé að nýta þær tíðnir sem enn eru lausar til ráðstöfunar á 2100 MHz tíðnisviðinu og úthluta þeim skynsamlega er nauðsynlegt fella úr gildi umrædd lög um þriðju kynslóð farsíma og er þá hægt að úthluta umræddum tíðnum í samræmi við almennar reglur IV. kafla fjarskiptalaga, nr. 81/2003, sem fjallar um tíðniúthlutanir.

3. Alþjóðlegt samstarf um nýtingu á 2100 MHz tíðnisviðinu.
3.1. Skilgreind notkun fyrir þriðju kynslóð farsíma.
    Á alþjóðatíðniráðstefnunni (e. World Radio Conference), sem haldin var í Malaga á Spáni á vegum Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar (ITU) í febrúar árið 1992, voru fyrstu skref tekin við að skilgreina tiltekið tíðnisvið fyrir samræmda notkun vegna þriðju kynslóðar farsímaþjónustu samkvæmt IMT-2000 staðli (UMTS-staðall fellur þar undir). Um var að ræða tíðnisviðin 1885–2025 og 2110–2200 MHz. Var þá miðað við að tíðnir á þessum tíðnisviðum yrðu lausar til ráðstöfunar og nýtingar fyrir þriðju kynslóð farsíma um aldamótin 2000.
    Í framhaldi af þessu var hafist handa innan Evrópusambandsins við að skilgreina tíðnisvið með tilliti til framangreindra alþjóðlegra skuldbindinga. Með ákvörðun ERC/DEC/(97)07 frá 30. júní 1997 var ákveðið á vegum CEPT (e. European Conference of Postal and Telecommunications Administrations) að tíðnisviðin 1900–1980, 2010–2025 og 2110–2170 MHz skyldu vera frátekin fyrir þriðju kynslóð farsíma, nánar til tekið samkvæmt staðlinum UMTS. Með það að markmiði að taka upp þriðju kynslóðar farsímaþjónustu innan Evrópu fyrir árið 2002 var tekin ákvörðun af hálfu Evrópuþingsins og ráðsins um samræmda innleiðingu á þriðju kynslóð farsíma með ákvörðun 128/1999/EB frá 14. desember 1998. Ákvörðunin var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/1999 frá 24. september 1999. Fjallaði ákvörðunin um ýmis framkvæmdarleg atriði sem þyrfti að samræma svo að þjónustan gæti hafist með heildstæðum og samhæfðum hætti í allri Evrópu, t.d. varðandi tilvísanir til krafna um tæknibúnað, fyrirkomulag leyfisveitinga og reikimál. Tilgangur ákvörðunarinnar var að aðildarríki EES skyldu gera ráðstafanir sem tryggðu samhæft og framsækið framboð UMTS-þjónustu á yfirráðasvæði þeirra eigi síðar en 1. janúar 2002. Ákvörðunin var felld úr gildi 22. september 2006 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2006.
    Með lögum nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, voru þessi tilteknu tíðnisvið afmörkuð og sett um þau sérreglur varðandi úthlutun framangreindra tíðnisviða. Tilgangurinn með lögunum var m.a. að innleiða framangreindar skuldbindingar, en auk þess að ná tilteknum markmiðum varðandi gjaldtöku fyrir tíðniúthlutanir og útbreiðsluskilyrði þjónustunnar. Þar sem umræddar gerðir Evrópuþingsins og ráðsins og CEPT eru fallnar úr gildi nú, m.a. vegna tilkomu fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu og fyrirsjáanlegrar þarfar á auknu tíðnisviði fyrir hana, er nauðsynlegt að fella úr gildi lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, svo að Ísland geti haldið í við tækniþróun og uppfyllt þarfir markaðarins um aðgang að tíðnisviðum fyrir næstu kynslóðar farnetsþjónustu.

3.2. Þróun tæknilegs hlutleysis.
    Þráðlaus gagnaflutningsþjónusta yfir farnet hefur aukist til muna síðustu ár. Fyrstu farsímakerfi buðu upp á litla sem enga gagnaflutningsmöguleika og voru þau einkum hugsuð til að flytja símtöl. Með tækniþróun undafarinna ára hefur gagnaflutningur um netin aukist. Sá gagnaflutningshraði sem almenn farnet bjóða upp á hefur orðið til þess að netnotkun í farsíma er orðin almenn. Með því hefur aukist framboð á sérhæfðri þjónustu fyrir snjallsímanotendur sem kallar á meiri gagnaflutningshraða, t.d. ýmiss konar miðlun á myndefni og myndbandsbrotum, t.d. með Snapchat, Instagram og Facebook. Þá má einnig ætla að þróun á háhraða-farnetsþjónustu, svo sem 4G og 4G-Advanced, leiði til þess að slík þjónusta verði meginþjónustuleið fyrir heimili í landinu. Slíkt kallar á enn meiri gagnaflutningshraða, m.a. til að veita sjónvarpsþjónustu. Þessi síaukna krafa um meiri gagnaflutningshraða hefur kallað á meiri bandbreidd í tíðnirófinu, þ.e. nýta þarf stærri tíðnisvið til þess að taka við vaxandi gagnamagni á auknum hraða. Samkvæmt tölfræðiupplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun hefur gagnamagn yfir farnet aukist ört undanfarin ár, eins og eftirfarandi mynd ber með sér:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Til þess að mæta aukinni þörf á tíðnisviðum fyrir farnetsþjónustu hefur farið fram talsverð vinna í Evrópu og á alþjóðavísu við að samræma nýtingu á tíðnisviðum til notkunar fyrir farnetsþjónustu. Sú vinna hefur m.a. miðað að því að færa nýtingu fyrir annars konar þjónustu yfir á önnur tíðnisvið og gera þau tíðnisvið sem þegar eru til staðar fyrir farnetsþjónustu tæknilega hlutlaus, eins og það er orðað. Með tæknilegu hlutleysi er átt við að tíðnisvið fyrir farnetsþjónustu séu ekki bundin tiltekinni tækni eða stöðlum, en samkvæmt lögum nr. 8/2005 er nýting á 2100 MHz tíðnisviðinu bundin við farnetsþjónustu samkvæmt UMTS-staðli (þriðju kynslóðar farsímaþjónustu). Nýting tíðnisviðanna getur því haldist í hendur við hagkvæmustu tækni hverju sinni.
    Á síðustu árum hafa því komið fram ákvarðanir í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi um tíðnimál sem hafa fellt úr gildi fyrri samræmingarákvarðanir sem vísað var til í kafla 3.1, þar á meðal fyrir 2100 MHz tíðnisviðið. Með ákvörðun ECC (e. Electronic Communications Committee) nr. (12)01 frá 1. júní 2012 á vegum CEPT, og innleiðingarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2012/688/ESB frá 5. nóvember 2012 hefur 2100 MHz tíðnisviðið verið skilgreint sem tæknilega hlutlaust. Sú ákvörðun var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2013 frá 8. nóvember 2013. Til að tryggja samræmi við þessar alþjóðlegu skuldbindingar er nauðsynlegt að fella úr gildi lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma.

4. Núverandi nýting á 2100 MHz tíðnisviðinu hér á landi.
4.1. Útboð á tíðniheimildum fyrir þriðju kynslóðar farsímaþjónustu.
    Ekki reyndi á lög nr. 8/2005 fyrr en á síðari hluta ársins 2006 þegar fjarskiptafyrirtækið Nova ehf. óskaði eftir að fá úthlutað tíðnisviði fyrir þriðju kynslóðar farsímaþjónustu. Í samræmi við lögin bar Póst- og fjarskiptastofnun að efna til útboðs um úthlutun og voru útboðsskilmálar kynntir væntanlegum hagsmunaaðilum með opinberu samráði 13. desember 2006. Í samráðinu kom m.a. fram að boðnar yrðu upp allt að fjórar tíðniheimildir, auk þess sem gerð var grein fyrir því hvernig tilboð yrðu metin, en það væri gert með stigagjöf á grundvelli útbreiðslu þjónustunnar eftir landsvæðum umfram þær lágmarkskröfur sem settar voru í lögunum:
    Þriðju kynslóðar farsímaþjónusta skyldi ná til a.m.k. 60% íbúa sérhverra eftirfarandi svæða:
     a.      Höfuðborgarsvæðis,
     b.      Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra,
     c.      Norðurlands eystra og Austurlands,
     d.      Suðurlands og Suðurnesja.
    Útboðið fór síðan fram með opnun tilboða 12. mars 2007. Alls lögðu þrjú fjarskiptafyrirtæki fram tilboð sem stóðust skilyrði útboðsskilmála, m.a. um lágmarksútbreiðslu þjónustu. Um var að ræða félögin Síminn hf., Fjarskipti ehf. (Vodafone) og Nova ehf. Þar sem fjórar tíðniheimildir voru til úthlutunar og öll þrjú tilboðin sem bárust voru talin gild var ljóst að allir tilboðsgjafar fengju úthlutað tíðniheimild. Tíðniheimildir voru síðan gefnar út 30. mars 2007.

4.2. Staða útbreiðslu þriðju kynslóðar farsímaþjónustu árið 2015.
    Samkvæmt skilmálum tíðniheimildanna sem gefnar voru út skyldi uppbygging skiptast í fjóra áfanga og útbreiðsluskuldbindingum hafa verið náð í síðasta áfanga sem var fimm og hálfu ári frá útgáfudegi. Eru nú liðin rúmlega átta ár frá útgáfu tíðniheimildanna og er útbreiðsla þriðju kynslóðar farsímaþjónustu komin talsvert umfram það sem fjarskiptafyrirtækin skuldbundu sig til samkvæmt útboðsskilmálum. Sérstaklega á það við um landsvæðin utan höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt upplýsingum frá viðkomandi fjarskiptafyrirtækjum er útbreiðsla þjónustu sem hlutfall af heildaríbúafjölda innan hvers landsvæðis með eftirfarandi hætti:

Staða útbreiðslu 3G í maí 2015 Nova Fjarskipti Síminn
a. Höfuðborgarsvæðið 99,67 % 99,67 % 99,91 %
b. Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra 80,05 % 80,05 % 91,38 %
c. Norðurland eystra og Austurland 81,73 % 81,73 % 93,69 %
d. Suðurland og Suðurnes 95,04 % 95,04 % 95,75 %

    Tekið skal fram að fjarskiptafyrirtækin Nova ehf. og Fjarskipti ehf. (Vodafone) gerðu með sér samning um sameiginlega uppbyggingu og gagnkvæman reikiaðgang, en það skýrir sömu útbreiðslutölur fyrirtækjanna.

4.3. Nýting óráðstafaðrar tíðniheimildar.
    Framangreindar þrjár tíðniúthlutanir voru staðsettar með þeim hætti í tíðnirófinu að sú tíðniheimild sem ekki gekk út gæti nýst til að stækka samfellt tíðnisvið þessara þriggja fjarskiptafyrirtækja síðar meir. Þannig liggur það tíðnisvið sem óráðstafað er ekki á samfelldu tíðnisviði, eða á 1905–1910, 1935–1945/2125–2130 og 1970–1980/2160–2170 MHz. Þetta útilokar þó ekki að hægt sé að úthluta tíðnisviðinu sem sjálfstæðri tíðniheimild, jafnvel til nýs aðila, en með þróun tækni er samfellt tíðnisvið ekki jafnbrýn forsenda og áður.
    Hins vegar verður að telja frekar ólíklegt að óráðstafaðar tíðnir á 2100 MHz tíðnisviðinu verði nýttar til að ná sambærilegri útbreiðslu á farnetsþjónustu og þegar hefur verið náð af þeim þremur fjarskiptafyrirtækjum sem fengu úthlutað tíðniheimild í kjölfar útboðsins. Fremur má ætla að nýting tíðnanna, að hluta eða í heild, væri fýsileg til þess að þétta útbreiðslu á núverandi netum enn frekar og auka möguleika til meiri gagnaflutningshraða á tilteknum svæðum. Þetta er ein meginástæðan fyrir því að skynsamlegt þykir að fella brott lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, sem leggur þá kvöð á tíðnirétthafa að ná til 60% íbúa tiltekinna landsvæða, sem þegar hefur verið náð samkvæmt framangreindu.

5. Þróun fjarskiptalöggjafar.
5.1. Þörf fyrir sérákvæði vegna tíðniúthlutana .
    Í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma (þskj. 160, 160. mál 131. löggjafarþings 2004–2005), var m.a. fjallað um þörfina fyrir að setja sérstök lög um úthlutun tíðniréttinda vegna hennar og um tengsl laganna við almenn lög um fjarskipti, nr. 81/2003:
    „Ný fjarskiptalög, nr. 81/2003, tóku gildi 25. júlí 2003. Í lögunum er að finna almennar reglur um úthlutun tíðniréttinda til fjarskiptafyrirtækja, þ.m.t. fyrir farsímaþjónustu. Reglur þessar gilda eftir því sem við á einnig um tíðniúthlutanir fyrir farsíma af þriðju kynslóð. Samt sem áður er þörf á að setja sérstök lög um úthlutun þessara tíðniréttinda, til nánari útfærslu á ýmsum atriðum og til að tryggja heimildir til að leggja viðeigandi skyldur á rétthafa, m.a. varðandi útbreiðslu þjónustunnar og til innheimtu sérstaks gjalds fyrir afnotaréttinn. Þá þykir einnig rétt að tryggja hér enn frekar en gert er í fjarskiptalögum að við val á rétthöfum verði í sem minnstum mæli byggt á huglægum ákvörðunum yfirvalda.“
    Á þeim tíma sem lög nr. 8/2005 voru sett voru almenn fjarskiptalög um margt ófullnægjandi varðandi málsmeðferð og fyrirkomulag tíðniúthlutana. Verður því ekki dregið í efa að þörf hafi verið á því að styrkja lagagrundvöll til að mæla fyrir um íþyngjandi kvaðir á tíðnirétthafa, svo sem um endurgjald fyrir tíðniúthlutun og skuldbindingar um uppbyggingu og útbreiðslu þjónustu. Aftur á móti hafa þær forsendur, sem vísað er til í tilvitnuðum texta, nú tekið breytingum.

5.2. Endurskoðuð almenn ákvæði um tíðniúthlutanir.
    Síðan lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, voru sett hafa verið gerðar gagngerar endurbætur á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, hvað varðar umsýslu um tíðnimál, sbr. lög nr. 34/2011, um breytingu á lögum um fjarskipti. Einn megintilgangur þeirra breytingalaga var að skapa styrkari lagagrundvöll fyrir tíðniúthlutanir með samkeppnisaðferð, sérstaklega hvað varðar uppboð. Um þau meginsjónarmið sem bjuggu að baki lagabreytingunum þykir rétt að vísa í umfjöllun í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna (þskj. 149, 136. mál 139. löggjafarþings 2010–2011):
    „Miklu máli skiptir að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrir fram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðna að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt. Skilvirk umsýsla með tíðnir ýtir undir tæknilega og efnahagslega framþróun í fjarskiptum og er því lagt til að dregið verði úr hömlum á tíðninotkun, m.a. er opnað fyrir möguleika á framsali eða leigu á tíðniréttindum. Um leið þarf að tryggja að stjórnun tíðna sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en þær geta kveðið á um samræmda notkun tiltekinna tíðnisviða. Þá þarf að vera hægt að breyta tíðniréttindum eða jafnvel afturkalla þau í einstaka tilfellum og er því skilgreint hvenær slíkt getur komið til skoðunar.“
    Með samþykkt breytingalaganna skapaðist styrkari grundvöllur fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að úthluta tíðniheimildum samkvæmt samkeppnisaðferð og fylgja eftir skuldbindingum tilboðsgjafa þar að lútandi. Með breytingalögunum var lögfest reglugerðarheimild til þess að útfæra nánar reglur um skipulag og úthlutun tíðna. Hefur þessi reglugerð verið gefin út, sbr. reglugerð nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum, en hún hefur m.a. að geyma ítarleg fyrirmæli um framkvæmd útboða og uppboða, svo sem um skilmála slíkra framkvæmda, hæfisskilyrði tilboðsgjafa, mat á efni tilboða, tímafresti og þess háttar. Meðal nýmæla í breytingalögunum sem gerðu Póst- og fjarskiptastofnun betur færa um að hanna og framkvæma úthlutunarferli með tilliti til þarfa markaðarins og almannahagsmuna var eftirfarandi:
          Heimild til að mæla fyrir um lágmarksverð tíðniheimildar við uppboð.
          Heimild til að veita afslátt af verði tíðniheimildar til að mæta markmiðum um útbreiðslu.
          Heimild til þess að setja sérstök skilyrði varðandi hæfi tilboðsgjafa.
          Heimild til þess að halda forval og lokuð útboð.
          Heimild til að beita dagsektum til að fylgja eftir skuldbindingum um útbreiðslu.
          Skilgreining á viðmiðum til að leggja mat á tilboð í útboðum.
    Með þessum breytingum varð Póst- og fjarskiptastofnun almennt kleift að úthluta tíðnum með samsvarandi hætti og gert var ráð fyrir í lögum nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma. Hefur þónokkrum tíðniheimildum verið úthlutað á grundvelli nýju reglnanna, m.a. í uppboði á tíðniheimildum á 800 og 1800 MHz tíðnisviðunum sem haldið var í upphafi árs 2013.

6. Samræmi við stjórnarskrá.
    Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins og felur úthlutun á þeim í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- eða ráðstöfunarréttar hlutaðeigandi tíðnirétthafa, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003. Þannig leiðir úthlutun tíðniheimilda einungis til takmarkaðs eignarréttar, þ.e. ráðstöfunarréttar viðkomandi tíðnirétthafa til tiltekins tímabils. Slík takmörkuð eignarréttindi eru jafnframt varin af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr. hennar. Frumvarp þetta hefur ekki áhrif á þau réttindi handhafa tíðniheimildanna enda halda tíðniheimildir sem gefnar hafa verið út á grundvelli laga nr. 8/2005 gildi sínu.

7. Samráð um framtíðarnýtingu 2100 MHz tíðnisviðsins.
    Í maí 2015 efndi Póst- og fjarskiptastofnun til samráðs um framtíðarnýtingu tíðnisviða fyrir næstu kynslóða farnetsþjónustu, þ.m.t. 2100 MHz tíðnisviðið. Var þátttaka hagsmunaaðila almennt góð og skiluðu m.a. öll starfandi farsímafyrirtæki inn umsögn. Samantekt á niðurstöðum samráðsins, auk afstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar til athugasemda hagsmunaaðila, var birt í september 2015 og eru niðurstöður samráðsins aðgengilegar á vef stofnunarinnar. * Fram kom í samráðinu að hvað varðar framtíðarnýtingu á 2100 MHz tíðnisviðinu voru allir hagsmunaaðilar sammála um að ekkert mælti á móti því að fella úr gildi lög um þriðju kynslóð farsíma. Flestir hagsmunaaðilar höfðu hug á því að sækja um þær tíðnir sem eru lausar á 2100 MHz tíðnisviðinu. Meðal þess sem kom fram í athugasemdum hagsmunaaðila var að brýnt sé að gera tíðnisviðið tæknilega hlutlaust, enda geri nútímatæknilausnir farsímasenda mögulegt að nota ólíka aðgangstækni (2G, 3G og 4G) yfir sama sendinn séu sömu tíðnibönd notuð. Þá mundi slík aðgerð auka hagkvæmni og útbreiðslu dreifikerfisins.

8. Mat á áhrifum.
    Í ljósi áhuga fjarskiptafyrirtækja á að nýta það tíðnisvið sem eftir er á 2100 MHz tíðnisviðinu má gera ráð fyrir að umsóknir um úthlutun á tíðnisviðinu muni berast frá einum eða fleiri aðilum í kjölfar afnáms laga nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma. Eins og áður er getið gilda almenn ákvæði laga um fjarskipti, nr. 81/2003, um tíðniúthlutanir, auk reglugerðar nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum. Málsmeðferð samkvæmt þessum reglum gerir almennt ráð fyrir að efnt sé til samráðs um eftirspurn á tiltekinni tíðniúthlutun og að hún fari fram samkvæmt samkeppnisaðferð, þ.e. með útboðs- eða uppboðsferli, ef eftirspurn er jafnmikil eða meiri en framboð tíðna.
    Gjaldtaka fyrir tíðniúthlutun, sem lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, gera ráð fyrir með sérstöku ákvæði þar um, getur byggst á almennu ákvæði í fjarskiptalögum. Skv. 7. mgr. 11. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, getur Póst- og fjarskiptastofnun í tengslum við tíðniuppboð ákvarðað lágmarksboð sem getur numið allt að fimmtánföldu árgjaldi fyrir tíðninotkun, sbr. 14. gr. a í lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Árgjald fyrir þessa stærð af tíðnisviði, til nota fyrir almennt farnet, er 8.977.500 kr., en samkvæmt því getur lágmarksboð numið allt að 134.662.500 kr. Komi til uppboðs á umræddri tíðniheimild má ætla að Póst- og fjarskiptastofnun ákvarði hæfilegt lámarksboð með tilliti til hversu íþyngjandi kvöðum tíðniheimildin kann að verða bundin. Gjald sem greitt er fyrir tíðniheimild í uppboði rennur í fjarskiptasjóð skv. 2. mgr. 6. gr. laga um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005.
    Ekki er fyrirséð að afnám laga nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð, þ.m.t. vegna mögulegrar vinnu við að úthluta þeirri tíðniheimild sem þá verður laus til úthlutunar samkvæmt almennum ákvæðum. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir þátttöku í uppboði sem ætlað er að standa straum af kostnaði við undirbúning þess og framkvæmd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Tilgangur frumvarpsins er að fella brott lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, og með því auka hagkvæmni við framtíðarúthlutanir á 2100 MHz tíðnisviðinu og færa nýtingu þess til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar. Hins vegar verður að horfa til þess að þegar hafa verið gefnar út þrjár tíðniheimildir á grundvelli laganna og gilda þær til ársins 2022. Ekki er ætlunin með frumvarpinu að umræddar úthlutanir falli niður eða skilmálar tíðniheimildanna missi gildi sitt. Til að taka af allan vafa um að allar þær kvaðir sem hvíla á tíðnirétthöfum, samkvæmt skilmálum tíðniheimildanna, haldi gildi sínu þykir rétt að mæla fyrir um sérstaka lagastoð vegna þeirra sem hafi gildistíma út líftíma kvaðanna eða til 30. mars 2022. Dæmi um kvaðir sem mikilvægt er að haldi gildi sínu eru t.d. skuldbindingar um útbreiðslu þjónustu og viðmið um hvernig skuli mæla útbreiðslu. Verði frumvarp þetta að lögum kann þó að koma til þess að Póst- og fjarskiptastofnun geri 2100 MHz tíðnisviðið tæknilega hlutlaust og breyti skilmálum gildandi tíðniheimilda til samræmis við það. Slík breyting hefði ekki áhrif á útbreiðslukröfur farnetsþjónustunnar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, verði felld brott. Markmið frumvarpsins er að aðlaga nýtingu á 2100 MHz tíðnisviðinu að alþjóðlegum skuldbindingum og þörfum markaðarins. Til að hægt sé að nýta þær tíðnir sem enn eru lausar til ráðstöfunar á 2100 MHz tíðnisviðinu og úthluta þeim er talið nauðsynlegt að fella fyrrgreind lög úr gildi. Gert er ráð fyrir að með brottfalli laganna muni almennar reglur fjarskiptalaga, nr. 81/2003, gilda um tíðniúthlutanir en í þeim lögum er m.a. að finna ákvæði um útboð og uppboð tíðna. Þá er í lögum nr. 132/2005, um fjarskiptasjóð, gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs sem eru til komnar vegna gjalda fyrir tíðniheimild í uppboði renni í fjarskiptasjóð.
    Í lögum um þriðju kynslóð farsíma er m.a. kveðið á um að greiða skuli 190 m.kr. tíðnigjald fyrir hverja tíðniúthlutun. Fyrir uppbyggingu fjarskiptanets umfram lágmarkskröfu er veittur afsláttur af tíðnigjaldi en það skal þó aldrei verða lægra en 40 m.kr. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu var haldið útboð árið 2007 þar sem þrjú fjarskiptafyrirtæki fengu tíðniheimild samkvæmt lögunum og greiddu þau í ríkissjóð 40 m.kr. fyrir hverja úthlutun, eða alls 120 m.kr. Að mati ráðuneytisins verður hins vegar ekki hægt að byggja frekari gjaldtöku á óbreyttum gildandi lögum þar sem samkvæmt þeim verður að nota þessar tíðnir fyrir ákveðna tækni, þ.e. UMTS-staðla (3G-þjónustu). Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til verða tíðnirnar tæknióháðar og því mögulegt að úthluta þeim til annarrar notkunar en 3G, þ.e. ef markaðurinn kallar eftir því. Verði frumvarp þetta að lögum mun gjaldheimta fyrir frekari úthlutun því fara fram á grundvelli gildandi fjarskiptalaga og munu ríkistekjur af slíkri úthlutun renna í fjarskiptasjóð eins og áður segir. Samkvæmt ráðuneytinu er hins vegar erfitt að spá fyrir um hversu miklar tekjur gæti verið um að ræða þar sem umfang þeirra ræðst af ýmsum þáttum, svo sem stærð tíðnisviðs, lengd gildistíma, kröfum um útbreiðslu o.fl. Lauslega áætlað gætu tímabundnar tekjur ríkissjóðs af viðbótartíðniúthlutuninni numið a.m.k. 20 m.kr. fyrir hverja heimild.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
* www.pfs.is/um-pfs/frettir/frett/2015/09/30/Nidurstodur-PFS-ur-samradi-um-tidniskipulag-fyrir- farnetsthjonustur-og-aaetlun-um-uthlutun-tidniheimilda/