Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 622  —  424. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um auðkenningu breytingartillagna.


Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að setja reglur um að breytingartillögum annars vegar og frumvörpum til laga um breytingar á gildandi lögum hins vegar skuli fylgja rafrænt skjal sem sýni þau lög eða skjöl sem breyta skal í endanlegri mynd að auðkenndum þeim breytingum sem fyrirhugað er að gera.

Greinargerð.

    Markmið tillögu þessarar er að gera þingheimi, sem og almenningi öllum, hægara um vik að gera sér nákvæmlega ljósar þær breytingar sem lagafrumvörp til breytinga á gildandi lögum leggja til sem og þær breytingar sem lagðar eru til með breytingartillögum á Alþingi. Í þessu skyni er lagt til að samhliða breytingarfrumvörpum og -tillögum verði lagt fram rafrænt skjal þar sem þau lög eða skjöl sem fyrirhugað er að breyta verði sýnd með innfærðum breytingunum með rekjanlegum hætti.
    Heimild til að setja reglur um þessi atriði mætti sækja í 1. mgr. 37. gr. þingskapalaga. Gert er ráð fyrir að hið rafræna skjal með auðkenndum breytingum verði aðgengilegt á vef Alþingis við hlið viðkomandi breytingarfrumvarps eða -tillögu þannig að unnt verði að sjá með skýrum hætti nákvæmlega hvaða breytingar verða. Eins og staðan er nú er rannsókn á áhrifum breytingarfrumvarps torveld og tímafrek, enda getur þurft að rýna í fjölmörg atriði innan margra lagagreina til að sjá hver hin raunverulega breyting yrði. Auk þess að auka þægindi þeirra sem skoða og meta áhrif breytingarfrumvarpa mundi það fyrirkomulag sem hér er lagt til stórbæta umhverfi við kynningu á fyrirhuguðum lagabreytingum og þannig stuðla að auknu réttaröryggi.