Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 438  —  241. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur
um Menningarsjóð félagsheimila.


     1.      Hversu oft hefur verið úthlutað fé úr Menningarsjóði félagsheimila og á hvaða tímabili?
    Fyrstu reglur sjóðsins eru nr. 42/1972 með stoð í lögum nr. 107/1970, um félagsheimili. Ekki var um að ræða framlag til sjóðsins fyrr en árið 1979 og frá þeim tíma er úthlutað úr sjóðnum árlega til ársins 2008, eða í 30 ár.

     2.      Hvenær var síðast úthlutað úr sjóðnum og hvaða fjárhæð var þá til úthlutunar?
    Síðast var úthlutað árið 2008 og hafði sjóðurinn 8,5 millj. kr. framlag til ráðstöfunar á fjárlögum það ár.

     3.      Hvert var helsta hlutverk sjóðsins?
    Hlutverk sjóðsins var að stuðla að menningarstarfi í félagsheimilum og öðrum þeim stöðum sem henta menningarstarfi. Sjóðurinn skyldi stuðla að leikstarfsemi, tónleikahaldi, listsýningum, bókmenntakynningum og hvers konar annarri menningarstarfsemi. Heimilt var að veita styrki vegna ferða- og flutningskostnaðar til og milli staða þar sem menningarstarfsemi fór fram. Þó var ákvæði þess efnis að gera mátti frávik frá styrkreglum ef sérstök ástæða þótti til.

     4.      Hefur sjóðurinn verið lagður formlega niður?
    Nei. Í fjárlögum fyrir árið 2009 er framlag til sjóðsins fellt niður. Sjóðurinn hefur þjónað sínum tilgangi og annars konar fyrirkomulag er nú til staðar sem mæta á því sem reglur sjóðsins kváðu um, m.a. tilkoma menningarsamninga, þ.e. nú sóknaráætlun landshluta, framlag til skálda í skólum og tónlist fyrir alla. Til stendur að leggja sjóðinn niður.