Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 956  —  588. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal.


Flm.: Valgerður Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Höskuldur Þórhallsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Bjarnason, Kristján L. Möller, Þórunn Egilsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að stuðla að uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal til að heiðra minningu þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Ráðuneytið geri í þessu skyni samning við eiganda jarðarinnar að Hrauni um fjármögnun og framkvæmd uppbyggingarinnar svo og um framtíðarskipulag starfsemi til heiðurs Jónasi. Nánari útfærsla verði í höndum ráðherra sem kynni Alþingi áætlun í þessa veru á haustþingi 2016.

Greinargerð.
    

    Framlag Jónasar Hallgrímssonar til íslensks menningararfs verður seint metið að verð­leikum. Þrátt fyrir að hann hafi aðeins náð 38 ára aldri er ævistarf Jónasar viðamikið og geysimikilvægt fyrir sögu og menningu þjóðarinnar. Rannsóknir hans á jarðfræði Íslands og landakortagerð voru frumkvöðlastarf sem skerpti sýn og efldi skilning manna á náttúru landsins. Þýðingar hans, ritgerðir og greinar um stjórnmál og efni sem snertu þjóðina alla voru mikilvæg innlegg fyrir þá sjálfstæðisbaráttu sem hún átti fyrir höndum. Þá eru ótalin hin fjölmörgu kvæði og ljóð sem Jónas orti og mörg hver teljast til mögnuðustu skáldverka þjóðarinnar. Rit og kvæði Jónasar efldu þjóðarvitund og stolt Íslendinga og blésu þjóðinni móð í brjóst þegar hún þurfti mest á honum að halda. Minningu Jónasar Hallgrímssonar ber að halda á lofti sem minningu eins merkasta manns sem þjóðin hefur alið af sér. Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er tímabært að heiðra þá minningu þannig að sómi sé að. Því er lagt til að samningur verði gerður við eiganda jarðarinnar að Hrauni í Öxnadal, fæðingar­staðar skáldsins, um fjármögnun og leiðir að markvissri uppbyggingu minningar- og menn­ingarseturs um skáldið.

Sambærileg menningarsetur og núverandi starfsemi að Hrauni.
    Á Íslandi eru þegar starfrækt menningarsetur til heiðurs nokkrum af ástsælustu skáldum og rithöfundum þjóðarinnar. Má þar nefna Skriðuklaustur þar sem minningu Gunnars Gunnarssonar rithöfundar er haldið á lofti, Nonnahús sem helgað er Jóni Sveinssyni rithöf­undi, Snorrastofu Snorra Sturlusonar, Davíðshús Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, Sigur­hæðir Matthíasar Jochumssonar, Gljúfrastein Halldórs Laxness og Þórbergssetur Þórbergs Þórðarsonar. Á hverjum þessara staða geta gestir og gangandi skoðað söfn tileinkuð við­komandi höfundum auk þess sem ýmis menningartengd starfsemi fer fram á setrunum. Á Þórbergssetri hefur verið sett á fót burðug sýning þar sem ganga má milli tímabila æviskeiðs og sagna Þórbergs Þórðarsonar og fræðast um skáldið og verk þess. Að Gljúfrasteini, í Nonnahúsi og að Skriðuklaustri fara reglulega fram viðburðir á borð við upplestra rithöfunda og tónleika. Þá hafa setrin haft samstarf um að efla áhuga á bókmenntum og menningu.
    Jörðin að Hrauni í Öxnadal, þar sem Jónas fæddist hinn 16. nóvember árið 1807, er í eigu menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ehf. Markmið félagsins eru m.a. að reka fræðasetur að Hrauni, tengt minningu og arfleifð Jónasar og kynna verk hans og lífsstarf. Félagið hélt lengi vel úti fræðimannsíbúð að Hrauni þar sem fræðimenn og rithöfundar gátu dvalið tímabundið við skrif og fræðistörf. Þá opnaði forseti Íslands minningarstofu um Jónas á 200 ára afmæli skáldsins árið 2007. Í kjölfarið stóð til að endurbyggja hlöðuna að Hrauni og starfrækja þar sýningarskála og hafði félagið fengið arkitektastofu til að vinna teikningar og kostnaðaráætl­un í þá veru. Frá efnahagshruni hefur félagið hins vegar barist í bökkum og þurft að setja þau áform til hliðar. Þá stendur fræðimönnum ekki lengur til boða að dvelja í íbúðarhúsnæðinu við fræðistörf heldur hefur íbúðin verið sett í almenna útleigu til að rétta við fjárhag félags­ins. Sparisjóðirnir í landinu voru aðalbakhjarl félagsins fram að efnahagshruni en frá árinu 2009 hafa þeir ekki getað veitt því þann stuðning sem það þarf. Framlög til félagsins af fjárlögum fóru jafnframt minnkandi frá hruni og hafa engin verið frá árinu 2012. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2014 nam heildarfjárhæð styrkja til þess á árinu 2013 700.000 kr. og 1.655.000 kr. á árinu 2014. Aðrar tekjur eru af afar skornum skammti. Er nú svo komið að starfsemi að Hrauni hefur að mestu lagst af og húsakostur jarðarinnar hefur ekki hlotið nauðsynlegt viðhald undanfarin ár.

Þörfin á aukinni aðkomu hins opinbera.
    Haustið 2013 ritaði framkvæmdastjóri menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ehf. forsætis­ráðherra bréf þar sem hann gerði grein fyrir bágri stöðu félagsins og skoraði á ráðherra að grípa til aðgerða til að koma mætti í veg fyrir að félagið legðist af. Var óskað eftir því að ráðuneytið beitti sér fyrir því að á fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar yrði starfrækt menningarsetur sem hæfði slíkum stað og bent á rekstur annarra menningarsetra sem tengjast höfuðskáldum þjóðarinnar. Sérstaklega var óskað eftir því að gerður yrði samningur sam­bærilegur þeim sem gerður hefur verið um starfsemi Þórbergsseturs.
    Jónas Hallgrímsson er óumdeilanlega eitt af ástsælustu þjóðskáldum Íslendinga og eins og áður var getið er framlag hans til menningararfsins ómetanlegt. Fæðingarstaður skáldsins er í alfaraleið, sveipaður magnaðri náttúrufegurð og sögu. Vilji eiganda jarðarinnar stendur til að heiðra minningu og arfleifð skáldsins svo hæfandi sé. Allt er þar til alls utan fjármagn. Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu leggja til að Alþingi feli ráðherra að gera samning sem stuðli að farsælli uppbyggingu og starfsemi að Hrauni í Öxnadal, svo halda megi minningu Jónasar þannig á lofti að sómi sé að.