Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 997  —  133. mál.
Undirskrift.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða
til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Frá 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Mikil þörf er á skýrri stefnumótun stjórnvalda um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. 2. minni hluti tekur því undir mikilvægi þess að vel verði að málum staðið varðandi uppbyggingu innviða í viðkvæmri náttúru Íslands og að horft verði til verndarsjónarmiða á þeim svæðum þar sem það á við.
    Annar minni hluti er sammála markmiðum frumvarpsins en telur að fara þurfi betur yfir það og gera á því ákveðnar breytingar sem snúa m.a. að skýrari verkferlum og betra samspili stofnana, áætlana og annarrar löggjafar sem fjalla um sömu mál. Talsverðar athugasemdir komu fram við frumvarpið sem 1. minni hluti bregst ekki við með neinum hætti. Þessar athugasemdir lúta að miklu leyti að nauðsyn þess að nýta betur þá löggjöf, stofnanir, sjóði og áætlanir sem fyrir eru og snúa m.a. að skipulagi, uppbyggingu og vernd á ferðamannastöðum, í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Í umsögn Skipulagsstofnunar segir m.a. að ljóst sé að efni landsáætlunarinnar varði framtíðarnotkun lands sem skipulagsáætlanir fjalli einnig um. Sama eigi við um þriggja ára verkefnaáætlun sem feli í sér skv. 4. gr. frumvarpsins að framkvæmd verkefna landsáætlunar verði nánar útfærð í henni. Það sé því ljóst að efni verkefnaáætlunarinnar varði framtíðarnotkun lands sem skipulagsáætlanir fjalla einnig um án þess að samspil áætlananna sé nægilega skilgreint.
    Í umsögnum og á fundum nefndarinnar með gestum um málið kom fram að óskýrt væri hvert samspil þessa frumvarps væri við t.d. rauðlista Umhverfisstofnunar, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Stjórnstöð ferðamála. Einnig er vert að minna á verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sem og stefnumörkun fyrir Þingvallaþjóðgarð sem hvort tveggja eru þjóðgarðar sem starfa samkvæmt lögum þar sem viðeigandi stjórnvöld hafa sett fram ákveðna forgangsröðun og áherslur varðandi uppbyggingu innviða og viðhald. Í umsögn frá Vatnajökulsþjóðgarði um málið á síðasta þingi er ósamræmi milli áætlana tekið saman með eftirfarandi hætti: „Ekki er ljóst hver staða 3ja ára framkvæmdaáætlunar er gagnvart þeim stofnunum sem nú forgangsraða sjálfar framkvæmdum á ferðamannastöðum í opinberri eigu, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarði, Umhverfisstofnun, Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Skógræktinni og Landgræðslunni.“
    Þá má benda á að í fjölmörgum umsögnum er lýst áhyggjum af því að fjármögnun verkefna í frumvarpinu sé óskýr og lögð áhersla á mikilvægi þess að hún sé skýr áður en farið er af stað. 2. minni hluti tekur undir þetta, ekki síst í ljósi þess að nú hafa áform iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa runnið út í sandinn án þess að samstaða hafi náðst um nýja fjármögnunarleið. Ekkert bólar á breyttum hugmyndum úr þeim ranni og hætt við því að enn verði málið leyst með einskiptisframlögum á fjáraukalögum. Einskiptisframlag leysir ekki þann vanda sem uppi er sem er þörf á langtímastefnumörkun þar sem fjármagn er tryggt innan ramma viðkomandi stofnana og í þá sjóði sem með málin fara. Slík stefnumörkun er markmið þessa frumvarps og því nauðsynlegt að fjármagn verði tryggt til lengri tíma enda full ástæða til þar sem ferðaþjónustan leggur til umtalsverðar fjárhæðir í ríkissjóð nú þegar, fjárhæðir sem fara vaxandi. Verður ekki hjá því litið að benda á þá staðreynd að enn er lögboðin samgönguáætlun ekki komin til þingsins. Einnig er samgöngukerfið fjársvelt hvort sem litið er til nýframkvæmda eða nauðsynlegs viðhalds. Aukinn ferðamannastraumur veldur verulegu álagi á alla innviði samfélagsins, ekki síst samgöngukerfið. Við þessu hefur ekki verið brugðist á nokkurn hátt.
    Í ljósi framangreinds og umsagna um málið telur 2. minni hluti að hætta sé á því að kerfið sé orðið of flókið að því er varðar verkferla, samráð, ákvarðanatöku og samspil við núverandi kerfi. Að mati 2. minni hluta er rík þörf á heildarskipulagi og framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og betur hefði farið á því að samvinna hefði verið milli ráðherra sem með málaflokkana fara, ferðaþjónustu og stjórnarandstöðu svo að vinna hefði mátt að lausn til framtíðar.
    Að mati 2. minni hluta er löngu komið að ögurstundu varðandi nokkra fjölsótta ferðamannastaði. Fjöldi ferðamanna eykst enn og ágangur á viðkvæmar náttúruperlur eykst að sama skapi auk þess sem öryggi ferðamanna er víða stefnt í hættu. Þörf er á bráðaaðgerðum en ekki síður sýn til lengri tíma til að vernda vinsæla ferðamannastaði, þjóðgarða og friðlýst svæði svo að þau geti haldið áfram að veita gestum þá upplifun sem þau hafa hingað til gert. Það eru því mikil vonbrigði að ekki skuli horft heildstætt á málaflokkinn. Það er mat 2. minni hluta að vinna þurfi frumvarpið betur svo að styrkja megi verkferlana til að góð markmið þess náist betur.
    Í ljósi framangreindra athugasemda telur 2. minni hluti málið ekki fullbúið og ekki ljóst hvernig það mun vinna með annarri löggjöf og áætlunum. 2. minni hluti hefði viljað að nefndin ynni málið betur og tæki þann tíma sem þarf til að samþætta þessa löggjöf við fyrrgreinda þætti og mun því ekki taka þátt í afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2016.

Róbert Marshall,
frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Svandís Svavarsdóttir.