Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 767  —  334. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972,
með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar, munaðarlaus verk).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Björn Th. Árnason frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Gunnar Guðmundsson frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Rán Tryggvadóttur, Tómas Þorláksson, Erlu S. Árnadóttur, Sigríði Rut Júlíusdóttur og Knút Bruun frá höfundaréttarnefnd, Katrínu Dögg Þorsteinsdóttur frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, höfundaréttarnefnd, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, starfshópi Upplýsingar um höfundarétt og STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (700. mál) og var afgreitt með nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (þskj. 1386) en hlaut ekki frekari afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram á ný.
    Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.
    Þegar um er að ræða verk sem teljast munaðarlaus, þ.e. verk sem njóta höfundaréttar en þar sem höfundur eða aðrir rétthafar eru ekki þekktir, eða þótt þeir séu þekktir er ekki vitað hvar þá er að finna, er ekki unnt að leita heimildar hjá viðkomandi til að stafvæða verkin og gera þau aðgengileg. Með innleiðingu tilskipunarinnar er ákveðnum menningarstofnunum heimilað að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu að viðkomandi verk séu munaðarlaus. Það er forsenda fyrir notkun munaðarlausra verka að ítarleg leit að rétthöfum hafi farið fram áður en not hefjast.
    Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda munaðarlausra verka en ljóst er að um verulegan fjölda er að ræða í ákveðnum flokkum. Það var samdóma álit allra umsagnaraðila að frumvarpið fæli í sér miklar réttarbætur þar sem óvissa ríkir um notkun munaðarlausra verka en með lögfestingu frumvarpsins verður aðgangur almennings að höfundavörðum verkum í vörslu menningarstofnana greiðari.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram athugasemdir við hugtakanotkun. Ekki er með þessu frumvarpi verið að leggja til breytingar á hugtakasafni höfundalaga en það er mat nefndarinnar að rétt sé að taka það til skoðunar við heildarendurskoðun laganna sem nú stendur yfir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. janúar 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Willum Þór Þórsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.