Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 365  —  172. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki (nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Síðastliðið vor hafði Alþingi til umfjöllunar tvö frumvörp frá ríkisstjórn sem tengdust uppgjöri fallinna fjármálafyrirtækja og afnámi fjármagnshafta. Var það annars vegar frumvarp til laga um svonefndan stöðugleikaskatt og hins vegar um leið nauðasamninga og stöðugleikaframlög. Í tilviki stöðugleikaskattsleiðarinnar stóð fulltrúi þingflokks Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd að afgreiðslu málsins með meiri hlutanum og öðrum nefndarmönnum og studdi málið án fyrirvara. Leið stöðugleikaskattsins er hrein og bein, fjárhæðir liggja skýrt fyrir enda um að ræða einskiptis skattlagningu upp á 39% af heildareignum búanna eins og þær munu standa um næstu áramót.
    Í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar við afgreiðslu nauðasamninga- og stöðugleikaframlagamálsins sl. vor kom fram að leið nauðasamninga hefði vissulega ýmsa kosti og ekki síst þann að með þeirri leið mundu málin leysast á grundvelli samkomulags um nauðasamninga og greiðslu stöðugleikaframlags sem a.m.k. tilskilinn meiri hluti kröfuhafa í búin óskaði sjálfur eftir. Færa mætti fyrir því rök að það væri til styrktar málinu öllu og hefði betri áferð að boðið væri upp á valkvæða leið sem styrkti þar með gildi stöðugleikaskattsins. Loks má nefna að hluti stöðugleikaframlaganna eða skilyrðanna fæli í sér fjármögnun og fjárbindingu innan lands sem þjónaði hagnýtum markmiðum og einnig bættist markvert við óskuldsettan gjaldeyrisforða.
    Í sama nefndaráliti kom líka fram að megingallinn við leið nauðasamninga væri óvissan, bæði hvað varðaði endanlega fjárhagslega útkomu ríkisins og hvort stöðugleikaframlögin reyndust nægjanleg til að markmiðum aðgerðanna yrði náð, þ.e. hvort unnt yrði að slíta búum föllnu bankanna og losa eftirstæðar eignir þeirra út úr hagkerfinu án þess að neikvæð áhrif yrðu á gjaldeyrisjöfnuð þjóðarbúsins og þar með lífskjör almennings. Einnig hvort hagsmunir annarra innlendra aðila, svo sem lífeyrissjóða og fyrirtækja, yrðu tryggðir og hvort fulls jafnræðis yrði gætt milli kröfuhafa og annarra aðila væri leið stöðugleikaframlaga farin. Minni hlutinn setti því skýra fyrirvara við málið sl. vor sem því miður virðist ekki hafa verið vanþörf á eins og málin hafa þróast í höndum framkvæmdarvaldsins.
    Af hálfu ríkisstjórnarinnar kom síðan fram í vor að stöðugleikaskilyrðin væru ófrávíkjanleg og niðurstaðan yrði að uppfylla öll hin sömu skilyrði og stöðugleikaskattur. Nú, nokkrum mánuðum síðar virðist vera að birtast annar veruleiki. Enn er talsverð óvissa um þann mikla mun sem virðist stefna í á tölulegum niðurstöðum þessara tveggja leiða, sérstaklega í ljósi þess að virði bankana er reiknað á fullu verði inn í stöðugleikaframlögin og ekki er gert ráð fyrir neinum öðrum sviðsmyndum en að bókfært virði skili sér að fullu. Auk þess sem fullnægjandi skýringar skortir á þessum mikla mun hafa óháðir aðilar ekki verið fengnir til að meta virði bankanna. Í hnotskurn virðist munurinn liggja að stórum hluta í því að í tilviki stöðugleikaframlaganna er drjúgum hluta vandans skotið inn í framtíðina í stað þess að hreinsa krónueignir búanna út í einu lagi eins og stöðugleikaskattinum var ætlað að gera.
    Þá er ýmislegt í lokalausn málsins með öðrum hætti nú en áætlað var, t.d. hvað varðar tímaröð en upphaflega var gert ráð fyrir útboði á aflandskrónum nú á haustmánuðum en nú er ljóst að það mun bíða nýs árs og því sleppa slitabúin í raun úr höftum áður en til útboðanna kemur. Þá liggur ekki fyrir áætlun um afnám hafta á almenning sem átti að liggja fyrir nú á haustmánuðum né heldur áætlun um hvernig lífeyrissjóðir eiga að geta uppfyllt sína fjárfestingarþörf.
    Fyrsti minni hluti efast um gildi þess að gera þær breytingar á afdráttarskatti sem lagðar eru til í frumvarpinu og telur ekki góðan brag á því að gera slíkar breytingar undir mikilli tímapressu að kröfu erlendra kröfuhafa.
    Fyrsti minni hluti vekur líka athygli á því að þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu á milli umræðna eru umtalsverðar, t.d. hvað varðar tímafresti fyrir slitabúin til að ljúka nauðasamningum. Slíkt hefur ekki verið talin góð málsmeðferð þar sem ónógur tími gefst fyrir umræður og áhöld hafa verið um hvort breytingar sem koma inn á þennan hátt fái fullnægjandi þinglega meðferð.
    Þá hefur ríkisstjórnin kosið að hafa lítið samráð um framkvæmd málsins í heild nema á síðustu stigum þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Því er erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að gera ekki athugasemdir við vinnulag ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar þar sem ofuráhersla er lögð á að ljúka því máli sem hér er til umfjöllunar með sem hröðustum hætti þó að ljóst sé að ýmis tæknileg álitamál séu enn óleyst og órædd og ónóg gögn hafi verið lögð fram. Jafnvel virðist hafa verið meiri áhersla á markaðssetningu niðurstöðunnar heldur en að upplýsa stjórnarandstöðuna og almenning í landinu með fullnægjandi hætti. Engin gögn hafa verið lögð fram sem skýra nákvæmlega hvað felst í nauðasamningunum, t.d. hvernig kröfur og skuldabréf eru samsett og hvaða mat hefur verið lagt á það hver endurfjármögnunarþörf bankanna verður að nokkrum árum liðnum og hvernig á að uppfylla fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna miðað við núverandi stöðu. Allt þetta snýr að stöðu ríkisins að loknu samkomulagi og er þá órætt hvað kröfuhafar ganga út með að loknum samningum. Allt þetta vinnulag er óviðunandi og dapurlegt að stjórnvöld hafi ekki lagt sig fram um að ná sem bestri sátt og skapa sem mest traust í þessu risavaxna hagsmunamáli fyrir þjóðina. Það frumvarp sem hér er til umræðu er hluti af þeim vanda. Í ljósi hagsmunanna sem í húfi eru og umfangs aðgerðanna verður ekki við annað unað en að allar upplýsingar liggi fyrir.
    Ríkisstjórn sem valið hefur að vinna með fyrrgreindum hætti og án nokkurs eiginlegs samráðs verður eðli málsins samkvæmt að axla ábyrgð á þeirri vinnu og afurðum hennar.

Alþingi, 3. nóvember 2015.

Katrín Jakobsdóttir.